Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 317. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 437  —  317. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna til að stemma stigu við skipulagðri glæpastarfsemi.

     1.      Hvað er fólgið í samþykkt dómsmála- og jafnréttisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sem gerð var í Vilníus sumarið 2001 og varðar samstarf landanna til að sporna við skipulögðum, ólöglegum flutningi kvenna milli landanna í þágu kynlífsiðnaðar?
    Á fundi jafnréttisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sem haldinn var í Vilníus 15. júní 2001 var ákveðið að efna til upplýsingaátaks sem beindist gegn verslun með konur á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum. Tilgangur og markmið átaksins er að
          vekja athygli almennings á þessari brotastarfsemi og veikri stöðu fórnarlambanna,
          að standa fyrir fræðslu þar sem stefnt sé að því að aðstoða fórnarlömb mansals og að beita forvörnum til að varna því að konur verði fórnarlömb mansals,
          að vekja athygli stofnana sem veita fjárhagsaðstoð til ýmissa samstarfsverkefna á nauðsyn þess að auka atvinnutækifæri kvenna.
    Í stuttu máli sagt er aðalmarkmið átaksins að vekja athygli almennings á verslun með konur og að hvetja allar stofnanir sem tengjast vandamálinu til umræðu um hvað hægt sé að gera til að sporna við því. Á fundinum var jafnframt ákveðið að beina til dómsmálaráðherra viðkomandi landa að leggja átakinu lið. Á fundi dómsmálaráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja sem haldinn var 16. ágúst 2001 var ákveðið að dómsmálaráðherrar þessara ríkja tækju þátt í átakinu. Þá var jafnframt ákveðið á þeim fundi að tekin yrði upp aukin lögreglusamvinna milli Eystrasaltsríkjanna og Norðurlandanna hvað varðaði verslun með konur og var þá einkum litið til samstarfs sem þróast hefur undir heitinu „Baltic Sea Task Force“. Einnig var ákveðið að lagasamvinna á þessu sviði yrði styrkt.

     2.      Hvernig er samstarfi þessu hagað, hvert er markmið þess og hvernig miðar því áfram?
    Samþykkt jafnréttisráðherranna gerði ráð fyrir að vinnuhópur yrði stofnaður til að undirbúa átakið. Slíkur vinnuhópur var settur á fót og var einn fulltrúi frá dómsmálaráðuneyti og einn frá jafnréttisráðuneyti hvers lands skipaður í þann hóp auk þess sem fulltrúi frá norrænu ráðherranefndinni átti sæti í hópnum. Fulltrúar Íslands í þeim vinnuhópi eru Katrín B. Ríkharðsdóttir frá Jafnréttisstofu og Dís Sigurgeirsdóttir frá dómsmálaráðuneyti.
    Verkefnið er byggt upp á þann hátt að annars vegar er um að ræða eina sameiginlega „herferð“ sem felst í sameiginlegum verkefnum þátttökuríkjanna og hins vegar átak í hverju landi. Þau verkefni sem eru innifalin í sameiginlegu herferðinni eru m.a. þrjár ráðstefnur sem haldnar eru í Eystrasaltsríkjunum, útgáfa bæklinga til væntanlegra fórnarlamba í Eystrasaltsríkjunum með upplýsingum um hvert þau geta leitað eftir hjálp (bæklingarnir verða á þjóðtungum Eystrasaltsríkja auk rússnesku), útgáfa bæklings með viljayfirlýsingum ráðherranna þar sem þeir lýsa af hverju þeir vilja snúast gegn vandamálinu og uppsetning heimasíðu sem inniheldur upplýsingar um samstarfið og hvað gert er í hverju ríki um sig.
    Hvað varðar aðgerðir í hverju einstöku ríki þá er það í höndum stjórnvalda þeirra að skipuleggja og fjármagna þær. Norræna ráðherranefndin greiðir þó fyrir aðgerðir Eystrasaltsríkjanna. Misjafnt er hvaða þætti vandamálsins hin einstöku ríki leggja áherslu á í sínum aðgerðum en það fer m.a. eftir því hvort um „upprunaríki“ viðkomandi einstaklinga er að ræða, „ríki sem þeir fara um“ eða „ríki sem teljast endanlegir áfangastaðir“.
    Nú þegar hafa tvær þeirra ráðstefna sem tilheyra sameiginlega verkefninu farið fram. Sú fyrsta var haldin í Tallinn í Eistlandi 29. maí á þessu ári. Næsta ráðstefna var haldin í Vilníus í Litháen 20.–22. október síðastliðinn og sú þriðja og síðasta verður haldin í Ríga í Lettlandi 27.–28. nóvember næstkomandi. Sérstakur bæklingur þar sem skýrt er frá þessu átaki á vegum ráðherranna hefur enn ekki komið út á prenti, en lesa má yfirlýsingar þeirra inni á heimasíðu herferðarinnar, www.nordicbalticcampaign.org. Annar bæklingur sem ætlað er að ná til fórnarlamba mansals eða þeirra sem glæpastarfsemin beinist gegn er í undirbúningi.
    Ráðstefnan í Ríga 27.–28. nóvember næstkomandi markar lok sameiginlegu herferðarinnar en þá tekur við skýrslugerð þar sem árangur aðgerðanna verður metinn. Áætlað er að þeirri skýrslu verði lokið fyrir 28. febrúar 2003. Upphaflega var áætlað að stjórnvöld allra ríkjanna lykju sérstökum aðgerðum sínum 28. nóvember en ljóst er að sú áætlun mun ekki standast. Enn skortir á í framkvæmdinni og munu aðgerðirnar því dragast fram á næsta ár.

     3.      Hverjir annast þetta starf fyrir Íslands hönd?
    Dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra annast þetta starf fyrir Íslands hönd. Jafnréttisstofa kemur þar einnig að málum sem undirstofnun félagsmálaráðuneytisins.
    Til undirbúnings íslenska átakinu var skipaður undirbúningshópur og sitja í honum fulltrúar frá Jafnréttisstofu, utanríkisráðuneyti, Útlendingaeftirliti, ríkislögreglustjóra, sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, Vinnumálastofnun, Rauða krossinum, ASÍ, Stígamótum, Kvennaathvarfinu og Neyðarmóttöku. Verkefnisstjórar átaksins eru tveir og koma frá félagsmálaráðuneyti og dómsmálaráðuneyti. Markmiðið með íslenska átakinu er að kynna fyrir almenningi hvað verslun með konur er og einnig að sporna við ímynd „konunnar“ sem verslunarvöru. Í janúar nk. mun koma út blað sem fjallar á víðtækan hátt um vandamálið og verður því fylgt eftir með ráðstefnu og umfjöllun í fjölmiðlum. Verður m.a. sérstaklega reynt að ná til ungs fólks í þeirri viðleitni að vekja skilning þess og andstöðu gegn því vandamáli sem mansal er.

     4.      Hver er áætlaður heildarkostnaður verkefnisins, hvernig er kostnaðarþátttöku landanna háttað og hver er hlutur Íslands?
    Norræna ráðherranefndin greiðir kostnað við sameiginlegu herferðina ásamt kostnaði við aðgerðir stjórnvalda í Eystrasaltsríkjunum. Einstök ríki taka ekki þátt í þeim kostnaði. Hins vegar greiða stjórnvöld Norðurlandaríkjanna kostnað við aðgerðirnar í hverju ríki um sig og er misjafnt hve miklu fjármagni verður varið í því skyni.
    Kostnaður við aðgerðirnar hér á landi, þ.e.a.s. við útgáfu blaðs og ráðstefnuhald, hefur verið áætlaður 1.500.000 kr. Ríkisstjórnin hefur veitt átakinu af ráðstöfunarfé sínu 1 millj. kr. styrk. Annar kostnaður sem fellur til vegna átaksins hefur verið og verður væntanlega greiddur af þeim ráðuneytum sem annast hafa starfið fyrir Íslands hönd.