Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 97. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 439  —  97. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ísólfs Gylfa Pálmasonar um löggæslukostnað.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er sundurliðaður sérstakur löggæslukostnaður einstakra sveitarfélaga vegna bæjarhátíða árin 1998–2001?
     2.      Hver er sundurliðaður löggæslukostnaður vegna sumarhátíða einstakra félaga, svo sem hestamannafélaga og íþróttafélaga, árin 1998–2001?
     3.      Sitja öll byggðarlög og félagasamtök við sama borð hvað löggæslukostnaði vegna hátíðahalda viðvíkur?


    Óskað var eftir upplýsingum frá öllum lögreglustjórum og þess óskað að þeir veittu svör hver fyrir sitt umdæmi. Ráðuneytinu bárust svör frá öllum lögreglustjóraembættum á landinu.
    Einungis í tveimur lögreglustjóraumdæmum hefur fallið sérstakur löggæslukostnaður á sveitarfélög vegna bæjarhátíða á því tímabili sem um er spurt og er eftirfarandi:

1998 1999 2000 2001
Vopnafjarðarhreppur vegna Vopnaskaks
161.882 0 0 0
Sveitarfélagið Hornafjörður
52.258 116.010 0 176.939

    Bæjarhátíðir eru mjög mismunandi að umfangi. Forsendan fyrir því að lögreglustjóri innheimti kostnað við aukna löggæslu hjá skemmtanahaldara er sú að viðburðurinn kalli á útgáfu skemmtanaleyfis, en heimilt er skv. 34. gr. lögreglulaga að lögreglustjóri bindi skemmtanaleyfi því skilyrði að skemmtanahaldari greiði kostnað af þeirri umfram löggæslu sem þörf er á í tengslum við skemmtun. Lögum samkvæmt falla því ýmsir viðburðir í bæjar- og sveitarfélögum landsins ekki undir þessa skilgreiningu. Sem dæmi má nefna að viðburður eins og menningarnótt í Reykjavík hefur hingað til ekki kallað á útgáfu sérstaks skemmtanaleyfis og því hefur ekki verið lagaforsenda til þess að krefja „skemmtanahaldara“ um greiðslu kostnaðar við aukna löggæslu, ef því er að skipta. Sama er upp á teningnum vegna ýmissa sambærilegra hátíða sem haldnar eru í bæjarfélögum hringinn í kringum landið. Að öðru leyti en að framan greinir hefur ekki verið innheimtur löggæslukostnaður hjá sveitarfélögum vegna bæjarhátíða sem rekja má til þess að á mörgum svokölluðum bæjarhátíðum hafa ýmis félög verið sett sérstaklega á fót til þess að sjá um undirbúning og framkvæmd slíkra hátíða, má þar sem dæmi nefna Síldarævintýri á Siglufirði og Neistaflug í Neskaupstað.
    Í eftirfarandi töflu er að finna yfirlit yfir þann sérstaka löggæslukostnað sem einstök félög hafa greitt vegna hátíðahalda til einstakra sýslumannsembætta.


1998 1999 2000 2001
Stykkishólmur vegna Eldborgarhátíðar – OKEY ehf.
3.579.356
Ísafjörður vegna hestamannamóta – Stormur og
Mansavinir, Suðureyri
26.430 18.950 22.280 22.280
Siglufjörður vegna Síldarævintýris – Ferðamálasamtök Siglufjarðar
200.000
Reykjavík vegna Landsmóts hestamanna 2000 258.800
Eskifjörður vegna Neistaflugs –
Brán ehf.
292.692 50.000
Vestmannaeyjar vegna þjóðhátíðar –
ÍBV
2.192.365 1.759.980
Akureyri vegna Landsmóts hestamanna – Landsmót
hestamanna 1998
1.890.753
Hvolsvöllur vegna Töðugjalda – Sjálfseignarfélagið
Töðugjöld, Hellu
150.000

    Landsmenn allir, einstök byggðarlög og félagasamtök sitja við sama borð hvað greiðslu löggæslukostnaðar vegna hátíðahalda viðvíkur. Heimild 34. gr. lögreglulaga hefur á undanförnum árum verið beitt í bæði smáum og stórum sveitarfélögum og nefna má sem dæmi að stærsta lögregluembætti landsins, lögreglan í Reykjavík, hefur í mörgum tilvikum á undanförnum árum gert þeim sem skemmtun halda að greiða aukalöggæslukostnað, m.a. í tengslum við tónleika, hátíðir og hestamannamót. Hins vegar verður að hafa í huga að lögreglulið landsins eru misfjölmenn og því eðlilega misvel undir það búin að takast á við löggæslu í tengslum við mannmargar skemmtanir án aðgerða sem hafa aukinn kostnað í för með sér. Krafa almennings er ótvírætt sú að öryggi sé ávallt tryggt, t.d. á útihátíðum, og því eru öryggiskröfur þær sömu um allt land, óháð stærð lögregluliðsins í viðkomandi umdæmi. Landsmenn sitja því einnig við sama borð hvað kröfur um öryggi á skemmtunum viðvíkur. Ákvæði lögreglulaga um að lögreglustjóra sé heimilt að binda skemmtanaleyfi því skilyrði að aukalöggæslukostnaður verði greiddur af leyfishafa er öllum þeim sem standa fyrir skemmtunum kunnugt um og einn af þeim þáttum sem þeir verða að taka með í reikninginn við undirbúning viðamikilla skemmtana, hvar sem er á landinu.