Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 394. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 455  —  394. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2002, um breytingu á XV. viðauka (Ríkisaðstoð) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á XV. viðauka (Ríkisaðstoð) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 68/2001 frá 12. janúar 2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart aðstoð til menntunar, (EB) nr. 69/2001 frá 12. janúar 2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart lágmarksaðstoð, og (EB) nr. 70/2001 frá 12. janúar 2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á XV. viðauka (Ríkisaðstoð) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 68/2001 frá 12. janúar 2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart aðstoð til menntunar, (EB) nr. 69/2001 frá 12. janúar 2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart lágmarksaðstoð, og (EB) nr. 70/2001 frá 12. janúar 2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirra reglugerða sem hér um ræðir. Gerðir þessar fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir eru prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðunum sjálfum.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES- nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES- samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.
    
3.     Reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 68/2001 frá 12. janúar 2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart aðstoð til menntunar, (EB) nr. 69/2001 frá 12. janúar 2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart lágmarksaðstoð, og (EB) nr. 70/2001 frá 12. janúar 2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

1. Almennt.
    Umræddar reglugerðir eiga það sameiginlegt að vera settar á grundvelli reglugerðar ráðsins (EB) nr. 994/98, um beitingu 92. og 93. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins um tiltekna flokka láréttrar ríkisaðstoðar. Með þeirri reglugerð var framkvæmdastjórninni veitt heimild til að setja reglugerðir um ákveðnar tegundir láréttrar ( horizontal) ríkisaðstoðar, svo sem um aðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, lágmarksaðstoð og aðstoð til menntunar. Efnislega eru reglugerðir þessar sambærilegar núgildandi leiðbeiningarreglum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á sviði ríkisaðstoðar. Þessar þrjár reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar, nr. 68/2001, 69/2001 og 70/2001, fela í sér svokallaðar hópundanþágur ( block exemption) frá almennum ákvæðum EES-samningsins um ríkisaðstoð og þá sérstaklega frá þeirri meginreglu sem kemur fram í 1. mgr. 61. gr. hans og er svohljóðandi: „Ef ekki er kveðið á um annað í samningi þessum er hvers kyns aðstoð, sem aðildarríki EB eða EFTA-ríki veitir eða veitt er af ríkisfjármunum og raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara, ósamrýmanleg framkvæmd samnings þessa að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila.“ Vísanir reglugerðanna í 92. og 93. gr. EB-sáttmálans (nú 87. og 88. gr.) eiga sér hliðstæðu í ákvæðum 61. og 62. gr. EES-samningsins.

2. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 68/2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB- sáttmálans gagnvart aðstoð til menntunar.
    Þessari reglugerð er ætlað að koma í stað viðkomandi kafla í leiðbeiningarreglum ESA um ríkisaðstoð. Með reglugerðinni er kveðið á um að aðstoð til menntunar, sem uppfyllir skilyrði reglugerðarinnar, sé lögmæt ríkisaðstoð sem brjóti ekki í bága við 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins og þurfi því ekki að tilkynna til ESA í samræmi við 62. gr. EES-samningsins. Í 4. gr. reglugerðarinnar eru þau skilyrði nánar tiltekin og er þar m.a. fjallað um hversu hátt hlutfall aðstoðin megi vera af heildarkostnaði og hvaða kostnaður geti fallið undir hana. Er hlutfallið mismunandi eftir tegund aðstoðar og móttakanda hennar. Ávallt ber að tilkynna aðstoð vegna hvers verkefnis sem fer yfir 1.000.000 evrur.
    Samkvæmt lögum nr. 19/1992, um starfsmenntun í atvinnulífinu, er heimilt að veita styrki úr starfsmenntasjóði til að hvetja til aukinnar starfsmenntunar í atvinnulífinu. Vera kann að reglugerð framkvæmdastjórnar EB nr. 68/2001 þrengi þessa heimild að einhverju leyti og kalli því á breytingu á þeim lögum. Verður það skoðað sérstaklega með fulltrúum félagsmálaráðuneytisins, en umrædd lög eru á forræði þess. Að höfðu samráði við félagsmálaráðuneytið er því settur stjórnskipulegur fyrirvari við innleiðingu reglugerðarinnar.

3. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 69/2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB- sáttmálans gagnvart lágmarksaðstoð (de minimis).
    Þessari reglugerð er ætlað að koma í stað viðkomandi kafla í leiðbeiningarreglum ESA um ríkisaðstoð. Efni reglugerðarinnar er í stuttu máli það að ríkisaðstoð sem veitt er til sama viðtakanda um þriggja ára skeið og er samtals undir 100.000 evrum er ekki talin hafa skaðleg áhrif á samkeppni milli aðildarríkjanna og brjóti þar af leiðandi ekki í bága við ákvæði 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins. Ríkisaðstoð, sem uppfyllir skilyrði reglugerðarinnar, er því lögmæt og innan ramma ákvæða EES-samningsins um ríkisaðstoð. Slíka lágmarksaðstoð þarf því ekki að tilkynna til ESA í samræmi við 62. gr. EES-samningsins.
    Ekki er talið að reglugerð þessi kalli á sérstakar lagabreytingar hér á landi og talið að rétt sé að innleiða hana með almennri reglugerð.

4. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 70/2001, um beitingu 87. og 88. gr. EB- sáttmálans gagnvart ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
    Þessari reglugerð er ætlað að koma í stað viðkomandi kafla í leiðbeiningarreglum ESA um ríkisaðstoð. Reglugerðin kveður á um að ríkisaðstoð sem veitt er til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, og uppfyllir skilyrði reglugerðarinnar, er ekki talin hafa skaðleg áhrif á samkeppni milli aðildarríkjanna og brjóti þar af leiðandi ekki í bága við ákvæði 1. mgr. 61. gr. EES- samningsins. Slíka ríkisaðstoð þarf því ekki að tilkynna til ESA í samræmi við 62. gr. EES- samningsins. Í viðauka við reglugerðina er síðan skilgreint hvaða skilyrði fyrirtæki þarf að uppfylla til að teljast lítið eða meðalstórt, í skilningi reglugerðarinnar. Í 4. gr. reglugerðarinnar kemur fram hversu hátt hlutfall ríkisaðstoðin má vera af heildarfjárfestingu í mismunandi tilfellum og spilar þar ýmislegt inn í, m.a. hvort viðkomandi fyrirtæki er á svæði þar sem heimilt er að veita byggðaraðstoð á.
    Ekki er talið að reglugerð þessi kalli á sérstakar lagabreytingar hér á landi og talið að rétt sé að innleiða hana með almennri reglugerð.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 88/2002

frá 25. júní 2002

um breytingu á XV. viðauka (Ríkisaðstoð) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         XV. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 6/2001 frá 31. janúar 2001 ( 1 ).

2)         Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 68/2001 frá 12. janúar 2001 um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart aðstoð til menntunar ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

3)         Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 69/2001 frá 12. janúar 2001 um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart lágmarksaðstoð ( 3 ) skal felld inn í samninginn.

4)         Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 70/2001 frá 12. janúar 2001 um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja ( 4 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi breytingar skulu gerðar á XV. viðauka við samninginn:

1.     Eftirfarandi komi aftan við lið 1c (reglugerð ráðsins (EB) nr. 3094/95):

„Aðstoð til menntunar

1d.     2001 R 0068: Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 68/2001 frá 12. janúar 2001 um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart aðstoð til menntunar (Stjtíð. EB L 10, 13.1.2001, bls. 20).

        Ákvæði reglugerðarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:

         a)    Hugtakið „87. og 88. gr. EB-sáttmálans“ lesist „61. og 62. gr. EES-samningsins“.

         b)    Hugtakið „aðildarríki“ lesist „aðildarríki EB eða EFTA-ríki“.

         c)    Ákvæði 1. gr. lesist „Þessi reglugerð gildir um aðstoð á öllum sviðum sem falla undir 61. til 64. gr. EES-samningsins“.

         d)    Í a-lið 2. gr. lesist hugtakið „1. mgr. 87. gr. sáttmálans“ sem „1. mgr. 61. gr. EES- samningsins“.

         e)    Í e-lið 2. gr. eiga orðin „eða bandalagið“ ekki við.

         f)    Í 3. gr. lesist hugtakið „samrýmanlegt hinum sameiginlega markaði“ sem „samrýmanlegt framkvæmd EES-samningsins“.

         g)    Í 3. gr. lesist hugtakið „3. mgr. 87. gr. sáttmálans“ sem „3. mgr. 61. EES-samningsins“. Hugtakið 3. mgr. 88. gr. sáttmálans“ lesist sem „3. mgr. 1. gr. í bókun 3 við samninginn um eftirlitsstofnun og dómstól“.

         h)    Í 2. og 3. mgr. 4. gr. lesist hugtökin „c-liður 3. mgr. 87. gr. sáttmálans“ og a-liður 3. mgr. 87. gr. sáttmálans“ sem „c-liður 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins“ og „a-liður 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins.“

         i)         Í b-lið 6. mgr. 4. gr. lesist hugtakið „skrár bandalagsins“ sem „skrár á svæðinu sem EES-samningurinn tekur til“.

         j)         Í 2. mgr. 6. gr. lesist orðin „ríkisaðstoð í skilningi 1. mgr. 87. gr.“ sem „ríkisaðstoð í skilningi 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins“.

Lágmarksaðstoð

1e.     2001 R 0069: Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 69/2001 frá 12. janúar 2001 um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart lágmarksaðstoð (Stjtíð. EB L 10, 13.1.2001, bls. 30).

        Ákvæði reglugerðarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:

         a)    Hugtakið „87. og 88. gr. EB-sáttmálans“ lesist „61. og 62. gr. EES-samningsins“.

         b)    Hugtakið „aðildarríki“ lesist „aðildarríki EB eða EFTA-ríki“.

         c)    Í 1. mgr. 1. gr. lesist orðin „öll svið“ sem „öll svið sem falla undir 61. til 64. gr. EES- samningsins“.

         d)    Í stað a-liðar 1. gr. komi eftirfarandi:

                „flutningsgeirinn og starfsemi sem tengist framleiðslu, vinnslu og markaðssetningu á vörum sem taldar eru upp í viðbæti við þennan viðauka og falla undir gildissvið samningsins.“

         e)    Í 1. mgr. 2. gr. lesist hugtökin „1. mgr. 87. gr. sáttmálans“ og „3. mgr. 88. gr. sáttmálans“ sem „1. mgr. 61. EES-samningsins“ og „3. mgr. 1. gr. í bókun 3 við samninginn um eftirlitsstofnun og dómstól.“

Ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja

1f.          2001 R 0070: Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 70/2001 frá 12. janúar 2001 um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja (Stjtíð. EB L 10, 13.1.2001, bls. 33).

        Ákvæði reglugerðarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:

         a)    Hugtakið „87. og 88. gr. EB-sáttmálans“ lesist „61. og 62. gr. EES-samningsins“.

         b)    Hugtakið „aðildarríki“ lesist „aðildarríki EB eða EFTA-ríki“.

         c)    Hugtakið „framkvæmdastjórnin“ lesist „þar til bær eftirlitsstofnun eins og hún er skilgreind í 62. gr. EES-samningsins“.

         d)    Hugtakið „1. mgr. 87. gr. sáttmálans“ lesist „1. mgr. 61. gr. EES-samningsins“.

         e)    Hugtakið „3. mgr. 88. gr. sáttmálans“ lesist „3. mgr. 1. gr. í bókun 3 við samninginn um eftirlitsstofnun og dómstól“.

         f)    Í 1. mgr. 1. gr. lesist orðin „bandalagsreglugerðir eða tilskipanir samkvæmt EB-sáttmálanum“ sem „reglur samkvæmt EES-samningnum“. Orðin „öll svið“ lesist „öll svið sem falla undir 61. til 64. gr. EES-samningsins“.

         g)    Í stað a-liðar 2. mgr. 1. gr. komi eftirfarandi:

                „starfsemi sem tengist framleiðslu, vinnslu og markaðssetningu á vörum sem taldar eru upp í viðbæti við þennan viðauka og falla undir gildissvið samningsins.“

         h)    Í 3. gr. og 5. gr. lesist orðin „samrýmanlegt hinum sameiginlega markaði“ sem „samrýmanlegt framkvæmd EES-samningsins“.

         i)         Í 3. mgr. 4. gr. lesist hugtakið „c-liður 3. mgr. 87. gr. sáttmálans“ sem „c-liður 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins“. Hugtakið „a-liður 3. mgr. 87. gr. sáttmálans“ lesist sem „a-liður 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins“.“

2.     Eftirfarandi bætist við í lok XV. viðauka:

„VIÐBÆTIR

Skrá yfir vörur sem vísað er til í aðlögunarlið d) í lið 1e og aðlögunarlið g) í lið 1f í XV. viðauka

Númer í
Brussel-
tollnafnaskránni
Vörulýsing
1. kafli Lifandi dýr
2. kafli Kjöt og ætir hlutar af dýrum
3. kafli Fiskur, krabbadýr og lindýr
4. kafli Mjólkurafurðir; fuglaegg; náttúrlegt hunang
5. kafli
05.04 Þarmar, blöðrur og magar úr dýrum (þó ekki úr fiski), heilt og í stykkjum
05.15 Vörur úr dýraríkinu, ót.a.; dauð dýr í 1. eða 3. kafla, óhæf til manneldis
6. kafli Lifandi tré og aðrar plöntur; blómlaukar, rætur og þess háttar; afskorin blóm og lauf til skrauts
7. kafli Matjurtir og tilteknar rætur og hnýði
8. kafli Ætir ávextir og hnetur; hýði af melónum eða sítrusávöxtum
9. kafli Kaffi, te og krydd, þó ekki maté (vöruliður nr. 09.03)
10. kafli Korn
11. kafli Malaðar vörur; malt og sterkja; hveitiglúten; inúlín
12. kafli Olíufræ og olíurík aldin; ýmis konar sáðkorn, fræ og aldin; plöntur til notkunar í iðnaði og til lyfja; hálmur og fóður
13. kafli
úr 13.03 Pektín
15. kafli
15.01 Svínafeiti (þar með talin hreinsuð svínafeiti (Lard)) og alifuglafeiti
15.02 Fita af nautgripum, kindum eða geitum; tólg (þar með talið „premier jus“) framleitt úr slíkri feiti
15.03 Svínafeitisterín, tólgarsterín, oleóolía, svínaolía og tólgarolía, ekki gert að fleyti, eða unnið á annan hátt
15.04 Feiti og olíur, úr fiski eða sjávarspendýrum, einnig hreinsuð
15.07 Órokgjarnar jurtaolíur, í fljótandi eða föstu formi, hráar, hreinsaðar eða unnar
15.12 Feiti eða olíur, hertar, úr dýra- eða jurtaríkinu, einnig hreinsaðar en ekki frekar unnar
15.13 Smjörlíki, svínafeitilíki og önnur feiti til matar
15.17 Leifar sem falla til við meðferð á feitiefnum eða dýra- eða jurtavaxi
16. kafli Framleiðsla úr kjöti, fiski, krabbadýrum eða lindýrum
17. kafli
17.01 Reyr- eða rófusykur í föstu formi
17.02 Annar sykur; sykursíróp; gervihunang, einnig blandað náttúrlegu
hunangi; karamel
17.03 Melassi, einnig aflitaður
17.05 Sykur með bragðefnum eða litarefnum, síróp og melassi, þó ekki ávaxtasafi með viðbættum sykri
18. kafli
18.01 Kakaóbaunir, heilar eða muldar, hráar eða brenndar
18.02 Kakaóskurn, kakaóhýði, kakaóskæni og annar kakaóúrgangur
20. kafli Framleiðsla úr matjurtum, ávöxtum, hnetum eða öðrum plöntuhlutum
22. kafli
22.04 Þrúguþykkni í gerjun eða þar sem gerjun sem hefur verið stöðvuð á annan hátt en með íblöndun alkóhóls
22.05 Vín úr nýjum þrúgum; þrúguþykkni þar sem gerjun sem hefur verið stöðvuð með íblöndun alkóhóls
22.07 Aðrar gerjaðar drykkjarvörur (t.d. eplavín, peruvín, mjöður)
úr 22.08 úr 22.09 Etýlalkóhól eða hlutlausir brenndir drykkir, einnig mengað, óháð styrkleika, framleitt úr landbúnaðarvörum, sem talar eru upp í þessum viðauka, þó ekki líkkjörar og aðrir brenndir drykkir og alkóhólblöndur (óblandaður útdráttur) til að framleiða drykkjarvörur
22.10 Edik og edikslíki
23. kafli Leifar og úrgangur frá matvælaframleiðslu; unnið skepnufóður
24. kafli
24.01 Óunnið tóbak; tóbaksúrgangur
45. kafli
45.01 Náttúrlegur korkur, óunninn, brotinn, kurlaður eða malaður korkur: korkúrgangur
54. kafli
54.01 Hör óunninn eða forunninn en ekki spunninn; hörruddi og hörúrgangur (þ.m.t. garnúrgangur og tætlur)
57. kafli
57.01 Hampur (Cannabis sativa L), óunninn eða forunninn en ekki spunninn; hampruddi og hampúrgangur (þ.m.t. garnúrgangur og tætlur)


2. gr.

Texti reglugerða EB nr. 68/2001, 69/2001 og 70/2001 á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 26. júní 2002, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 25. júní 2002.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    P. Westerlund


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    P.K. Mannes     M. Brinkmann




Fylgiskjal II.


REGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (EB) nr. 68/2001

frá 12. janúar 2001

um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart aðstoð til menntunar

FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins,

með hliðsjón af reglugerð ráðsins (EB) nr. 994/98 frá 7. maí 1998 um beitingu 92. og 93. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins um tiltekna flokka láréttrar ríkisaðstoðar ( 1 ), einkum iv-lið a-liðar 1. mgr. 1. gr.,

að birtum drögum að þessari reglugerð ( 2 ),

að höfðu samráði við ráðgjafarnefndina um ríkisaðstoð,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Í reglugerð (EB) nr. 994/98 er framkvæmdastjórninni heimilað að lýsa því yfir, í samræmi við 87. gr. sáttmálans, að við tilteknar aðstæður sé aðstoð til menntunar samrýmanleg sameiginlega markaðnum og falli ekki undir ákvæði 3. mgr. 88. gr. sáttmálans um tilkynningaskyldu.

     2)      Framkvæmdastjórnin hefur beitt 87. og 88. gr. sáttmálans gagnvart aðstoð til menntunar í mörgum ákvörðunum og hefur einnig sett fram stefnu sína, nú síðast í bandalagsramma um aðstoð til menntunar ( 3 ). Til að tryggja skilvirkt eftirlit og til að einfalda stjórnun án þess að draga úr eftirliti framkvæmdastjórnarinnar er rétt, í ljósi þess að framkvæmdastjórnin hefur mikla reynslu af að beita þessum greinum gagnvart aðstoð til menntunar, að hún nýti sér það vald sem henni er falið með reglugerð (EB) nr. 994/98.

     3)      Til að unnt sé að koma á gagnsærri og samfelldri stefnumótun í öllum starfsgreinum þarf gildissvið þessarar reglugerðar að vera eins vítt og unnt er og ná til landbúnaðar, fiskveiða og eldis og ræktunar í sjó og vatni.

     4)      Þessi reglugerð hefur ekki áhrif á möguleika aðildarríkjanna á því að tilkynna um aðstoð til menntunar. Framkvæmdastjórnin mun meta slíkar tilkynningar, einkum í ljósi viðmiðananna sem koma fram í þessari reglugerð eða í samræmi við gildandi viðmiðunarreglur og ramma bandalagsins ef slíkar reglur og rammar eru til. Eins og sakir standa á þetta við um starfsemi sem tengist framleiðslu, vinnslu og markaðssetningu varanna sem eru skráðar í I. viðauka við sáttmálann og á sviði sjóflutninga. Rammaákvæðin um aðstoð til menntunar skulu felld úr gildi frá og með gildistökudegi þessarar reglugerðar þar eð efni þeirra er tekið upp í þessari reglugerð.

     5)      Með tilliti til gagnsæis er rétt að hafa í huga að samkvæmt annarri undirgrein 1. mgr. 51. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1257/1999 frá 17. maí 1999 um stuðning við byggðaþróun í dreifbýli frá þróunar- og ábyrgðarsjóði evrópsks landbúnaðar (EAGGF) og um breytingu og niðurfellingu tiltekinna reglugerða ( 4 ) gilda 87. til 89. gr. sáttmálans ekki um fjárframlög sem aðildarríkin veita vegna ráðstafana sem falla undir bandalagsstuðning til menntunar skv. 9. gr. þeirrar reglugerðar.

     6)      Með tilliti til gagnsæis er rétt að undirstrika að þessi reglugerð skal einungis gilda um menntunarráðstafanir sem eru ríkisaðstoð í skilningi 1. mgr. 87. gr. sáttmálans. Margar ráðstafanir vegna menntunar falla ekki undir þá grein en flokkast undir almennar ráðstafanir vegna þess að þær standa öllum fyrirtækjum í öllum starfsgreinum til boða án mismununar og vegna þess að yfirvöldin, sem beita ráðstöfununum, hafa ekki ákvörðunarrétt, t.d. almennar skattaívilnanir, svo sem sjálfvirkur skattafsláttur sem stendur öllum fyrirtækjum til boða sem fjárfesta í menntun starfsmanna sinna. Aðrar menntunarráðstafanir falla ekki undir gildissvið 1. mgr. 87. gr. sáttmálans vegna þess að þær koma fólki beint til góða alls staðar og veita tilteknum fyrirtækjum eða starfsgreinum engan ávinning öðrum fremur. Sem dæmi má nefna skólamenntun og grunnþjálfun (svo sem nám lærlinga og blandað kerfi vinnu og náms), menntun eða endurmenntun atvinnulausra, þ.m.t. starfsþjálfun í fyrirtækjum og ráðstafanir sem beinast beint að starfsmönnum eða jafnvel tilteknum hópum starfsmanna og veita þeim tækifæri til að fá menntun sem tengist ekki fyrirtækinu eða atvinnugreininni þar sem þeir stunda vinnu (t.d. með „námsreikningi“). Á hinn bóginn ber að hafa í huga að ekki er litið á framlag frá sérgreinasjóðum sem einkafjármagn ef ríkið hefur gert slíka sjóði að skyldu heldur telst það ríkisfjármagn í skilningi 1. mgr. 87. gr. sáttmálans.

     7)      Samkvæmt þessari reglugerð skal veita undanþágu fyrir alla aðstoð þar sem allar viðeigandi kröfur í þessari reglugerð eru uppfylltar og fyrir öll aðstoðarkerfi, að því tilskildu að aðstoðin, sem hægt er að veita samkvæmt slíku kerfi, uppfylli allar viðeigandi kröfur samkvæmt reglugerðinni. Til að tryggja skilvirkt eftirlit og til að einfalda stjórnun án þess að draga úr eftirliti framkvæmdastjórnarinnar skal skýr tilvísun í þessa reglugerð fylgja með aðstoð og stökum styrkveitingum sem eru ekki hluti af aðstoðarkerfi.

     8)      Til að útiloka mismun sem gæti valdið röskun á samkeppni og til að auðvelda samræmingu milli mismunandi framtaksverkefna bandalagsins og einstakra landa, sem snertir lítil og meðalstór fyrirtæki, svo og vegna stjórnunarlegs skýrleika og réttaröryggis, skal skilgreiningin á „litlum og meðalstórum fyrirtækjum“, sem er notuð í þessari reglugerð, vera sú sama og mælt er fyrir um í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 96/280/EB frá 3. apríl 1996 um skilgreiningu á litlum og meðalstórum fyrirtækjum ( 5 ).

     9)      Til að ákvarða hvort aðstoð sé samrýmanleg sameiginlega markaðnum samkvæmt þessari reglugerð er nauðsynlegt að taka tillit til umfangs aðstoðarinnar og þar með fjárhæðarinnar sem er veitt til aðstoðar og tilgreind sem styrkígildi. Við útreikning á styrkígildi aðstoðar, sem skipta má í nokkrar greiðslur, og útreikning á aðstoð í formi hagstæðra lána er nauðsynlegt að nota markaðsvexti sem eru í gildi þegar lánið er veitt. Til að tryggja samræmda og einfalda beitingu reglna um ríkisaðstoð skal líta svo á að markaðsvextir séu viðmiðunarvextir að því er varðar þessa reglugerð, að því tilskildu að venjuleg trygging sé sett fyrir hagstæðum lánum og að þau hafi ekki í för með sér óeðlilega áhættu. Viðmiðunarvextir skulu vera í samræmi við það sem framkvæmdastjórnin ákveður með ákveðnu millibili á grundvelli hlutlægra viðmiðana og er birt í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna og á Netinu.

     10)      Menntun skilar yfirleitt jákvæðum áhrifum út í samfélagið þar eð hún eykur fjölda hæfra starfsmanna, sem kemur öðrum fyrirtækjum til góða, eykur samkeppnishæfni atvinnugreina í bandalaginu og gegnir mikilvægu hlutverki að því er varðar áætlanir í atvinnumálum. Þar eð fyrirtæki í bandalaginu fjárfesta almennt of lítið í menntun starfsmanna sinna getur ríkisaðstoð stuðlað að því að lagfæra þessa vöntun á markaðnum og má því líta svo á að aðstoðin geti samrýmst sameiginlega markaðnum við sérstakar aðstæður og verið undanþegin fyrirframtilkynningu af þeirri ástæðu.

     11)      Til að tryggja að ríkisaðstoð takmarkist við það lágmark sem er nauðsynlegt til að ná markmiði bandalagsins, sem markaðsöflin ein og sér gætu ekki áorkað, skal miða leyfilegt umfang undanþeginnar aðstoðar við þá tegund menntunar sem er veitt, stærð fyrirtækisins og landfræðilega staðsetningu þess.

     12)      Almenn menntun veitir hæfi sem unnt er að yfirfæra og eykur verulega ráðningarhæfi þess starfsmanns sem nýtur hennar. Aðstoð í þeim tilgangi hefur minni áhrif til röskunar á samkeppni og veldur því að unnt er að líta svo á að aðstoð í verulegum mæli sé samrýmanleg sameiginlega markaðnum og undanþegin kröfunni um fyrirframtilkynningu. Hins vegar hefur sérstök menntun, sem aðallega kemur fyrirtækinu til góða, í för með sér meiri hættu á samkeppnisröskun svo að umfang aðstoðar, sem telja má að sé samrýmanlegt og undanþegið kröfunni um fyrirframtilkynningu, ætti að vera miklu minna.

     13)      Í ljósi þeirra óþæginda, sem lítil og meðalstór fyrirtæki standa frammi fyrir og hlutfallslega aukins kostnaðar sem þau þurfa að bera þegar þau fjárfesta í menntun starfsmanna sinna, skal umfang þeirrar aðstoðar, sem er undanþegin tilkynningaskyldunni samkvæmt þessari reglugerð, aukið að því er varðar lítil og meðalstór fyrirtæki.

     14)      Á svæðum, sem njóta aðstoðar skv. a- og c-lið 3. mgr. 87. gr. sáttmálans, hefur menntun tiltölulega meiri áhrif út á við vegna þess að veruleg vöntun er á fjárfestingu í menntun á þessum svæðum og atvinnuleysishlutfall hærra. Þar af leiðandi ber að auka umfang aðstoðar, sem er undanþegið samkvæmt þessari reglugerð, á þessum svæðum.

     15)      Menntun í sjóflutningageiranum er sérstaks eðlis og því þarf að beita sérstökum aðferðum í þeirri starfsgrein.

     16)      Rétt er að framkvæmdastjórnin leggi áfram sérstakt mat á stórar fjárhæðir til aðstoðar áður en þær koma til framkvæmda. Þess vegna skulu fjárhæðir, sem er veitt til aðstoðar og fara yfir fasta fjárhæð sem festa ætti við 1 000 000 evrur, vera undanskildar undanþágunni sem kveðið er á um í þessari reglugerð og kröfur í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans skulu gilda áfram um þær.

     17)      Undanþága samkvæmt þessari reglugerð skal ekki taka til aðstoðar sem leggst við aðra ríkisaðstoð, t.d. aðstoð sem innlend yfirvöld eða svæða- og staðaryfirvöld veita, eða bandalagsaðstoð í tengslum við sama styrkhæfa kostnaðinn ef slík uppsöfnun fer yfir efri mörkin sem eru ákveðin í þessari reglugerð.

     18)      Til að tryggja gagnsæi og skilvirkt eftirlit í samræmi við 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 994/98 er rétt að tekið verði upp stöðluð framsetning þar sem aðildarríkin veita framkvæmdastjórninni upplýsingar í stuttu máli til birtingar í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna í hvert sinn sem aðstoðarkerfi er hrundið í framkvæmd eða stök aðstoð utan slíkra kerfa veitt samkvæmt þessari reglugerð. Af sömu ástæðu er rétt að setja reglur um skrárnar sem aðildarríkin eiga að halda varðandi aðstoðina sem nýtur undanþágu samkvæmt þessari reglugerð. Að því er varðar árlegu skýrslurnar, sem aðildarríkjunum ber að leggja fram hjá framkvæmdastjórninni, er rétt að framkvæmdastjórnin setji fram kröfur sínar varðandi þær, þ.m.t. upplýsingar í tölvutæku formi þar eð aðgangur að nauðsynlegri tækni er almennt auðveldur.

     19)      Með tilliti til reynslu framkvæmdastjórnarinnar, einkum af því að yfirleitt reynist nauðsynlegt að endurskoða stefnu um ríkisaðstoð, er rétt að takmarka gildistíma þessarar reglugerðar. Falli þessi reglugerð úr gildi án þess að gildistíminn sé framlengdur skulu aðstoðarkerfi, sem þegar hafa fengið undanþágu samkvæmt þessari reglugerð, vera áfram undanþegin í sex mánuði.

SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

1. gr.

Gildissvið

Þessi reglugerð gildir um aðstoð í öllum starfsgreinum, þ.m.t. starfsemi í tengslum við framleiðslu, vinnslu og markaðssetningu varanna sem eru skráðar í I. viðauka við sáttmálann.

2. gr.

Skilgreiningar

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a)      „aðstoð“: allar ráðstafanir sem samræmast viðmiðunum sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 87. gr. sáttmálans;

b)      „lítil og meðalstór fyrirtæki“: fyrirtæki sem eru skilgreind í I. viðauka;

c)      „stór fyrirtæki“: fyrirtæki sem falla ekki undir skilgreininguna á litlum og meðalstórum fyrirtækjum í I. viðauka;

d)      „sérmenntun“: menntun sem felur í sér fræðslu sem nýtist beinlínis og fyrst og fremst í núverandi starfi eða framtíðarstarfi starfsmannsins í fyrirtæki, sem nýtur aðstoðar, og veitir hæfni sem er ekki eða aðeins að litlu leyti yfirfæranleg yfir á önnur fyrirtæki eða starfssvið;

e)      „almenn menntun“: menntun sem felur í sér fræðslu sem nýtist ekki eingöngu eða fyrst og fremst í núverandi starfi eða framtíðarstarfi starfsmannsins í fyrirtækinu sem nýtur aðstoðar en veitir hæfni sem er að miklu leyti yfirfæranleg yfir á önnur fyrirtæki eða starfssvið og eykur því að verulegu leyti ráðningarhæfi starfsmannsins. Menntun telst vera „almenn“ ef hún er t.d.,

    —    skipulögð sameiginlega af mismunandi, óháðum fyrirtækjum eða ef starfsmenn mismunandi fyrirtækja geta aflað sér þessarar menntunar,

    —    viðurkennd, vottuð eða metin af opinberum yfirvöldum eða aðilum eða af öðrum aðilum eða stofnunum sem aðildarríki eða framkvæmdastjórnin hefur veitt nauðsynlegt umboð á þessu sviði;

f)      „umfang aðstoðar“: brúttófjárhæðin, sem er veitt til aðstoðar, tilgreind sem hlutfall af styrkhæfum kostnaði verkefnisins. Allar tölur, sem eru notaðar, skulu tilgreindar án frádráttar vegna staðgreiðslu skatta. Þegar aðstoð er veitt í öðru formi en sem styrkur skal fjárhæðin, sem er veitt til aðstoðarinnar, jafngilda aðstoð í formi styrks. Aðstoð, sem er skipt í nokkrar greiðslur, skal reiknuð til núvirðis þegar hún er veitt. Vextirnir, sem nota skal við núvirðisreikning og til að reikna út fjárhæðina sem veitt er til aðstoðar í formi hagstæðs láns, skulu vera gildandi viðmiðunarvextir á þeim tíma sem lánið er veitt;

g)      „illa staddur starfsmaður“:

    —    ungir einstaklingar undir 25 ára aldri sem hafa ekki áður gegnt reglubundnu, launuðu starfi,

    —    einstaklingur með alvarlega fötlun af völdum líkamlegra, geðrænna eða sálrænna erfiðleika en þó fær um þátttöku á vinnumarkaðnum,

    —    farandlaunþegar sem flytjast eða hafa flust til bandalagsríkis eða hefja búsetu þar til að stunda starf og sem þurfa á starfs- eða tungumálamenntun að halda,

    —    einstaklingur sem vill hefja aftur störf eftir a.m.k. þriggja ára hlé, einkum einstaklingur sem hefur hætt í starfi vegna erfiðleika við að samræma vinnu og fjölskyldulíf á fyrstu sex mánuðunum eftir ráðningu,

    —    einstaklingur sem er eldri en 45 ára og hefur ekki lokið gagnfræðaskólamenntun eða hliðstæðri menntun,

    —    einstaklingur sem hefur verið atvinnulaus um langt skeið, þ.e. einstaklingur sem hefur ekki haft vinnu í 12 mánuði samfleytt á fyrstu sex mánuðunum eftir ráðningu.

3. gr.

Skilyrði fyrir undanþágu

1.     Stök aðstoð, sem er ekki hluti af neinu aðstoðarkerfi og uppfyllir öll skilyrði þessarar reglugerðar, telst samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningaskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans að því tilskildu að henni fylgi skýr tilvísun í þessa reglugerð þar sem fram kemur titill hennar og tilvísun til birtingar hennar í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

2.     Aðstoðarkerfi, sem uppfylla öll skilyrði þessarar reglugerðar, teljast samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skulu vera undanþegin tilkynningaskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að því tilskildu:

a)      að aðstoð, sem unnt er að veita samkvæmt slíku kerfi, uppfylli öll skilyrði þessarar reglugerðar;

b)      að kerfinu fylgi skýr tilvísun í þessa reglugerð þar sem fram kemur titill hennar og tilvísun til birtingar hennar í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

3.     Aðstoð, sem er veitt sem hluti af kerfunum sem um getur í 2. mgr., skal samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningaskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að því tilskildu að aðstoðin, sem er veitt, uppfylli algerlega öll skilyrði þessarar reglugerðar.

4. gr.

Aðstoð til menntunar sem nýtur undanþágu

1.     Aðstoðarkerfi og stök aðstoð til menntunar skal uppfylla skilyrðin sem mælt er fyrir um í 2. til 7. mgr.

2.     Þegar aðstoðin er veitt til sérmenntunar skal umfang hennar ekki fara yfir 25% þegar um stór fyrirtæki er að ræða og ekki yfir 35% þegar lítil og meðalstór fyrirtæki eiga í hlut.

Þetta umfang skal aukið um fimm prósentustig vegna fyrirtækja á svæðum sem falla undir svæðisbundna aðstoð skv. c-lið 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og um 10 prósentustig vegna fyrirtækja á svæðum sem falla undir svæðisbundna aðstoð skv. a-lið 3. mgr. 87. gr. í sáttmálanum.

3.     Þegar aðstoðin er veitt til almennrar menntunar skal umfang hennar ekki fara yfir 50% þegar um stór fyrirtæki er að ræða og ekki yfir 70% þegar lítil og meðalstór fyrirtæki eiga í hlut.

Þetta umfang skal aukið um fimm prósentustig vegna fyrirtækja á svæðum sem falla undir svæðisbundna aðstoð skv. c-lið 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og um 10 prósentustig vegna fyrirtækja á svæðum sem falla undir svæðisbundna aðstoð skv. a-lið 3. mgr. 87. gr. í sáttmálanum.

4.     Hámarksumfangið, sem um getur í 2. og 3. mgr., skal aukið um 10 prósentustig ef menntunin er veitt illa stöddum starfsmönnum.

5.     Í tilvikum þar sem bæði sérmenntun og almenn menntun eru þættir í aðstoðarverkefninu, sem ekki er hægt að aðskilja við útreikning á umfangi aðstoðarinnar, og í tilvikum þar sem ekki er unnt að fastsetja hvort um er að ræða sérmenntun eða almenna menntun, skal umfangið, sem gildir fyrir sérmenntun skv. 2. mgr. gilda.

6.     Þegar aðstoð er veitt í sjóflutningageiranum getur umfangið orðið 100% hvort sem menntunarverkefnið snertir sérmenntun eða almenna menntun, að því tilskildu að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

a)      sá sem fær menntunina skal ekki vera virkur áhafnarmeðlimur heldur skal hann vera varamaður um borð, og

b)      menntunin skal fara fram um borð í skipum sem eru skráð í bandalaginu.

7.     Aðstoðarhæfur kostnaður við menntunarverkefni skal vera:

a)      starfsmannakostnaður vegna kennara,

b)      ferðakostnaður kennara og nemenda,

c)      annar tilfallandi kostnaður, svo sem efni og búnaður,

d)      afskriftir af tækjum og búnaði sem er einungis notaður í menntunarverkefninu,

e)      kostnaður við leiðbeininga- og ráðgjafarþjónustu viðvíkjandi menntunarverkefninu,

f)      starfsmannakostnaður vegna lærlings, allt að samanlagðri fjárhæð fyrir styrkhæfan kostnað samkvæmt liðum a til e. Einungis má reikna þann tíma sem lærlingur stundar í raun nám, að frádregnum virkum vinnustundum við framleiðslu eða samsvarandi.

Styrkhæfur kostnaður skal vera studdur skriflegum sönnunargögnum, gagnsæjum og sundurliðuðum.

5. gr.

Veiting stakrar aðstoðar í miklum mæli

Ekki skal beita undanþágu ef fjárhæð aðstoðar, sem er veitt einu fyrirtæki vegna eins menntunarverkefnis, fer yfir 1 000 000 evrur.

6. gr.

Uppsöfnun

1.     Efri mörk aðstoðar, sem eru ákveðin í 4. og 5. gr., skulu gilda án tillits til þess hvort aðstoðin við verkefnið er eingöngu fjármögnuð af ríkinu eða hvort hún er fjármögnuð að hluta til af bandalaginu.

2.     Aðstoð, sem nýtur undanþágu samkvæmt þessari reglugerð, má ekki bætast við neina aðra ríkisaðstoð í skilningi 1. mgr. 87. gr. sáttmálans eða við aðra fjármögnun bandalagsins í tengslum við sama styrkhæfa kostnaðinn ef slík uppsöfnun leiðir til þess að umfang aðstoðar fer yfir mörkin sem eru ákveðin í þessari reglugerð.

7. gr.

Gagnsæi og eftirlit

1.     Við framkvæmd aðstoðarkerfis eða við veitingu stakrar aðstoðar utan slíks kerfis, sem nýtur undanþágu samkvæmt þessari reglugerð, skulu aðildarríkin senda framkvæmdastjórninni útdrátt úr upplýsingum innan 20 virkra daga varðandi slíkt aðstoðarkerfi eða staka aðstoð til birtingar í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna í samræmi við fyrirmyndina sem mælt er fyrir um í II. viðauka.

2.     Aðildarríkin skulu halda nákvæmar skrár yfir aðstoðarkerfi, sem njóta undanþágu samkvæmt þessari reglugerð, staka aðstoð, sem er veitt samkvæmt þessum kerfum, og staka aðstoð sem er utan allra núverandi aðstoðarkerfa og nýtur undanþágu samkvæmt þessari reglugerð. Í slíkum skrám skulu koma fram allar nauðsynlegar upplýsingar til að staðfesta að skilyrði fyrir undanþágu, eins og mælt er fyrir um í þessari reglugerð, séu uppfyllt. Aðildarríkin skulu halda skrá yfir staka aðstoð í 10 ár frá þeim degi sem hún er veitt og, að því er varðar aðstoðarkerfi, í 10 ár frá þeim degi sem síðasta staka aðstoðin er veitt samkvæmt slíku kerfi. Viðkomandi aðildarríki skal láta framkvæmdastjórninni í té, samkvæmt skriflegri beiðni og innan 20 virkra daga eða lengri tíma, sem er tilgreindur í beiðninni, allar upplýsingar sem framkvæmdastjórnin telur nauðsynlegt að hafa til að geta metið hvort skilyrðin í þessari reglugerð hafi verið uppfyllt.

3.     Aðildarríkin skulu taka saman skýrslu um beitingu þessarar reglugerðar fyrir hvert heilt almanaksár eða hluta af því, sem þessi reglugerð gildir fyrir, í því formi sem mælt er fyrir um í III. viðauka og einnig í tölvutæku formi. Aðildarríkin skulu láta framkvæmdastjórninni í té slíka skýrslu eigi síðar en þremur mánuðum eftir að tímabilinu, sem fjallað er um í skýrslunni, lýkur.

8. gr.

Gildistaka og gildistími

1.     Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

Hún skal gilda til 31. desember 2006.

2.     Við lok gildistíma þessarar reglugerðar skulu aðstoðarkerfi, sem njóta undanþágu samkvæmt þessari reglugerð, vera áfram á undanþágu í sex mánaða aðlögunartíma.

Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.

Gjört í Brussel 12. janúar 2001.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,

Mario MONTI

framkvæmdastjóri.


I. VIÐAUKI

Skilgreining á litlum og meðalstórum fyrirtækjum

(útdráttur úr tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 96/280/EB frá 3. apríl 1996 um skilgreiningu á litlum og meðalstórum fyrirtækjum (Stjtíð. EB L 107, 30.4.1996, bls. 4))

„1. gr.

1.     Lítil og meðalstór fyrirtæki (SME) eru skilgreind sem fyrirtæki sem:
—    hafa færri en 250 starfsmenn, og
—    hafa annaðhvort,
    —    ársveltu, sem fer ekki yfir 40 milljón evrur, eða
    —    heildartala efnahagsreiknings fer ekki yfir 27 milljón evrur,
—    eru í samræmi við viðmiðunina fyrir óháð fyrirtæki sem skilgreind er í 3. mgr.

2.     Ef nauðsynlegt reynist að greina á milli lítilla og meðalstórra fyrirtækja eru lítil fyrirtæki skilgreind sem fyrirtæki sem:
—    hafa færri en 50 starfsmenn, og
—    hafa annaðhvort,
    —    ársveltu, sem fer ekki yfir 7 milljón evrur, eða
    —    heildartala efnahagsreiknings fer ekki yfir 5 milljón evrur,
—    eru í samræmi við viðmiðunina fyrir óháð fyrirtæki sem skilgreind er í 3. mgr.

3.     Fyrirtæki teljast vera óháð ef ekki er meira en 25% af fjármagni eða atkvæðisrétti þeirra í eigu eins fyrirtækis eða, eftir atvikum, í sameign margra fyrirtækja sem eru hvorki lítil né meðalstór fyrirtæki samkvæmt skilgreiningu. Fara má yfir þessi mörk í eftirfarandi tveimur tilvikum:
—    ef fyrirtækið er í eigu opinberra fjárfestingarfélaga, áhættufjármagnsfyrirtækja eða stofnanafjárfesta, að því tilskildu að þau stjórni ekki fyrirtækinu, hvorki einstaklingsbundið né sameiginlega,
—    ef fjármagnið dreifist á þann hátt að ekki sé mögulegt að ákvarða eignarhald á því og ef fyrirtækið lýsir því yfir að hægt sé með réttu að álykta að ekki séu meira en 25% þess í eigu eins fyrirtækis eða, eftir atvikum, í sameign margra fyrirtækja sem eru hvorki lítil né meðalstór fyrirtæki samkvæmt skilgreiningu.

4.     Við útreikning á mörkunum, sem um getur í 1. og 2. mgr., er því nauðsynlegt að leggja saman viðkomandi tölur varðandi fyrirtækið sem fær aðstoð og varðandi öll fyrirtækin sem það stjórnar, beint eða óbeint, gegnum eignarhald á 25% eða meira af fjármagni eða atkvæðisrétti.

5.     Ef nauðsynlegt reynist að greina örfyrirtæki frá öðrum litlum og meðalstórum fyrirtækjum eru þau skilgreind sem fyrirtæki sem hafa færri en 10 starfsmenn.

6.     Ef fyrirtæki fer yfir eða undir mörk um mannafla eða efri fjárhagsmörk á lokadegi efnahagsreiknings leiðir það því aðeins til þess að það öðlist eða glati þeirri stöðu að vera lítið/meðalstórt fyrirtæki, meðalstórt fyrirtæki, lítið fyrirtæki eða örfyrirtæki ef það endurtekur sig í tvö fjárhagsár samfleytt.

7.     Fjöldi starfsmanna samsvarar fjölda ársverka, þ.e. fjölda starfsmanna sem eru í fullu starfi á einu ári ásamt starfsmönnum í hlutastarfi og árstíðabundnu starfi sem reiknast sem brot af ársverkum. Nota skal síðasta, samþykkta uppgjörstímabil sem viðmiðunarár.

8.     Mörk fyrir veltu og heildartölu efnahagsreiknings miðast við síðasta, samþykkta 12 mánaða uppgjörstímabil. Þegar um nýlega stofnuð fyrirtæki er að ræða þar sem reikningar hafa enn ekki verið samþykktir skal ákvarða mörkin á grundvelli áreiðanlegs mats sem hefur farið fram á fjárhagsárinu.“


II. VIÐAUKI

Framsetning á samantekt upplýsinga sem skal leggja fram í hvert sinn sem aðstoðarkerfi, sem nýtur undanþágu samkvæmt þessari reglugerð, kemur til framkvæmda og í hvert sinn sem stök aðstoð, sem nýtur undanþágu samkvæmt þessari reglugerð, er veitt utan aðstoðarkerfa


Samantekt upplýsinga um ríkisaðstoð sem er veitt samkvæmt reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 68/2001
Samantekt upplýsinga sem tilgreina skal Skýringar
Aðildarríki
Svæði Tilgreina skal heiti svæðisins ef yfirvald utan svæðis veitir aðstoðina.
Heiti aðstoðarkerfisins eða fyrirtækisins sem fær staka aðstoð Tilgreina skal heiti aðstoðarkerfisins eða heiti þess sem fær aðstoðina ef um staka aðstoð er að ræða.
Í síðara tilvikinu er ekki nauðsynlegt að leggja fram ársskýrslu árið eftir.
Lagaákvæði Tilgreina skal nákvæmlega innlenda lagastoð fyrir aðstoðarkerfinu eða stöku aðstoðinni.
Áætluð ársútgjöld vegna kerfisins eða heildarfjárhæð stakrar aðstoðar sem fyrirtækinu er veitt Fjárhæðir skulu gefnar upp í evrum eða í innlendum gjaldmiðli ef við á.
Þegar um aðstoðarkerfi er að ræða:
skal tilgreina árlega heildarfjárhæð fjárveitingar eða áætlað skattatap á ári vegna allra tegunda aðstoðar sem kerfið nær yfir.
Þegar um staka úthlutun aðstoðar er að ræða:
skal tilgreina heildarfjárhæð aðstoðar/skattataps. Ef við á skal einnig tilgreina á hve mörg ár aðstoðin skiptist eða í hve mörg ár skattatap á sér stað.
Að því er varðar ábyrgðir skal tilgreina (hæstu) fjárhæð tryggðra lána.
Mesta umfang aðstoðar Tilgreina skal mesta umfang eða hámarksfjárhæð sem er veitt til aðstoðar fyrir hverja styrkhæfa einingu.
Dagsetning framkvæmdar Tilgreina skal upphafsdag aðstoðar þegar um aðstoðarkerfi er að ræða eða daginn þegar stök aðstoð er veitt.
Gildistími aðstoðarkerfis eða stakrar aðstoðar Tilgreina skal daginn (ár og mánuð) þegar aðstoð lýkur, ef um aðstoðarkerfi er að ræða, eða, þegar um staka aðstoð er að ræða og ef við á, daginn (ár og mánuð) sem reiknað er með að síðasta greiðsla fari fram.
Markmið aðstoðar Þegar um aðstoð til menntunar er að ræða skal tilgreina hvort það er sérmenntun eða almenn menntun.
Þegar um almenna menntun er að ræða skulu skrifleg sönnunargögn fylgja (t.d. lýsing á efni menntunarinnar) til að unnt sé að flokka hana sem almenna menntun.


Samantekt upplýsinga sem tilgreina skal Skýringar
Viðkomandi starfsgrein eða starfsgreinar:
.     allar starfsgreinar
    eða
    .         landbúnaður
    .         fiskveiðar og eldi og ræktun í sjó og vatni
    .         kolavinnsla
    .         öll framleiðsla
        eða
        .         stáliðnaður
        .         skipasmíði
        .         syntetískar trefjar
        .         vélknúin ökutæki
        .         önnur framleiðsla
    .         öll þjónusta
        eða
        .         þjónustustarfsemi í sjóflutningum
        .         önnur flutningaþjónusta
        .         fjármálaþjónusta
        .         önnur þjónusta
Athugasemdir:
Veljið af listanum ef við á
Heiti og heimilisfang yfirvaldsins sem veitir aðstoð
Aðrar upplýsingar


III. VIÐAUKI

Framsetning skýrslunnar sem senda skal reglulega til framkvæmdastjórnarinnar

Framsetning ársskýrslu um aðstoðarkerfi sem falla undir reglugerð um hópundanþágu skv. 1. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 994/98

Aðildarríkjunum ber að nota eftirfarandi framsetningu til þess að uppfylla þá skyldu sína að skila skýrslum til framkvæmdastjórnarinnar samkvæmt reglugerðum um hópundanþágur sem hafa verið samþykktar á grundvelli reglugerðar ráðsins (EB) nr. 994/98.

Einnig skal skila skýrslunum í tölvutæku formi.

Upplýsingar sem krafist er fyrir öll aðstoðarkerfi sem falla undir reglugerðir um hópundanþágu skv. 1. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 994/98

1.     Heiti aðstoðarkerfis

2.     Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar um undanþágur sem við á

3.     Útgjöld

    Leggja skal fram sundurliðaðar tölur vegna hverrar tegundar aðstoðar innan aðstoðarkerfis eða stakrar aðstoðar (t.d. styrks, hagstæðra lána o.s.frv.). Fjárhæðir skulu tilgreindar í evrum eða í innlendum gjaldmiðli ef við á. Þegar um útgjöld vegna skatta er að ræða verður að tilgreina árlegt skattatap. Ef nákvæm tala liggur ekki fyrir má áætla slíkt tap.

    Gefa skal upp útgjaldatölur samkvæmt eftirfarandi:

    Tilgreina skal sérstaklega tölur fyrir hverja tegund aðstoðar innan aðstoðarkerfisins (t.d. styrk, hagstæð lán o.s.frv.) fyrir árið sem um er að ræða:

    3.1.         Fjárhæðir skuldbindinga, (áætlað) skattatap eða annar tekjumissir, gögn um ábyrgðir o.s.frv. vegna nýrra verkefna sem njóta aðstoðar. Að því er varðar ábyrgðarkerfi skal tilgreina heildarfjárhæð nýrra ábyrgða sem hafa verið gefnar út.

    3.2.         Beinar greiðslur, (áætlað) skattatap eða annar tekjumissir, gögn um ábyrgðir o.s.frv. vegna nýrra og yfirstandandi verkefna. Að því er varðar ábyrgðarkerfi skal tilgreina eftirfarandi: heildarfjárhæð útistandandi ábyrgða, iðgjaldatekjur, endurgreiðslur, tryggingagreiðslur, rekstrarniðurstöður kerfisins á því ári sem um er að ræða.

    3.3.         Fjöldi nýrra verkefna sem njóta aðstoðar.

    3.4.         Áætlaður heildarfjöldi starfa sem skapast eða er viðhaldið með nýjum verkefnum (ef við á).

    3.5.         Áætluð heildarfjárhæð fjárfestinga þar sem aðstoð er veitt með nýjum verkefnum.

    3.6.         Skipting fjárhæða eftir svæðum skv. lið 3.1, annaðhvort eftir svæðum, sem eru skilgreind sem 1. flokkur 2. stig eða lægra í flokkun hagskýrslusvæða (NUTS 1 ), eða eftir svæðum skv. a-lið 3. mgr. 87. gr., c-lið 3. mgr. 87. gr. og svæðum sem njóta ekki aðstoðar.

    3.7.         Skiptingu fjárhæða eftir þáttum samkvæmt lið 3.1 eftir starfsgreinum styrkþega (ef um fleiri en eina starfsgrein er að ræða skal tilgreina hlut hverrar fyrir sig):
                —    landbúnaður,
                —    fiskveiðar og eldi og ræktun í sjó og vatni,
                —    kolavinnsla,
                —    framleiðsla,
                    þ.m.t.:
                        stáliðnaður
                        skipasmíði
                        syntetískar trefjar
                        vélknúin ökutæki
                        önnur framleiðsla (tilgreinið)
                —    þjónusta,
                    þ.m.t.:
                        þjónustustarfsemi í sjóflutningum
                        önnur flutningaþjónusta
                        fjármálaþjónusta
                        önnur þjónusta (tilgreinið)
                —    aðrar starfsgreinar (tilgreinið).

4.     Aðrar upplýsingar og athugasemdir


Fylgiskjal III.


REGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (EB) nr. 69/2001

frá 12. janúar 2001

um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart lágmarksaðstoð

FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins,

með hliðsjón af reglugerð ráðsins (EB) nr. 994/98 frá 7. maí 1998 um beitingu 92. og 93. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins um tiltekna flokka láréttrar ríkisaðstoðar ( 1 ), einkum 2. mgr.,

að birtum drögum að þessari reglugerð ( 2 ),

að höfðu samráði við ráðgjafarnefndina um ríkisaðstoð,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Með reglugerð (EB) nr. 994/98 er framkvæmdastjórninni heimilað að setja reglugerð þar sem mörk fyrir aðstoðarráðstafanir eru ákveðin og ráðstafanir undir þeim mörkum teljast ekki standast allar viðmiðanirnar í 1. mgr. 87. gr. sáttmálans og falla því ekki undir málsmeðferð við tilkynningar sem kveðið er á um í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans.

     2)      Framkvæmdastjórnin hefur beitt 87. og 88. gr. sáttmálans og einkum skýrt, með allmörgum ákvörðunum, hugtakið aðstoð í skilningi 1. mgr. 87. gr. sáttmálans. Framkvæmdastjórnin hefur einnig lýst yfir stefnu sinni að því er varðar efri mörk lágmarksaðstoðar, sem gert er ráð fyrir að ekki verði farið yfir við beitingu 1. mgr. 87. gr., nú síðast í orðsendingu varðandi lágmarksregluna um ríkisaðstoð ( 3 ). Í ljósi þessarar reynslu og með það að markmiði að auka gagnsæi og réttaröryggi er rétt að mælt verði fyrir um lágmarksregluna í reglugerð.

     3)      Í ljósi sérreglna, sem er beitt í starfsgreinunum landbúnaði, fiskveiðum, eldi og ræktun í sjó og vatni og flutningum, og þeirrar áhættu að jafnvel lítil aðstoð gæti uppfyllt viðmiðanirnar í 1. mgr. 87. gr. sáttmálans innan þessara starfsgreina, skal þessi reglugerð ekki gilda um þessar starfsgreinar.

     4)      Samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um styrki og jöfnunarráðstafanir ( 4 ) skal ekki veita undanþágu í þessari reglugerð varðandi aðstoð við útflutning eða aðstoð sem veitir innlendum vörum forgang fram yfir innfluttar vörur. Aðstoð, sem er veitt vegna þátttöku í kaupstefnum eða vegna rannsókna eða ráðgjafarþjónustu sem er nauðsynleg til að setja nýja eða eldri framleiðsluvöru á nýjan markað, telst að jafnaði ekki vera aðstoð við útflutning.

     5)      Í ljósi reynslu framkvæmdastjórnarinnar er unnt að færa að því rök að aðstoð, sem fer ekki yfir 1 000 000 evrur á þriggja ára tímabili, hafi ekki áhrif á viðskipti milli aðildarríkjanna og/eða raski ekki samkeppni eða valdi hættu á samkeppnisröskun og falli því ekki undir 1. mgr. 87. gr. sáttmálans. Umrætt þriggja ára tímabil er breytilegt svo að við hverja nýja veitingu lágmarksaðstoðar þarf að ákvarða heildarfjárhæð lágmarksaðstoðar sem hefur verið veitt á þremur næstliðnum árum. Líta skal svo á að lágmarksaðstoð sé veitt á þeim tíma sem rétthafi fær lagalegan rétt til slíkrar aðstoðar. Lágmarksreglan hefur ekki áhrif á möguleika fyrirtækja á að fá aðra ríkisaðstoð, sem framkvæmdastjórnin heimilar eða sem fellur undir reglugerð um hópundanþágur, einnig fyrir sama verkefni.

     6)      Til að tryggja gagnsæi, jafna meðferð og rétta beitingu efri marka um lágmarksaðstoð þurfa aðildarríkin að beita sömu aðferð við útreikninga. Til að auðvelda þennan útreikning, og í samræmi við núgildandi venju við beitingu reglunnar um lágmarksaðstoð, er rétt að fjárhæðir, sem veitt er til aðstoðar, sem eru ekki í formi úthlutunar í reiðufé, séu umreiknaðar yfir í jafngildi brúttófjárhæðarinnar sem er veitt til aðstoðar. Við útreikning á styrkígildi aðstoðar, sem skipta má í nokkrar greiðslur, og útreikning á aðstoð í formi hagstæðra lána er nauðsynlegt að nota markaðsvexti sem eru í gildi þegar lánið er veitt. Til að tryggja samræmda og einfalda beitingu reglna um ríkisaðstoð skal líta svo á að markaðsvextir séu viðmiðunarvextir að því er varðar þessa reglugerð, að því tilskildu að venjuleg trygging sé sett fyrir hagstæðum lánum og hafi ekki í för með sér óeðlilega áhættu. Viðmiðunarvextir skulu vera í samræmi við það sem framkvæmdastjórnin ákveður með ákveðnu millibili á grundvelli hlutlægra viðmiðana og er birt í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna og á Netinu.

     7)      Framkvæmdastjórninni ber skylda til að tryggja að reglur um ríkisaðstoð séu virtar og einkum að aðstoðin, sem er veitt samkvæmt reglum um lágmarksaðstoð, sé í samræmi við skilyrðin sem þar eru sett. Í samræmi við meginregluna um samstarf, sem mælt er fyrir um í 10. gr. sáttmálans, skulu aðildarríkin auðvelda framkvæmd þessa verkefnis með því að koma á fót nauðsynlegu kerfi til að tryggja að heildarfjárhæð, sem veitt er til aðstoðar sama styrkþega samkvæmt reglunni um lágmarksaðstoð, fari ekki yfir efri mörkin, sem eru 1 000 000 evrur, á þriggja ára tímabili. Þess vegna er rétt að aðildarríkin greini viðkomandi fyrirtæki frá því að um lágmarksaðstoð sé að ræða þegar þau veita slíka aðstoð, að þau fái allar upplýsingar um aðra lágmarksaðstoð sem fengist hefur á síðustu þremur árum og gæti þess vandlega að ekki sé farið yfir efri mörk lágmarksaðstoðar með nýju lágmarksaðstoðinni. Einnig má tryggja það, með því að halda miðlæga skrá, að efri mörkin séu virt.

     8)      Með hliðsjón af reynslu framkvæmdastjórnarinnar, einkum því hve oft almennt reynist nauðsynlegt að endurskoða stefnu um ríkisaðstoð, er rétt að takmarka gildistíma þessarar reglugerðar. Falli þessi reglugerð úr gildi án þess að gildistíminn sé framlengdur skulu aðildarríkin fá sex mánaða aðlögunartíma með tilliti til lágmarksaðstoðarkerfa sem falla undir þessa reglugerð.

SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

1. gr.

Gildissvið

Þessi reglugerð gildir um aðstoð sem er veitt fyrirtækjum í öllum starfsgreinum nema:

a)      flutningageiranum og starfsemi sem tengist framleiðslu, vinnslu eða markaðssetningu vara sem eru skráðar í I. viðauka við sáttmálann;

b)      aðstoð við starfsemi sem tengist útflutningi, einkum aðstoð sem tengist beint útflutningsmagni, stofnun og rekstri dreifingarnets eða öðrum tilfallandi útgjöldum í tengslum við útflutning;

c)      aðstoð sem er skilyrt þannig að innlendar vörur séu teknar fram yfir innfluttar vörur.

2. gr.

Lágmarksaðstoð

1.     Líta skal svo á að aðstoðarráðstafanir, sem uppfylla skilyrðin sem mælt er fyrir um í 2. og 3. mgr., standist ekki allar viðmiðanirnar í 1. mgr. 87. gr. sáttmálans og falla þær því ekki undir tilkynningaskylduna sem um getur í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans.

2.     Heildarfjárhæð lágmarksaðstoðar, sem er veitt einu fyrirtæki, skal ekki fara yfir 1 000 000 evrur á þriggja ára tímabili. Þessi efri mörk skulu gilda óháð formi og markmiðum aðstoðarinnar.

3.     Efri mörkin, sem um getur í 2. mgr., skulu tilgreind sem úthlutun í reiðufé. Allar tölur, sem eru notaðar, skulu vera brúttótölur, þ.e. án frádráttar vegna staðgreiðslu skatta. Þegar aðstoð er veitt í öðru formi en sem styrkur skal fjárhæðin, sem veitt er til aðstoðarinnar, jafngilda brúttóaðstoð í formi styrks.

Aðstoð, sem er greidd með nokkrum afborgunum, skal reiknuð til núvirðis á þeim tíma þegar hún er veitt. Vextirnir, sem nota skal við núvirðisreikning og til að reikna út fjárhæðina sem er veitt til aðstoðarinnar í formi hagstæðs láns, skulu vera gildandi viðmiðunarvextir á þeim tíma sem styrkurinn er veittur.

3. gr.

Uppsöfnun og eftirlit

1.     Þegar aðildarríki veitir fyrirtæki lágmarksaðstoð skal það upplýsa fyrirtækið um að aðstoðin sé lágmarksaðstoð og fá hjá fyrirtækinu allar upplýsingar um aðra lágmarksaðstoð sem það hefur fengið á næstliðnum þremur árum.

Aðildarríkin mega aðeins veita nýja lágmarksaðstoð eftir að hafa gengið úr skugga um að það hækki ekki heildarfjárhæð lágmarksaðstoðar, sem fengist hefur á viðkomandi þriggja ára tímabili, þannig að aðstoðin fari yfir efri mörkin sem sett eru fram í 2. mgr. 2. gr.

2.     Ef aðildarríki hefur komið upp miðlægri skrá yfir lágmarksaðstoð, sem í eru tæmandi upplýsingar um alla lágmarksaðstoð sem yfirvöld í því aðildarríki hafa veitt, gilda kröfurnar í fyrstu undirgrein 1. mgr. ekki lengur þegar skráin nær yfir þriggja ára tímabil.

3.     Aðildarríkin skulu skrá og taka saman allar upplýsingar varðandi beitingu þessarar reglugerðar. Í slíkum skrám skulu koma fram allar nauðsynlegar upplýsingar til að sýna fram á að skilyrðin í þessari reglugerð séu uppfyllt. Halda skal skrár varðandi staka lágmarksaðstoð í 10 ár frá þeim degi sem hún er veitt og, að því er varðar aðstoðarkerfi lágmarksaðstoðar, í 10 ár frá þeim degi sem síðasta staka aðstoðin er veitt samkvæmt slíku kerfi. Viðkomandi aðildarríki skal láta framkvæmdastjórninni í té, samkvæmt skriflegri beiðni og innan 20 virkra daga eða lengri tíma, sem er tilgreindur í beiðninni, allar upplýsingar sem framkvæmdastjórnin telur nauðsynlegt að hafa til að geta metið hvort skilyrðin í þessari reglugerð hafi verið uppfyllt, einkum heildarfjárhæð þeirrar lágmarksaðstoðar sem fyrirtæki hefur fengið.

4. gr.

Gildistaka og gildistími

1.      Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

Hún skal gilda til 31. desember 2006.

2.     Við lok gildistíma þessarar reglugerðar skulu ákvæðin um lágmarksaðstoðarkerfi, sem falla undir þessa reglugerð, gilda áfram í aðlögunartíma sem er sex mánuðir.

Á aðlögunartímanum má beita þessum kerfum áfram samkvæmt skilyrðum þessarar reglugerðar.

Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.

Gjört í Brussel 12. janúar 2001.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,

Mario MONTI

framkvæmdastjóri.




Fylgiskjal IV.


REGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (EB) nr. 70/2001

frá 12. janúar 2001

um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja

FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins,

með hliðsjón af reglugerð ráðsins (EB) nr. 994/98 frá 7. maí 1998 um beitingu 92. og 93. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins um tiltekna flokka láréttrar ríkisaðstoðar ( 1 ), einkum i-lið a-liðar og b-lið 1. mgr. 1. gr.,

að birtum drögum að þessari reglugerð ( 2 ),

að höfðu samráði við ráðgjafarnefndina um ríkisaðstoð,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Í reglugerð (EB) nr. 994/98 er framkvæmdastjórninni heimilað að lýsa því yfir, í samræmi við 87. gr. sáttmálans, að við tilteknar aðstæður sé aðstoð við lítil og meðalstór fyrirtæki samrýmanleg sameiginlega markaðnum og falli ekki undir ákvæði 3. mgr. 88. gr. sáttmálans um tilkynningaskyldu.

     2)      Í reglugerð (EB) nr. 994/98 er framkvæmdastjórninni einnig heimilað að lýsa því yfir, í samræmi við 87. gr. sáttmálans, að aðstoð, sem er í samræmi við kortið yfir veitingu svæðisbundinnar aðstoðar sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt fyrir hvert aðildarríki, sé samrýmanleg sameiginlega markaðnum og falli ekki undir ákvæði 3. mgr. 88. gr. sáttmálans um tilkynningaskyldu.

     3)      Framkvæmdastjórnin hefur, í mörgum ákvörðunum, beitt 87. og 88. gr. sáttmálans gagnvart litlum og meðalstórum fyrirtækjum, bæði innan og utan svæða sem njóta aðstoðar, og hefur einnig sett fram stefnu sína, nú síðast í viðmiðunarreglum bandalagsins um ríkisaðstoð við lítil og meðalstór fyrirtæki ( 3 ) og í viðmiðunarreglum um innlenda, svæðisbundna aðstoð ( 4 ). Til að tryggja skilvirkt eftirlit og til að einfalda stjórnun án þess að draga úr eftirliti framkvæmdastjórnarinnar er rétt, í ljósi þess að framkvæmdastjórnin hefur mikla reynslu af að beita þessum greinum gagnvart litlum og meðalstórum fyrirtækjum og í ljósi hinna almennu texta er varða lítil og meðalstór fyrirtæki og svæðisbundna aðstoð, sem framkvæmdastjórnin gefur út á grundvelli ákvæða þeirra, að hún nýti sér það vald sem henni er falið með reglugerð (EB) nr. 994/98.

     4)      Þessi reglugerð hefur ekki áhrif á möguleika aðildarríkjanna á því að tilkynna um aðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Framkvæmdastjórnin metur slíkar tilkynningar, einkum með hliðsjón af viðmiðununum sem koma fram í þessari reglugerð. Afnema ber viðmiðunarreglur um lítil og meðalstór fyrirtæki frá og með gildistökudegi þessarar reglugerðar þar eð efni þeirra er tekið upp í þessari reglugerð.

     5)      Lítil og meðalstór fyrirtæki gegna mikilvægu hlutverki við að skapa ný störf og stuðla almennt að félagslegum stöðugleika og drifkrafti í efnahagslífinu. Þróun þeirra kann þó að takmarkast af ófullkomleika markaðarins. Þau eiga oft í erfiðleikum með að fá fjármagn og lán vegna áhættutregðu tiltekinna fjármálamarkaða og þess hve takmarkaðar tryggingar fyrirtækin geta lagt fram. Einnig getur takmarkað fjármagn þrengt aðgang þeirra að upplýsingum, einkum að því er varðar nýja tækni og möguleika á nýjum mörkuðum. Með tilliti til þessara atriða skal tilgangur aðstoðarinnar, sem nýtur undanþágu samkvæmt þessari reglugerð, vera að auðvelda þróun efnahagsstarfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja, að því tilskildu að slík aðstoð hafi ekki óhagstæð áhrif á verslun í þeim mæli að það stríði gegn hagsmunum almennings.

     6)      Samkvæmt þessari reglugerð skal veita undanþágu fyrir alla aðstoð, þar sem allar viðeigandi kröfur í þessari reglugerð eru uppfylltar, og fyrir öll aðstoðarkerfi, að því tilskildu að aðstoðin, sem hægt er að veita samkvæmt slíku kerfi, uppfylli allar viðeigandi kröfur samkvæmt reglugerðinni. Til að tryggja skilvirkt eftirlit og til að einfalda stjórnun án þess að draga úr eftirliti framkvæmdastjórnarinnar skal skýr tilvísun í þessa reglugerð fylgja með aðstoð og stökum styrkveitingum sem eru ekki hluti af aðstoðarkerfi.

     7)      Þessi reglugerð skal ekki hafa áhrif á beitingu sérreglna í reglugerðum og tilskipunum um ríkisaðstoð við tilteknar starfsgreinar, svo sem gildandi reglur um skipasmíði, og hún skal ekki gilda um landbúnað, fiskveiðar og eldi og ræktun í sjó og vatni.

     8)      Til að útiloka mismun sem gæti valdið röskun á samkeppni og til að auðvelda samræmingu milli mismunandi framtaksverkefna bandalagsins og einstakra landa, sem snertir lítil og meðalstór fyrirtæki, svo og vegna stjórnunarlegs skýrleika og réttaröryggis skal skilgreiningin á „litlum og meðalstórum fyrirtækjum“, sem er notuð í þessari reglugerð, vera sú sama og mælt er fyrir um í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 96/280/EB frá 3. apríl 1996 um skilgreiningu á litlum og meðalstórum fyrirtækjum ( 5 ). Sú skilgreining var einnig notuð í viðmiðunarreglum bandalagsins um ríkisaðstoð við lítil og meðalstór fyrirtæki ( 6 ).

     9)      Í samræmi við fasta venju framkvæmdastjórnarinnar og í þeim tilgangi að tryggja betur að aðstoð sé í réttum hlutföllum og takmarkist við nauðsynlega fjárhæð skal setja mörkin fyrir umfang aðstoðar í réttu hlutfalli við styrkhæfan kostnað fremur en sem hámarksfjárhæð sem er veitt til aðstoðar.

     10)      Til að ákvarða hvort aðstoð sé samrýmanleg sameiginlega markaðnum samkvæmt þessari reglugerð er nauðsynlegt að taka tillit til umfangs aðstoðarinnar og þar með fjárhæðarinnar sem er veitt til aðstoðar og tilgreind sem styrkígildi. Við útreikning á styrkígildi aðstoðar, sem greiða má í nokkrum afborgunum, og útreikning á aðstoð í formi hagstæðra lána, er nauðsynlegt að nota markaðsvexti sem eru í gildi þegar styrkurinn er veittur. Til að tryggja samræmda og einfalda beitingu reglna um ríkisaðstoð skal líta svo á að markaðsvextir, að því er varðar þessa reglugerð, séu viðmiðunarvextir að því tilskildu að sett sé venjuleg trygging fyrir hagstæðum lánum og að þau hafi ekki í för með sér óeðlilega áhættu. Viðmiðunarvextir skulu vera í samræmi við það sem framkvæmdastjórnin ákveður með ákveðnu millibili á grundvelli hlutlægra viðmiðana og er birt í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna og á Netinu.

     11)      Með hliðsjón af muninum sem er á litlum fyrirtækjum og meðalstórum fyrirtækjum skal setja mismunandi efri mörk fyrir umfang aðstoðar til lítilla fyrirtækja og meðalstórra fyrirtækja.

     12)      Í ljósi reynslu framkvæmdastjórnarinnar er rétt að setja efri mörk fyrir umfang aðstoðar á þann hátt að jafnvægi sé á milli þess markmiðs að halda samkeppnisröskun í starfsgreininni, sem nýtur aðstoðar, í lágmarki og markmiðsins að auðvelda þróun efnahagsstarfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

     13)      Rétt er að setja frekari skilyrði sem þarf að uppfylla í tengslum við öll aðstoðarkerfi og staka aðstoð sem nýtur undanþágu samkvæmt þessari reglugerð. Samkvæmt c-lið 3. mgr. 87. gr. sáttmálans skal slík aðstoð að jafnaði hafa þann tilgang einan að draga, samfellt eða í áföngum, úr rekstrarkostnaði sem styrkþegi þarf venjulega að bera og skal hún vera í réttu hlutfalli við þann vanda sem þarf að leysa til að tryggja félagshagfræðilegan ávinning sem telst vera hagur bandalagsins. Þess vegna er rétt að takmarka gildissvið þessarar reglugerðar við aðstoð sem er veitt í tengslum við ákveðnar efnislegar og óefnislegar fjárfestingar, ákveðna þjónustu sem er veitt styrkþegum og aðra tiltekna starfsemi. Vegna umframgetu bandalagsins í flutningageiranum, þegar frá eru talin járnbrautarfarartæki, skulu flutningatæki og -búnaður ekki talin með styrkhæfum fjárfestingarkostnaði fyrirtækja sem hafa mestu efnahagsumsvif sín í flutningageiranum.

     14)      Með þessari reglugerð skal aðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja njóta undanþágu, án tillits til staðsetningar. Fjárfesting og ný störf geta stuðlað að efnahagsþróun á illa settum svæðum í bandalaginu. Lítil og meðalstór fyrirtæki á þessum svæðum eiga í vanda bæði vegna erfiðleika við uppbyggingu vegna staðsetningar og vegna smæðar. Því er rétt að hærri efri mörk komi litlum og meðalstórum fyrirtækjum til góða á svæðum sem njóta aðstoðar.

     15)      Til að auka ekki hlut fjármagnsþáttarins í fjárfestingu á kostnað verkþáttarins skal mæla fyrir um ráðstafanir til að unnt sé að meta aðstoð við fjárfestingu á grundvelli annaðhvort fjárfestingarkostnaðar eða kostnaðar vegna nýráðninga í tengslum við framkvæmd fjárfestingarverkefnisins.

     16)      Samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um styrki og jöfnunarráðstafanir ( 7 ) skal ekki veita undanþágu í þessari reglugerð varðandi aðstoð við útflutning eða aðstoð sem veitir innlendum vörum forgang fram yfir innfluttar vörur. Aðstoð, sem er veitt vegna þátttöku í kaupstefnum eða vegna rannsókna eða ráðgjafarþjónustu sem er nauðsynleg til að setja nýja eða eldri framleiðsluvöru á nýjan markað, telst að jafnaði ekki vera aðstoð við útflutning.

     17)      Með tilliti til þess að jafnvægi þarf að vera á milli þess markmiðs að halda samkeppnisröskun í lágmarki í starfsgreinum, sem njóta aðstoðar, og markmiða þessarar reglugerðar ætti stök aðstoð, sem er yfir fastri hámarksfjárhæð, ekki að njóta undanþágu, hvort sem hún er veitt samkvæmt aðstoðarkerfi sem nýtur undanþágu samkvæmt þessari reglugerð eða ekki.

     18)      Til að tryggja að aðstoðarinnar sé þörf og hún hafi í för með sér hvata til að þróa tiltekna starfsemi er rétt að starfsemi, sem styrkþegi rekur nú þegar við markaðsaðstæður eingöngu, njóti ekki undanþágu samkvæmt þessari reglugerð.

     19)      Undanþága samkvæmt þessari reglugerð skal ekki taka til aðstoðar sem leggst við aðra ríkisaðstoð, t.d. aðstoð sem innlend yfirvöld eða svæða- og staðaryfirvöld veita, eða bandalagsaðstoð í tengslum við sama styrkhæfa kostnaðinn ef slík uppsöfnun fer yfir efri mörkin sem eru ákveðin í þessari reglugerð.

     20)      Til að tryggja gagnsæi og skilvirkt eftirlit í samræmi við 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 994/98 er rétt að tekin verði upp stöðluð framsetning þar sem aðildarríkin láta framkvæmdastjórninni í té upplýsingar í stuttu máli til birtingar í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna í hvert sinn sem aðstoðarkerfi er hrundið í framkvæmd eða stök aðstoð utan slíkra kerfa veitt samkvæmt þessari reglugerð. Af sömu ástæðu er rétt að setja reglur um skrárnar sem aðildarríkin eiga að halda varðandi aðstoðina sem nýtur undanþágu samkvæmt þessari reglugerð. Að því er varðar árlegu skýrsluna, sem aðildarríkjunum ber að leggja fram hjá framkvæmdastjórninni, er rétt að framkvæmdastjórnin setji fram kröfur sínar varðandi hana, þ.m.t. upplýsingar í tölvutæku formi þar eð aðgangur að nauðsynlegri tækni er almennt auðveldur.

     21)      Með tilliti til reynslu framkvæmdastjórnarinnar á þessu sviði, einkum af því að yfirleitt reynist nauðsynlegt að endurskoða stefnu um ríkisaðstoð, er rétt að takmarka gildistíma þessarar reglugerðar. Falli þessi reglugerð úr gildi án þess að gildistíminn sé framlengdur skulu aðstoðarkerfi, sem þegar hafa fengið undanþágu samkvæmt þessari reglugerð, vera áfram undanþegin í sex mánuði.

SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

1. gr.

Gildissvið

1.     Þessi reglugerð gildir um aðstoð sem er veitt litlum og meðalstórum fyrirtækjum í öllum starfsgreinum en hefur ekki áhrif á beitingu sérstakra reglugerða eða tilskipana bandalagsins samkvæmt sáttmála EB sem gilda um ríkisaðstoð í sérstökum starfsgreinum, hvort sem þær eru takmarkandi í meira eða minna mæli en þessi reglugerð.

2.     Þessi reglugerð gildir ekki um:

a)      starfsemi sem tengist framleiðslu, vinnslu eða markaðssetningu vara sem eru skráðar í I. viðauka við sáttmálann;

b)      aðstoð við starfsemi sem tengist útflutningi, einkum aðstoð sem tengist beint útflutningsmagni, stofnun og rekstri dreifingarnets eða öðrum tilfallandi útgjöldum í tengslum við útflutning;

c)      aðstoð sem er skilyrt þannig að innlendar vörur séu teknar fram yfir innfluttar vörur.

2. gr.

Skilgreiningar

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a)      „aðstoð“: allar ráðstafanir sem samræmast viðmiðunum sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 87. gr. sáttmálans;

b)      „lítil og meðalstór fyrirtæki“: fyrirtæki sem eru skilgreind í I. viðauka;

c)      „fjárfesting í efnislegum eignum“: fjárfesting í efnislegum fastafjármunum í tengslum við nýja starfsstöð, útvíkkun starfsstöðvar sem fyrir er eða að hafin er starfsemi sem felur í sér grundvallarbreytingar á vöru eða í framleiðsluferli starfandi fyrirtækis (einkum með hagræðingu, endurskipulagningu eða nútímavæðingu). Fjárfesting í fastafjármunum, sem fer fram í formi yfirtöku starfsstöðvar, sem hefur verið lokað eða myndi hafa verið lokað hefði hún ekki verið keypt, skal einnig teljast efnisleg fjárfesting;

d)      „fjárfesting í óefnislegum eignum“: fjárfesting í yfirfærslu á tækni með öflun einkaleyfa, leyfa, verkþekkingar eða tækniþekkingar án einkaleyfa;
e)      „umfang aðstoðar, brúttó“: fjárhæðin, sem er veitt til aðstoðar, tilgreind sem hlutfall af styrkhæfum kostnaði verkefnisins. Allar tölur, sem eru notaðar, skulu tilgreindar án frádráttar vegna staðgreiðslu skatta. Þegar aðstoð er veitt í öðru formi en sem styrkur skal fjárhæðin, sem er veitt til aðstoðarinnar, jafngilda aðstoð í formi styrks. Aðstoð, sem er greidd með nokkrum afborgunum, skal reiknuð til núvirðis þegar hún er veitt. Vextirnir, sem nota skal við núvirðisreikning og til að reikna út fjárhæðina sem er veitt til aðstoðar í formi hagstæðs láns, skulu vera gildandi viðmiðunarvextir á þeim tíma sem lánið er veitt;
f)      „umfang aðstoðar, nettó“: fjárhæðin, sem er veitt til aðstoðar, eftir skatta, tilgreind sem hlutfall af styrkhæfum kostnaði verkefnisins;

g)      „fjöldi starfsmanna“: fjöldi starfseininga á ári, þ.e. fjöldi einstaklinga í fullu starfi á einu ári þar sem hlutastörf og árstíðabundin störf reiknast sem brot af starfseiningu.

3. gr.

Skilyrði fyrir undanþágu

1.     Stök aðstoð, sem er ekki hluti af neinu aðstoðarkerfi og uppfyllir öll skilyrði þessarar reglugerðar, telst samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningaskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans að því tilskildu að henni fylgi skýr tilvísun í þessa reglugerð þar sem fram kemur titill hennar og tilvísun til birtingar hennar í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

2.     Aðstoðarkerfi, sem uppfylla öll skilyrði þessarar reglugerðar, teljast samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skulu vera undanþegin tilkynningaskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans að því tilskildu:

a)      að aðstoð, sem unnt er að veita samkvæmt slíku kerfi, uppfylli öll skilyrði þessarar reglugerðar;

b)      að kerfinu fylgi skýr tilvísun í þessa reglugerð þar sem fram kemur titill hennar og tilvísun til birtingar hennar í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

3.     Aðstoð, sem er veitt sem hluti af kerfunum sem um getur í 2. mgr., telst samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningaskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans að því tilskildu að aðstoðin, sem er veitt, uppfylli algerlega öll skilyrði þessarar reglugerðar.

4. gr.

Fjárfesting

1.     Aðstoð vegna fjárfestingar í efnislegum og óefnislegum eignum, innan eða utan bandalagsins, telst samrýmast sameiginlega markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. sáttmálans og skal vera undanþegin tilkynningaskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans ef hún uppfyllir skilyrði 2. til 6. mgr.

2.     Umfang aðstoðar, brúttó, skal ekki fara yfir:

a)      15% þegar um lítil fyrirtæki er að ræða;

b)      7,5% þegar um meðalstór fyrirtæki er að ræða.

3.     Þegar fjárfest er á svæðum sem eiga rétt á svæðisbundinni aðstoð skal umfang aðstoðar ekki fara yfir efri mörk svæðisbundinnar aðstoðar í formi fjárfestinga, sem er ákvörðuð á kortinu sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt fyrir hvert aðildarríki, um meira en:

a)      10 prósentustig á svæðum sem falla undir c-lið 3. mgr. 87. gr., að því tilskildu að heildarumfang nettóaðstoðar fari ekki yfir 30%; eða

b)      15 prósentustig, brúttó, á svæðum sem falla undir c-lið 3. mgr. 87. gr., að því tilskildu að heildarumfang nettóaðstoðar fari ekki yfir 75%.

Efri mörk svæðisbundinnar aðstoðar skulu því aðeins gilda að aðstoðin sé veitt með þeim skilyrðum að fjárfestingin standi yfir í a.m.k. fimm ár á svæðinu þar sem styrkurinn er veittur og að framlag styrkþega til fjármögnunar hennar sé a.m.k. 25%.

4.     Efri mörkin, sem eru ákveðin í 2. og 3. gr., skulu gilda um umfang aðstoðarinnar sem er reiknuð annaðhvort sem hlutfall af styrkhæfum kostnaði við fjárfestinguna eða sem hlutfall af launakostnaði vegna þeirra starfa sem skapast við framkvæmd fjárfestingarinnar (aðstoð vegna nýrra starfa), eða sambland af þessu, að því tilskildu að aðstoðin fari ekki yfir þá fjárhæð sem hærri er af útreikningi á hvoru um sig.

5.     Ef aðstoðin er reiknuð á grundvelli kostnaðar við fjárfestinguna skal styrkhæfur kostnaður við efnislega fjárfestingu vera kostnaður við fjárfestinguna vegna lands, bygginga, véla og búnaðar. Í flutningageiranum, þegar frá eru taldir járnbrautarvagnar, skulu flutningatæki og -búnaður ekki talin með í styrkhæfum kostnaði. Styrkhæfur kostnaður við efnislega fjárfestingu skal vera kostnaður við tækniöflun.

6.     Ef aðstoðin er reiknuð á grundvelli þess að ný störf skapast skal fjárhæðin, sem veitt er til aðstoðarinnar, tilgreind sem hlutfall af launakostnaði á tveggja ára tímabili vegna starfa sem skapast með eftirfarandi skilyrðum:

a)      störf, sem skapast, skulu tengjast framkvæmd verkefnis um fjárfestingu í efnislegum eða óefnislegum eignum. Störf skulu skapast innan þriggja ára frá því að fjárfestingu lýkur;
b)      fjárfestingarverkefnið skal valda nettóaukningu í fjölda starfa í viðkomandi starfsstöð miðað við meðaltal 12 síðustu mánaða; og

c)      störf, sem skapast, skulu haldast í a.m.k. fimm ár.

5. gr.

Ráðgjöf og önnur þjónusta og starfsemi

Aðstoð við lítil og meðalstór fyrirtæki, sem uppfylla eftirfarandi skilyrði, telst vera samrýmanleg almenna markaðnum í skilningi 3. mgr. 87. gr. í sáttmálanum og skal vera undanþegin tilkynningaskyldunni í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans:

a)      þegar um er að ræða þjónustu sem utanaðkomandi ráðgjafar veita skal brúttóaðstoð ekki fara yfir 50% af kostnaði við slíka þjónustu. Þjónustan skal ekki vera samfelld eða reglubundin starfsemi og ekki tengjast venjulegum rekstrarútgjöldum fyrirtækisins, svo sem ráðgjöf í skattamálum, reglubundinni lögfræðiþjónustu eða auglýsingum;

b)      þegar um er að ræða þátttöku í kaupstefnum og sýningum skal brúttóaðstoð ekki fara yfir 50% af aukakostnaði vegna leigu, uppsetningar og rekstrar sýningaraðstöðu. Þessi undanþága skal aðeins gilda um fyrstu þátttöku fyrirtækis í tiltekinni kaupstefnu eða sýningu.

6. gr.

Veiting stakrar aðstoðar í miklum mæli

Stök aðstoð, sem uppfyllir skilyrði fyrir eitt af eftirfarandi mörkum, skal ekki njóta undanþágu samkvæmt þessari reglugerð:

a)      heildarfjárhæð styrkhæfs kostnaðar við verkefnið í heild er a.m.k. 25 000 000 evrur; og

       i)          umfang brúttóaðstoðarinnar á svæðum, sem eiga ekki rétt á svæðisbundinni aðstoð, er a.m.k. 50% af efri mörkunum sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 4. gr.,

       ii)      umfang nettóaðstoðarinnar á svæðum, sem eiga rétt á svæðisbundinni aðstoð, er a.m.k. 50% af efri mörkunum sem ákveðin eru á korti yfir svæðisbundna aðstoð á viðkomandi svæði, eða

b)      heildarfjárhæð brúttóaðstoðar er a.m.k. 15 000 000 evrur.

7. gr.

Forsendur fyrir aðstoð

Aðstoð skal því aðeins njóta undanþágu samkvæmt þessari reglugerð að áður en vinna hefst við verkefnið sem nýtur aðstoðar:

—    hafi styrkþegi annaðhvort sótt um aðstoð til aðildarríkisins, eða

—    aðildarríkið hafi samþykkt lagaákvæði um lagalegan rétt til aðstoðar samkvæmt hlutlægum viðmiðunum og án frekari íhlutana af hálfu aðildarríkisins.

8. gr.

Uppsöfnun

1.     Efri mörk aðstoðar, sem eru ákveðin í 4., 5. og 6. gr., skulu gilda án tillits til þess hvort aðstoðin við verkefnið er eingöngu fjármögnuð af ríkinu eða hvort hún er fjármögnuð að hluta til af bandalaginu.

2.     Aðstoð, sem nýtur undanþágu samkvæmt þessari reglugerð, má ekki bætast við neina aðra ríkisaðstoð í skilningi 1. mgr. 87. gr. sáttmálans eða við aðra fjármögnun bandalagsins í tengslum við sama styrkhæfa kostnaðinn ef slík uppsöfnun leiðir til þess að umfang aðstoðar fer yfir mörkin sem eru ákveðin í þessari reglugerð.

9. gr.

Gagnsæi og eftirlit

1.     Við framkvæmd aðstoðarkerfis eða við veitingu stakrar aðstoðar utan slíks kerfis, sem nýtur undanþágu samkvæmt þessari reglugerð, skulu aðildarríkin senda framkvæmdastjórninni útdrátt úr upplýsingum innan 20 virkra daga varðandi slíkt aðstoðarkerfi eða staka aðstoð til birtingar í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna með þeirri framsetningu sem mælt er fyrir um í II. viðauka.

2.     Aðildarríkin skulu halda nákvæmar skrár yfir aðstoðarkerfi, sem hafa undanþágu samkvæmt þessari reglugerð, staka aðstoð, sem er veitt samkvæmt þessum kerfum, og staka aðstoð sem er utan allra núverandi aðstoðarkerfa og nýtur undanþágu samkvæmt þessari reglugerð. Í slíkum skrám skulu koma fram allar nauðsynlegar upplýsingar til að staðfesta að skilyrði fyrir undanþágu, eins og mælt er fyrir um í þessari reglugerð, séu uppfyllt, þ.m.t. upplýsingar um stöðu fyrirtækisins sem lítið eða meðalstórt fyrirtæki. Aðildarríkin skulu halda skrá yfir staka aðstoð í 10 ár frá þeim degi sem hún er veitt og, að því er varðar aðstoðarkerfi, í 10 ár frá þeim degi sem síðasta staka aðstoðin er veitt samkvæmt slíku kerfi. Viðkomandi aðildarríki skal láta framkvæmdastjórninni í té, samkvæmt skriflegri beiðni og innan 20 virkra daga eða lengri tíma, sem er tilgreindur í beiðninni, allar upplýsingar sem framkvæmdastjórnin telur nauðsynlegt að hafa til að geta metið hvort skilyrðin í þessari reglugerð hafi verið uppfyllt.

3.     Aðildarríkin skulu taka saman skýrslu um beitingu þessarar reglugerðar fyrir hvert heilt almanaksár eða hluta af því, sem þessi reglugerð gildir, í því formi sem mælt er fyrir um í III. viðauka og einnig í tölvutæku formi. Aðildarríkin skulu láta framkvæmdastjórninni í té slíka skýrslu eigi síðar en þremur mánuðum eftir að tímabilinu, sem fjallað er um í skýrslunni, lýkur.

10. gr.

Gildistaka og gildistími

1.     Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

Hún skal gilda til 31. desember 2006.

2.     Við lok gildistíma þessarar reglugerðar skulu aðstoðarkerfi, sem njóta undanþágu samkvæmt þessari reglugerð, vera áfram á undanþágu í sex mánaða aðlögunartíma.

Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.

Gjört í Brussel 12. janúar 2001.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,

Mario MONTI

framkvæmdastjóri.


I. VIÐAUKI

Skilgreining á litlum og meðalstórum fyrirtækjum

(útdráttur úr tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 96/280/EB frá 3. apríl 1996 um skilgreiningu á litlum og meðalstórum fyrirtækjum (Stjtíð. EB L 107, 30.4.1996, bls. 4))

„1. gr.

1.     Lítil og meðalstór fyrirtæki (SME) eru skilgreind sem fyrirtæki sem:
—    hafa færri en 250 starfsmenn, og
—    hafa annaðhvort,
    —    ársveltu, sem fer ekki yfir 40 milljón evrur, eða
    —    heildartala efnahagsreiknings fer ekki yfir 27 milljón evrur,
—    eru í samræmi við viðmiðunina fyrir óháð fyrirtæki sem skilgreind er í 3. mgr.

2.     Ef nauðsynlegt reynist að greina á milli lítilla og meðalstórra fyrirtækja eru lítil fyrirtæki skilgreind sem fyrirtæki sem:
—    hafa færri en 50 starfsmenn, og
—    hafa annaðhvort,
    —    ársveltu, sem fer ekki yfir 7 milljón evrur, eða
    —    heildartala efnahagsreiknings fer ekki yfir 5 milljón evrur,
—    eru í samræmi við viðmiðunina fyrir óháð fyrirtæki sem skilgreind er í 3. mgr.

3.     Fyrirtæki teljast vera óháð ef ekki er meira en 25% af fjármagni eða atkvæðisrétti þeirra í eigu eins fyrirtækis eða, eftir atvikum, í sameign margra fyrirtækja sem eru hvorki lítil né meðalstór fyrirtæki samkvæmt skilgreiningu. Fara má yfir þessi mörk í eftirfarandi tveimur tilvikum:
—    ef fyrirtækið er í eigu opinberra fjárfestingarfélaga, áhættufjármagnsfyrirtækja eða stofnanafjárfesta, að því tilskildu að þau stjórni ekki fyrirtækinu, hvorki einstaklingsbundið né sameiginlega,
—    ef fjármagnið dreifist á þann hátt að ekki sé mögulegt að ákvarða eignarhald á því og ef fyrirtækið lýsir því yfir að hægt sé með réttu að álykta að ekki séu meira en 25% þess í eigu eins fyrirtækis eða, eftir atvikum, í sameign margra fyrirtækja sem eru hvorki lítil né meðalstór fyrirtæki samkvæmt skilgreiningu.

4.     Við útreikning á mörkunum, sem um getur í 1. og 2. mgr., er því nauðsynlegt að leggja saman viðkomandi tölur varðandi fyrirtækið sem fær aðstoð og varðandi öll fyrirtækin sem það stjórnar, beint eða óbeint, gegnum eignarhald á 25% eða meira af fjármagni eða atkvæðisrétti.

5.     Ef nauðsynlegt reynist að greina örfyrirtæki frá öðrum litlum og meðalstórum fyrirtækjum eru þau skilgreind sem fyrirtæki sem hafa færri en 10 starfsmenn.

6.     Ef fyrirtæki fer yfir eða undir mörk um mannafla eða efri fjárhagsmörk á lokadegi efnahagsreiknings leiðir það því aðeins til þess að það öðlist eða glati þeirri stöðu að vera lítið/meðalstórt fyrirtæki, meðalstórt fyrirtæki, lítið fyrirtæki eða örfyrirtæki ef það endurtekur sig í tvö fjárhagsár samfleytt.

7.     Fjöldi starfsmanna samsvarar fjölda ársverka, þ.e. fjölda starfsmanna sem eru í fullu starfi á einu ári ásamt starfsmönnum í hlutastarfi og árstíðabundnu starfi sem reiknast sem brot af ársverkum. Nota skal síðasta, samþykkta uppgjörstímabil sem viðmiðunarár.

8.     Mörk fyrir veltu og heildartölu efnahagsreiknings miðast við síðasta, samþykkta 12 mánaða uppgjörstímabil. Þegar um er að ræða nýlega stofnuð fyrirtæki þar sem reikningar hafa enn ekki verið samþykktir skal ákvarða mörkin á grundvelli áreiðanlegs mats sem hefur farið fram á fjárhagsárinu.“


II. VIÐAUKI

Framsetning á samantekt upplýsinga sem skal leggja fram í hvert sinn sem aðstoðarkerfi, sem nýtur undanþágu samkvæmt þessari reglugerð, kemur til framkvæmda og í hvert sinn sem stök aðstoð, sem nýtur undanþágu samkvæmt þessari reglugerð, er veitt utan aðstoðarkerfa

Samantekt upplýsinga um ríkisaðstoð sem er veitt samkvæmt reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 70/2001
Samantekt upplýsinga sem tilgreina skal Skýringar
Aðildarríki
Svæði Tilgreina skal heiti svæðisins ef yfirvald utan svæðis veitir aðstoðina.
Heiti aðstoðarkerfisins eða fyrirtækisins sem fær staka aðstoð Tilgreina skal heiti aðstoðarkerfisins eða heiti þess sem fær aðstoðina ef um staka aðstoð er að ræða.
Í síðara tilvikinu er ekki nauðsynlegt að leggja fram ársskýrslu árið eftir.
Lagaákvæði Tilgreina skal nákvæmlega innlenda lagastoð fyrir aðstoðarkerfinu eða stöku aðstoðinni.
Áætluð ársútgjöld vegna kerfisins eða heildarfjárhæð stakrar aðstoðar sem fyrirtækinu er veitt Fjárhæðir skulu gefnar upp í evrum eða í innlendum gjaldmiðli ef við á.
Þegar um aðstoðarkerfi er að ræða:
skal tilgreina árlega heildarfjárhæð fjárveitingar eða fjárveitinga eða áætlað skattatap á ári vegna allra tegunda aðstoðar sem felast í kerfinu.
Þegar um staka úthlutun aðstoðar er að ræða:
skal tilgreina heildarfjárhæð aðstoðar/skattataps. Ef við á skal einnig tilgreina á hve mörg ár aðstoðin skiptist eða í hve mörg ár skattatap á sér stað.
Að því er varðar ábyrgðir skal tilgreina (hæstu) fjárhæð tryggðra lána.
Mesta umfang aðstoðar Tilgreina skal mesta umfang eða hámarksfjárhæð aðstoðar fyrir hverja styrkhæfa einingu.
Dagsetning framkvæmdar Tilgreina skal upphafsdag aðstoðar þegar um aðstoðarkerfi er að ræða eða daginn þegar stök aðstoð er veitt.
Gildistími aðstoðarkerfis eða stakrar aðstoðar Tilgreina skal daginn (ár og mánuð) þegar aðstoð lýkur, ef um aðstoðarkerfi er að ræða, eða, þegar um staka aðstoð er að ræða og ef við á, daginn (ár og mánuð) sem reiknað er með að síðasta greiðsla fari fram.
Markmið aðstoðar Gert er ráð fyrir því að markmiðið sé fyrst og fremst aðstoð við lítil og meðalstór fyrirtæki. Þessi reitur veitir möguleika á því að tilgreina frekari markmið (undirmarkmið) sem eru sett (t.d. einungis fyrir lítil fyrirtæki eða fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki; aðstoð við fjárfestingu/ráðgjafarþjónustu).
Samantekt upplýsinga um ríkisaðstoð sem er veitt samkvæmt reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 70/2001
Viðkomandi starfsgrein eða starfsgreinar:
.     allar starfsgreinar
    eða
    .         kolavinnsla
    .         öll framleiðsla
        eða
        .         stáliðnaður
        .         skipasmíði
        .         syntetískar trefjar
        .         vélknúin ökutæki
        .         önnur framleiðsla
    .         öll þjónusta
        eða
        flutningaþjónusta
        .         fjármálaþjónusta
        .         önnur þjónusta
Athugasemdir:
Veljið af listanum ef við á
Heiti og heimilisfang yfirvaldsins sem veitir aðstoð
Aðrar upplýsingar


III. VIÐAUKI

Framsetning skýrslunnar sem senda skal reglulega til framkvæmdastjórnarinnar

Framsetning ársskýrslu um aðstoðarkerfi sem falla undir reglugerð um hópundanþágu skv. 1. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 994/98

Aðildarríkjunum ber að nota eftirfarandi framsetningu fyrir skyldubundnar skýrslur sínar til framkvæmdastjórnarinnar samkvæmt reglugerðum um hópundanþágur sem samþykktar voru á grundvelli reglugerðar ráðsins (EB) nr. 994/98. Einnig skal skila skýrslunum í tölvutæku formi.

Upplýsingar sem krafist er fyrir öll aðstoðarkerfi sem falla undir reglugerðir um hópundanþágu skv. 1. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 994/98

1.     Heiti aðstoðarkerfis

2.     Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar um undanþágur sem við á

3.     Útgjöld

    Leggja skal fram sundurliðaðar tölur vegna hverrar tegundar aðstoðar innan aðstoðarkerfis eða stakrar aðstoðar (t.d. styrkja, hagstæðra lána o.s.frv.). Fjárhæðir skulu gefnar upp í evrum eða í innlendum gjaldmiðli ef við á. Þegar um útgjöld vegna skatta er að ræða verður að tilgreina árlegt skattatap. Ef nákvæm tala liggur ekki fyrir má áætla slíkt tap.

    Gefa skal upp útgjaldatölur samkvæmt eftirfarandi:

    Tilgreina skal sérstaklega tölur fyrir hverja tegund aðstoðar innan aðstoðarkerfisins (t.d. styrki, hagstæð lán o.s.frv.) fyrir árið sem um er að ræða:

    3.1.         Fjárhæðir skuldbindinga, (áætlað) skattatap eða annar tekjumissir, gögn um ábyrgðir o.s.frv. vegna nýrra verkefna sem njóta aðstoðar. Að því er varðar ábyrgðarkerfi skal tilgreina heildarfjárhæð nýrra ábyrgða sem hafa verið gefnar út.

    3.2.         Beinar greiðslur, (áætlað) skattatap eða annar tekjumissir, gögn um ábyrgðir o.s.frv. vegna nýrra og yfirstandandi verkefna. Að því er varðar ábyrgðarkerfi skal tilgreina eftirfarandi: heildarfjárhæð útistandandi ábyrgða, iðgjaldatekjur, endurgreiðslur, tryggingagreiðslur, rekstrarniðurstöður kerfisins á því ári sem um er að ræða.

    3.3.         Fjöldi nýrra verkefna sem njóta aðstoðar.

    3.4.         Áætlaður heildarfjöldi starfa sem skapast eða er viðhaldið með nýjum verkefnum (ef við á).

    3.5.         Áætluð heildarfjárhæð fjárfestinga þar sem aðstoð er veitt með nýjum verkefnum.

    3.6.         Skipting fjárhæða eftir svæðum skv. lið 3.1, annaðhvort eftir svæðum sem eru skilgreind sem 1. flokkur 2. stig í flokkun hagskýrslusvæða (NUTS 1 ) eða lægra, eða eftir svæðum skv. a-lið 3. mgr. 87. gr., c-lið 3. mgr. 87. gr. og svæðum sem njóta ekki aðstoðar.

    3.7.         Skipting fjárhæða eftir þáttum skv. lið 3.1 eftir starfsgreinum styrkþega (ef um fleiri en eina starfsgrein er að ræða skal tilgreina hlut hverrar fyrir sig):
                    kolavinnsla
                    framleiðsla
                    þ.m.t.:
                        stáliðnaður
                        skipasmíði
                        syntetískar trefjar
                        vélknúin ökutæki
                        önnur framleiðsla (tilgreinið)
                    þjónusta
                    þ.m.t.:
                        flutningaþjónusta
                        fjármálaþjónusta
                        önnur þjónusta (tilgreinið)
                        aðrar starfsgreinar (tilgreinið)

4.     Aðrar upplýsingar og athugasemdir.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. EB L 66, 8.3.2001, bls. 48 og EES-viðbætir við Stjtíð. EB nr. 12, 8.3.2001, bls. 6.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 10, 13.1.2001, bls. 20.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 10, 13.1.2002, bls. 30.
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Stjtíð. EB L 10, 13.1.2002, bls. 33.
Neðanmálsgrein: 5
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 6
(1)    Stjtíð. EB L 142, 14.5.1998, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 7
(2)    Stjtíð. EB C 89, 28.3.2000, bls. 8.
Neðanmálsgrein: 8
(3)    Stjtíð. EB C 343, 11.11.1998, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 9
(4)    Stjtíð. EB L 160, 26.6.1999, bls. 80.
Neðanmálsgrein: 10
(5)    Stjtíð. EB L 107, 30.4.1996, bls. 4.
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Flokkun hagskýrslusvæða (NUTS) er flokkunarkerfi svæðisbundinna eininga vegna hagskýrslugerðar í EB.
Neðanmálsgrein: 12
(1)    Stjtíð. EB L 142, 14.5.1998, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 13
(2)    Stjtíð. EB C 89, 28.3.2000, bls. 6.
Neðanmálsgrein: 14
(3)    Stjtíð. EB C 68, 6.3.1996, bls. 9.
Neðanmálsgrein: 15
(4)    Stjtíð. EB L 336, 23.12.1994, bls. 156.
Neðanmálsgrein: 16
(1)    Stjtíð. EB L 142, 14.5.1998, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 17
(2)    Stjtíð. EB C 89, 28.3.2000, bls. 15.
Neðanmálsgrein: 18
(3)    Stjtíð. EB C 213, 23.7.1996, bls. 4.
Neðanmálsgrein: 19
(4)    Stjtíð. EB C 74, 10.3.1998, bls. 9.
Neðanmálsgrein: 20
(5)    Stjtíð. EB L 107, 30.4.1996, bls. 4.
Neðanmálsgrein: 21
(6)    Sjá 3. nmgr.
Neðanmálsgrein: 22
(7)    Stjtíð. EB L 336, 23.12.1994, bls. 156.
Neðanmálsgrein: 23
(1)    Flokkun hagskýrslusvæða (NUTS) er flokkunarkerfi svæðisbundinna eininga fyrir hagskýrslugerð í bandalaginu.