Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 399. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 475  —  399. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála, nr. 31/1987, með síðari breytingum.

Flm.: Hjálmar Árnason, Jónas Hallgrímsson, Jónína Bjartmarz.



1. gr.

    1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Á tímabilinu frá 1. maí til 1. október skal greiða sérstakt gjald, flugvallagjald, vegna hvers manns sem ferðast með loftfari frá Íslandi til annarra landa. Á tímabilinu frá 1. október til 1. maí skulu engin flugvallagjöld innheimt.

2. gr.

    1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Á tímabilinu frá 1. maí til 1. október skulu flugfélög, sem annast flutning farþega innan lands eða til Færeyja og Grænlands, greiða gjald er nemi 100,00 kr. á hvern farþega er ferðast á þeim leiðum og eldri eru en tólf ára. Fyrir farþega á aldrinum tveggja til tólf ára skal greiða hálft gjald. Fyrir farþega yngri en tveggja ára skal ekkert gjald greiða. Einungis skal greitt eitt gjald þó að millilent sé milli brottfararstaðar og ákvörðunarstaðar vegna flugáætlunar enda vari viðdvöl ekki lengur en sex klukkustundir. Á tímabilinu frá 1. október til 1. maí skulu engin gjöld innheimt.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Ferðaþjónusta hefur aukist verulega að undanförnu og gegnir orðið mikilvægu hlutverki í íslensku efnahagslífi. Fjölmargir einstaklingar og fyrirtæki hafa haslað sér völl á því sviði. Mikil fjárfesting er fólgin í íslenskri ferðaþjónustu. Vandinn er hins vegar sá að drjúgur hluti þeirrar fjárfestingar nýtist aðeins takmarkaðan hluta ársins, þ.e. meginferðamannatíminn er aðeins þrír til fjórir mánuðir. Flestir sem um ferðamál hafa fjallað eru sammála um að brýnasta verkefni okkar sé að lengja ferðamannatímann, þ.e. að ná fleiri ferðamönnum til landsins yfir vetrarmánuðina.
    Íslendingar eru í harðri samkeppni um ferðalanga við helstu grannþjóðir. Gildir það ekki síst um ferðalanga frá Evrópu. Vandi okkar er sá að vegna legu landsins er flug til Íslands dýrt. Fyrir vikið hallar á íslenska ferðaþjónustuaðila í samkeppni við starfsfélaga sína erlendis.
    Af framansögðu hlýtur að vera eðlilegt að íslensk stjórnvöld leggi sitt af mörkum til að örva ferðaþjónustu yfir vetrarmánuðina. Ekki leikur nokkur vafi á því að flugvallarskattar eru skattar hins opinbera. Þeim kostnaði er varpað á neytendur, þ.e. flugfarþegana, og leggst hann ofan á kostnað af hinu langa flugi frá meginlandi Evrópu eða Ameríku.
    Ferðaþjónusta er orðin næststærsta atvinnugreinin hérlendis að því er gjaldeyristekjur varðar. Þær tekjur má auka enn frekar með því að laða fleiri ferðamenn til landsins, ekki síst yfir vetrarmánuðina. Með frumvarpi þessu er lagt til að flugvallarskattur verði felldur niður yfir vetrarmánuðina. Byggt á spá um fjölgun ferðamanna á umræddu tímabili sem og neyslu hvers ferðamanns í landinu á ríkissjóður ekki að verða fyrir tekjutapi vegna þessa frumvarps. Sérhver nýr ferðalangur skilar tekjum í ríkissjóð í formi neysluskatta, þ.e. virðisaukaskatti af bílaleigu, gistingu, mat, afþreyingu o.s.frv., og má ætla að þær tekjur nemi rúmlega flugvallarsköttum þegar á fyrsta sólarhring. Áætlað hefur verið að tekjur ríkissjóðs af 30 manna hópi sem dvelur hérlendis í sjö daga sé um ein milljón króna – án flugvallarskatta og lendingargjalda. Eru þá ekki talin hin óbeinu áhrif sem felast í auknum umsvifum ferðaþjónustuaðila sem njóta góðs af komu hinna erlendu ferðamanna.
    Flugvallarskattur er langstærsti liðurinn í opinberum álögum á flugfarþega. Afgreiðslugjöld á Keflavíkurflugvelli skiptast t.d. þannig í hundraðshlutum:
Flugvallarskattur 43%
Öryggisgjald 11%
Lendingargjöld 8%
Innritunargjald 16%
Afgreiðslugjöld 22%
    Flugvallarskatturinn einn er 1.250 kr. á hvern farþega sem ferðast frá landinu. Með afnámi hans er leitast við að laða fleiri ferðamenn til landsins sem skilar sér síðan í meiri tekjum af neyslusköttum. Með þeirri aðgerð væri hið opinbera að leggja sitt af mörkum til stuðnings áframhaldandi þróun vaxandi atvinnugreinar um allt land.