Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 303. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 495  —  303. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Hjálmars Árnasonar um fjarskipti á landsbyggðinni.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað líður aðgerðum til að byggja upp dreifikerfi á landsbyggðinni fyrir ISDN/ADSL?

1. ISDN.
    Í leyfisbréfi Póst- og fjarskiptastofnunar til Landssíma Íslands hf. er m.a. lögð sú kvöð á félagið að það veiti alþjónustu í gagnaflutningum. Skv. 1. mgr. 13. gr. fjarskiptalaga, nr. 107/1999, og reglugerð um alþjónustu, nr. 641/2000, telst gagnaflutningur með allt að 128 Kb/s bitahraða til alþjónustu. Allir landsmenn hafa rétt til alþjónustu óháð búsetu, sbr. 6. gr. alþjónustureglugerðarinnar. Sú undantekning er þó gerð á þessu að alþjónustuveitandi getur hafnað umsókn ef fjarlægð frá næsta stofnkerfi heimtauga í fjarskiptaneti hans til umsækjanda er meiri en 10 km eða ef kostnaður er áætlaður sérstaklega mikill. Úrskurði um synjun er hægt að skjóta til Póst- og fjarskiptastofnunar, sbr. 3.5. mgr. 6. gr. reglugerðar um alþjónustu. Stofnkerfi heimtauga er skilgreint sem línukerfi fyrir heimtaugar frá símstöð sem er sameiginlegt fyrir fleiri en eina byggingu, hús eða sveitabýli, sbr. 2. gr. reglugerðarinnar.
    Samkvæmt framansögðu hvílir sú skylda á Landssíma Íslands hf. að verða við öllum beiðnum um gagnaflutningsþjónustu með allt að 128 Kb/s bitahraða nema í þeim undantekningartilvikum sem að framan eru rakin. Landssíminn hefur valið að nota ISDN-tækni til að uppfylla þessar skyldur og fjárfest verulega til uppbyggingar á ISDN-kerfinu. Að sögn talsmanna Landssímans hafa frá árinu 2000 m.a. verið settar upp 52 nýjar símstöðvar í sveitum landsins til að stytta vegalengdina frá símstöð til notenda. Einnig hafa verið lagðir stofnstrengir frá símstöðvunum til að tengja þær við fyrirliggjandi línukerfi. Þessu til viðbótar áætlar Landssíminn að setja upp 25 nýjar símstöðvar á næstu mánuðum.
    Önnur fjarskiptafyrirtæki en Landssíminn hafa ekki áætlanir um að setja upp dreifikerfi fyrir ISDN-gagnaflutningsþjónustu.

2. ADSL.
    ADSL-gagnaflutningsþjónusta fellur ekki undir alþjónustu. Fjarskiptafyrirtækjum ber því ekki lagaleg skylda til að byggja upp slíka þjónustu eða að veita nákvæmar upplýsingar um fyrirhugaða uppbyggingu. Hér verður farið yfir svör fjarskiptafyrirtækja sem beðin voru að upplýsa hvort uppbygging ADSL-þjónustu á landsbyggðinni væri fyrirhuguð.

Fjarski ehf.
    Fjarski er ekki að byggja upp ADSL- eða ISDN-dreifikerfi og hefur ekki í hyggju að gera það á næstunni. Fjarski setur aðallega upp stofnkerfi eða stofnbrautir um landið fyrir alhliða fjarskiptakerfi. Slík stofnkerfi eru stoð og burðarleið fyrir dreifikerfi eins og ADSL og gera þeim sem hyggjast veita slíka þjónustu auðveldara að tengja kerfin saman.

Íslandssími hf.

    Íslandssími mun ljúka við uppbyggingu xDSL-dreifikerfis í Reykjanesbæ og á Akureyri á næstunni en hefur ekki áætlanir um uppbyggingu xDSL-dreifikerfis á öðrum svæðum utan höfuðborgarsvæðisins.

Landssími Íslands hf.
    Samkvæmt fjárfestingaráætlun næsta árs stefnir Landssíminn að því að ADSL verði aðgengilegt á þéttbýlisstöðum þar sem eru fleiri en 500 íbúar.

Lína.net hf.
    Lína.net hefur lagt ljósleiðara til Vestmannaeyja, um Hveragerði, Selfoss, Hellu og Hvolsvöll. Frekari uppbygging hefur ekki verið ákveðin. Þess var þó getið í svari félagsins að Lína.net, ásamt Fjarska, hefur gert Skýrr hf. tilboð í uppbyggingu fjarskiptanets fyrir alla framhaldsskóla landsins. Verði því tilboði tekið má búast við uppbyggingu á nýju dreifikerfi við flesta þéttbýlisstaði landsins.

3. Jöfnun gagnaflutningskostnaðar.
    Stefna samgönguráðherra er að fjarskiptaþjónusta eigi að vera fyrir alla landsmenn óháð búsetu og að hún eigi að vera ódýr, örugg og aðgengileg. Á árinu 2001 skipaði ráðherra starfshóp um kostnað við gagnaflutninga og eflingu fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu á Íslandi. Starfshópurinn kannaði möguleika á jöfnun kostnaðar vegna gagnaflutninga um ATM- gagnaflutningsnet Landssíma Íslands hf. sem nær um allt land. Innan netsins á töluverð jöfnun sér stað, en aukakostnaður við tengingar út fyrir svæðið samkvæmt skuldbindingu Landssímans er að hámarki 17.000 kr. á mánuði sé miðað við 2 Mb/s línu. Starfshópurinn lagði til að jafna bæri þennan mun. Það mætti gera með því að stofna sjóð sem endurgreiddi kostnaðarauka til notenda ATM-þjónustu. Með samþykkt þeirrar tillögu yrði stórt skref stigið í þá átt að fjarskiptakostnaður á Íslandi verði alls staðar sá sami. Þá yrði með sanni hægt að segja að öll almenn fjarskiptaþjónusta, svo sem hefðbundinn talsími og farsími, ISDN, ADSL og ATM, og þar með IP-þjónusta, yrði seld á sama verði um allt land. Málið er til frekari vinnslu í ráðuneytinu.