Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 332. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 522  —  332. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um eftirlit með vöruinnflutningi í gámum.

     1.      Hvernig er eftirliti háttað með vöruinnflutningi í gámum eða á pallettum, annars vegar með flugi og hins vegar skipum? Er tæknibúnaði beitt við eftirlitið, t.d. gegnumlýsingu eða öðrum slíkum aðferðum?
    Stærstum hluta vöruinnflutnings í gámum í skipum er skipað upp í Reykjavík. Aðrar hafnir þar sem talsverður vöruinnflutningur í gámum á sér stað eru Keflavík, Akureyri, Hafnarfjörður og Vestmannaeyjar. Vöruinnflutningur með flugvélum fer nær eingöngu í gegnum Keflavíkurflugvöll.
    Vöruskoðun innflutnings í gámum í skipum til Reykjavíkur er framkvæmd af starfsmönnum eftirlitsdeildar tollstjórans í Reykjavík. Á Keflavíkurflugvelli sjá sérstakir starfsmenn um vöruskoðun en í öðrum tollumdæmum er vöruskoðun sinnt af tollvörðum á staðnum sem jafnframt sinna öðrum verkefnum. Í tollumdæmum þar sem ekki eru starfandi tollverðir ganga lögreglumenn í störf tollvarða þegar nauðsyn ber til.
    Við innflutning fer vöruskoðun fram með þeim hætti að vara er borin saman við aðflutningsskjöl þar sem einkum er kannað magn, verðmæti, tollflokkun og uppruni vöru. Nánar tiltekið er eftirlitið eftirfarandi:
     1.      Eftirlit með að innihald gáma sé samkvæmt farmskrá.
     2.      Eftirlit með hraðsendingum.
     3.      Eftirlit með ferðamannabifreiðum.
     4.      Eftirlit með tollfrjálsum sendingum, t.d. búslóðum.
     5.      Ýmis sérafgreiðsla, svo sem útgáfa neyðarleyfa, mat á tjóni á vöru og eftirlit með tímabundnum tollfrjálsum innflutningi.
     6.      Eftirlit og vörutalning á frísvæðum og í tollvörugeymslum.
    Gámar sem skoðaðir eru sérstaklega við komuna til landsins eru valdir samkvæmt úrtaki eða vegna þess að rökstuddur grunur er um að ólöglegur varningur sé í gámi, t.d. fíkniefni. Við val á úrtaki er beitt áhættugreiningu og er leitað nákvæmar eftir því sem áhættan telst vera meiri samkvæmt fyrir fram gefnum forsendum.
    Tollgæslan í Reykjavík hefur til umráða gegnumlýsingarbifreið sem er notuð við skoðun á innihaldi gáma. Önnur tollstjóraembætti hafa ekki slík tæki til umráða en bifreiðin hefur einnig verið notuð á Keflavíkurflugvelli. Fíkniefnaleitarhundum er beitt við eftirlit í öllum tollumdæmum.

     2.      Hve margir vörugámar voru fluttir inn til landsins árið 2001 og með hvaða farartækjum?
    Alls komu 85.300 hlaðnar vörugámaeiningar til landsins árið 2001. (Hver vörugámaeining samsvarar 20 feta gámi.) Ekki liggur fyrir skipting milli flutningsfarartækja.


     3.      Hve margir tollverðir starfa að eftirliti með vöruinnflutningi í gámum?
Reykjavík 8 tollverðir af 55 sinna þessu verkefni sérstaklega.
Keflavíkurflugvöllur 2–3 tollverðir af 35 sinna þessu verkefni sérstaklega.
Hafnarfjörður 3 tollverðir sinna eftirlitinu ásamt öðrum störfum.
Keflavík 2 tollverðir sinna eftirlitinu ásamt öðrum störfum.
Akureyri 2 tollverðir sinna eftirlitinu ásamt öðrum störfum.
Vestmannaeyjar 2 tollverðir sinna eftirlitinu ásamt öðrum störfum.
Ísafjörður 1 tollvörður sinnir eftirlitinu ásamt öðrum störfum.
Seyðisfjörður 1 tollvörður sinnir eftirlitinu ásamt öðrum störfum.
Selfoss 1 tollvörður sinnir eftirlitinu ásamt öðrum störfum.
    Hjá öðrum tollstjóraembættum er lögregla kölluð til aðstoðar ef upp koma mál þar sem nauðsynlegt er að sinna eftirliti sem um er rætt.

     4.      Hve stórt hlutfall heildarinnflutnings vöru í gámum annars vegar og á pallettum hins vegar var skoðað árið 2001?
    Aðeins liggja fyrir tölur um fjölda skoðaðra sendinga í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Um 1% sendinga annarra en hraðsendinga var skoðað í Reykjavík árið 2001. Um 6% hraðsendinga voru skoðuð í Reykjavík árið 2001. Í Hafnarfirði og Kópavogi er áætlað að um 4–5% af vörum hafi verið skoðuð.

     5.      Hversu oft hafa komið upp mál í tengslum við vöruinnflutning í gámum sem má rekja til
                  a.      rangrar tollflokkunar sem leiddi til of lágra eða hárra tollgreiðslna,
                  b.      vísvitandi rangra upplýsinga um innihald,
                  c.      fíkniefnainnflutnings?

     a.      Mál sem leiddu til hækkunar eða lækkunar gjalda vegna rangrar tollflokkunar í Reykjavík árið 2001 eru 377. Tölur liggja ekki fyrir úr öðrum tollumdæmum.
     b.      Upplýsingar um ástæður rangrar tollflokkunar eru ekki fyrir hendi.
     c.      Árið 2001 komu upp við vöruinnflutning 63 fíkniefnamál í Reykjavík og tvö fíkniefnamál á Keflavíkurflugvelli.

     6.      Hvernig er eftirliti og vöruskoðun í gámum háttað annars staðar á Norðurlöndum og hve stórt hlutfall gáma er skoðað þar við innflutning?
    Vöruskoðun í gámum á Norðurlöndum er svipuð og starfsháttum hér á landi er lýst. Áhættugreining er notuð við mat á því hvar skuli leita og er leitað nákvæmar eftir því sem áhættan er talin meiri samkvæmt fyrir fram gefnum forsendum. Tollgæsla í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi hefur yfir að ráða öflugri gegnumlýsingartækjum en tollgæslan hér á landi. Í þessum löndum er notaður tækjabúnaður sem getur gegnumlýst heila gáma en hér á landi er nauðsynlegt að taka pallettur út úr gámum til þess að gegnumlýsing geti farið fram.
    Leitað hefur verið upplýsinga hjá tollyfirvöldum á Norðurlöndum um hve stórt hlutfall gáma er skoðað við innflutning þar og hafa svör borist frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Samkvæmt því sem þar kemur fram heldur ekkert þessara þriggja landa aðgreint yfirlit yfir það hversu stórt hlutfall gáma er skoðað við innflutning. Í svari sænskra tollyfirvalda kom fram að þar í landi voru skoðuð 0,18% af heildarinnflutningi með gámum, fletum og flutningsvögnum árið 2001. Í Danmörku voru aðeins fáanlegar upplýsingar um eftirlit með heildarinnflutningi óháð því með hvaða hætti innflutningur átti sér stað. Á ársgrundvelli er eftirlitshlutfall allra framlagðra tollskýrslna um 2% í Danmörku. Norsk tollyfirvöld gátu ekki veitt umbeðnar upplýsingar.