Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 247. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 558  —  247. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson, Arndísi Á. Steinþórsdóttur og Þorstein Geirsson frá sjávarútvegsráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Landssambandi smábátaeigenda, Sjómannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Hafrannsóknastofnuninni.
    Með frumvarpinu er lögð til 6% hækkun á gjöldum sem renna til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins en samkvæmt gildandi lögum eru greiðslurnar tvenns konar. Annars vegar er gjald á aflaheimildir en hins vegar gjald á brúttótonn hvers skips, þó að hámarki 387.000 kr. á skip. Heildartekjur Þróunarsjóðs árið 2002 af fyrrnefnda gjaldinu eru samkvæmt forsendum frumvarpsins alls 615 millj. kr., en af síðarnefnda gjaldinu alls 87 millj. kr.
    Nefndin hefur aflað upplýsinga um að 143 skip greiði nú hámarksgjald, 387.000 kr., og að ef hámarksgjald væri afnumið og engar aðrar ráðstafanir gerðar mundu tekjur vegna gjaldsins aukast um 84 millj. kr. Skipið sem greiddi hæsta gjaldið nú mundi greiða um 2,9 millj. kr. í stað 387.000 kr.
    Nefndin telur ástæðu til að tekin verði afstaða til þess við næstu endurskoðun gjaldanna hvort afnema eigi þakið og lækka þá e.t.v. gjaldið á hvert brúttótonn í staðinn þannig að heildargjaldtakan verði óbreytt. Ljóst er þó að slíkt mundi hafa í för með sér lækkun á gjaldi minni skipanna en hækkun hjá þeim stærstu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Kristinn H. Gunnarsson og Vilhjálmur Egilsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. des. 2002.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Árni R. Árnason.


Guðjón A. Kristjánsson,


með fyrirvara.



Guðmundur Hallvarðsson.


Hjálmar Árnason.


Jóhann Ársælsson,




Svanfríður Jónasdóttir.





Prentað upp.