Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 210. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 609  —  210. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um daggjöld hjúkrunarheimila og fjölda hjúkrunarrýma.

     1.      Við hvaða dvalarheimili og hjúkrunarheimili öldrunarstofnana hefur ráðherra haft samráð til ákvörðunar daggjalda, sbr. 39. gr. laga um almannatryggingar?
    Heilbrigðisráðuneytið kallar árlega eftir upplýsingum frá öllum dvalar- og hjúkrunarheimilum um rekstrarkostnað hjúkrunar-, dvalar- og dagvistarrýma til að geta metið raunverulega fjárþörf öldrunarheimila við fjárlagagerð og hvað daggjöldin þurfi að vera há til að standa undir eðlilegum rekstrarkostnaði. Hér eru um að ræða ársreikninga, rekstraráætlanir, sjúkrahússkýrslur og rekstrarform þar sem rekstur er sundurliðaður eftir hjúkrunar-, dvalar- og dagvistarrýmum.
    Í 39. gr. laga um almannatryggingar kemur skýrt fram að ráðherra skuli ákveða daggjöld dvalarheimila fyrir aldraða, hjúkrunarrýma á öldrunarstofnunum og hjúkrunarheimila sem ekki eru á föstum fjárlögum með reglugerð. Í 39. gr. segir einnig að ráðherra skuli áður en daggjöld eru ákveðin óska eftir tillögum viðkomandi stofnana. Í samræmi við þessa lagagrein sendi ráðuneytið öllum hjúkrunarheimilum bréf sem dagsett var 30. janúar 2002 þar sem vakin var athygli á skiladegi fjárlagatillagna og að þær stofnanir sem óska eftir breytingu á fjárveitingu sinni þurfi að senda inn fjárlagatillögur fyrir 15. febrúar 2002. Í bréfinu kemur einnig fram að þær stofnanir sem ekki óska eftir sérstökum breytingum á fjárveitingum sínum þurfi ekki að leggja fram fjárlagaerindi. Örfáar fjárlagatillögur bárust frá hjúkrunarheimilum fyrir 15. febrúar sl. og enginn fjárlagatillaga fjallaði um daggjöld hjúkrunarheimila.

     2.      Telur ráðherra að samanlagðar tekjur öldrunarstofnana standi undir eðlilegum rekstrarkostnaði?

    Til þess að hægt sé að leggja mat á hver sé eðlilegur rekstrarkostnaður öldrunarstofnana þurfa dvalar- og hjúkrunarheimili að senda ráðuneytinu sundurliðaðar upplýsingar um rekstur dvalar-, hjúkrunar- og dagvistarrýma. Heilbrigðisráðuneytið hefur á undanförnum árum ítrekað sent út bréf til öldrunarstofnana til að afla þessara upplýsinga. Mjög er misjafnt hvernig stofnanir hafa brugðist við. Sum dvalar- og hjúkrunarheimili hafa sent fullnægjandi upplýsingar en önnur ekki. Telja verður út frá þeim rekstrarupplýsingum sem ráðuneytinu hafa borist að þó nokkuð vanti á að tekjur öldrunarstofnana standi undir gjaldfærðum rekstrarkostnaði. Í samræmi við rekstrarupplýsingar og til að bæta úr framangreindum tekjuskorti hefur 867 millj. kr. verið bætt við rekstrargrunn dvalar- og hjúkrunarheimila í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2003. Af þeirri fjárhæð eru 550 millj. kr. vegna hjúkrunarrýma og 317 millj. kr. vegna dvalarrýma. Innifalið í framangreindum fjárhæðum eru um 320 millj. kr. til viðhalds húsnæðis. Auk þess eru 1.157 millj. kr. í frumvarpi til fjárlaukalaga fyrir árið 2002 til að mæta rekstrarhalla dvalar- og hjúkrunarheimila á árunum 2001 og 2002.

     3.      Hefur reglugerð um framkvæmd mats á hjúkrunarþyngd verið gefin út?
    Reglugerð um framkvæmd mats á hjúkrunarþyngd hefur ekki verið gefin út.
     4.      Hvert var daggjald til hjúkrunarheimilisins Sóltúns frá 1. júní 2001 til 1. júní 2002, uppgefið fyrir hvern mánuð fyrir hvern einstakling? Hvert var sérstakt húsnæðisgjald á legudag fyrir sama tímabil?
    Sóltún hóf rekstur í janúar 2002 og greiðast daggjöld einungis frá þeim tíma. Daggjöld Sóltúns frá janúar til júní 2002 koma fram í töflunni.

Mánuður, árið 2002 Daggjald
án húsnæðis
Daggjald
húsnæðis
Daggjald
samtals
Janúar 16.600,98 2.818,24 19.419,22
Febrúar 15.932,95 2.810,61 18.743,56
Mars 17.121,35 2.822,06 19.943,41
Apríl 17.180,70 2.823,33 20.004,04
Maí 16.953,14 2.822,06 19.775,20
Júní 15.753,84 2.834,78 18.588,63

     5.      Hve mörg ný hjúkrunarrými fyrir aldraða þarf að byggja til ársins 2010 svo að bið eftir rými verði aðeins 90 dagar, sbr. Heilbrigðisáætlun til ársins 2010:
                  a.      í Reykjavík,
                  b.      utan Reykjavíkur?

    Samkvæmt áætlun um uppbyggingu öldrunarþjónustu í Reykjavík 2002–2007 voru 1.159 hjúkrunarrými í notkun árið 2001 og gert er ráð fyrir að heildarþörf fyrir hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu verði um 1.629 rými árið 2010 eða 470 rýmum fleiri en árið 2001. Ef miðað er við að biðtími eftir hjúkrunarrýmisvist verði 90 dagar og endurnýjunarhlutfall vistmanna á ári verði 30% af heildarþörf fyrir hjúkurnarrými, þarf að fjölga hjúkrunarrýmum að meðaltali um tæp 39 rými á ári fram til ársins 2010, en á því ári er áætlað að 120 manns verði á biðlista eftir hjúkrunarrými.
    Samkvæmt áætlun um uppbyggingu öldrunarþjónustu 2002–2007 voru 1.003 hjúkrunarrými í notkun utan höfuðborgarsvæðisins árið 2001 og gert er ráð fyrir að heildarþörf fyrir hjúkrunarrými út á landi verði um 1.087 rými árið 2010 eða 84 rýmum fleiri en árið 2001. Ef miðað er við að biðtími eftir hjúkrunarrýmisvist verði 90 dagar og endurnýjunarhlutfall vistmanna á ári verði 30% af heildarþörf fyrir hjúkurnarrými, þarf að fjölga hjúkrunarrýmum að meðaltali um átta rými á ári fram til ársins 2010, en á því ári verði níu manns á biðlista eftir hjúkrunarrými.

     6.      Hve mörg tilbúin hjúkrunarrými eru vannýtt utan höfuðborgarsvæðisins og hvar eru þau?
    Ráðuneytið hefur ekki vitneskju um ónýtt hjúkrunarrými utan höfuðborgarsvæðisins. Í því sambandi má benda á að meðalnýting hjúkrunarrýma hjá daggjaldastofnunum utan höfuðborgarsvæðisins var 99,9% fyrstu 10 mánuði ársins 2002. Hins vegar liggja ekki fyrir upplýsingar um nýtingu hjúkrunarrýma í ár hjá öldrunarstofnunum á föstum fjárlögum.