Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 224. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 610  —  224. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingvarsdóttur um ofvirk börn.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu mörg börn eru greind ofvirk hér á landi og eru á lyfjum við því, sundurliðað eftir kyni og aldri?

    Nákvæmar upplýsingar um fjölda ofvirkra barna sem eru á lyfjum liggja ekki fyrir, því að margir koma að greiningu barnanna og enginn miðlægur gagnagrunnur er í þessum efnum. Ofvirk börn geta verið til meðferðar bæði hjá sérfræðingum í barnalækningum, geðlækningum og heimilislækningum.
    Tíðni ofvirknisröskunar samkvæmt flokkunarkerfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, ICD-10, er talin vera 1–2% samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum. Aðrar flokkunaraðferðir, sem eru nákvæmari og heldur víðari, benda til 3–5% tíðni á athyglisbresti með ofvirkni með undirgreiningum. Þessar tölur benda ekki til þess að hér sé ofgreint eða ofmeðhöndlað. Erfiðara er hins vegar að meta hvort einhverf börn verði útundan við þessa greiningu. Geðraskanir af þessum toga eru algengar hjá drengjum þar sem einkenni koma yfirleitt fram við byrjun skólagöngu og er tíðnin hæst á aldrinum sex til átta ára. Í þessu sambandi má benda á gagnlegar greinar í 5. og 6. tölublaði Læknablaðsins frá árinu 2000.
    Helsta meðferð við þessum geðröskunum hefur verið í formi lyfsins Ritalin (methylphenidatum). Heildarfjöldi einstaklinga sem fékk þessu lyfi ávísað á þriggja mánaða tímabili árið 2000 var 757, árið 2001 var hann 1.024 og árið 2002 var hann 1.213.
    Í meðfylgjandi töflu sést aldursdreifing (eftir fæðingarári) þeirra sem fengu ávísað Ritalini á tímabilinu apríl til júní árin 2000–2002.
    Auk meðferðar með Ritalini hefur aðallega verið notast við lyf úr flokki þunglyndislyfja, eins og fram kemur í áðurnefndum vísindagreinum. Þetta hefur einkum verið vegna annarra meðfylgjandi sjúkdóma. Notkun geðdeyfðarlyfja við ofvirkni hefur farið minnkandi með aukinni notkun Ritalins.

Tafla 1. Ávísanir á lyfið Ritalin mánuðina apríl til júní árin 2000–2002.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.