Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 251. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 612  —  251. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ingvarsdóttur um óútskýrða áverka.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu margir koma árlega á bráðamóttöku með óútskýrða áverka, sundurliðað eftir kyni og aldri?

    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið leitaði til Landspítala – háskólasjúkrahúss um upplýsingar um fjölda þeirra sem koma með óútskýrða áverka. Samkvæmt upplýsingum frá sviðstjóra hjúkrunar á viðkomandi sviði er ekki unnt að svara þessari spurningu á grundvelli gagna sjúkrahússins.
    Komur á bráðamóttöku hér eru flokkaðar með sama hætti og komur annars staðar til að auðvelda samanburð milli stofnana og landa. Sú alþjóðlega flokkun sem er notuð hér er fyrst og fremst er kennd við Norrænu heilbrigðistölfræðinefndina, NOMESKO, og hefur hún verið notuð til margra ára. Í því flokkunarkerfi eru ástæður komu flokkaðar á eftirfarandi hátt:

    Sjúkdómur.
    Slys og óhöpp.
    Ofbeldisverk:
              slagsmál, handalögmál,
              kynferðisleg árás,
              vanræksla o.þ.h.,
              ofbeldisverk, önnur tilgreind,
              ofbeldisverk, ekki nánar tilgreind,
     Sjálfsskaði af ásettu ráði:
              sjálfsvígstilraun og hugsanleg sjálfsvígstilraun,
              víma af efnum,
              sjálfsmeiðingar,
              sjálfsskaði af ásettu ráði, annar tilgreindur,
              sjálfsskaði af ásettu ráði, ekki nánar tilgreindur.

    Ljóst er að allflest tilvik falla undir einhvern af þessum þáttum. Taka má saman hve margar komur eru vegna hvers flokks, en til þess þyrfti að skoða sjúkraskrár og finna dreifingu innlagnarástæðna.
    Þá má þess geta að saga sjúklings er ætíð skráð eins og hann segir hana. Sagan er ekki vefengd nema eitthvert tilefni sé til. Tilkynnt er um grun um ofbeldi, t.d. gagnvart börnum, til viðkomandi yfirvalda.