Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 380. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 614  —  380. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Láru Margrétar Ragnarsdóttur um mænuskaðaverkefni.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Mun ráðherra tryggja að strax í upphafi næsta árs geti hafist starfsemi gagnabanka um mænuskaðaverkefnið sem Evrópuráðið hefur samþykkt að styðja stofnsetningu á og framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, Gro Harlem Brundtland, hefur mælt með að verði settur upp á Íslandi og þegar hefur verið áætlaður kostnaður fyrir?

    Dagana 1.–2. júní 2001 var haldin alþjóðleg ráðstefna um mænuskaða og meðhöndlun hans. Ráðstefnan tókst mjög vel og hana sóttu um 50 sérfræðingar víðs vegar að úr heiminum. Í framhaldi af því skrifaði heilbrigðisráðherra bréf til dr. Gro Harlem Brundtland, aðalframkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, og gerði henni grein fyrir helstu niðurstöðum ráðstefnunnar. Þátttakendur töldu mikilvægt að koma á fót gagnagrunni um mænuskaða, að styðja lækna og aðra vísindamenn í að koma á framfæri þekkingu um mænuskaða til klínískrar starfsemi, og skipuleggja náms- og starfsdvöl fyrir lækna og vísindamenn í öðrum löndum.
    Í svarbréfi sínu, 12. desember 2002, lýsti dr. Brundtland yfir stuðningi sínum við að komið yrði á fót á Íslandi sérstakri samstarfsmiðstöð (WHO Collaborating Centre) til stuðnings aðgerðum WHO á heimsvísu á sviði mænuskaða. Meðal verkefna WHO-miðstöðvarinnar væri uppbygging gagnagrunns um mænuskaða og að vera tengiliður um alþjóðlegar rannsóknir á mænuskaða.
    Á þessu ári hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið rætt við forsvarsmenn Landspítala – háskólasjúkrahúss um hvernig sjúkrahúsið gæti tekið þátt í að byggja upp alþjóðlegan gagnagrunn um mænuskaða og jafnvel starfrækja WHO-samstarfsmiðstöð á því sviði hér á landi. Í framhaldi af þessum viðræðum hefur ráðuneytið beðið Landspítala – háskólasjúkrahús að kanna forsendur fyrir því að koma á laggirnar alþjóðlegum gagnagrunni á sviði mænuskaða. Hluti af því verkefni er að reyna að gera sér grein fyrir hvað slíkur gagnagrunnur gæti haft fram yfir aðra gagnagrunna á sviði læknisfræði sem til eru í heiminum í dag. Enn fremur hefur ráðuneytið óskað eftir því að reynt verði að meta hvað þurfi til að reka umrædda samstarfsmiðstöð við sjúkrahúsið og að tekin verði saman áætlun um slíka starfsemi.
    Sótt hefur verið um fjárframlag til þessa að hefja þetta verkefni á árinu 2003 til fjárlaganefndar Alþingis. Það er því í höndum Alþingis hvort ráðist verði í verkefnið á næsta ári. Að lokum skal tekið fram að hvorki liggja fyrir loforð frá Evrópuráðinu, WHO, né öðrum aðilum að styðja verkefnið fjárhagslega.