Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 444. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 624  —  444. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Í stað 6. mgr. 29. gr. laganna koma tvær málsgreinar, svohljóðandi:
    Allir sauðfjárframleiðendur skulu taka þátt í útflutningi eða sæta útflutningsuppgjöri vegna útflutningskvaðar fyrir sama hlutfall af framleiðslu sinni að undanskildu því magni sem framleiðandi tekur til eigin nota samkvæmt heimild í reglugerð. Undanþegnir útflutningsuppgjöri eru þó þeir framleiðendur sem hafa 0,7 vetrarfóðraðar kindur eða minna á hvert ærgildi greiðslumarks eins og það er skráð í greiðslumarksskrá 1. janúar 2002. Lækki greiðslumark lögbýlis gildir hið nýja greiðslumark sem viðmiðun er undanþága frá útflutningsskyldu byggist á. Hlutfallið skal taka breytingum í samræmi við breytingar á sölu kindakjöts á innlendum markaði reiknað frá 7.000 tonna árlegri sölu. Fer þá öll framleiðsla þeirra til innanlandssölu, enda liggi fyrir sauðfjártalning búfjáreftirlitsmanns staðfest af öðrum trúnaðarmanni. Framleiðendur skuldbindi sig jafnframt til þess að leggja aðeins inn afurðir þess fjár. Þá getur landbúnaðarráðherra ákveðið, að fenginni tillögu Bændasamtaka Íslands, að kjöt af sauðfé sem slátrað er á ákveðnum tímabilum utan haustsláturtíðar verði undanþegið útflutningsuppgjöri.
    Útflutningsuppgjör er tryggt með lögveði í framleiðslu framleiðanda og skal það ásamt dráttarvöxtum í tvö ár frá gjalddaga ganga fyrir öllum öðrum skuldbindingum sem á þeim hvíla.

2. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laganna orðast svo: Beingreiðslur skulu vera 4.399 kr. á hvert ærgildi á árunum 2001, 2002 og 2003 en lækka árlega eftir það miðað við framangreinda fjárhæð sem hér segir: árið 2004 um 12,5%, árið 2005 um 15%, árið 2006 um 17,5% og árið 2007 um 20%.

3. gr.

    S-liður ákvæðis til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi að undanskildu ákvæði 2. gr. sem öðlast gildi 1. september 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í landbúnaðarráðuneytinu að tilhlutan landbúnaðarráðherra í þeim tilgangi að lögfesta ákvæði um breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Um er að ræða breytingar sem eiga rætur að rekja til breytinga á samningi um sauðfjárframleiðslu sem undirritaður var 11. mars 2000 á grundvelli 30. gr. laga nr. 99/1993 milli landbúnaðarráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands. Á síðasta löggjafarþingi Alþingis 2001–2002 voru lögfestar nokkrar breytingar á lögum nr. 99/1993 sem byggðar voru á áðurnefndum samningi um framleiðslu sauðfjárafurða, m.a. um upptöku gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu og álagsgreiðslur sem greiðast fyrir slíka framleiðslu frá og með 1. janúar 2004, sbr. lög nr. 101/2002. Í R-lið ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 99/1993, sem einnig var lögfestur með lögum nr. 101/2002, kemur fram að samningur milli ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars 2000 skuli tekinn til endurskoðunar á árinu 2002. Þeirri endurskoðun er nú lokið og einungis eftir að undirrita viðauka við fyrrgreindan samning um framleiðslu sauðfjárafurða sem hefur að geyma breytingar á fyrri samningi með sama efni og greinir í frumvarpi þessu.
    Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda síðastliðið sumar var samþykkt ályktun um að nauðsynlegt væri að gera nánar tilgreindar breytingar á samningnum um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars 2000. Í frumvarpinu eru nokkrar breytingartillögur við lög nr. 99/1993 er varða sauðfjárframleiðslu og eru þær að mestu byggðar á framangreindri ályktun aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda. Um er að ræða eftirtaldar breytingar:
     1.      Ákvæði 29. gr. laganna er breytt á þann veg að sauðfjárframleiðendur geta einungis komist hjá útflutningsskyldu með því að fækka fé en ekki með því að kaupa sér greiðslumark. Miðað verður við að undanþegnir útflutningi geti einungis verið þeir sem hafi 0,7 vetrarfóðraðar kindur eða minna á hvert ærgildi greiðslumarks eins og það er skráð í greiðslumarksskrá 1. janúar 2002. Lækki greiðslumark lögbýlis miðast hlutfallið við greiðslumarkið eins og það verður eftir lækkun en ekki er heimilt að kaupa greiðslumark til að ná 0,7 ærgilda markinu.
     2.      Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein sem felur í sér að útflutningsuppgjör eða útflutningsgjald, sem sláturleyfishöfum ber að greiða ef þeir flytja ekki út lögboðinn hluta afurða sinna eða semja ekki við aðra sláturleyfishafa um að flytja út þann hluta, verður tryggt með lögveði í framleiðslunni sem ásamt dráttarvöxtum gengur í tvö ár frá gjalddaga á undan öðrum skuldbindingum framleiðandans. Að tveimur árum liðnum fellur lögveðið niður.
     3.      Breytt er ákvæði 39. gr. laganna og gert ráð fyrir að beingreiðslur lækki ekki á árinu 2003. Samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir að þær lækki um 12,5% og að þeir fjármunir renni til greiðslu sérstaks álags á framleitt dilkakjöt á sama hátt og uppkaupaálag, sbr. 4. mgr. 38. gr., sbr. og S-lið ákvæðis til bráðabirgða í lögunum. Ef frumvarp þetta verður að lögum verða beingreiðslur óbreyttar á árinu 2003 og kemur því ekki til greiðslu sérstaks álags á framleitt dilkakjöt en S-liður ákvæðis til bráðabirgða fellur brott.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

     Um 1. mgr.: Hér er miðað við að undanþegnir útflutningi geti einungis verið þeir sauðfjárframleiðendur sem hafa 0,7 vetrarfóðraðar kindur eða minna á hvert ærgildi greiðslumarks eins og það er skráð í greiðslumarksskrá 1. janúar 2002. Lækki greiðslumark lögbýlis miðast hlutfallið við greiðslumarkið eins og það verður eftir lækkun. Sauðfjárframleiðendum verður hins vegar ekki heimilt að kaupa greiðslumark til að ná 0,7 ærgilda markinu. Í samræmi við þetta geta sauðfjárframleiðendur einungis komist hjá útflutningsskyldu með því fækka fé en ekki með því að að kaupa sér greiðslumark. Reglan um undanþágu frá útflutningsskyldu, svokölluð 0,7-regla, var fyrst lögfest árið 1995. Megintilgangur hennar var að bændur gætu komist undan útflutningsskyldu ef þeir fækkuðu fé þannig að þeir héldu einungis sem svaraði til 0,7 kinda á hvert ærgildi greiðslumarks. Nú eru um 190 sauðfjárbændur sem uppfylla skilyrði 0,7-reglunnar. Við skoðun hefur komið í ljós að um helmingur þeirra fækkaði fé í samræmi við þennan tilgang laganna og öðluðust þeir með því rétt til undanþágu frá útflutningsskyldu en helmingur þeirra keypti greiðslumark og losnaði með þeim hætti undan útflutningsskyldu. Ef þeir sem selja greiðslumark fækka ekki fé heldur halda áfram að framleiða verður það til þess að útflutningsskylda hækkar hjá þeim sem ekki uppfylla skilyrði 0,7-reglunnar. Þessi framkvæmd er ekki í samræmi við tilgang laganna og þykir því eðlilegt að hér verði gerð breyting á lögunum til að koma í veg fyrir að framkvæmdin verði með þessum hætti. Sú breyting sem hér er lögð til er í samræmi við ályktun aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda síðastliðið sumar eins og gerð er grein fyrir í almennum athugasemdum.
     Um 2. mgr.: Hér er um að ræða breytingu sem felur í sér að útflutningsuppgjör eða útflutningsgjald, sem sláturleyfishöfum ber að greiða ef þeir flytja ekki út lögboðið hlutfall af framleiðslu sinni, verður tryggt með lögveði í framleiðslunni sem ásamt dráttarvöxtum gengur í tvö ár á undan öðrum skuldbindingum framleiðandans. Í framkvæmd hafa komið upp þau tilvik að sláturleyfishafar hafa orðið gjaldþrota og ekki staðið við útflutningsskyldu sína heldur selt „útflutningskjöt“ á innlendum markaði á lágu verði. Þetta hefur orðið til þess að markaður fyrir aðra sláturleyfishafa hefur dregist saman, birgðir orðið meiri og útflutningsskyldan aukist næsta ár vegna birgðastöðu. Útflutningsgjald sem ber að greiða hefur ekki fengist viðurkennt sem forgangskrafa og hefur það orðið til þess að aðrir sláturleyfishafar og sauðfjárbændur hafa orðið að taka á sig auknar skyldur vegna útflutnings. Með þessari breytingu verður reynt að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Þykir því nauðsynlegt að lögfesta þetta ákvæði til að tryggja að unnt verði að innheimta útflutningsgjald af sláturleyfishöfum sem háðir eru útflutningsskyldu ásamt dráttarvöxtum í tvö ár frá gjalddaga án tillits til þess hvernig háttað er fjárhagsstöðu þeirra eða þótt þeir kunni að verða gjaldþrota. Að tveimur árum liðnum fellur lögveðið niður.

Um 2. gr.

    Samþykkt voru lög á Alþingi síðastliðið vor, nr. 101/2002, um breytingu á lögum nr. 99/1993, sem höfðu að geyma ákvæði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Í samningi um framleiðslu sauðfjárafurða, dags. 11. mars 2000, sem lögin voru byggð á, og frumvarpinu eins og það var lagt fyrir Alþingi var gert ráð fyrir að gæðastýrð sauðfjárframleiðsla yrði tekin upp 1. janúar 2003 en við meðferð frumvarpsins á Alþingi var ákveðið að fresta gildistökunni og þar með álagsgreiðslum fyrir gæðastýrða framleiðslu til 1. janúar 2004. Jafnframt ákvað Alþingi að þeim fjármunum sem beingreiðslur lækkuðu um á árinu 2003, 12,5%, yrði ráðstafað til að greiða álag á allt framleitt dilkakjöt. Þessi ákvörðun Alþingis var studd af Bændasamtökum Íslands og einnig Landssamtökum sauðfjárbænda. Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda síðastliðið sumar var samþykkt ályktun um að nauðsynlegt væri að breyta síðastgreindu ákvæði á þann veg að beingreiðslur yrðu óbreyttar árið 2003 þannig að þær yrðu áfram greiddar greiðslumarkshöfum. Jafnframt samþykkti aðalfundurinn ályktun þess efnis að álag á gæðastýrða sauðfjárframleiðslu lækkaði um 2,5% á ári miðað við það sem samningurinn um sauðfjárframleiðslu frá 11. mars 2000 gerði ráð fyrir. Í samræmi við þessar ályktanir Landssamtaka sauðfjárbænda er hér lagt til að beingreiðslur lækki ekki á árinu 2003 og jafnframt að lækkun beingreiðslna verði 12,5% í stað 15% á árinu 2004, 15% í stað 17,5% á árinu 2005 og 17,5% í stað 20% á árinu 2006 og að lækkun beingreiðslna á árinu 2007 verði 20% í stað 22,5%. Álagsgreiðslur fyrir gæðastýrða framleiðslu munu taka samsvarandi breytingum þar sem þær greiðast m.a. af þeim fjármunum sem beingreiðslur lækka um, sbr. og uppkaupaálag skv. 4. mgr. 38. gr. laganna.

Um 3. gr.

    Breyting þessi er í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 2. gr. frumvarpsins, þ.e. að miðað er við að beingreiðslur lækki ekki á árinu 2003 sem hefur þá þýðingu að ekki verður greitt 12,5% álag á framleitt dilkakjöt, en skv. S-lið ákvæðis til bráðabirgða var gert ráð fyrir að þeir fjármunir sem nýta átti í þeim tilgangi yrðu greiddir af þeim fjármunum sem beingreiðslur lækkuðu um.

Um 4. gr

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993,
um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar á lögunum. Annars vegar er breytt ákvæði um gæðastjórnun sem fært var aftur um eitt ár samkvæmt breytingum á lögum nr. 201/2002. Hins vegar er bætt við ákvæði um að allir framleiðendur, nema þeir sem hafa 0,7 vetrarfóðraðar kindur eða minna á hvert greiðslumark, skuli skyldaðir til að taka þátt í útflutningi eða greiða sérstakt útflutningsgjald sem rennur til Bændasamtakanna. Útflutningsgjaldið samkvæmt gildandi lögum svarar til mismunar á áætluðu heildsöluverði og viðmiðunarverði sem miðast við meðalverð útflutnings á undangengnum tólf mánuðum. Ástæðan fyrir því að framleiðendur reyna að losna undan útflutningsskyldu er að mikill munur er á því verði sem greitt er fyrir útflutning og sölu á innanlandsmarkaði.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.