Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 418. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 646  —  418. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um áfengisgjald.

     1.      Hver hefur verið þróun áfengisgjalds frá árinu 1995 að nafnvirði og raungildi
                  a.      á sterku áfengi,
                  b.      á léttvíni,
                  c.      á bjór?
    Umbeðnar upplýsingar eru sem hér segir:
    a.     Áfengisgjald af sterku víni árið 1995 var 58,70 kr. á hvern sentilítra af vínanda, umfram 2,25 sentilítra í hverjum lítra. Árið 1998 var áfengisgjaldi af sterku víni breytt á þann veg að það var lækkað í krónum talið miðað við hvern sentilítra af vínanda, eða niður í 57,60 kr. en á móti kom að gjaldfrelsi fyrstu 2,25 sentilítranna í hverjum lítra var fellt niður. Þetta þýddi í raun að gjaldið af hverjum sentilítra af vínanda hækkaði úr 55,40 kr. í 57,50 kr., eða um 3,8%. Gjaldið hélst síðan óbreytt þar til nýverið þegar það hækkaði í 66,15 kr. eða um 15%. Heildarhækkun gjaldsins frá árinu 1995 er þannig liðlega 19% en á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um tæplega 30%. Á mælikvarða vísitölu neysluverðs er gjaldið því um það bil 51 kr. að raungildi á verðlagi ársins 1995 og hefur þannig lækkað um 8% að raungildi frá því ári að teknu tilliti til nýlegrar hækkunar.
    b.     Áfengisgjald af léttu víni árið 1995 var 58,70 kr. á hvern sentilítra af vínanda, umfram 2,25 sentilítra í hverjum lítra, eða það sama og af sterku víni. Árið 1998 var gjaldið lækkað niður í 52,80 kr., eða um 10% og hefur haldist óbreytt síðan. Það þýðir að gjaldið hefur lækkað um meira en 30% að raungildi frá árinu 1995 á mælikvarða vísitölu neysluverðs.
    c.     Áfengisgjald af bjór árið 1995 var 58,70 kr. á hvern sentilítra af vínanda, umfram 2,25 sentilítra í hverjum lítra, eða það sama og af sterku víni. Það gjald hefur ekkert breyst á tímabilinu. Í því felst að gjaldið hefur lækkað um 25% að raungildi á umræddu tímabili.

     2.      Hver hefur verið hækkun neysluverðsvísitölu á sama tíma?
    Eins og fram kemur í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar hefur vísitala neysluverðs hækkað um tæplega 30% á þessu tímabili.

     3.      Hefur þróun áfengisgjalds endurspeglast í verðlagningu áfengis á sama tíma að teknu tilliti til gengisþróunar?

    Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hefur áfengisverð þróast sem hér segir frá miðju ári 1995 þar til í nóvember 2002:


Áfengisverð:
Sterkt vín 15,4%
Léttvín 14,4%
Bjór 19,1%
Til samanburðar:
Bandaríkjadalur 33,9%
SDR 14,4%

    Samanburður við gengisþróun er afar erfiður þar sem markaðir fyrir innflutt áfengi eru mjög dreifðir. Þróun á gengi SDR er líklega heppilegasti mælikvarðinn þegar á heildina er litið, en hækkun þeirrar gengisviðmiðunar nemur 14,4% á því tímabili sem um ræðir. Hún er því sú sama og verðhækkun léttvíns, þrátt fyrir að áfengisgjald af léttu víni hafi lækkað um 10% á sama tímabili. Þess má geta að meira er framleitt af bjór innanlands en flutt er inn.