Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 315. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 684  —  315. mál.




Skýrsla



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um ástæður þess að hlutfall öryrkja á Íslandi er hæst á Norðurlandi eystra, samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



    Með beiðni (á þskj. 340) frá Soffíu Gísladóttur og fleiri alþingismönnum er þess óskað að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um ástæður þess að hlutfall öryrkja á Íslandi er hæst á Norðurlandi eystra.
    Skýrsla um ástæður þess að örorka á Norðurlandi eystra er ívið hærri en annars staðar á landinu verður að byggjast á gögnum sem sýna marktækan mun í þeim mæli að ætla mætti að um óeðlilega þróun sé að ræða. Í svari frá læknadeild Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að deildin hefur engin gögn sem skýra þann mun sem kemur fram í ívið hærra hlutfalli öryrkja á Norðurlandi eystra en annars staðar á landinu.
    Tilgáta læknadeildar um þennan vart marktæka mun er sú að fjöldi öryrkja markist nokkuð af því hvar hægt sé að leita úrræða við því að lifa með örorku sinni á bærilegan hátt. Nú er örorka mismunandi þannig að þegar stöðug meðferð hjá fagfólki er nauðsynleg, sem ekki er hægt að fá nema á stærri stöðum eins og á Akureyri og í Reykjavík, má gera ráð fyrir að þeir sem þurfa á slíkri stöðugri meðferð að halda taki sér búsetu á þeim stöðum.
    Eftirfarandi tafla sýnir að hlutfall öryrkja í hverju kjördæmi af heildarfjölda þeirra er alls staðar lægra en hlutfall íbúa í hverju kjördæmi af heildarfjölda landsmanna nema í Reykjavík og á Norðurlandi eystra. Sama á við um Suðurland þar sem munurinn er vart marktækur. Munurinn er langmestur í Reykjavík, eða 4,3%, þar sem rétt 48% öryrkja búa en heildarfjöldi íbúa í Reykjavík er um 43,7% landsmanna. Munurinn á Norðurlandi eystra er einungis 1,6%, þ.e. þar búa 10,6% öryrkja en hlutfall íbúa þar er rúm 9% af heildarfjölda landsmanna. Í öðrum kjördæmum er hlutfall öryrkja lægra en hlutfall íbúa af heildarfjölda landsmanna.

Örorkulífeyrisþegar flokkaðir eftir kjördæmum og hlutfalli af fjölda.

Hlutfall af Hlutfallsleg skipting
Árið 2001 íbúafjölda öryrkja íbúa
Reykjavík 5,7% 48,0% 43,7%
Reykjanes 4,4% 21,1% 25,0%
Vesturland 4,4% 4,1% 4,9%
Vestfirðir 4,2% 2,2% 2,8%
Norðurland vestra 5,2% 3,1% 3,1%
Norðurland eystra 6,1% 10,6% 9,0%
Austurland 4,3% 3,3% 4,1%
Suðurland 5,4% 7,6% 7,4%
Meðaltal: 5,2%

    Miðað við framangreint þykja frávik þau sem tölur um hlutfall öryrkja á Norðurlandi eystra miðað við aðra landshluta sýna ekki gefa tilefni til frekari rannsókna. Það breytir ekki því að sú fyrirætlan að koma á fót endurhæfingarmiðstöð fyrir öryrkja á Húsavík er eindregið af hinu góða og væri það í samræmi við átak Tryggingastofnunar ríkisins um starfsendurhæfingu öryrkja sem þegar er farið að skila góðum árangri. Ekki er ástæða til að ætla að greining á því hvers vegna hlutfall öryrkja er ívið hærra á Norðurlandi eystra en annars staðar, burtséð frá Reykjavík eftir því hvaða hlutfall er notað, eigi að skila betri eða skjótari árangri með tilliti til starfsendurhæfingar þar sem taka þarf tillit til sérþarfa hvers einstaklings í ríkum mæli. Það hefur a.m.k. ekki verið vandamál í Reykjavík hvað varðar starfsendurhæfingu að hlutfallslega fleiri öryrkjar búa þar en hlutfall íbúa segir til um.
    Þar sem það er tiltölulega eðlilegur hlutur að fólk flytur frekar á þá staði þar sem úrræði við vanda þess er að finna má jafnvel frekar gera ráð fyrir að með tilkomu nýrrar endurhæfingarmiðstöðvar á Húsavík muni hlutfall öryrkja á Norðurlandi eystra hækka enn frekar og lækka annars staðar.