Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 336. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 688  —  336. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Vísinda- og tækniráð.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin fjallaði um málið í samstarfi við menntamálanefnd og iðnaðarnefnd þingsins. Frumvarpið er samtvinnað 357. máli, um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, sem menntamálanefnd hefur til umfjöllunar, og 345. máli, um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, sem iðnaðarnefnd hefur til umfjöllunar.
    Mál þessi voru einnig lögð fram á 127. þingi en urðu ekki útrædd og þá bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Arkitektafélagi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bændasamtökum Íslands, dr. Skúla Sigurðssyni, Félagi háskólakennara, Félagi íslenskra landslagsarkitekta, Félagi prófessora við Háskóla Íslands, Fornleifavernd ríkisins, Hafrannsóknastofnuninni, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum í Reykjavík, Hjartavernd, Iðntæknistofnun, Kennaraháskóla Íslands, læknaráði Landspítala – háskólasjúkrahúss, Náttúrufræðistofnun Íslands, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Orkustofnun, Rannsóknarráði Íslands, Rannsóknastofu Háskóla Íslands í meinafræði, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, Skipulagsfræðingafélagi Íslands, Veðurstofu Íslands og Veiðimálastofnun. Frumvörpin eru nú lögð fram á ný að teknu tilliti til þeirra athugasemda sem fram komu við meðferð þeirra á síðasta þingi.
    Allsherjarnefnd fékk á sinn fund Ólaf Davíðsson frá forsætisráðuneytinu. Á sameiginlegan fund nefndanna þriggja komu Páll Skúlason og Jón Atli Benediktsson frá Háskóla Íslands, Hallgrímur Jónasson frá Iðntæknistofnun, Þorsteinn Tómasson frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Úlfar Steindórsson frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Hafliði P. Gíslason og Kristján Kristjánsson frá Rannsóknarráði Íslands, Davíð Lúðvíksson frá Samtökum iðnaðarins, Hólmar Svansson og Róbert Jónsson fyrir hönd atvinnuþróunarfélaganna á landsbyggðinni. Þá bárust nefndunum á ný umsagnir um frumvörpin frá Bandalagi háskólamanna, Rannsóknarráði Íslands, Orkustofnun, Samtökum atvinnulífsins, Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, Bændasamtökum Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Hafrannsóknastofnuninni, Háskólanum í Reykjavík, læknaráði Landspítala – háskólasjúkrahúss, Seðlabanka Íslands, Félagi háskólakennara, Félagi prófessora við Háskóla Íslands, Rannsóknastofu Háskóla Íslands í meinafræði, Háskóla Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og dr. Skúla Sigurðssyni.




Prentað upp.

    Með frumvarpi þessu er lagður grunnur að nýskipan vísindarannsókna, vísindamenntunar og tækniþróunar í landinu. Ábyrgð á þessum málum hefur til þessa hvílt á einstökum fagráðuneytum en að mestu án heildarsamræmingar þeirra á milli. Með hliðsjón af breyttum aðstæðum er nú lagt til að samræmd umfjöllun um málefni vísinda og tækni verði færð á efsta stig stjórnsýslunnar og málaflokkurinn þannig efldur til muna. Mikilvægt þykir að ákvarðanir séu teknar með heildarsýn í fyrirrúmi á grundvelli stefnu sem mörkuð er af stjórnvöldum. Með frumvarpinu er þannig lagt til að stefnumótun í málefnum vísindarannsókna og tækniþróunar fari fram í Vísinda- og tækniráði sem skipað verður 14 einstaklingum, vísindamönnum og fulltrúum atvinnulífsins auk þess sem fjórir ráðherrar munu eiga fast sæti í ráðinu. Aðrir ráðherrar sem tengjast rannsóknum að umtalsverðu leyti tilnefna í ráðið. Jafnframt er forsætisráðherra heimilt að kveðja allt að tvo ráðherra til setu í ráðinu í senn. Ef ríkisstjórnin vill leggja sérstakar áherslur í málum sem snerta ráðherra aðra en þá sem eiga fast sæti í ráðinu geta viðkomandi ráðherrar tekið þátt í störfum ráðsins þegar þeirra mál eru til umfjöllunar. Þeir gætu síðan horfið úr ráðinu og aðrir tveir tekið við ef svo bæri undir. Með tilliti til heildarsamsetningar ráðsins var ekki talin ástæða til þess að fleiri en sex ráðherrar væru í því hverju sinni.
    Meiri hlutinn tekur undir markmið frumvarpsins og telur að með því sé tryggður aukinn stuðningur við vísindarannsóknir og tækniþróun í landinu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    5. gr. orðist svo:
    Með reglugerð getur forsætisráðherra mælt nánar fyrir um starfsemi Vísinda- og tækniráðs, menntamálaráðherra um starfsemi vísindanefndar og iðnaðarráðherra um starfsemi tækninefndar.

Alþingi, 9. des. 2002.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Kjartan Ólafsson.


Sigríður Ingvarsdóttir.



Pétur H. Blöndal.


Hjálmar Árnason.