Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 345. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 689  —  345. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin fjallaði um málið í samstarfi við allsherjarnefnd og menntamálanefnd þingsins. Frumvarpið er samtvinnað 336. máli, um Vísinda- og tækniráð, sem allsherjarnefnd hefur til umfjöllunar, og 357. máli, um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, sem menntamálanefnd hefur til umfjöllunar.
    Mál þessi voru lögð fram á 127. þingi en urðu ekki útrædd. Þá bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Arkitektafélagi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bændasamtökum Íslands, dr. Skúla Sigurðssyni, Félagi háskólakennara, Félagi íslenskra landslagsarkitekta, Félagi prófessora við Háskóla Íslands, Fornleifavernd ríkisins, Hafrannsóknastofnuninni, skrifstofu rektors Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum í Reykjavík, Hjartavernd, Iðntæknistofnun, Kennaraháskóla Íslands, læknaráði Landspítala – háskólasjúkrahúss, Náttúrufræðistofnun Íslands, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Orkustofnun, Rannsóknarráði Íslands, Rannsóknastofu Háskóla Íslands, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, Skipulagsfræðingafélagi Íslands, Veðurstofu Íslands og Veiðimálastofnun. Frumvörpin eru nú endurflutt með nokkrum breytingum í samræmi við framkomnar athugasemdir.
    Nefndin fékk á sinn fund Svein Þorgrímsson frá iðnaðarráðuneyti. Á sameiginlegan fund nefndanna þriggja komu Páll Skúlason og Jón Atli Benediktsson frá Háskóla Íslands, Hallgrímur Jónasson frá Iðntæknistofnun, Þorsteinn Tómasson frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Úlfar Steindórsson frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Hafliði P. Gíslason og Kristján Kristjánsson frá Rannsóknarráði Íslands, Davíð Lúðvíksson frá Samtökum iðnaðarins og Hólmar Svansson og Róbert Jónsson fyrir hönd atvinnuþróunarfélaganna á landsbyggðinni.
    Nefndunum bárust umsagnir um málin frá Bandalagi háskólamanna, Rannsóknarráði Íslands, Orkustofnun, Samtökum atvinnulífsins, Raunvísindastofnun Háskólans, Bændasamtökum Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Hafrannsóknastofnuninni, Háskólanum í Reykjavík, læknaráði Landspítala – háskólasjúkrahúss, Seðlabanka Íslands, Félagi háskólakennara, Félagi prófessora og Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði, Háskóla Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og dr. Skúla Sigurðssyni.
    Frumvarp þetta er hluti af nýskipan vísinda og rannsókna sem lagt er til að komið verði á og grunnur er lagður að í frumvarpi forsætisráðherra til laga um Vísinda- og tækniráð.
    Frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar er ætlað að brúa bilið á milli þekkingarsköpunar sem verður til í vísindasamfélaginu og frumkvöðla og fyrirtækja sem hagnýta þekkinguna. Lagt er til að á vegum Iðntæknistofnunar Íslands verði rekin nýsköpunarmiðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Þá er lagt til að stofnaður verði tækniþróunarsjóður sem hafi það hlutverk að styrkja þróun og rannsóknir sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi.
    Það er mat meiri hlutans að með þeirri nýju skipan sem hér er lögð til séu vísindarannsóknum, vísindamenntun og tækniþróun sköpuð ný og framsækin umgjörð sem sé til þess fallin að hleypa nýju lífi í málaflokkinn. Lengi hefur verið bent á að svokallað „þolinmótt fjármagn“ liggi ekki á lausu til nýsköpunarverkefna. Með stofnun nýsköpunarmiðstöðvar, sem og tæknisjóðs, er stigið mikilvægt skref til stuðnings vaxtarsprotum í atvinnulífinu.
    Málefni vísinda og tækni eru þess eðlis að stöðugt verður að huga að því hvort skipan mála sé með þeim hætti að hámarksárangri verði náð. Þannig má segja að þær breytingar sem hér eru lagðar til séu hvorki upphaf né endir í þróun umgjarðar um vísinda- og tæknimál heldur skref sem er stigið til heilla að mati meiri hlutans
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 9. des. 2002.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Pétur H. Blöndal.



Kjartan Ólafsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.