Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 457. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 759  —  457. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun hlutafélags um Norðurorku.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Norðurorku og Starfsmannafélagi Akureyrarbæjar.
    Frumvarpið felur í sér heimild fyrir Akureyrarbæ til að stofna hlutafélag um rekstur Norðurorku. Tilefni þess er ósk frá bæjarstjórn Akureyrar.
    Frumvarpið felur í sér sambærilegar formbreytingar og áður hafa verið samþykktar á Alþingi varðandi Hitaveitu Suðurnesja og Orkubú Vestfjarða.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að við breytinguna haldist áunnin réttindi starfsmanna Norðurorku og jafnframt ávinnsla réttinda samkvæmt gildandi kjarasamningum. Þá telur meiri hlutinn eðlilegt að nýir starfsmenn fái að ráða því í hvaða stéttarfélag þeir kjósa að ganga við nýráðningu eftir formbreytinguna.
    Meiri hlutinn leggur til þrjár breytingar á frumvarpinu. Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að stjórn Norðurorku skuli skipuð fimm aðalmönnum og jafnmörgum til vara. Ekki verður séð að þörf sé á því að kveða á um þetta í lögunum. Eðlilegast er að eigandi fyrirtækisins ákveði sjálfur fjölda stjórnarmanna í samræmi við ákvæði laga um hlutafélög. Meiri hlutinn leggur því til að ákvæði þetta verði fellt brott. Þá er lögð til orðalagsbreyting í 5. gr. frumvarpsins. Breytingin hefur ekki efnislega breytingu í för með sér. Loks er lagt til að 7. gr. frumvarpsins um réttindi starfsmanna verði orðuð með sama hætti og gert er í lögum um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja og Orkubú Vestfjarða.
    Meiri hlutinn mælir með að frumvarpið verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:


     1.      4. gr. falli brott.
     2.      2. málsl. 1. mgr. 5. gr. orðist svo: Norðurorka hf. yfirtekur samninga sem Norðurorka hefur gert um vatnssölu eða rekstur vatnsveitu í öðrum sveitarfélögum.
     3.      7. gr. orðist svo:
                  Fastráðnir starfsmenn Norðurorku skulu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi og skulu þeim boðnar stöður hjá því, sambærilegar þeim er þeir áður gegndu, enda haldi þeir hjá félaginu réttindum sem þeir höfðu þegar áunnið sér.




Prentað upp.

                  Um biðlaunarétt sem kann að hafa fylgt störfum hjá Norðurorku gilda ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Alþingi, 13. des. 2002.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Pétur H. Blöndal.



Ísólfur Gylfi Pálmason.


Árni R. Árnason.


Kjartan Ólafsson.



Bryndís Hlöðversdóttir.


Svanfríður Jónasdóttir.