Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 419. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 810  —  419. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Bryndísar Hlöðversdóttur um Sundabraut.

     1.      Telur ráðherra koma til greina að beitt verði 29. gr. vegalaga við fjármögnun Sundabrautar og að Reykjavíkurborg verði krafin um greiðslu aukakostnaðar sem hlýst af því að farin verði sú leið sem borgin leggur til við lagningu brautarinnar?
    Lagagreinin sem vísað er til, 29. grein vegalaga, hljóðar svo: „Vegir skulu lagðir í samræmi við skipulag. Við gerð skipulags skal haft samráð við Vegagerðina um val á legu þjóðvega og tengingar við þá. Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en Vegagerðin telur æskilegt og það leiðir til aukins kostnaðar er heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmun. Rísi ágreiningur um réttmæti slíkrar kröfu eða um fjárhæð skal málinu skotið til ráðherra til úrskurðar.“
    Samkvæmt ákvæðum greinarinnar er það á verksviði Vegagerðarinnar að ákveða hvort heimildarákvæðinu er beitt og Vegagerðin hefur kynnt þá afstöðu sína að hún muni bera fyrir sig þessa lagagrein, ef leið borgarinnar er valin. Það er á hinn bóginn hlutverk samgönguráðherra að úrskurða í málinu, ef ágreiningur rís milli aðila.
    Af þessari hlutverkaskipan leiðir að samgönguráðherra getur ekki svarað umræddri spurningu, þar eð með því yrði hann vanhæfur til að úrskurða í málinu, ef það kæmi til hans síðar.

     2.      Ef svo er, hver eru rökin fyrir því að beita slíkri heimild í tilviki Sundabrautar?

    Þessari spurningu verður heldur ekki svarað af ástæðum sem raktar eru hér á undan. Þess ber og að gæta að mál þetta er enn á undirbúningsstigi og Vegagerðin hefur ekki fengið það til formlegrar afgreiðslu, þ.e. aðeins liggur fyrir fjárheimild Alþingis til undibúnings verksins.

     3.      Hefur slíkri heimild verið beitt áður, og ef svo er, í hvaða tilvikum?

    Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hefur heimildarákvæðið einu sinni beinlínis ráðið vali á veglínu. Það var í Stykkishólmi, en sveitarstjórn hafði hug á nýrri legu fyrir innkeyrslu í bæinn. Sveitarstjórn féll frá þeirri ósk þegar henni var gerð grein fyrir að heimildarákvæðinu yrði beitt. Ákvæðið hefur oftar borið á góma í samskiptum Vegagerðarinnar og sveitarstjórna þó að ekki hafi reynt á það.