Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 409. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 823  —  409. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Helgu Halldórsdóttur um Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi.

     1.      Er fyrirhugað að efla þjónustu Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi?
    Á hverju ári leggja svæðisskrifstofur málefna fatlaðra fram fjárlagatillögur sínar til ráðuneytisins. Þessum tillögum er ætlað að taka mið af þjónustuþörf á viðkomandi svæði. Ráðuneytið fer síðan yfir þessar tillögur og forgangsraðar út frá þörfum á landinu öllu.
    Á síðasta áratug hefur náðst veruleg bót á rekstrarumhverfi svæðisskrifstofa á landsbyggðinni sem t.d. hefur leitt til þess að biðlistar eftir búsetu og atvinnu er nú hverfandi á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem nokkuð er óunnið. Það hefur því verið vilji ráðuneytisins á undanförnum árum að leggja áherslu á að styrkja stoðir þjónustunnar á sviði búsetu og vinnumála á höfuðborgarsvæðinu svo að jafnræði verði sem mest á landinu varðandi veitta þjónustu.
    Komi upp mjög sérstakar þarfir sem ekki er gert ráð fyrir hjá viðkomandi svæðisskrifstofu og hún telur sig ekki geta leyst úr á eigin spýtur er málið oft kynnt ráðuneytinu. Þarfir svæðisskrifstofa eru alltaf metnar út frá öðrum þörfum sem óskað er eftir að sé fullnægt.
    Ráðuneytið hefur lagt ríka áherslu á sjálfstæði og ábyrgð svæðisskrifstofanna á þeim fjármunum sem þær hafa til ráðstöfunar á hverju ári. Það er því á þeirra ábyrgð að efla ákveðna þætti þjónustunnar eða draga úr þeim eftir aðstæðum á hverju svæði.

     2.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við aukinni þörf fyrir þjónustu við fatlaða á Vesturlandi?
    Hjá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi er þjónustustig með því besta sem gerist á landsvísu. Það er því mat ráðuneytisins að skrifstofan hafi nokkurt svigrúm til að bregðast við aukinni þörf fyrir þjónustu. Hins vegar er ljóst að meta þarf aðstæður á hverju svæði reglulega. Telji ráðuneytið að aðstæður breytist mikið á ákveðnu tímabili endurskoðar það afstöðu sína til þess hvernig þarfirnar verið uppfylltar. Þess ber að geta að fjárlög ársins 2003 gera ráð fyrir 171,5 millj. kr. fjárveitingu og þar er talin með viðbót upp á 2,5 millj. kr. sem samþykkt var við aðra umræðu um fjárlagafrumvarpið. Fjárveitingar til Svæðisskrifstofu Vesturlands munu einnig hækka í samræmi við verðlagshækkanir sem nýsamþykkt fjárlög gera ráð fyrir.

     3.      Ætlar ráðherra að beita sér fyrir því að Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vesturlandi geti eflt ráðgjafarþjónustu sína?

    Með vísan til svars við 1. lið fyrirspurnarinnar er það ákvörðun viðkomandi svæðisskrifstofu hvort hún leggur áherslu á að efla ráðgjafarþjónustu á svæðinu. Ráðherra er fylgjandi styrkri og öflugri ráðgjafarþjónustu svo að sem flestir geti notið einhverrar þjónustu en bendir enn og aftur á að forgangsröðun er í hendi viðkomandi svæðisskrifstofu.

     4.      Hvernig mun ráðherra tryggja nægjanlegt fjármagn til skammtímavistunar að Holti og Gufuskálum?
    Þessum lið hefur þegar verið svarað.