Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 451. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 847  —  451. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ingvarsdóttur um kynferðisbrot.

     1.      Hversu margar kærur hafa borist undanfarin 10 ár fyrir brot gegn ákvæðum 194.–202. gr. almennra hegningarlaga?
    Eftirfarandi tafla sýnir fjölda kærðra kynferðisbrota hjá lögreglu á landinu öllu frá 1998 til 2001 eftir ákvæðum 194.–202. gr. almennra hegningarlaga. Þessar upplýsingar byggjast á ársskýrslum ríkislögreglustjórans og er miðað við fjölda skráðra brota í málaskrá. Tölur frá árinu 1998 eru teknar beint úr miðlæga málaskrárkerfinu í desember 2002, en þær voru á sínum tíma teknar saman af lögreglustjórunum sjálfum.
    Fjöldi kærðra kynferðisbrota á Íslandi frá 1998 til 2001 eftir brotaflokki (194.–202. gr. almennra hegningarlaga) var sem hér sést:

1998 1999 2000 2001
Kynferðisbrot, nauðgun (194. gr.)
44 48 36 51
Kynferðisbrot, ólögmæt nauðung (195. gr.)
1 0 4 4
Kynferðisbrot, misneyting (andlegir annmarkar, rænuleysi) (196. gr.)
14 19 17 32
Kynferðisbrot, misneyting (varúðarákvæði, trúnaðarbrot) (197. gr.)
4 10 13 5
Misneyting, kynmök (frekleg misn. aðstöðu) (1. mgr. 198. gr.)
2 0 1 0
Kynferðisbrot, önnur kynferðisáreitni (2. mgr. 198. gr.)
10 10 12 11
Kynferðisbrot, svik (villa um hjúskap) (1. mgr. 199. gr.)
1 0 0 0
Kynferðisbrot, sifjaspell (1. mgr. 200. gr.)
0 3 4 4
Kynferðisbrot, sifjaspell (önnur kynferðisleg áreitni
) (2. mgr. 200. gr.)
0 3 10 5
Kynferðisbrot, sifjaspell (kynmök systkina) (3. mgr. 200. gr.)
0 1 1 1
Kynferðisbrot, mök við börn uppalanda (1. mgr. 201. gr.)
0 3 3 8
Kynferðisbrot, önnur kynferðisleg áreitni við börn uppalanda (2. mgr.
201. gr.)

1

0

5

8
Kynferðisbrot, mök við yngri en 14 ára (fyrri málsliður 1. mgr. 202. gr.)
7 9 18 23
Kynferðisbrot, mök við 14–16 ára (2. mgr. 202. gr.)
4 5 5 4
Kynferðisbrot, við yngri en 14 ára (síðari málsliður 1. mgr.
202. gr.)
8 8 20 19
Samtals
96 119 149 175

    Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um fjölda kæra 10 ár aftur í tímann. Hér hafa verið teknar saman þær upplýsingar sem fyrirliggjandi eru og er greint frá forsendum talnanna í hverrri línu fyrir sig. Almennt ber þó að hafa það í huga að miðað er við það ár sem brot er kært til lögreglu sem þarf ekki að vera sami tími og brot á sér stað. Þannig er stundum um brot að ræða sem eiga sér ítrekað stað yfir lengri tíma sem eru talin hér einu sinni á því ári sem brotið er kært. Þá getur einn verknaður falið í sér fleiri en eitt brot.
    Upplýsingar um fjölda kæra á árinu 2002 liggja ekki enn fyrir en bráðabirgðatölur sem teknar voru saman af ríkislögreglustjóra fylgja með svarinu í fylgiskjali.

     2.      Hversu margir dómar féllu á sömu árum fyrir brot gegn þessum ákvæðum?

    Eftirfarandi tafla sýnir hversu margir dómar féllu á hverju ári fyrir brot gegn nefndum ákvæðum. Þá er samanlagður fjöldi brota gegn hverju ákvæði á þessu tímabili feitletraður neðst í töflu við hvert ákvæði og samanlagður fjöldi brota gegn öllum ákvæðunum á hverju ári feitletraður lengst til hægri í töflu.

Ár 194. gr. 195. gr. 196. gr. 197. gr. 198. gr. 199. gr. 200. gr. 201. gr. 202. gr. Alls
1992 8 1 1 1 8 19
1993 13 7 1 5 26
1994 13 2 3 8 26
1995 12 2 7 2 2 9 34
1996 7 1 3 1 1 9 22
1997 6 9 1 4 8 28
1998 4 8 1 1 10 24
1999 3 1 3 2 13 22
2000 5 1 5 1 1 11 24
2001 5 2 2 7 4 16 36
2002 4 1 5 2 6 18
Samtals 80 9 44 9 2 1 15 16 103 279
    

     3.      Telur ráðherra ástæðu til þess að þyngja lágmarksrefsingu fyrir kynferðisbrot með hliðsjón af vægum dómum fyrir slík brot þrátt fyrir rúman refsiramma?

    Á undanförnum árum hefur þeirri stefnu verið fylgt á Norðurlöndunum að afnema sem flest sérákvæði laga um refsilágmark og eru slík ákvæði fátíð í íslenskum hegningarlögum. Dæmi um slíkt ákvæði er nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga (194. gr.) en þar er refsilágmark eins árs fangelsi og refsihámark 16 ára fangelsi. Á hinum Norðurlöndunum er lágmarksrefsing tilgreind í nauðgunarákvæðum hegningarlaga að Danmörku undanskilinni en þar hefur refsilágmark í kynferðisbrotakaflanum verið afnumið með öllu. Í Finnlandi er lágmarksrefsing fyrir almennt nauðgunarbrot eitt ár en í Svíþjóð og Noregi tvö ár. Í Svíþjóð og Noregi eru einnig ákvæði um refsilágmark í öðrum ákvæðum kynferðisbrotakaflans svo sem í ákvæðum sem leggja refsingu við samræði við börn, en slík ákvæði eru ekki í dönskum og finnskum lögum.
    Þau rök sem hafa verið færð fram í tilfellum þar sem refsilágmark hefur verið afnumið eru einkum að aðferðir við framningu viðkomandi brota geti verið mismunandi vítaverðar og aðdragandi mismunandi. Reynslan hafi sýnt að tiltekið lágmark refsingar hafi í slíkum tilvikum reynst óheppilegt. Þegar ákvæði kveða á um lágmarksrefsingu er enginn möguleiki á að dæma vægari refsingu þrátt fyrir að aðstæður séu allar með því móti að til refsilækkunar horfi. Heppilegra hefur reynst að fela dómurum að meta aðstæður í hverju tilviki og kveða á um viðeigandi refsingu.
    Hvað varðar kynferðisbrot gegn börnum er vert að geta þess að í desember 2002 var lagt fyrir ríkisstjórn frumvarp þar sem m.a. eru lagðar til breytingar á 200. og 201. gr. almennra hegningarlaga. Frumvarpið var samið af refsiréttarnefnd að tilhlutan dómsmálaráðherra. Í frumvarpinu er lagt til að hámark refsingar í nefndum ákvæðum verði hækkað, annars vegar úr sex árum í átta ár og hins vegar úr 10 árum í 12 ár. Í greinargerð með frumvarpinu segir að með þessari breytingu sé gert ráð fyrir að refsingar þyngist. Sérfræðingar refsiréttarnefndar töldu slíka leið vænlegri en að lögfesta ákveðið refsilágmark.
    Að þessu virtu hefur ekki verið talið ráðlegt að þyngja lágmarksrefsingu fyrir kynferðisbrot í því skyni að þyngja refsingar við þeim brotum.

     4.      Telur ráðherra ástæðu til þess að lengja enn frekar fyrningarfrest vegna brota gegn ákvæðum 194.–202. gr. almennra hegningarlaga?

    Margar mikilvægar ástæður mæla með fyrningarreglum í hegningarlögum, enda eru þær almennt viðurkenndar sem meginreglur á sviði refsiréttar. Þegar ákvörðun er tekin um lögfestingu fyrningarreglna er nauðsynlegt að taka tillit til þeirra lagasjónarmiða sem gilda almennt um fyrningu i refsiréttinum. Fræðimenn hafa talið margar ástæður mæla með fyrningarreglum og gegn óhóflega löngum fyrningarfresti. Þar megi helst nefna hagkvæmnis-, sanngirnis- og skynsemisrök en tilfinningarök hafi einnig vissulega áhrif. Eftir því sem lengri tími líði frá refsiverðri háttsemi séu meiri líkur til að sönnunargögn glatist og að erfiðara sé að afla þeirra. Þá sé málsvörn einnig erfið í slíkum málum. Sjónarmið sem réttlæti refsingu verði almennt veikari eftir því sem lengra líði frá broti og með tímanum dragi úr refsiþörf og fullnustuþörf. Oft hefur brotamaður breytt lífi sínu til hins betra og hagir hans breyst að öllu leyti. Þörfin fyrir útrás vanþóknunar og fordæmingar minnki einnig smám saman þótt vissulega njóti kynferðisbrot nokkurrar sérstöðu. Einu brotin sem fyrnast ekki samkvæmt almennum hegningarlögum eru þau brot sem geta varðað ævilöngu fangelsi.
    Með lögum nr. 63/1998 var gerð breyting á fyrningarreglum almennra hegningarlaga til að bæta réttarstöðu þolenda kynferðisbrota. Í frumvarpi með nefndum lögum kom fram að þegar kynferðisbrot beindust gegn börnum væri hætt við að fyrningarfrestur væri liðinn þegar börn hefðu ná þeim þroska sem þyrfti til þess að gera sér grein fyrir því að um refsivert brot væri að ræða. Auk þess var talið hætt við að börn hefðu takmarkaða möguleika á að kæra slík afbrot. Í lagabreytingunni fólst að í stað þess að miða upphaf fyrningarfrests eingöngu við það tímamark þegar refsiverðum verknaði lauk, þá mætti miða hann við það tímamark þegar brotaþoli hefði náð 14 ára aldri. Þá sagði einnig í frumvarpinu að hafa bæri í huga að samkvæmt breytingunni færi fyrningarfresturinn aldrei að líða fyrr en við 14 ára aldursmarkið. Innan þess frests mætti almennt ætla að brotaþoli hefði náð nægilegum þroska til þess að gera sér grein fyrir afbrotinu og átt kost á að kæra það.
    Samkvæmt breytingunni getur brotaþoli kært kynferðisbrot allt til 29 ára aldurs ef það hefur verið fullframið fyrir 14 ára aldur hans og síðar ef brotið hefur verið framið eftir að brotaþoli náði 14 ára aldri. Til samanburðar má nefna að réttarvernd annars staðar á Norðurlöndunum er mjög sambærileg við það sem gerist hér á landi að Noregi undanskildum. Í dönskum rétti miðast upphaf fyrningar við 18 ára aldur en sjálfur fyrningarfresturinn er styttri eða 10 ár fyrir brot sem geta varðað þyngri refsingu en 10 ára tímabundnu fangelsi. Í sænskum rétti er miðað við 15 ára aldur og fyrningarfrestur er 15 ár þegar refsing getur varðað þyngri refsingu en átta ára fangelsi, en í Finnlandi er upphaf fyrningarfrests einungis miðað við þann dag sem refsiverðum verknaði lauk en fyrningarfresturinn er 20 ár fyrir brot sem varða þyngri refsingu en átta ára fangelsi. Samkvæmt norskum rétti getur fyrningarfresturinn orðið lengstur en þar er miðað við að hann hefjist við 18 ára aldur og fresturinn er 25 ár þegar refsing getur varðað allt að 21 árs fangelsi.
    Með breytingunni sem gerð var á almennu hegningarlögunum með lögum nr. 63/1998 var réttarvernd barna á þessu sviði aukin verulega. Samkvæmt meginreglum refsiréttar er þó ekki hægt að beita þessum nýju ákvæðum afturvirkt og geta þau því ekki átt við brot sem framin eru fyrir þann dag sem lögin voru samþykkt og birt árið 1998. Þeir dómar sem hafa gengið á síðustu árum þar sem sýknað hefur verið vegna fyrningar eru vegna brota sem framin hafa verið fyrir gildistöku laga 63/1998 og lúta því eldri fyrningarreglum. Ekki hefur komið upp tilvik þar sem mál hefur verið talið fyrnt samkvæmt fyrrnefndri lagabreytingu.
    Þá er rétt að geta þess að með þeirri vitundarvakningu sem hefur orðið í þjóðfélaginu á síðustu árum varðandi kynferðisbrot gegn börnum eru líkur á að þessi brot komi fyrr upp á yfirborðið en áður. Fjöldi stofnana og samtaka hafa öðlast mikla sérþekkingu á þessu sviði og er slíkt fallið til þess að greiða fyrir því að mál sem þessi komi strax upp á yfirborðið og fari í réttan farveg. Má í þessu sambandi nefna að kærum til lögreglu og dómsmálum vegna kynferðisbrota gegn börnum hefur fjölgað verulega síðastliðin 10 ár. Þá hafa einnig ýmis samtök og stofnanir öðlast mikla sérþekkingu í þessum málaflokki. Slík samtök og stofnanir, svo sem neyðarmóttaka vegna kynferðisofbeldis, Stígamót, Kvennaathvarfið, Barnaverndarstofa og Barnaheill hafa verið vel kynnt í þjóðfélaginu og greiðir það fyrir því að þessi brot komi upp á yfirborðið. Þá hafa rannsóknaraðferðir sem beitt er í þessum málum sem og málsmeðferð í heild tekið stórstígum framförum og má t.d. nefna Barnahús í því sambandi.
    Með vísan til þess sem hér hefur verið sagt er talið að núgildandi ákvæði um fyrningu í almennum hegningarlögum veiti þolendum kynferðisbrota næga réttarvernd og því ekki talin ástæða til, að svo stöddu, að gera breytingar þar á.


Fylgiskjal.


Ríkislögreglustjóri:


Skráð kynferðisbrot 2002, bráðabirgðatölur.
(22. janúar 2003.)

    Fjöldi skráðra kynferðisbrota sem falla undir 194.–202. gr. almennra hegningarlaga samkvæmt málaskrá 17. janúar 2003. Hafa verður þann fyrirvara á þessum tölum að þær eru teknar mun fyrr út á árinu en tölur fyrri ára.

Fjöldi
Kynferðisbrot, nauðgun (194. gr.)
71
Kynferðisbrot, ólögmæt nauðung (195. gr.)
2
Kynferðisbrot, misneyting (andlegir annmarkar, rænuleysi) (196. gr.)
31
Kynferðisbrot, misneyting (varúðarákvæði, trúnaðarbrot) (197. gr.)
6
Kynferðisbrot, önnur kynferðisáreitni (2. mgr.198. gr.)
5
Kynferðisbrot, sifjaspell (1. mgr. 200. gr.)
4
Kynferðisbrot, sifjaspell (önnur kynferðisleg áreitni
) (2. mgr. 200. gr.)
9
Kynferðisbrot, mök við börn uppalanda (1. mgr. 201. gr.)
3
Kynferðisbrot, önnur kynferðisleg áreitni við börn uppalanda (2. mgr. 201. gr.)
1
Kynferðisbrot, mök við yngri en 14 ára (fyrri málsliður 1. mgr. 202. gr.)
13
Kynferðisbrot, mök við 14–16 ára (2. mgr. 202. gr.)
2
Kynferðisbrot, við yngri en 14 ára (síðari málsliður 1. mgr.
202. gr.)
24
Samtals
171