Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 157. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 916  —  157. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um skráningu skipa, nr. 115/1985, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta samgöngunefndar.



    Tilurð þessa frumvarps má rekja til bréfs Landssambands íslenskra útvegsmanna til samgönguráðuneytisins, dags. 29. apríl 1999, þar sem þess var farið á leit við íslensk stjórnvöld að þau leyfðu tvískráningu íslenskra fiskiskipa. Efni frumvarpsins er í samræmi við þá ósk. Tilgangurinn er sagður vera að auka möguleika íslenskra útgerða á að nýta skip sín til verkefna erlendis. Lagt er til að heimilt verði að skrá fiskiskip þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá en þau séu eftir sem áður frumskráð á íslenska skipaskrá.
    Íslenskar útgerðir sem hafa sóst eftir að nýta veiðiheimildir annarra ríkja hafa fært skip sín undir erlendan fána í þessum tilgangi og leigt þau til tengdra eða ótengdra aðila í erlenda ríkinu. Í þeim tilvikum hafa þau afskráð skip sín af íslenskri skipaskrá, skráð þau í öðru ríki, jafnvel þurrleiguskráð þau þaðan, og siglt undir fána þess ríkis sem á veiðiheimildirnar sem ætlunin er að nýta. Dæmi um veiðar sem Íslendingar hafa sótt í eru rækjuveiðar undir rússneskum fána í Barentshafi, rækjuveiðar undir fánum Eystrasaltsríkjanna á Flæmingjagrunni og þorskveiðar undir færeyskum fána í Barentshafi.
    Ljóst er að frumvarpið er mjög umdeilt og skiptast hagsmunaaðilar algerlega í tvö horn. Samtök sjómanna hafa lýst þeirri skoðun að „útgerðarmenn séu að þrýsta á stjórnvöld um að heimila tvískráningu fiskiskipa í þeim tilgangi að fá ódýrt erlent vinnuafl til starfa á skipum sínum í samkeppni við íslenska sjómenn“. Athugasemdirnar hafa einkum snúið að tveimur atriðum, annars vegar þeim aðstæðum þegar skip kæmi aftur til Íslands með erlenda áhafnarmeðlimi að lokinni þurrleigu, hins vegar að því að útgerðir noti þurrleigu til þess að stunda veiðar undir erlendum fána sem stunda mætti undir íslenskum fána, í því skyni að draga úr kostnaði við veiðarnar. Fram hefur komið að samtök sjómanna telja að við núverandi aðstæður sé opinberu eftirliti ábótavant, bæði varðandi það að erlendir sjómenn starfi á íslenskum skipum án atvinnuleyfis og varðandi þau laun sem erlendir sjómenn fái greidd. Sjómannasambandið óttast að við þurrleiguskráningu mundi þetta vandamál versna.
    Fyrsti minni hluti telur að ekki hafi komið fram nógu sterk rök fyrir þessari breytingu en þeim mun sterkari varnaðarorð og styður því ekki frumvarpið.

Alþingi, 3. febr. 2003.



Lúðvík Bergvinsson,


frsm.


Kristján L. Möller.