Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 568. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 919  —  568. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Skilgreining á hugtakinu aðildarríki í 7. gr. laganna breytist og orðast svo: aðildarríki, ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu eða aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu.

2. gr.

    Á eftir 90. gr. laganna koma tvær nýjar greinar ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

    a. (90. gr. A.)

Endurskipulagning fjárhags.

    Með endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélags er átt við ráðstöfun sem felur í sér íhlutun dómstóls og er ætlað að tryggja eða endurreisa fjárhagslega stöðu vátryggingafélags og hafa áhrif á réttindi aðila annarra en vátryggingafélagsins sjálfs. Til slíkra ráðstafana teljast greiðslustöðvun og nauðasamningar.
    Lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, gilda um heimild vátryggingafélags til að leita greiðslustöðvunar og nauðasamnings enda sé ekki á annan veg mælt í lögum þessum.
    Dómstóll skal sjá til þess að Fjármálaeftirlitinu verði tilkynnt þegar í stað um framkomna beiðni vátryggingafélags um heimild til að leita greiðslustöðvunar eða nauðasamnings. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna öðrum eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja ef vátryggingafélagi er veitt heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings.
    Úrskurður íslensks dómstóls um heimild vátryggingafélags með aðalstöðvar hér á landi til greiðslustöðvunar eða til nauðasamningsumleitana hefur einnig áhrif í öðrum aðildarríkjum og tekur til útibúa vátryggingafélagsins í þeim. Slíkur úrskurður dómstóls í öðru aðildarríki vegna vátryggingafélags með aðalstöðvar í aðildarríki tekur til útibúa vátryggingafélagsins hér á landi.
    Tilkynna skal lánardrottnum úrskurð um heimild vátryggingafélags til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings skv. 13. og 44. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
    Í tilkynningu skv. 5 mgr. til vátryggingataka, vátryggðra og annarra sem eiga kröfu á vátryggingafélag vegna vátryggingasamninga og hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki skal sérstaklega tekið fram hver áhrif úrskurður um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings hafi á vátryggingasamning og upplýsingar um réttindi og skyldur þeirra. Skal tilkynningin vera á tungumáli þess ríkis þar sem viðkomandi á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar.
     Lánardrottni sem á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki er heimilt að lýsa kröfu skv. 45. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. á tungumáli þess ríkis. Fyrirsögn kröfulýsingar skal þó vera á íslensku.
    Um heimild útibús vátryggingafélags með aðalstöðvar utan aðildarríkja til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings fer eftir íslenskum lögum. Hafi félagið útibú í fleiri en einu aðildarríki skal litið á hvert útibú sem sjálfstæðan lögaðila. Eftirlitsstjórnvöld skulu þó samræma aðgerðir og það sama á við um aðstoðarmenn skuldara við greiðslustöðvun og umsjónarmenn með nauðasamningum.

    b. (90. gr. B.)
    Íslensk lög skulu gilda um endurskipulagningu á fjárhag vátryggingafélags og útibúa þess erlendis nema á annan veg sé fyrir mælt í þessari grein.
    Vinnusamningur skal fara eftir lögum þess ríkis sem um vinnusamninginn og vinnusambandið gilda.
    Samningur um notkun eða kaup fasteignar skal fara eftir lögum þess ríkis þar sem fasteignin er staðsett.
    Réttur vátryggingafélags vegna fasteignar, skips eða flugvélar skal fara eftir lögum þess ríkis þar sem opinber skráning hefur farið fram.
    Heimild vátryggingafélags til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings skal ekki hafa áhrif á rétt veðhafa eignarréttinda sem eru í öðru aðildarríki þegar heimildin er veitt. Íslensk lög gilda þó um réttindi og skyldur aðila sem lúta opinberu eftirliti hérlendis.
    Hafi vátryggingafélag keypt eign með eignarréttarfyrirvara hefur heimild vátryggingafélagsins til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings ekki áhrif á réttindi seljanda sem byggjast á fyrirvaranum sé eign í öðru aðildarríki. Heimild vátryggingafélagsins til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings hefur ekki áhrif á sölu vátryggingafélags á eign hafi afhending þegar farið fram og eignin verið í öðru aðildarríki þegar heimildin var veitt.
    Þrátt fyrir ákvæði 5. og 6. mgr. er heimilt að beita ákvæðum III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga, nr. 7/1936, um ógilda löggerninga, nema lög gistiríkis heimili ekki slíkt.
    Hafi vátryggingafélag eftir að heimild hefur verið fengin til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings selt fasteign, skip eða flugvél sem háð er opinberri skráningu eða framseljanleg verðbréf eða önnur verðbréf skráð í verðbréfamiðstöð skulu lög þess ríkis þar sem eign er eða þar sem hin opinbera skráning hefur farið fram gilda um lögmæti löggerningsins.
    Um áhrif heimildar vátryggingafélags til að leita greiðslustöðvunar eða nauðasamnings á málshöfðun vegna eignar eða annarra réttinda sem vátryggingafélag hefur látið af hendi fer eftir lögum þess aðildarríkis þar sem málið var höfðað.
    Úrræði þau sem aðstoðarmaður skuldara við greiðslustöðvun og umsjónarmaður með nauðasamningi geta beitt samkvæmt íslenskum lögum hafa þeir jafnframt í öðrum aðildarríkjum. Við beitingu slíkra úrræða í öðru aðildarríki skulu þeir þó fara eftir lögum þess aðildarríkis eftir því sem við á.

3. gr.

    95. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Verði ákveðið að beiðast gjaldþrotaskipta á líftryggingafélagi gilda lög um gjaldþrotaskipti sé ekki á annan veg mælt í lögum þessum.
    Ákvæði 94. gr. um sérstaka meðferð líftryggingastofnsins gilda og getur Fjármálaeftirlitið krafist allra gagna frá þrotabúinu sem nauðsynleg eru til að unnt sé að ljúka uppgjöri hans og ráðstöfun. Auk tilkynningar í Lögbirtingablaði skv. 2. mgr. 94. gr. skal Fjármálaeftirlitið tilkynna vátryggingatökum, vátryggðum og öðrum, sem kröfu eiga á vátryggingafélag vegna vátryggingasamninga og hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki, um fyrirhugaðan flutning vátryggingastofnsins. Slík tilkynning skal vera á tungumáli þess ríkis þar sem viðkomandi á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar. Hafi sérstök meðferð líftryggingastofns verið ákveðin áður en beiðst er gjaldþrotaskipta hefur það ekki áhrif á framkvæmd samkvæmt þessari grein og 94. gr.
    Við gjaldþrotaskipti líftryggingafélags skal hvorki telja eignir sem mæta eiga líftryggingaskuldinni með eignum þrotabúsins né líftryggingaskuldina með skuldum þess. Hafi ekki tekist að ljúka greiðslu líftryggingakröfu með eignum þeim sem mæta eiga líftryggingaskuldinni fer um líftryggingakröfuna á hendur þrotabúi félagsins skv. 11. mgr. 96. gr.
    Dómstóll skal sjá til þess að Fjármálaeftirlitinu verði tilkynnt þegar í stað um framkomna kröfu um gjaldþrotaskipti líftryggingafélags. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna öðrum eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja ef bú líftryggingafélags hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta.
    Úrskurður íslensks dómstóls um að bú líftryggingafélags með aðalstöðvar hér á landi sé tekið til gjaldþrotaskipta hefur einnig áhrif í öðrum aðildarríkjum og skal hann taka til útibúa félagsins í þeim. Slíkur úrskurður dómstóls í öðru aðildarríki um að bú líftryggingafélags með aðalstöðvar í aðildarríki sé tekið til gjaldþrotaskipta tekur til útibúa félagsins hér á landi.
    Heimild líftryggingafélags til greiðslustöðvunar eða nauðasamningsumleitana kemur ekki í veg fyrir að unnt sé að óska gjaldþrotaskipta á félaginu.
    Þegar bú líftryggingafélags hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta skal skilastjórn skv. 93. gr. birta í Lögbirtingablaðinu ákvörðun um skipun skilastjórnar, innköllun vegna gjaldþrotaskiptanna og upplýsingar um hvaða lög gildi um gjaldþrotaskiptin. Útdrátt tilkynningarinnar skal jafnframt birta í Stjórnartíðindum ESB.
    Skilastjórn skal tilkynna lánardrottni sem á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki um gjaldþrotaskipti líftryggingafélags. Fyrirsögn tilkynningarinnar skal vera Innköllun vegna gjaldþrotaskipta, kröfulýsingarfrestur á öllum tungumálum aðildarríkja.
    Í tilkynningu skilastjórnar skv. 8. mgr. til vátryggingataka, vátryggðra og annarra sem kröfu eiga á líftryggingafélag vegna líftryggingasamninga og hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki skal sérstaklega tekið fram hver áhrif úrskurður um gjaldþrotaskipti hafi á líftryggingasamning og upplýsingar um réttindi og skyldur þeirra. Skal tilkynningin vera á tungumáli þess ríkis þar sem viðkomandi á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar.
    Lánardrottni sem á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki en líftryggingafélag skal heimilt að leggja fram kröfulýsingu á tungumáli þess ríkis. Fyrirsögn kröfulýsingar skal þó vera á íslensku.
    Eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja er heimilt að óska upplýsinga um meðferð þrotabús líftryggingafélags hjá Fjármálaeftirlitinu.
    Um gjaldþrotaskipti útibús líftryggingafélags með aðalstöðvar utan aðildarríkja fer eftir íslenskum lögum. Hafi félagið útibú í fleiri en einu aðildarríki skal litið á hvert útibú sem sjálfstæðan lögaðila. Eftirlitsstjórnvöld skulu þó samræma aðgerðir og það sama á við um skilastjórn.

4. gr.

    96. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Verði ákveðið að beiðast gjaldþrotaskipta á vátryggingafélagi sem rekur aðra starfsemi en líftryggingastarfsemi gilda lög um gjaldþrotaskipti sé ekki á annan veg mælt í lögum þessum.
    Dómstóll skal sjá til þess að Fjármálaeftirlitinu verði tilkynnt þegar í stað um framkomna kröfu um gjaldþrotaskipti vátryggingafélags. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna öðrum eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja ef bú vátryggingafélags hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta.
    Úrskurður íslensks dómstóls um að bú vátryggingafélags með aðalstöðvar hér á landi sé tekið til gjaldþrotaskipta hefur einnig áhrif í öðrum aðildarríkjum og skal hann taka til útibúa félagsins í þeim. Slíkur úrskurður dómstóls í öðru aðildarríki um að bú vátryggingafélags með aðalstöðvar í aðildarríki sé tekið til gjaldþrotaskipta tekur til útibúa félagsins hér á landi.
    Heimild vátryggingafélags til greiðslustöðvunar eða nauðasamnings kemur ekki í veg fyrir að unnt sé að óska gjaldþrotaskipta á félaginu.
    Fjármálaeftirlitið skal jafnskjótt og búið hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta meta hvort hagsmuna vátryggingataka og vátryggðra verði best gætt með því að yfirfæra vátryggingastofna að öllu leyti eða að hluta til annars eða annarra vátryggingafélaga.
    Berist tilboð er Fjármálaeftirlitið metur hagkvæmt fyrir vátryggingataka og vátryggða skal það leggja fram tillögu um flutning stofnsins og tilkynna í Lögbirtingablaðinu um helstu efnisatriði slíks samkomulags. Einnig skal auglýsa eftir athugasemdum vátryggingataka og vátryggðra er berast skulu skriflega innan eins mánaðar frá birtingu tilkynningarinnar. Fjármálaeftirlitið skal jafnframt tilkynna vátryggingatökum, vátryggðum og öðrum, sem kröfu eiga á vátryggingafélag vegna vátryggingasamninga og hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki, um fyrirhugaðan flutning vátryggingastofnsins. Sú tilkynning skal vera á tungumáli þess ríkis þar sem viðkomandi hefur lögheimili, fasta búsetu eða aðalstöðvar. Að teknu tilliti til athugasemda skal Fjármálaeftirlitið að frestinum loknum taka ákvörðun um hvort unnt sé að yfirfæra vátryggingastofna á þann hátt sem lagt er til.
    Þegar bú vátryggingafélags hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta skal skilastjórn skv. 93. gr. birta í Lögbirtingablaðinu ákvörðun um skipun skilastjórnar, innköllun vegna gjaldþrotaskiptanna og upplýsingar um hvaða lög gildi um gjaldþrotaskiptin. Útdrátt tilkynningarinnar skal jafnframt birta í Stjórnartíðindum ESB.
    Skilastjórn skal tilkynna lánardrottni sem á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki um gjaldþrotaskipti vátryggingafélags. Fyrirsögn tilkynningarinnar skal vera Innköllun vegna gjaldþrotaskipta, kröfulýsingarfrestur á öllum tungumálum aðildarríkja.
    Í tilkynningu skilastjórnar skv. 8. mgr. til vátryggingataka, vátryggðra og annarra sem kröfu eiga á vátryggingafélag vegna vátryggingasamninga og hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki skal sérstaklega tekið fram hver áhrif úrskurður um gjaldþrotaskipti hafi á vátryggingasamning og upplýsingar um réttindi og skyldur þeirra. Skal tilkynningin vera á tungumáli þess ríkis þar sem viðkomandi á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar.
    Lánardrottni sem á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki en vátryggingafélag skal heimilt að leggja fram kröfulýsingu á tungumáli þess ríkis. Fyrirsögn kröfulýsingar skal þó vera á íslensku.
    Vátryggingakröfur á hendur þrotabúi vátryggingafélagsins skulu ganga næst á undan kröfum skv. 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
    Eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja er heimilt að óska upplýsinga um meðferð þrotabús vátryggingafélags hjá Fjármálaeftirlitinu.
    Um gjaldþrotaskipti útibús vátryggingafélags með aðalstöðvar utan aðildarríkja fer eftir íslenskum lögum. Hafi félagið útibú í fleiri en einu aðildarríki skal litið á hvert útibú sem sjálfstæðan lögaðila. Eftirlitsstjórnvöld skulu þó samræma aðgerðir og það sama á við um skilastjórn.

5. gr.

    Á eftir 96. gr. laganna kemur ný grein, 96. gr. A, svohljóðandi:
    Íslensk lög skulu gilda um gjaldþrotaskipti vátryggingafélags og útibúa þess erlendis nema á annan veg sé fyrir mælt í þessari grein.
    Vinnusamningur skal fara eftir lögum þess ríkis sem um vinnusamninginn og vinnusambandið gilda.
    Samningur um notkun eða kaup fasteignar skal fara eftir lögum þess ríkis þar sem fasteignin er staðsett.
    Réttur vátryggingafélags vegna fasteignar, skips eða flugvélar skal fara eftir lögum þess ríkis þar sem opinber skráning hefur farið fram.
    Úrskurður um að bú vátryggingafélags sé tekið til gjaldþrotaskipta skal ekki hafa áhrif á rétt veðhafa vegna eignarréttinda sem voru í öðru aðildarríki þegar úrskurðurinn var kveðinn upp. Íslensk lög gilda þó um réttindi og skyldur aðila sem lúta opinberu eftirliti hérlendis.
    Hafi vátryggingafélag keypt eign með eignarréttarfyrirvara hefur úrskurður um að bú vátryggingafélags sé tekið til gjaldþrotaskipta ekki áhrif á réttindi seljanda sem byggjast á fyrirvaranum sé eign í öðru aðildarríki. Gjaldþrot vátryggingafélags hefur ekki áhrif á sölu vátryggingafélags á eign hafi afhending þegar farið fram og eignin verið í öðru aðildarríki þegar úrskurður um gjaldþrotaskipti var kveðinn upp.
    Þrátt fyrir ákvæði 5. og 6. mgr. er heimilt að beita ákvæðum III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga, nr. 7/1936, um ógilda löggerninga, nema lög gistiríkis heimili ekki slíkt.
    Hafi vátryggingafélag eftir úrskurð um að bú vátryggingafélags skuli tekið til gjaldþrotaskipta selt fasteign, skip eða flugvél sem háð er opinberri skráningu eða framseljanleg verðbréf eða önnur verðbréf skráð í verðbréfamiðstöð skulu lög þess ríkis þar sem eign er eða þar sem hin opinbera skráning hefur farið fram gilda um lögmæti löggerningsins.
    Um áhrif úrskurðar um að bú vátryggingafélags skuli tekið til gjaldþrotaskipta á málshöfðun vegna eignar eða annarra réttinda sem vátryggingafélag hefur látið af hendi fer eftir lögum þess aðildarríkis þar sem málið var höfðað.
    Úrræði sem skilastjórn getur beitt samkvæmt íslenskum lögum hefur hún jafnframt í öðrum aðildarríkjum. Við beitingu slíkra úrræða í öðru aðildarríki skal skilastjórn þó fara eftir lögum þess aðildarríkis eftir því sem við á.

6. gr.

    Við 97. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Um frjáls slit vátryggingafélags gilda ákvæði 95., 96. og 96. gr. A eftir því sem við á.

7. gr.

    Fyrirsögn XI. kafla laganna verður svohljóðandi: Sérstakar ráðstafanir. Endurskipulagning fjárhags. Brottfall starfsleyfis. Félagsslit.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.    Inngangur.
    Í lagafrumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á og viðbót við ákvæði XI. kafla laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum, varðandi endurskipulagningu fjárhags og slit vátryggingafélags.
    Frumvarp þetta var samið af nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði í maí 2002 en í nefndinni sátu Kjartan Gunnarsson, skrifstofustjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Rúnar Guðmundsson, yfirlögfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu, Sigmar Ármannsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra tryggingafélaga, og Þóra M. Hjaltested, lögfræðingur í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, sem jafnframt var starfsmaður nefndarinnar.
    Tilefni frumvarpsins er innleiðing tilskipunar nr. 2001/17/EB frá 19. mars 2001 um endurskipulagningu og slit vátryggingafélaga. Tilskipunin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn) með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 166/2002 6. desember 2002.
    Þá felur frumvarpið í sér í samræmi við ákvæði nýs stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), svonefnds Vaduz-samnings, sem öðlaðist gildi 1. júní 2002, að tilskipanir um vátryggingarétt gilda einnig gagnvart EFTA-ríkjum sem ekki eru aðilar að EES-samningnum, þ.e. Sviss.

II.    Efni tilskipunarinnar.
    Megintilgangur tilskipunarinnar er að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á aðgerðum aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins og samvinnu varðandi endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélaga og slit þeirra og ákveðna lágmarkssamræmingu landsreglna sem gilda um þessi atriði. Tilskipanir um vátryggingar hafa hingað til ekki falið í sér samræmingu reglna um slit vátryggingafélags. Með endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélags er í tilskipuninni átt við ráðstöfun sem felur í sér íhlutun dómstóla, sem ætlað er að tryggja eða endurreisa fjárhagslega stöðu félagsins, með greiðslustöðvun eða nauðasamningi, en með slitum vátryggingafélags er átt við aðgerð þar sem eignum félags er komið í verð og verðmætum þess dreift á milli lánardrottna, þ.m.t. vátryggingataka og vátryggðra, eða eigenda, hvort sem er af frjálsum vilja eða þvingað, þ.e. við gjaldþrotaskipti.
    Tilskipunin felur í sér að úrskurður dómstóls um heimild vátryggingafélags á Evrópska efnahagssvæðinu til greiðslustöðvunar, til nauðasamningsumleitana eða um slit þess hefur áhrif á öllu svæðinu og skal viðurkenndur af öllum aðildarríkjum þess. Tekur slíkur úrskurður þannig til vátryggingafélagsins sjálfs og útibúa þess í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Jafnframt kveður tilskipunin á um að löggjöf heimaríkis gildi um endurskipulagninguna eða slitin, þ.e. löggjöf þess ríkis þar sem aðalstöðvar vátryggingafélags eru og þar sem starfsleyfi þess er gefið út. Sömu lög gilda því um réttindi, skuldir og skuldbindingar vátryggingafélags og útibúa þess, þó með tilteknum undanþágum. Tilskipuninni er þannig ætlað að koma í veg fyrir að lánardrottnum verði mismunað með því að mismunandi lög gildi um endurskipulagningu fjárhags eða slit vátryggingafélags og útibúa þess.
    Enn fremur eru í tilskipuninni ákvæði um vernd neytenda, þ.e. vátryggingataka, vátryggðra og annarra sem geta átt kröfu á vátryggingafélag vegna vátryggingasamnings. Gefur tilskipunin kost á tveimur mögulegum leiðum sem miða báðar að því að veita kröfum þeirra forgang við slit vátryggingafélags. Þá er sérstaklega tekið tillit til réttinda framangreindra aðila og lánardrottna vátryggingafélags sem eiga lögheimili, fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki en heimaríki vátryggingafélags í tengslum við tilkynningar og kröfulýsingar.
    Vakin er athygli á því að eftir upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn er gildissvið hennar allt Evrópska efnahagssvæðið og á grundvelli hins nýja stofnsamnings EFTA nær hún einnig til EFTA-ríkja sem ekki eru aðilar að EES-samningnum, þ.e. Sviss.

III.    Gildandi réttur og tillögur frumvarpsins.
    Tilskipunin felur í sér eins og áður hefur komið fram lágmarkssamræmingu á lögum ríkja Evrópska efnahagssvæðisins en að ákvæðum hennar slepptum er gert ráð fyrir að byggt sé á þeim reglum sem þegar gilda í hverju ríki. Um gjaldþrot einstaklinga og lögaðila er fjallað í lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og er í frumvarpinu lagt til að þær reglur gildi um greiðslustöðvun, nauðasamningsumleitanir eða gjaldþrot vátryggingafélags komi ekki annað fram í frumvarpinu og lögum um vátryggingastarfsemi. Í 90. gr. laga um vátryggingastarfsemi er gert ráð fyrir að vátryggingafélag skuli, ef lágmarkskröfur um gjaldþol eru ekki uppfylltar, gera áætlun um hvenær og hvernig markinu verði náð og metur Fjármálaeftirlitið hvort ráðstafanir þær teljist fullnægjandi. Engar sérreglur eru í gildi varðandi endurskipulag fjárhags við greiðslustöðvun eða nauðasamningsumleitanir.
    Í 93.–97. gr. laga um vátryggingastarfsemi er að finna ýmis ákvæði um slit vátryggingafélags. Reglur 93.–96. gr. laganna, sem fjalla um þvinguð slit vátryggingafélags, gera ráð fyrir að við afturköllun starfsleyfis skipi ráðherra að fengnum tillögum Fjármálaeftirlits þriggja manna skilastjórn sem taki við öllum heimildum félagsstjórnar. Segja má að skilastjórn hafi við gjaldþrot vátryggingafélags sambærilegt hlutverk og skiptastjóri gegnir við gjaldþrot félaga almennt. Skilastjórn tekur í samráði við Fjármálaeftirlit ákvörðun um hvort óskað skuli gjaldþrotaskipta á vátryggingafélagi. Fjármálaeftirlitið hefur einnig töluverðu hlutverki að gegna á þessu stigi og tekur meðal annars um það ákvörðun í samráði við skilastjórn hvort hagsmunum vátryggingataka og vátryggðra sé best komið með því að vátryggingastofninn verði fluttur til eins eða fleiri vátryggingafélaga eða hvort uppgjöri verði lokið með öðrum hætti. Þegar um líftryggingafélag er að ræða getur Fjármálaeftirlitið enn fremur tekið ákvörðun um að líftryggingastofninn skuli sæta sérstakri meðferð skv. 94. gr. laganna. Við gjaldþrot vátryggingafélags er meðferð á búi félagsins þannig í höndum tveggja aðila, Fjármálaeftirlitsins varðandi ákvörðun um meðferð vátryggingastofnsins og skilastjórnar varðandi aðrar kröfur á hendur búinu. Reglur laga um vátryggingastarfsemi eru frábrugðnar gjaldþrotalögum m.a. að þessu leyti. Um eftirlitsskylda aðila er að ræða og því eðlilegt að Fjármálaeftirlitið eigi hlut að máli við þessar aðstæður. Um frjáls slit vátryggingafélags er fjallað í 97. gr. laga um vátryggingastarfsemi og gilda ákvæði 3., 4. og 5. gr. frumvarpsins (95., 96. og 96. gr. A) um frjáls slit eftir því sem við getur átt.
    Þá er jafnframt gert ráð fyrir að ákvæði tilskipunarinnar gildi gagnvart EFTA-ríkjum sem ekki eru aðilar að EES-samningnum, þ.e. Sviss, með sama hætti og lagt er til að þau gildi um aðildarríki EES-samningsins í samræmi við ákvæði hins nýja stofnsamnings EFTA, Vaduz- samningsins.
    Eins og áður hefur komið fram er lagt til að meginreglan verði sú að við endurskipulag fjárhags og slit vátryggingafélags verði farið eftir lögum heimaríkis vátryggingafélags. Á þessu eru þó undantekningar sem er að finna í frumvarpinu og er þar fyrst og fremst um að ræða lagaskilareglur varðandi tiltekna samninga, réttindi og eignir sem eru í öðru aðildarríki en heimaríki vátryggingafélags.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að við skilgreiningu á hugtakinu aðildarríki verði bætt að hún taki einnig til aðildarríkis að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu, þ.e. Sviss, í samræmi við ákvæði Vaduz-samningsins. Þessi breyting er gerð til einföldunar á lagatextanum og leiðir til þess að óþarft verður að taka fram í hvert skipti að tiltekin atriði gildi bæði um aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, verður þannig nægilegt að vísa til hugtaksins aðildarríkis.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er lagt til að tvær nýjar greinar, 90. gr. A og 90. gr. B, komi á eftir núverandi 90. gr. laganna. Þær eru innleiðing á II. kafla tilskipunarinnar, 4.–7. gr., 19.–27. gr. og 30. gr. Greinarnar fjalla um endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélags við greiðslustöðvun eða nauðasamningsumleitanir. Lagt er til að vátryggingafélag sem á í verulegum fjárhagsörðugleikum og vill freista þess að koma á nýrri skipan fjármála sinna geti leitað til dómstóla um aðstoð við endurskipulagningu fjárhags félagsins með ósk um greiðslustöðvun eða heimild nauðasamningsumleitana, enda séu skilyrði laga um gjaldþrotaskipti uppfyllt.
     Um a-lið (90. gr. A).
    Í 1. og 2. mgr. greinarinnar er að finna skilgreiningu á hugtakinu endurskipulagning fjárhags í skilningi frumvarpsins. Jafnframt er kveðið á um að reglur laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum, skuli gilda nema annað komi fram í lögunum. Í frumvarpinu er að finna ýmsar sérreglur varðandi endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélags en lagt er til að meginreglan verði sú að reglur gjaldþrotalaganna gildi. Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að dómstóll tilkynni Fjármálaeftirlitinu um framkomna beiðni um heimild til að leita greiðslustöðvunar eða nauðasamnings. Mikilvægt er að slík tilkynning berist Fjármálaeftirlitinu um leið og beiðni er lögð fram þar sem um eftirlitsskyldan aðila er að ræða og nauðsynlegt að Fjármálaeftirlitinu sé eins fljótt og kostur er gert kunnugt um ef slíkir erfiðleikar hafa komið upp í rekstri vátryggingafélags. Jafnframt er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið tilkynni öðrum eftirlitsstjórnvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu og í Sviss þegar heimild hefur verið veitt til greiðslustöðvunar eða nauðasamningsumleitana. Á sama hátt og Fjármálaeftirlitinu getur eftirlitsstjórnvöldum í öðrum ríkjum verið nauðsynlegt að fá slíkar upplýsingar, t.d. sé vátryggingafélag með starfsemi í því ríki.
    Í almennu athugasemdunum hefur verið vikið að þeirri meginreglu sem kemur fram í 4. mgr. þessarar greinar frumvarpsins að úrskurður dómstóls í heimaríki vátryggingafélags um endurskipulagningu fjárhags þess hafi áhrif á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og taki þannig einnig til útibúa þess. Með þessu er tryggt að sömu reglur gildi um endurskipulagningu félagsins og útibúa þess.
    Í 5. mgr. er fjallað um tilkynningar til innlendra og erlendra lánardrottna vátryggingafélags og er þar lagt til að tilkynningar fari eftir 13. og 44. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt 6. mgr. skal enn fremur veita vátryggingataka, vátryggðum og öðrum, sem kröfu eiga á hendur vátryggingafélagi samkvæmt vátryggingasamningi og eiga lögheimili, fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki, upplýsingar um hver áhrif heimildin hafi á vátryggingasamninginn og upplýsingar um réttindi og skyldur þeirra. Slík tilkynning skal vera á tungumáli þess ríkis þar sem viðkomandi á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar. Lánardrottni er skv. 7. mgr. heimilt að lýsa kröfu vegna nauðasamnings skv. 45. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. á tungumáli þess ríkis þar sem hann hefur lögheimili, fasta búsetu eða aðalstöðvar. Þó skal koma fram í fyrirsögn á íslensku að um kröfulýsingu sé að ræða. Hugtakið lánardrottinn í skilningi þessara ákvæða tekur einnig til vátryggingataka, vátryggðra og annarra sem kröfu eiga á vátryggingafélag samkvæmt vátryggingasamningi. Með ákvæðunum er réttur erlendra lánardrottna tryggður. Jafnframt er komið í veg fyrir að innlendum og erlendum lánardrottnum verði mismunað við það að heimild vátryggingafélags til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings taki einnig til starfsemi félagsins í öðrum ríkjum, þar með talið útibúa þess. Þannig er auk þess tryggt að erlendir lánardrottnar hafi vitneskju um heimild vátryggingafélags til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings.
    Í 8. mgr. kemur fram að íslensk lög skuli gilda verði útibúi vátryggingafélags með aðalstöðvar utan aðildarríkja veitt heimild til greiðslustöðvunar eða til nauðasamningsumleitana. Tekur þessi málsgrein til vátryggingafélaga sem hafa fengið leyfi skv. 71.–72. gr. til að reka hér útibú. Enn fremur er vikið að því að hafi vátryggingafélagið útibú í fleiru en einu aðildarríki skuli litið á hvert útibú sem sérstakan lögaðila. Við greiðslustöðvun eða nauðasamningsumleitanir skulu eftirlitsstjórnvöld, aðstoðarmenn skuldara við greiðslustöðvun og umsjónarmenn með nauðasamningum þó samræma aðgerðir.
     Um b-lið (90. gr. B).
    Í þessari grein er að finna reglur um hvaða lögum skuli beitt við endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélags. Meginreglan er sú að lög heimaríkis vátryggingafélags skuli gilda um endurskipulagningu fjárhags félagsins og útibúa þess, en það er það ríki þar sem aðalstöðvar vátryggingafélags eru og starfsleyfi þess er gefið út. Í 1. mgr. kemur þannig fram að íslensk lög skuli gilda um endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélags með aðalstöðvar hér á landi og útibúa þess erlendis nema á annan veg sé mælt í greininni. Í 2.–10. mgr. er að finna ýmsar lagaskilareglur, þ.e. reglur um lög hvaða ríkis skuli gilda við tilteknar aðstæður. Eru slík ákvæði nauðsynleg vegna meginreglunnar um að lög heimaríkis skuli gilda, en eðlilegt getur verið í tilteknum tilfellum að lögum annarra ríkja verði beitt.

Um 3. gr.

    Í þessari grein er lagt til að ný grein komi í stað núverandi 95. gr. sem fjallar um gjaldþrotaskipti líftryggingafélags og er með henni verið að innleiða ákvæði III. kafla tilskipunarinnar, 8.–27. gr. og 30. gr. Greininni er ætlað að koma sem viðbót við ákvæði 93. og 94. gr. laga um vátryggingastarfsemi.
    Með sama hætti og varðandi endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélags er við slit líftryggingafélags gert ráð fyrir að lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum, gildi, nema annað komi fram í lögunum.
    Í 2. og 3. mgr. er að finna efni núverandi 95. gr. Í 2. málsl. 2. mgr. er nýmæli þar sem gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitinu verði gert að tilkynna vátryggingatökum, vátryggðum og öðrum, sem kröfu eiga á vátryggingafélag vegna vátryggingasamninga og hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki, um fyrirhugaðan flutning vátryggingastofnsins. Í 94. gr. er að finna ákvæði um sérstaka meðferð líftryggingastofnsins sem getur átt sér stað óháð því hvort óskað er gjaldþrotaskipta á félaginu. Komi hins vegar til gjaldþrots líftryggingafélags er gert ráð fyrir að sérstakri meðferð líftryggingastofnsins skv. 94. gr. verði haldið áfram. Í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar er nauðsynlegt að kveða á um að við slíkar aðstæður skuli vátryggingatökum, vátryggðum og öðrum sem kröfu eiga á vátryggingafélag vegna vátryggingasamninga og eiga lögheimili, fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðrum aðildarríkjum tilkynnt sérstaklega um meðferð vátryggingastofnsins, enda miklar líkur á því að tilkynning í Lögbirtingablaði sem 2. mgr. 94. gr. gerir ráð fyrir nái ekki til erlendra aðila.
    Í 3. mgr. kemur fram að eignir þær sem mæta eiga líftryggingaskuld félagsins skuli ekki teljast með eignum þrotabús líftryggingafélags, né skuli telja líftryggingaskuldina með skuldum þess. Er þetta óbreytt frá núverandi lögum. Með líftryggingaskuld í líftryggingafélagi er átt við óuppgerðar heildarskuldbindingar félagsins vegna gerðra líftryggingasamninga. Um jöfnun eigna á móti vátryggingaskuld vátryggingafélags er fjallað í reglugerð nr. 646/1995 og er þar meðal annars kveðið á um skrá yfir þær eignir sem mæta eiga líftryggingaskuld á hverjum tíma. Auk þess er í 3. mgr. nýmæli þar sem mælt er fyrir um stöðu líftryggingakröfu vátryggingataka, vátryggðra og annarra í skuldaröð takist ekki að ljúka greiðslu hennar með þeim eignum sem mæta eiga líftryggingaskuldinni í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Fer um slíka kröfu eftir 11. mgr. 96. gr. og vísast til umfjöllunar um þá grein. Rétt þykir að tryggja sérstaklega rétt vátryggingataka, vátryggðra og annarra sem leitt geta rétt af vátryggingasamningi um líftryggingu vegna eðlis slíkra samninga, en um er að ræða langtíma samninga sem snúast oft á tíðum um verulegan hluta ævisparnaðar fólks. Þegar fjallað er um líftryggingakröfu eða vátryggingakröfu í frumvarpi þessu er átt við kröfur sem stafa af vátryggingasamningi.
    Ákvæði 4. og 5. mgr. eiga samsvörun í 3. og 4. mgr. 90. gr. A, sbr. 2. gr. frumvarpsins, og vísast til umfjöllunar um þær.
    Í 6. mgr. kemur fram að úrskurður um að líftryggingafélagi sé veitt heimild til greiðslustöðvunar eða til nauðasamningsumleitana komi ekki í veg fyrir að hægt sé að óska gjaldþrotaskipta á félaginu. Er þetta ákvæði í andstöðu við 2. mgr. 22. gr. og 2. mgr. 40. gr. gjaldþrotalaga þar sem fram kemur að á meðan greiðslustöðvun eða nauðasamningsumleitanir standa sé óheimilt að taka bú skuldara til gjaldþrotaskipta. Er hér um að ræða sérreglu samkvæmt nefndri tilskipun sem víkur almennum reglum gjaldþrotalaga til hliðar.
    Ráðherra skipar þriggja manna skilastjórn líftryggingafélags eftir tillögu Fjármálaeftirlitsins, sbr. 93. gr., og gegnir skilastjórn sama hlutverki og skiptastjóri hefur samkvæmt gjaldþrotalögum við gjaldþrotaskipti félaga almennt eins og áður hefur komið fram. Í 7. mgr. kemur fram að þegar bú líftryggingafélags hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta skuli skilastjórn birta í Lögbirtingablaðinu ákvörðun um skipun hennar, innköllun vegna gjaldþrotaskiptanna og upplýsingar um hvaða lög gildi um gjaldþrotaskiptin. Við innköllun hefur skilastjórn hliðsjón af 85. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Gert er ráð fyrir að útdráttur tilkynningarinnar verði birtur í Stjórnartíðindum ESB sem eðlilegt er þar sem úrskurður um að bú félags sé tekið til gjaldþrotaskipta getur einnig varðað hagsmuni vegna starfsemi félagsins í öðrum aðildarríkjum.
    Í 8. mgr. er gert ráð fyrir að skilastjórn tilkynni lánardrottnum sem eiga lögheimili, hafa fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki sérstaklega um úrskurð um gjaldþrotaskiptin. Við þá tilkynningu hefur skilastjórn 86. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. til hliðsjónar.
    Ákvæði 9., 10. og 12. mgr. eiga samsvörun í 6.–8. mgr. 90. gr. A, sbr. 2. gr. frumvarpsins, og vísast til umfjöllunar um þær málsgreinar.
    Í 11. mgr. kemur fram að eftirlitsstjórnvöldum aðildarríka sé heimilt að óska upplýsinga um meðferð þrotabús hjá Fjármálaeftirlitinu. Er þetta eðlilegt vegna meginreglunnar í 5. mgr. þessarar greinar frumvarpsins, en eftirlitsstjórnvöldum í öðru aðildarríki getur verið nauðsynlegt að hafa vitneskju um stöðu málsins hafi félagið þar starfsemi.

Um 4. gr.

    Greinin kemur í stað 96. gr. laganna og fjallar um gjaldþrot vátryggingafélaga sem reka aðra starfsemi en líftryggingastarfsemi, oft nefnd skaðatryggingafélög. Efni greinarinnar á að miklu leyti samsvörun í 95. gr., sbr. 3. gr. frumvarpsins sem fjallar um gjaldþrot líftryggingafélaga, og vísast til þeirrar umfjöllunar þar sem við á. Í 5. og 6. mgr. er að finna efni 96. gr. óbreytt. Þó er bætt við 6. mgr., í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar, að Fjármálaeftirlitið skuli tilkynna vátryggingatökum, vátryggðum og öðrum sem eiga kröfu á vátryggingafélag vegna vátryggingasamninga og eiga lögheimili, fasta búsetu eða aðalstöðvar í öðru aðildarríki um fyrirhugaða yfirfærslu vátryggingastofnsins. Tilkynningin skal vera á tungumáli þess ríkis þar sem viðkomandi á lögheimili, hefur fasta búsetu eða aðalstöðvar.
    Í 11. mgr. er fjallað um stöðu vátryggingakröfu í skuldaröð og er lagt til að þær kröfur gangi næst á undan kröfum skv. 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Er gert ráð fyrir að vátryggingakröfur samkvæmt þessari grein séu, í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar, forgangskröfur með sama hætti og kröfur skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og komi næst á eftir kröfum skv. 8. tölul. þeirrar greinar. Ekki þótti fært að tryggja rétt vátryggingataka, vátryggðra og annarra sem geta leitt rétt af vátryggingasamningi með sama hætti og varðandi líftryggingakröfur þar sem ekki gildi sömu sjónarmið um þessar tegundir vátrygginga.

Um 5. gr.

    Greinin tekur bæði til gjaldþrots líftryggingafélags skv. 95. gr., sbr. 3. gr. frumvarpsins, og gjaldþrots vátryggingafélaga sem reka aðra starfsemi en líftryggingastarfsemi skv. 96. gr., sbr. 4. gr. frumvarpsins. Greinin á samsvörun í 90. gr. B, sbr. 2. gr. frumvarpsins, og vísast til umfjöllunar um hana.

Um 6. gr.

    Eins og vikið var að í almennu athugasemdunum gilda ákvæði 3., 4. og 5. gr. frumvarpsins (95., 96. og 96. gr. A) um frjáls slit vátryggingafélags eins og við getur átt. Í þessu sambandi má nefna reglur um tilkynningar og lagaskilareglur.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 60/1994,
um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins samræma reglur sem gilda um fjárhagslega endurskipulagningu eða slit vátryggingafélags og útibús þess á Evrópska efnahagssvæðinu og Sviss. Frumvarpið byggist á tilskipun Evrópusambandsins nr. 2001/17/EB sem er ætlað að koma í veg fyrir að kröfuhöfum verði mismunað með því að mismunandi lög gildi yfir móðurfélag og útibú þess á Evrópska efnahagssvæðinu og Sviss.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að þau hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.