Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 572. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 923  —  572. mál.




Skýrsla



Sivjar Friðleifsdóttur samstarfsráðherra Norðurlanda um störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2002.

(Lögð fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



I. SKÝRSLA SAMSTARFSRÁÐHERRA UM STÖRF NORRÆNU
RÁÐHERRANEFNDARINNAR 2002

1. Inngangur
    Til að stofnanir á borð við Norrænu ráðherranefndina og Norðurlandaráð haldi gildi sínu í síbreytilegum heimi þarf forysta þeirra á hverjum tíma að vera framsýn og opin fyrir breytingum. Sú hefur verið raunin á norrænum vettvangi en Norðurlandaráð fagnaði 50 ára starfsafmæli árið 2002. Áherslur og umfang starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar hafa einnig í þau 28 ár, sem hún hefur starfað, tekið stakkaskiptum í takt við breytingar í þjóðfélaginu og alþjóðlegt umhverfi Norðurlanda. Því er Norræna ráðherranefndin mikilvægur þáttur í stjórnmálalífi á Norðurlöndum, gagnlegur umræðuvettvangur og grunnur samstarfs milli stofnana, samtaka og einstaklinga á nánast öllum sviðum þjóðlífs á Norðurlöndum.

Réttindi Norðurlandabúa.
    Í áranna rás hefur verið unnið að því á norrænum vettvangi að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem standa í vegi fyrir fólksflutningum milli norrænu landanna. Mikilvæg skref hafa verið stigin með sameiginlegum norrænum vinnumarkaði, vegabréfafrelsi og samningum um félagsleg réttindi og samstarfi á sviði mennta- og heilbrigðismála svo eitthvað sé nefnt. Þrátt fyrir það er enn mikið ógert og sterkur pólitískur vilji fyrir því að ná frekari árangri. Ráðherranefndin opnaði því árið 2001 þjónustusíma í höfuðborgunum fimm þar sem almenningur á þess kost að fá upplýsingar um réttindi sín við flutning milli landanna. Þessi þjónusta sem einnig er veitt á netinu verður styrkt til muna á næsta ári. Í október var haldið í Reykjavík námskeið fyrir starfsmenn stofnana á Íslandi sem þjóna almenningi. Markmiðið var að kynna starfsfólkinu efni norrænna samninga sem snúa að réttindum almennings, réttindum sem reynslan hefur sýnt að misbrestur hefði verið á að fólk hafði notið. Námskeiðið tókst að mati þátttakenda vel og stefnt er að árlegu námskeiðahaldi.
    Á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki í október sl. var lögð fram ráðherranefndartillaga um aðgerðir ríkisstjórnanna og ráðherranefndarinnar til að bæta réttindi Norðurlandabúa sem flytja milli norrænu landanna. Er þar verið að bregðast við tillögum þeim sem Ole Norrback sendiherra setti fram í skýrslu, sem samstarfsráðherrar höfðu falið honum að gera. Margar þeirra eru þess eðlis að árangurs er ekki að vænta nema til komi sterkur pólitískur vilji. Í lok
ársins var því Poul Schlüter fyrrv. forsætisráðherra Dana falið að vera sérstakur samræmingar- og eftirlitsaðili með fyrirhuguðum aðgerðum. Hann fær víðtækt hlutverk og mun m.a. sækja ráðherrafundi fagráðherranefndanna og hafa beint samband við flesta ráðherrana.

Norrænt samstarf við grannsvæðin.
    Brennidepill norræns grannsvæðasamstarfs hefur verið að flytjast frá Eystrasaltsríkjunum og til rússneskra grannsvæða við Eystrasalt, þ.m.t. Kaliningrad, og á Barentssvæðinu. Jafnframt hefur samstarf um málefni Norðurskautssvæðanna fengið aukið vægi og hafist hefur verið handa um að móta markvissa stefnu fyrir norrænt grannsvæðasamstarf til vesturs. Við Íslendingar væntum góðs árangurs af þessu starfi sem er í samræmi við þau markmið sem sett voru fram í formennskuáætlun okkar í ráðherranefndinni 1999.

Norrænt samstarf við önnur fjölþjóðleg samtök.
    Samstarf og samráð um Evrópumál á sér stað á nánast öllum sviðum samstarfsins. Frá þeim störfum er greint í sérstakri skýrslu sem gefin er út árlega.
    Í lok ársins var samþykkt áætlun um aukið og markvissara samstarf milli Norrænu ráðherranefndarinnar og annarra opinberra fjölþjóðlegra samtaka á svæðinu umhverfis Norðurlönd. Áætlunin tekur til samstarfs við Evrópusambandið (ESB), Eystrasaltsráðið, Norðurskautsráðið og Barentsráðið. Ætlunin er m.a. að taka virkan þátt í framkvæmd áætlunar ESB um Norðlægu
víddina.

Norðurlönd framtíðar.
    Norðurlönd framtíðar var yfirskrift formennskuáætlunar Norðmanna, sem fóru með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni 2002. Megináhersla var þar lögð á málefni barna og unglinga á Norðurlöndum og grannsvæðunum í Eystrasaltsríkjunum og Norðvestur- Rússlandi, sjálfbæra þróun og matvælaöryggi.

Sjálfbær Norðurlönd.
    Sjálfbær Norðurlönd til ársins 2020 er yfirskrift þeirrar áætlunar um sjálfbæra þróun sem gekk í gildi 2001 og Norræna ráðherranefndin starfar eftir. Samkvæmt henni ber smám saman að samþætta aðgerðir sem stuðla að sjálfbærri þróun inn í öll svið samstarfsins. Framkvæmdin, sem er á hendi samstarfsráðherranna, hefur gengið vel. Að loknu fyrsta fjögurra ára tímabilinu 2001–2004 verður áætlunin metin og markmið ákveðin fyrir næsta
tímabil. Áætlunin var kynnt á leiðtogafundi ESB í Barcelona í vor og á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg síðastliðið haust.

Matvælaöryggi.
    Það er einkennandi fyrir starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar um þessar mundir að lausn aðkallandi samstarfsverkefna krefst samstarfs þvert á hefðbundin samstarfssvið. Glöggt dæmi þessa eru verkefni tengd matvælaframleiðslu og öryggi matvæla. Því var ný ráðherranefnd um sjávarútvegsmál, landbúnað, skógrækt og matvælamál stofnuð síðla árs 2001. Undir hennar stjórn lauk á árinu stóru þverfaglegu verkefni um aukið matvælaöryggi á Norðurlöndum. Á grundvelli þeirrar vinnu samþykkti ráðherranefndin yfirlýsingu um að Norðurlönd skuli sameiginlega á alþjóðavettvangi vinna að því að tryggja gæði matvæla.

Málefni barna og unglinga og „Fjölmenningarsamfélagið á Norðurlöndum“.
    Um málefni barna og unglinga, sem falla undir mörg svið samstarfsins, er fjallað í þverfaglegri áætlun, „Norðurlönd á leið inn í nýtt árþúsund“. Því voru þau mál m.a. til umræðu á þverfaglegri ráðstefnu í Ósló í vor þar sem samræða fór fram milli norrænna mennta- og menningarmálaráðherra, dómsmála- og samstarfsráðherra og fulltrúa æskulýðssamtaka á Norðurlöndum. Þar var m.a. rætt um aðkomu ungmenna að ákvarðanatöku um þjóðfélagsmál og lýðræði í skóla.
    Vegna fjölgunar nýbúa alls staðar á Norðurlöndum hefur sú stefna verið mörkuð að beina norrænum kröftum að verkefnum sem snúa að fjölmenningarsamfélaginu og aðgerðum gegn útlendingaandúð. Ýmsir þættir þessa starfs, sem aðallega hefur verið á hendi menningarmálaráðherranna, snerta ungt fólk. Alls voru átta verkefni styrkt af verkefnafé menningarmálaráðherra undir formerkjunum „Fjölmenningarsamfélagið á Norðurlöndum“.

Norðurlöndin sem heild.
    Formennska í Norrænu ráðherranefndinni fór við áramót 2002/2003 úr hendi Norðmanna til Svía. Þeir kynntu formennskuáætlun sína fyrir árið 2003 á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki í lok október. Yfirskrift áætlunarinnar er „Integration Norden“ eða Norðurlöndin sem heild. Markmið hennar er fjórþætt. Stefnt er í fyrsta lagi að aukinni þátttöku og áhrifum nýbúa á Norðurlöndum á stjórnmál, menningarlíf og þjóðfélagsumræðu. Þá er stefnt að áframhaldandi norrænum samruna í þeim skilningi að áfram verði stefnt að því að auðvelda fólki flutninga og för milli landanna, og atvinnulífi og félagasamtökum norrænt samstarf. Eins verði áfram stefnt að auknum norrænum tungumálaskilningi. Í þriðja lagi er stefnt að frekari aðlögun og þróun samstarfsins milli Norðurlanda og grannsvæðanna. Þá er í fjórða lagi stefnt að auknu norrænu samstarfi á vettvangi evrópska efnahagssvæðisins (EES) og ESB.

——



    Eins og skýrsla þessi ber með sér er norrænt samstarf innan vébanda Norrænu ráðherranefndarinnar afar víðfeðmt. Allir ráðherrar í ríkisstjórninni koma að því sem og öll ráðuneytin, þó formlega sé samstarf norrænu forsætis- og utanríkisráðherranna utan ráðherranefndarinnar.
    Í inngangsorðum var drepið á nokkur þeirra verkefna sem unnið var að, en á eftir fara greinargerðir frá ráðuneytunum um störfin á hinum fjölmörgu sviðum samstarfsins, upplýsingar um norrænu lánastofnanirnar og sjóði og þær tvær norrænu stofnanir sem hafa aðsetur á Íslandi, Norræna húsið og Norrænu eldfjallastöðina.

2. Samstarf forsætisráðherra Norðurlanda.
    

    Forsætisráðherrarnir áttu þrjá fundi á starfsárinu, óformlegan sumarfund í maí, sem að þessu sinni var haldinn í Molde, heimabæ forsætisráðherra Noregs, fund með forsætisráðherrum Eystrasaltsríkjanna í Ríga í Lettlandi í ágúst, og fund í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Helsinki. Í tengslum við Molde-fundinn áttu forsætisráðherrarnir fund með Mbeki, forseta Suður-Afríku, auk tvíhliða funda og í Helsinki áttu þeir fund með oddvitum stjórna sjálfstjórnarsvæðanna og forsætisnefnd Norðurlandaráðs.

    Á fundinum í Molde, sem haldinn var í maí, gaf forsætisráðherra Dana skýrslu um stöðu mála í ESB og í samningsviðræðunum við umsóknarríkin. Þá var og áætlun ESB um Norðlægu víddina til umræðu og leiðtogafundur Eystrasaltsráðsins, sem stóð fyrir dyrum í júní.
    Forsætisráðherra Norðmanna gaf skýrslu um helstu mál á dagskrá í norrænu samstarfi. Forsætisráðherrarnir lögðu áherslu á að skýrslu Ole Norrback um réttindi Norðurlandabúa yrði fylgt eftir bæði á norrænum vettvangi og í löndunum. Norræna stefnumótunin um sjálfbæra þróun, „Sjálfbær Norðurlönd“, var rædd og ákveðið að hún og árangur norræns samstarfs á því sviði yrði kynnt á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg.
    Forsætisráðherra Íslands hóf umræðuna um baráttuna gegn hryðjuverkum og fjallaði auk þess um þær breytingar sem gera þyrfti á EES-samningnum við fjölgun aðildarríkja ESB.
    Að loknum fundi norrænu forsætisráðherranna með forseta Suður-Afríku var gefin út yfirlýsing þar sem lýst var ánægju yfir traustu samstarfi milli ríkjanna, en Molde-fundurinn var annar fundur leiðtoganna. Sá fyrri var haldinn í Skagen tveimur árum áður. Í yfirlýsingunni voru ítrekaðar áherslur Monterrey-yfirlýsingarinnar um mikilvægi samstarfs milli ríkra og fátækra þjóða í baráttunni við fátækt í heiminum og minnt á það mikla verkefni sem þjóðir Afríku stæðu frammi fyrir til að ná þeim markmiðum leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna að fækka þeim allra fátækustu í heiminum um helming fyrir árið 2015. Leiðtogarnir gáfu til kynna þá von að átak á alþjóðavettvangi m.a. innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO mundi leiða til aukinna fjárfestinga, markaðsaðgangs og jákvæðrar efnahagsþróunar þróunarríkjanna og verða þannig til þess að fátækt í heiminum minnkaði. Þá var bent á nauðsyn þess að hamla útbreiðslu alnæmis, berkla og malaríu. Þá var lýst ánægju yfir auknum viðskipta- og efnahagstengslum milli Suður-Afríku og Norðurlanda og ákveðið að framhald yrði á fundum leiðtoganna.

    Á fundi forsætisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna í Riga voru meginumræðuefnin stækkun Atlantshafsbandalagsins og ESB. Danski forsætisráðherrann gaf ítarlega skýrslu um stækkun ESB og gang aðildarsamninga. Forsætisráðherra Íslands hafði framsögu um áhrif stækkunar Atlantshafsbandalagsins á starfsemi bandalagsins í framtíðinni og fjallaði sérstaklega um þýðingu þess að Eystrasaltsríkjunum yrði væntanlega boðin aðild að því á leiðtogafundi í Prag í nóvember sl.

    Á fundi forsætisráðherranna í Helsinki var auk hefðbundinna skýrslna um formennsku Norðmanna í norrænu samstarfi 2002, formennskuáætlun Svía fyrir 2003 og helstu mála á dagskrá norræns samstarfs gerð grein fyrir stöðu mála í ESB. Forsætisráðherra Íslands fylgdi úr hlaði umræðu um framtíð EES-samningsins og kröfur ESB um hækkun aðildargjalda EFTA-ríkjanna og gerði grein fyrir afstöðu Íslands og Noregs.
    Þá voru nýliðin gíslataka tsjetsjneskra skæruliða í Moskvu og Íransmálin rædd.
    Lýst var fyrirhuguðum leiðtogafundi Barentsráðsins í tilefni 10 ára starfsafmælis í upphafi árs 2003 og kynnt erindi frá frú Vigdísi Finnbogadóttur o.fl., „Raddir heimsins“, þess efnis að forsætisráðherrarnir styddu, að í tilefni 60 ára afmælis Sameinuðu þjóðanna yrðu öll tungumál heims hljóðrituð og kvikmynduð. Því máli var vísað til menningarmálaráðherra landanna.
    Á fundi forsætisráðherranna með oddvitum sjálfstjórnarsvæðanna var m.a. skýrslan um réttindi Norðurlandabúa til umræðu. Þá var þar kynnt fyrirhuguð ráðstefna ESB á Grænlandi í ágúst 2002 um Norðurskautsglugga Norðlægu víddarinnar.
    Í umræðum á fundinum með oddvitum sjálfstjórnarsvæðanna um stöðu Færeyja í norrænu samstarfi kom fram að sú þróun hefði orðið í samskiptum Dana við Færeyjar og Grænland að ríkisstjórn Danmerkur teldi nú æskilegt að Færeyjar og Grænland kæmu á virkari hátt en áður að þeim alþjóðlegu málefnum sem snertu þau beint. Með vísan til þess lagði forsætisráðherra Dana til að samstarfsráðherrunum yrði falið að skoða möguleika sjálfstæðrar aðildar sjálfstjórnarsvæðanna að ráðherranefndinni og var það samþykkt.

3. Störf samstarfsráðherra Norðurlanda


Hlutverk.
    Samstarfsráðherrar og forsætisráðherrar Norðurlanda setja samstarfinu pólitísk markmið og eitt mikilvægasta hlutverk samstarfsráðherranna er að stuðla að því, að starfsemin sé í samræmi við þau. Auk þessarar stefnumótunar, er norræna fjárlagagerðin og skipting fjárveitinganna milli samstarfsverkefna og samstarfssviða ríkur þáttur í starfi samstarfsráðherranna. Þeir fara og með upplýsingamálin og þau samstarfsmál, sem eru þverfagleg eða falla af öðrum ástæðum ekki að hlutverki neinnar fagráðherranefndar. Þverfaglegum verkefnum hefur fjölgað undanfarin ár en samstarfið við grannsvæði norrænu
landanna er þó enn þeirra helst.
    Norræna samstarfsnefndin, sem starfar í umboði samstarfsráðherranna og undirbýr fundi þeirra, er stjórn aðalskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn.

Fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar.
    Fjárlög ársins 2002 að upphæð 787 millj. d.kr. voru að raunvirði óbreytt frá fyrra ári.
    Norræna fjárlagagerðin var endurskoðuð árið 2000 í því skyni að fjárlögin nýttust betur en fyrr til að beina fjármagninu að forgangsverkefnum. Breytingarnar komu að hluta til framkvæmda við undirbúning fjárlaga ársins 2002 og að fullu við undirbúning fjárlaga ársins 2003. Þær þóttu hafa reynst vel. Fjárveitingarnar skiptust á fjárlögum ársins 2002 í stórum dráttum þannig að 74% þeirra runnu til innra samstarfs Norðurlanda, 18% til grannsvæðasamstarfsins og 8% til Evrópumála.
    Þegar ákvörðun er tekin um ramma og megináherslur fjárlaganna meira en ári fyrir upphaf fjárlagaársins, eins og raunin er nú, er nauðsynlegt að samstarfsráðherrarnir hafi við upphaf fjárlagaárs til ráðstöfunar nægilega fjármuni til að hrinda í framkvæmd pólitískt mikilvægum verkefnum með skömmum fyrirvara. Því var tekinn upp nýr fjárlagaliður, „ráðstöfunarfé ráðherranefndarinnar“, og til hans veitt 10 millj. d.kr. Samtímis var liðurinn „varasjóður ráðherranefndarinnar“ felldur niður. Þessi tilhögun er í raun forsenda þess að formennskulandið geti komið áhersluverkefnum á sviði formennskuáætlunar sinnar í framkvæmd.

Réttindi Norðurlandabúa.
    Mál tengd réttindum Norðurlandabúa voru í brennidepli allt árið. Viðbrögð við skýrslu þeirri, sem samstarfsráðherrarnir höfðu falið Ole Norrback sendiherra að gera um réttindi Norðurlandabúa, voru rædd á flestum fundum samstarfsráðherranna og leiddi sú umfjöllun til þess að fyrir Norðurlandaráðsþingið í Helsinki sl. haust var lögð ráðherranefndartillaga sem mun mynda ramma um þær aðgerðir sem á næstu árum verður ráðist í til að ryðja úr vegi
hindrunum fyrir flutningi milli norrænu landanna. Glögglega kom í ljós að forsenda árangurs er að fyrir hendi sé skýr pólitískur vilji bæði þjóðþinga og ríkisstjórna. Ástæðan er sú að margt af því sem gera þarf snýr ekki bara að framkvæmd og breytingum á norrænnum samningum heldur einnig að breytingum á lögum og reglugerðum sem í mörgum tilvikum snerta fjárhagsmál og að breytingum á tvíhliða samningum sem ekki hefur náðst sátt um hingað til. Áfram verður unnið að þessum málefnum, en Svíar gefa þeim forgang í formennskuáætlun sinni fyrir árið 2003.
    Að frumkvæði Norrænu félaganna tóku samstarfsráðherrarnir til umræðu þau tiltölulega háu þjónustugjöld sem bankar á Norðurlöndum krefjast fyrir gjaldeyrisyfirfærslur milli landanna. Eftir að samband hafði verið haft við bankageirann endurtóku samstarfsráðherrarnir tilraun sem Norrænu félögin höfðu gert og sendu sem svarar 200 n.kr. hver til annars. Þegar í ljós kom að gjöldin námu frá 35% til 80% af þeirri upphæð sem send var, ákváðu samstarfsráðherrarnir að beina því til bankanna að lækka gjöldin og veita betri
upplýsingar um upphæðir gjalda og sendingartíma, sem reynst hafði langur.
    „Norðurlöndin í fókus“ er kynningarverkefni, sem snýr að almenningi með það að meginmarkmiði að gera norrænt samstarf sýnilegra. Á Íslandi var starfsemin nátengd starfsemi Norræna hússins. Verkefnið sem upphaflega var til tveggja ára var endurmetið á árinu og ákvörðun um framtíð þess verður tekin árið 2003.
    Áhersla hefur verið lögð á það í norrænu samstarfi í áranna rás að koma á samstarfi um beinar sjónvarpssendingar milli norrænu landanna. Tilraunir í þá veru hafa þó ekki borið tilætlaðan árangur, en á vissum svæðum hefur allt að einu verið unnt að ná sendingum frá grannlöndunum. Tækniþróunin undanfarið hefur leitt til þess, að möguleikar á að ná sjónvarpssendingum, sem ekki eru ætlaðar öðrum en heimamönnum, hafa minnkað. Samtímis hefur þróunin leitt til þess að beinar sjónvarpssendingar milli landanna eru tæknilega auðveldari en áður, sé vilji fyrir því. Í ljósi þessa ákváðu samstarfsráðherrarnir í
lok ársins eftir samráð við fulltrúa menningarmálaráðherranna að málið yrði kannað með það að markmiði að skapa grundvöll fyrir pólitískri ákvarðanatöku. Verkið verður unnið í samstarfi við menningargeirann.

Norrænt samstarf við grannsvæðin.
    Í kjölfar ákvörðunar um aðild Eystrasaltsríkjanna að ESB standa nú fyrir dyrum breytingar á því norræna samstarfi við þau sem hófst 1990 í kjölfar falls Sovétríkjanna. Meginmarkmið þessa samstarfs hefur verið aðstoð við þjóðfélagsuppbyggingu og lýðræðisþróun á svæðinu.
    Samkvæmt þeirri stefnu sem samþykkt var á árinu fyrir norrænt samstarf við grannsvæðin mun samstarfið við Eystrasaltsríkin breytast eftir inngöngu þeirra í ESB frá eins konar þróunaraðstoð yfir í samstarf þar sem báðir aðilar leggja sitt af mörkum og taka jafnframt virkan þátt í ákvörðunartöku um innihald og þungamiðju samstarfsins. Umræður um nánari útfærslu þessarar nýju stefnu eru þegar hafnar í samráði við samstarfsráðherra Eystrasaltsríkjanna.
    Samfara breytingunum á samstarfinu við Eystrasaltsríkin verður samstarfið við rússnesk grannsvæði Norðurlanda við Eystrasalt og á Barentssvæðinu styrkt.
    Þegar eru starfræktar upplýsingaskrifstofur í höfuðborgum Eystrasaltsríkjanna og Pétursborg. Útibúum frá þeim hefur verið komið á fót bæði í Eystrasaltsríkjunum og á Barentssvæðinu. Á árinu 2001 var ákveðið að stofna upplýsingaskrifstofu í Kaliningrad. Sú ákvörðun hefur enn ekki komið til framkvæmda því ekki hefur fengist starfsleyfi fyrir hana þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir norrænna stjórnmála- og embættismanna.
    Á árinu hófst starfsemi samkvæmt nýsamþykktri starfsáætlun um málefni Norðurskautssvæðanna. Með henni var starfsemin skilin frá samstarfinu við grannsvæðin og skipaður ráðgjafahópur sérfróðra fulltrúa utanríkisráðuneytanna um verkefnaval. Það gaf góða raun og áhugi af hálfu ýmissa fagsviða á að taka upp samstarf um málefni Norðurskautssvæðanna jókst til muna frá fyrri árum.
    Á árinu var ákveðið að kanna möguleika þess að gefa norrænu samstarfi um málefni Vestur-Norðurlanda og samstarfinu við vestlæg grannsvæði utan Norðurlanda aukið pólitískt vægi. Í því skyni var skipaður vinnuhópur sem á að skila tillögum um úrbætur fyrir mitt ár 2003.
    Norræna ráðherranefndin hélt í nóvember sl. ráðstefnu í Skotlandi um norrænt samstarf við Skotland og önnur vestlæg grannsvæði Norðurlanda. Á ráðstefnunni sem haldin var í samvinnu við skoska þingið kom í ljós mikill áhugi af hálfu Skota á óformlegu samstarfi við Norðurlönd á sviði lista og menningar- og menntamála, umhverfismála og stjórnsýslu. Hugmyndir þessar verða skoðaðar.

Samstarfið við Norðurlandaráð.
    Við breytingu á skipulagi Norðurlandaráðs, sem gerð var í kjölfar skýrslunnar „Norðurlönd umleikin vindum veraldar“, var grunnur lagður að auknu samráði milli ráðsins og ráðherranefndarinnar um verkefni og stefnu. Samstarfsráðherrarnir, sem telja þessar breytingar samstarfinu til bóta, fjölluðu á árinu um og mörkuðu stefnu um ramma samráðsins við ráðið. Jafnframt var fjallað um meðferð ráðherranefndarinnar á tilmælum Norðurlandaráðs. Bent var á að sá mikli fjöldi tilmæla, sem á hverjum tíma eru á dagskrá, rýrði það gildi sem þau gætu haft um stefnumótun, væru þau færri.
    Norðurlandaráð hélt óvenju veglegt þing í Helsinki í tilefni 50 ára starfsafmælisins. Samkvæmt ákvörðun samstarfsráðherranna tók ráðherranefndin þátt í að kosta hátíðardagskrá í tilefni afmælisins, sem sjónvarpað var beint um öll Norðurlönd.

Evrópu- og önnur alþjóðleg mál.
    
Í febrúar áttu ráðherranir fund með sendiherrum Norðurlanda í Brussel. Þar gáfu sendiherrarnir munnlegar skýrslur um þau mál sem hæst bar í ESB. Minnt var á að innri markaðurinn og frjáls för yfir landamæri væri kjarninn í EES/ESB samstarfinu og því hefði það samstarf fært norrænu samstarfi nýja vídd. Norðurlöndum, sem þegar hefðu náð langt á því sviði, bæri að vera þar í forystu. Ekki mætti líta á EES/ESB sem hindrun fyrir norrænum framförum, því sambandið stæði ekki í vegi fyrir því að Norðurlönd gengju lengra en önnur EES/ESB-ríki í að ryðja úr vegi landamærahindrunum.

Norrænt samstarf við önnur fjölþjóðleg samtök.
    Samstarf og samráð um Evrópumál á sér stað á nánast öllum sviðum samstarfsins. Frá þeim störfum er greint í sérstakri skýrslu sem gefin er út árlega.
    Í lok ársins var samþykkt áætlun um aukið og markvissara samstarf milli Norrænu ráðherranefndarinnar og annarra opinberra fjölþjóðlegra samtaka á svæðinu umhverfis Norðurlönd. Áætlunin tekur til samstarfs við ESB, Eystrasaltsráðið, Norðurskautsráðið og Barentsráðið. Ætlunin er m.a. að taka virkan þátt í framkvæmd áætlunar ESB um Norðlægu víddina.

Staða Færeyja, Grænlands og Álandseyja í norrænu samstarfi.
    Forsætisráðherrarnir fólu samstarfsráðherrunum á fundi sínum í október sl. að skoða möguleika þess að Færeyjar, Grænland og Álandseyjar fengju aukna aðild að Norrænu ráðherranefndinni. Snemma árs 2003 stendur til að skipa nefnd sérfræðinga sem skoða mun málið.

4. Norðurlandasamvinna utanríkisráðuneytisins


    Samstarf og samráð við önnur Norðurlönd hefur alla tíð verið sjálfsagður og mikilvægur hluti utanríkisstefnu Íslands. Samvinna utanríkisráðherra Norðurlanda fer þó ekki fram innan ramma Norrænu ráðherranefndarinnar heldur á milli norrænu utanríkisráðuneytanna beint, en auk ráðherrasamstarfs hafa embættismenn utanríkisráðuneyta Norðurlanda gott og náið samstarf og samráð varðandi flesta málaflokka sem undir ráðuneytin heyra.
    Þrír fundir utanríkisráðherra Norðurlanda voru haldnir á árinu, sá fyrsti í Ósló í febrúar sl. Á þeim fundi fjölluðu ráðherrarnir einkum um baráttuna gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi og ástandið í Afganistan, friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs og ástand og horfur á Balkanskaga. Þá ræddu þeir um öryggismál, þ.m.t. stækkun Atlantshafsbandalagsins og aukin tengsl þess við Rússland og um málefni Evrópusambandsins (ESB) og evrópska efnahagssvæðisins (EES). Ráðherrarnir lögðu sérstaka áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar samstöðu um aðstoð við og uppbyggingu í Afganistan og gáfu út sérstaka yfirlýsingu þar að lútandi. Í umfjöllun sinni um ESB/EES-málefni ræddu ráðherrarnir einkum stækkun, þróun og framtíð ESB og aðlögun EES-samningsins að breyttum aðstæðum í Evrópu.
    Annar fundur var haldinn í Tallinn í lok ágúst sl. og í tengslum við hann var haldinn sérstakur fundur utanríkisráðherra Norðurlanda og utanríkisráðherra Eystrasaltsríkjanna þriggja, Eistlands, Lettlands og Litháen. Á fundi norrænu ráðherranna var einkum rætt um samráð Norðurlanda um málefni ESB og EES, þ.m.t. stækkun sambandsins, svo og áhrif stækkunarinnar á EES-samninginn og aðkomu EFTA-landanna að nýjum stofnunum ESB, þ.e. eftirlitsstofnunum á sviði matvæla og siglinga- og flugöryggis. Á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna var einkum fjallað um Evrópumál, stækkun ESB og Atlantshafsbandalagsins og svæðisbundna samvinnu.
    Þriðji fundur utanríkisráðherra Norðurlanda á árinu var haldinn í Helsinki í lok október sl. í tengslum við 54. þing og 50 ára afmæli Norðurlandaráðs, en þá var einnig haldinn fundur utanríkisráðherranna með forsætisnefnd ráðsins. Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, sat fundina í fjarveru Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra.
    Á fundi utanríkisráðherranna var m.a. rætt um Evrópumál, einkum áframhaldandi samráð Norðurlanda um málefni EES í tengslum við stækkun Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins. Málefni Írak voru einnig til umfjöllunar svo og málefni Alþjóðasakamáladómstólsins og samskipti Evrópu og Bandaríkjanna almennt.
    Utanríkisviðskiptaráðherrar Norðurlanda héldu einnig fund í tengslum við Norðurlandaráðsþingið í Helsinki, en þann fund sat Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra í fjarveru utanríkisráðherra. Á fundinum var m.a. fjallað um stækkun EES og samstarfið á innri markaðnum, hina svonefndu Doha-lotu samningaviðræðna Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og þátttöku Norðurlanda í heimssýningunni, EXPO 2005.
    Fundur norrænna þróunarmálaráðherra var haldinn í júní sl. og fundur norrænna varnarmálaráðherra í nóvember sl. Báðir fundirnir voru haldnir í Ósló og þá sóttu embættismenn utanríkisþjónustunnar í fjarveru ráðherra.
    Eins og áður greinir hafa embættismenn utanríkisráðuneyta Norðurlanda gott og náið samstarf og samráð og haldnir eru reglulegir fundir varðandi allmarga málaflokka sem undir ráðuneytin heyra. Þá er efnt til sérstaks norræns samráðs í tengslum við ýmsar alþjóðaráðstefnur og alþjóðleg og svæðisbundin verkefni, með það fyrir augum að samræma sjónarmið og móta sameiginlega norræna stefnu.
    Norrænir sendierindrekar eiga með sér gott samstarf, bæði í höfuðborgum Norðurlandanna sjálfra og annars staðar þar sem norrænar sendiskrifstofur starfa. Sendiráð skiptast á upplýsingum og hafa samráð í ýmsum málum er varða sameiginlega hagsmuni ríkjanna. Óformleg tengsl sendierindreka við embættismenn í stjórnkerfi, stjórnmálamenn og leiðandi aðila í stjórnmála-, viðskipta- og menningarlífi eru mjög mikilvæg en vegna opinna og vandalausra samskipta sín á milli geta norrænir sendierindrekar oft nýtt sér sambönd hver annars með góðum árangri. Ímynd Norðurlanda er yfirleitt mjög jákvæð á alþjóðavettvangi og ekki síst í þeim löndum þar sem Ísland er með sendiskrifstofur. Flestar dyr eru því opnar norrænum sendierindrekum, sérstaklega þegar þeir koma fram sem heild.
    Óhætt er að fullyrða að staða Norðurlanda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna (S.þ.) er mun sterkari en stærð og fólksfjöldi gefa tilefni til að ætla. Vafasamt er að ríkin gætu haft eins mikil áhrif innan samtakanna og raun ber vitni ef þau stæðu ekki saman og kynntu sig sem norræna heild og málstað sinn sem norrænan. Stuðningur Norðurlanda við S.þ. og hugsjónir þær sem samtökin byggja á hefur ætið verið sterkur. Á Norðurlönd er litið sem fyrirmyndar
velferðarþjóðfélög og þykir málflutningur þeirra um jafnrétti, jafnræði, frelsi, lýðræði, mannúð og mannréttindi trúverðugur, hvort sem um er að ræða einstaklinga heima fyrir eða þjóðir í samfélagi þjóðanna. Norræn samvinna, samráð og upplýsingamiðlun um málefni S.þ. er afar mikilvæg til að viðhalda og efla stöðu Norðurlanda innan S.þ. og á alþjóðavettvangi.

5. Menningarmál


    Samstarf um menningarmál er umfangsmikið innan Norrænu ráðherranefndarinnar og tekur til margháttaðrar menningarstarfsemi. Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál starfa átta stofnanir, Norræna húsið í Reykjavík (sjá nánar um Norræna húsið, kafla 25.1.), Norðurlandahúsið í Færeyjum, Norræn stofnun í Grænlandi, Norræn stofnun á
Álandseyjum, Norræn fjölmiðlamiðstöð, gagnamiðstöð um fjölmiðlarannsóknir, listamannasetur í Dalsåsen og stofnun fyrir samtímalist í Sveaborg. Tveir sjóðir eru starfandi, Norræni menningarsjóðurinn (sjá nánar um Norræna menningarsjóðinn, kafla 26.1.) og kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn. Stjórnar- og vinnunefndir eru níu, stjórnarnefnd um menningarverkefni erlendis, stjórnarnefnd um samstarf um fjölmiðla og menningarmál, samstarfsnefnd um Norðurlandafræðslu erlendis, stjórnarnefnd um samstarf um barna- og æskulýðsmenningu, æskulýðsnefnd, bókmennta- og bókasafnanefnd, tónlistarnefnd, leiklistar- og listdansnefnd og úthlutunarnefnd um ferðastyrki til ungs listafólks (SLEIPNIR).
    Á árinu nutu verkefni um fjölmenningarsamfélagið forgangs innan ráðherranefndarinnar
og fengu norrænar stofnanir og nefndir sem unnu að slíkum verkefnum sérstakan stuðning til þeirra. Á vettvangi ráðherranefndarinnar urðu hins vegar allmiklar umræður um verkefni hennar á komandi ári. Samkomulag náðist um að hluta af fé ráðherranefndarinnar verði áfram veitt til fjölmenningarsamfélagsins og að sjónum verði sérstaklega beint að frumbyggjum Norðurlanda. Þá verður árið 2003 veitt fé til að þróa og efla verkefni á sviði stafrænnar framleiðslu.
    Í tilefni af 50 ára afmæli Norðurlandaráðs voru í fyrsta sinn veitt kvikmyndaverðlaun Norðurlanda við hátíðlega athöfn. Verðlaunin hlaut Finninn Aki Kaurismäki. Stefnt er að því að verðlaunin verði árlegur viðburður. Norrænu bókmenntaverðlaunin hlaut Norðmaðurinn Lars Saabye Christensen og norrænu tónlistarverðlaunin féllu í skaut Færeyingsins Sunleif Rasmussen.
    Norðmenn stóðu í ágúst sl. fyrir þverfaglegri ráðstefnu ráðherra, sem fjallaði um málefni barna og unglinga og var fyrsta ráðstefnan sinnar tegundar. Frá Íslandi mættu félagsmálaráðherra og umhverfisráðherra, auk embættismanna. Norrænum æskulýðsfélögum var boðið að senda fulltrúa og taka þátt í umræðunni.
    Ráðstefnan „Kunst finner sted“ var haldin af norska menningarmálaráðuneytinu í tengslum við formennsku Norðmanna á þessu ári. Meginefni ráðstefnunnar var að kynna og fjalla um mikilvægi listskreytinga í opinberum byggingum og mannvirkjum.
    Á árinu voru samþykktar breytingar á reglum um Norræna menningarsjóðinn, þannig að nú starfar sjóðurinn mun sjálfstæðar en áður var gagnvart Norrænu ráðherranefndinni. Þá hefur starfsemin verið flutt frá höfuðstöðvum Norrænu ráðherranefndarinnar í Store Strandstræde en verður áfram í Kaupmannahöfn. Þá færist starfsemi norrænu bókmennta- og bókasafnsstjórnarinnar (NORDBOK) frá Biblioteksstyrelsen í Kaupmannahöfn til nýrrar stofnunar í Noregi á sviði skjalavörslu, bókasafna og safna 1. janúar 2003.
    Á síðastliðnum árum hefur Norræna ráðherranefndin lagt fé til viðhalds Norræna hússins í Reykjavík, bæði að innanverðu og að utanverðu og verður því verki haldið áfram á árinu 2003. Embættismannanefndin í menningarmálum fékk til umfjöllunar tillögu Húsafriðunarnefndar ríkisins um fyrirhugaða friðun hússins og var hún samþykkt af hálfu nefndarinnar sem lét bóka í þessu sambandi mikilvægi þess að umgjörð hússins fengi áfram notið sín og eru íslensk stjórnvöld hvött til að gæta þess að ekki verði byggt of nálægt húsinu
í framtíðinni. Nýr forstöðumaður Norræna hússins, Gro Kraft frá Noregi tekur við 1. janúar 2003 af Riittu Heinämaa frá Finnlandi sem verið hefur forstöðumaður í 5 ár.
    Norrænu menningarstofnanirnar á Álandseyjum (NIPÅ) og í Grænlandi (NAPA) hafa báðar fengið nýja forstöðumenn í ár og starfssamningur Helgu Hjörvar hjá Norræna húsinu í Færeyjum hefur verið framlengdur til 2005.
    Stjórnarnefnd norrænna menningarkynninga erlendis voru settar nýjar starfsreglur og í framhaldi af þeim hefur verið unnið að því að skýra markmið og starfsaðferðir við kynningarnar. Undirbúningur næstu stórverkefna er hafinn. Þau eru annars vegar norræn hönnunarsýning og hins vegar menningarkynning á Balkanskaganum. Hönnunarsýningin verður opnuð í Berlín haustið 2003 og fer síðan til a.m.k. tíu borga í Evrópu. Áformað er að kynningin á Balkanskaganum verði árið 2004 en ef áætlanir ganga eftir verður þó reynsluverkefni hleypt af stokkunum á næsta ári og verður þar um að ræða samstarfsverkefni norrænna listaháskóla.
    Á sviði menningar og fjölmiðlunar komu út á árinu tvær skýrslur um möguleika nýrrar tækni í fjölmiðlun og hvernig standa mætti að norrænum sjóði er styrkti framleiðslu stafræns efnis fyrir hina nýju miðla. Stjórnarnefnd um norrænt menningar- og fjölmiðlasamstarf lét gera skýrslurnar og mun vinna nánar úr þeim á næsta ári. Þá var að frumkvæði ráðherranefndarinnar og stjórnarnefndar um menningarmál og fjölmiðla haldin ráðstefna um sjónvarp og höfundarétt í Ósló. Einnig var efni skýrslunnar „Grannlands-TV“ sem fjallar um sjónvarpssendingar milli norrænu landanna kynnt á Norðurlöndum á árinu.
    Víkingasýningin, sem sett var upp í Washington árið 2000, var opnuð í Kanada í maí sl. og síðan í Minneapolis í Bandaríkjunum þar sem forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson opnaði hana. Sýningunni lýkur í maí 2003 og búist er við að a.m.k. 5 milljónir gesta hafi þá séð hana í Kanada og Bandaríkjunum.
    Norræna hönnunarsýningin „Generation X“ var haldin í Montreal og Ottawa í Kanada og fer síðan til Skotlands og Reykjavíkur. Sýningin hefur vakið mikla athygli og er til marks um að Norðurlönd eru enn í forystusveit á sviði hönnunar.
    Innan ramma „Network North“ verkefnisins voru meira en 80 viðburðir í Skotlandi, Englandi, Írlandi og á bresku eyjunum. Allar listgreinar voru kynntar í samvinnu við þarlenda aðila, auk þess sem haldin var sýningin „Veiðimenn í útnorðri“. Verkefninu lýkur formlega á næsta ári en ráðgert er að sinna áfram þeim samböndum og tengslum sem það hefur alið, t.d. með því að bjóða til ráðstefnu þýðenda sem þýða af norrænum málum á ensku o.s.frv.
    Til norræns íþróttasamstarfs er veitt rúmlega 1,2 millj. d.kr. Aðaltilgangur fjárveitingarinnar er að efla þátttöku barna og unglinga, kvenna og fatlaðra í íþróttastarfi, styrkja samstarfið milli landanna í útnorðri, Grænlands, Íslands og Færeyja og á milli þeirra og annarra norrænna landa. Einnig er veittur lítilsháttar styrkur til Sama og skólaíþrótta. ÍSÍ fer með umsjón þess, sem fellur í hlut Íslands, en það er um helmingur fjárveitingarinnar.
    Norræna æskulýðsnefndin ber aðalábyrgð á því að fylgja eftir þverfaglegri framkvæmdaáætlun um samstarf að barna- og æskulýðsmálum, sem gildir fyrir árin 2001–2005. Áætlunin var gefin út á norsku, íslensku, finnsku og ensku. Fyrir utan styrkveitingar til barna- og unglingaverkefna og samstarfs voru helstu mál nefndarinnar að fylgja eftir framkvæmdaáætluninni. Unnið var að gerð upplýsingastefnu fyrir nefndina og átti Ísland fulltrúa í litlum vinnuhópi sem vann tillögu að henni. Í skoðun er nú vinnulag nefndarinnar og auk þess fer fram endurskoðun á starfi umsjónaraðila norrænna æskulýðsrannsókna, sem starfa fyrir nefndina, og samráðsnefndar fræðimanna tengda starfi hans. Í byrjun maí sl. skipulagði æskulýðsnefndin málþing um kynþáttahatur og nýnasisma og tók Ísland virkan þátt í því. Málþingið er hluti verkefnis, sem nefndin er að vinna fyrir samstarfsráðherrana, en auk þess hefur verið tekin saman rannsóknarskýrsla um ástand þessara mála á Norðurlöndum. Mun endanleg skýrsla koma út í byrjun árs 2003. Í samstarfi við stjórnarnefnd um barna- og unglingamenningu stóð æskulýðsnefndin fyrir fjölmenningarlegu móti, sem haldið var í Ósló í september sl.
    Stjórnarnefnd um barna- og unglingamenningu lauk gerð starfsáætlunar um menningarsamstarf á sviði barna- og unglingamenningar sem ráðherranefndin hefur samþykkt. Gildir hún til ársins 2006. Mikil vinna hefur verið lögð í að endurskoða upplýsingastefnu nefndarinnar og rekstur upplýsinganetsins „Valhalla“, sem er mjög stór þáttur í starfi nefndarinnar. Var ný upplýsingaáætlun samþykkt í september sl. og verður unnið samkvæmt henni næstu tvö árin. Átti fulltrúi Íslands mikilvægan þátt í þessari endurskipulagningu. „Valhalla“ nýtur vaxandi vinsælda og voru heimsóknir á netið um 15.000 í nóvember sl. Mikill tími nefndarstarfa hefur farið í að skoða styrkumsóknir og veita styrki, sem er mjög miður, því það er ekki aðalhlutverk hennar. Hefur því verið ákveðið að frá og með miðju ári 2003 taki nefndin ekki við styrkumsóknum lengur heldur verði mun virkari í að leita uppi góð samstarfsverkefni og fara í samstarf við ýmsa aðila, sem sinna menningarstarfi fyrir börn og unglinga á norrænum vettvangi.
    Á árinu voru í fyrsta sinn veitt barna- og unglingabókmenntaverðlaun Vestnorræna ráðsins sem vestnorrænu menningarmálaráðherrarnir standa einnig að með því að veita styrk til þýðinga tilnefndra bóka. Verðlaunin hlaut Andri Snær Magnason fyrir Bláa hnöttinn.

6. Menntamál og rannsóknir


    Samstarf um menntamál og rannsóknir er umfangsmikið innan Norrænu ráðherranefndarinnar og tekur til grunn- og framhaldsskólastigs, fullorðinsfræðslu, háskóla og rannsókna. Samstarfið felst einkum í starfsemi stofnana, föstum styrkjakerfum og verkefnum sem stjórnað er af föstum stjórnarnefndum, sem hafa m.a. umsjón með faglegum vinnuhópum, sem skipaðir eru tímabundið. Að jafnaði er lögð áhersla á samfellu í starfseminni og verkefnum sem mótuð hafa verið af fyrrverandi formennskulöndum fylgt eftir. Undir forystu Íslands árið 1999 var unnið að mótun heildarstefnu um Norðurlönd, sem forgangssvæði í þróun mannauðs sem nær til tímabilsins 2000–2004. Ráðherranefndin um menntamál og rannsóknir (MR-U) lagði tillöguna um stefnumótun fyrir tímabilið 2000–2004 fram á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í nóvember 1999 og var hún samþykkt á þinginu.
    Megináhersla er lögð á miðlun reynslu og samvinnu um þróunarstarf á vettvangi menntunar og rannsókna, aukinn hreyfanleika nemenda, kennara og vísindamanna milli landanna auk þess sem sérstök áhersla er lögð á símenntun. Markmiðið er að stuðla að því að hið norræna samfélag í menntamálum og rannsóknum verði virkur vettvangur fyrir pólitíska úrvinnslu þeirra málefna sem á döfinni eru, vettvangur þar sem menn geta lært af reynslu hver annars og þróað samnorrænar aðgerðir. Lögð er áhersla á skýrari verkaskiptingu milli landanna og að áfram verði skilgreind betur þau verkefni sem skynsamlegra þykir að vinna að sameiginlega á norrænum vettvangi en í hverju landi fyrir sig.
    Á sviði menntamála og rannsókna er áfram unnið að því að efla samstarf norrænu landanna, styrkja samstarf við önnur Evrópuríki sem og við grannsvæði Norðurlanda. Lögð er áhersla á að styrkja norræn viðhorf í alþjóðasamstarfi og sjónum var áfram beint sérstaklega að eflingu tengsla milli hinna vestlægu Norðurlanda og annarra ríkja á Norðurlöndum. Stefnt er að því að jafnauðvelt verði að mynda tengsl, skiptast á hugmyndum og flytjast frá einu fræðslu- og rannsóknarumhverfi til annars á Norðurlöndum og innan eigin lands.
    Ráðherranefnd menntamála og rannsókna heldur þrjá fundi árlega. Frá 1998 hafa ráðherrarnir tekið tiltekin þemu til umræðu á fundum sínum. Taka þemun mið af þeim málefnum sem ráðherrarnir leggja áherslu á að vinna að á norrænum vettvangi. Hafa ráðherrar m.a. rætt um mat og gæði í skólastarfi á öllum skólastigum að háskólastigi meðtöldu, stöðu norrænna málsamfélaga í ljósi hraðfara þróunar upplýsingatækni og æðri menntun á Norðurlöndum, lagskiptingu nemenda í háskólum á Norðurlöndum, fjármögnun og þróun háskóla á Norðurlöndum, svæðisháskóla og þróunarsamvinnu.

Norrænar stofnanir.
    Staða stofnana sem reknar eru af Norrænu ráðherranefndinni á sviði mennta- og vísindamála hefur verið til umræðu um nokkurt skeið. Í haust var birt sérstök úttektarskýrsla, sem unnin var að frumkvæði embættismannanefndar í mennta- og vísindamálum þar sem fjallað var um hvort ástæða væri til að breyta fjármögnun og stjórnun allra norrænna stofnana á sviði menntamála og vísinda. Þær eru níu talsins og er Norræna eldfjallastöðin ein þeirra. Nú liggur fyrir ákvörðun um að reynt verði að ná samkomulagi við stjórnvöld þeirra landa sem hýsa þessar stofnanir um samruna þeirra við stofnanir í viðkomandi landi. Er við það miðað að um leið yfirtaki stjórnvöld í hverju landi ábyrgð og skuldbindingar varðandi alla starfsemi stofnananna. Samkvæmt þessu verður framlag Norrænu ráðherranefndarinnar að hámarki 50% af grunnfjármögnun í framtíðinni, en að öðru leyti og að loknum aðlögunartíma þyrftu stofnanirnar að sækja um fé til Norrænu ráðherranefndarinnar til sérstakra verkefna eða skilgreindrar starfsemi. Stefnt er að niðurstöðu í samningum milli ráðherranefndarinnar og viðkomandi stjórnvalda um þetta fyrir apríl 2003 og að breytingarnar komi til framkvæmda í áföngum árin 2004–2006.

Fastar nefndir.
    Á vegum ráðherranefndar um menntamál og rannsóknir starfa, auk embættismannanefndarinnar sem m.a. undirbýr ráðherrafundi auk annarra verkefna sem henni eru falin af ráðherranefndinni, þrjár stjórnarnefndir, NSS (samstarf um skólamál), HÖGUT (samstarf um æðri menntun) og FOVU (samstarf um fullorðinsfræðslu). Í stjórnarnefndunum NSS og FOVU eiga sæti einn fulltrúi frá hverju norrænu landanna en tveir í stjórnarnefndinni HÖGUT. Verksvið nefndanna spannar grunnskóla og framhaldsskóla auk skóla á háskólastigi og fullorðinsfræðslu. Auk stjórnarnefndanna starfa vinnuhópar að tilteknum verkefnum. Á vegum stjórnarnefndanna hafa verið haldnar fjölmargar ráðstefnur á árinu um þau málefni sem undir þær heyra.

Samstarf um skólamál.
    NSS-stjórnarnefndin hefur umsjón með norrænu samstarfi um skólamál á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Verksvið NSS tekur til leik-, grunn- og framhaldsskóla og er unnið eftir starfsáætlun sem tekur til áranna 2000– 2004. Áherslurnar í starfi nefndarinnar beinast að þvi að bæta skólastarf á Norðurlöndum og í því skyni tekur nefndin til umfjöllunar mál sem eru efst á baugi á hverjum tíma, ber saman lausnir og aðferðir sem beitt hefur verið í einstökum löndum og miðlar upplýsingum um skóla og skólastarf til þeirra sem hlut eiga að máli.
    Samkvæmt starfsáætlun byggist samstarfið á þremur meginþáttum:
–     Samstarfi milli norrænu landanna.
–     Samstarfi við grannsvæðin.
–     Tengslum við verkefni á vettvangi ESB.
    Í samræmi við áherslubreytingu sem gerð var á síðasta ári fellur starfsemi nefndarinnar innan fjögurra megin sviða, þ.e. símenntunar, gilda, sýnileika (synlighed) og gæða í skólastarfi. Öll helstu verkefni sem komið hafa upp í samstarfinu má fella undir eitthvert þessara sviða.

    Helstu verkefnin sem unnið hefur verið að að undanförnu eru þessi:
–      Nord-lab. Verkefnið gengur út á að efla og bæta kennslu í stærðfræði-, náttúrufræði- og tæknigreinum í grunn- og framhaldsskólum. Vinnuhópur sem komið var á fót til að vinna að málinu er langt kominn með sitt verkefni en það er ljóst að vinna þarf frekar að málinu eigi þau markmið að nást sem að er stefnt.
    Lýðræði í skólastarfi. Verkefnið hófst árið 2000 og var vinnuhópi komið á fót til að fjalla um málið. Vinnuhópurinn hefur lokið störfum og skilað athyglisverðum niðurstöðum.
    Á sl. hausti var haldin ráðstefna hér á landi um lýðræði í skólastarfi á Norðurlöndum. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Lýðræði í skólastarfi. Gildismat í málefnum barna og ungmenna á Norðurlöndum“. Ráðstefnan var ein af fimm í röð ráðstefna sem Norræna ráðherranefndin efndi til í tilefni af 50 ára afmæli Norðurlandaráðs. Í kynningu á ráðstefnunum sagði m. a.: „Norrænn skilningur á lýðræði lýtur ekki aðeins stjórnskipan eða frelsi og réttindum einstaklingsins heldur einnig lífsháttum þar sem samskipti manna grundvallast á gagnkvæmri virðingu og jafnrétti og skoðanaskipti eru í hávegum höfð“.
    Niðurstöður þeirrar vinnu sem fram fór í tengslum við þetta verkefni geta tvímælalaust orðið góður vegvísir fyrir þá sem vinna að uppbyggingu og skipulagningu skólastarfs í framtíðinni.
–      Símenntun (Livslang læring). Hér er um að ræða viðfangsefni sem hefur verið áberandi í alþjóðlegu samstarfi að undanförnu. Símenntun skiptir máli í öllu skólastarfi en þar er lagður grunnurinn að áframhaldandi menntun fólks eftir að formlegri skólagöngu lýkur. Vinnuhópur sem var skipaður til að fjalla um málið er um það bil að ljúka störfum og mun skila skýrslu um miðjan janúar nk. Skýrslan hefur að geyma lýsingu og greiningu á þeim þáttum sem hópurinn áleit að skipti mestu máli í starfi leik-, grunn- og framhaldsskóla auk þess sem bent er á það helsta sem þarf að vinna að í nánustu framtíð.
–      Einelti og ofbeldi (Mobbning och våld). Þetta viðfangsefni hefur verið ofarlega á baugi í öllum löndunum. Því þótti ástæða til að fjalla um það sérstaklega af sjónarhóli skólafólks og með sérstöku tilliti til skólastarfs. Sérstakur vinnuhópur var skipaður til að fjalla um málið og hefur hann skilað greinargóðri skýrslu. Nokkuð var rætt um hvernig best væri að fylgja málinu eftir og eru horfur á að haldin verði ráðstefna á næsta ári þar sem farið verður yfir helstu niðurstöður sem fram koma í skýrslunni.
    Af öðrum verkefnum sem NSS hefur unnið að má nefna að haldin var ráðstefna í Noregi um frumkvöðlamennt og önnur um skóla morgundagsins (Morgendagens skole) einnig í Noregi. Enn fremur var miklum tíma varið í umfjöllun um norræna skólanetið og breytt skipulag á þeirri starfsemi.
    Eins og fyrr hefur samstarfið verið mjög gagnlegt fyrir Ísland og hefur gert það kleift að fylgjast með því sem er að gerast annars staðar á Norðurlöndum og víðar og haft áhrif á umræður um skólamál hér á landi. Vandamál sem koma upp í skólastarfi eru yfirleitt ekki bundin við eitt einstakt land heldur eru þau flest sameiginleg með fleiri löndum og hvetur þetta til náins samstarfs á þessu sviði.

Norræn málnefnd.
    Norræn málnefnd hélt þrjá fundi á árinu og fór þar yfir ýmis mál. Nefndin gaf út bók um áhrif ensku á norræn mál, en á fyrra ári lét nefndin rannsaka þau og hélt málþing um efnið í Pargas. Hliðstætt málþing var haldið í Drammen í Noregi í nóvember sl. og var þar fjallað um málstefnu í fjölþjóðlegu samfélagi.
    Nefndin fjallaði á árinu um skipulagsmál tungumálasamstarfsins en „Nordisk sprogråd“ hefur sýnt áhuga á að taka að sér starf nefndarinnar. Málnefndir starfa, eðli málsins samkvæmt, hver að sínu máli, en geta vitaskuld lært hver af annarri. Málnefndin hefur mun breiðari skírskotun út í fleiri anga samfélagsins. Fjórir nefndarmenn sitja einnig í „Nordisk sprogråd“.
    Nefndin veitir fjölmarga styrki ár hvert og þar eru í forgangi styrkir til að efla færni í norrænum málum í almennu kennaranámi og auk þess að veita brautargengi endurmenntun kennara. Einnig er styrkt útgáfa námsefnis og orðabóka, svo dæmi séu nefnd. Styrkumsóknum fjölgaði talsvert á þessu ári og er það vel. Styrkþegar gefa skýrslu um starfsemi sína.
    Ísland tekur við formennsku í nefndinni 2004.

Samstarf um æðri menntun.
    HÖGUT-stjórnarnefndin hefur umsjón með samstarfi um æðri menntun á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Helsta hlutverk HÖGUT er að stuðla að eflingu norræns samstarfs um æðri menntun m.a. með athugunum, sérstökum verkefnum, ráðstefnum og samráði við háskóla. Á verksviði nefndarinnar eru meðal annars verkefni á sviði grunnmenntunar og rannsókna og auk þess hefur HÖGUT umsjón með NORDPLUS- áætluninni sem felst í stúdenta- og kennaraskiptum. Á hverju ári taka alls um 5000 nemendur og kennarar á Norðurlöndum þátt í áætluninni. Í NORDPLUS gefst námsmönnum tækifæri
til að stunda hluta af námi sínu, allt að eitt ár, við háskóla annars staðar á Norðurlöndum og fá námið metið að fullu til eininga í heimalandi sínu. Þá er gefinn kostur á kennaraskiptum og fleiru er lýtur að kennslustörfum.
    Í upphafi árs 2001 var samþykkt ný starfsáætlun HÖGUT fyrir árin 2002–2004. Forgangsverkefni eru valin með hliðsjón af eftirfarandi sviðum:
–     Norðurlönd sem leiðandi á sviði aukinnar hæfni og ævilangrar menntunar.
–     Auknir möguleikar upplýsingatækni.
–     Aukin gæði æðri menntunar.
–     Alþjóðavæðing og stuðningur við hreyfanleika.
    Á grundvelli þessarar starfsáætlunar vann HÖGUT nákvæmari verkefnaáætlun er samþykkt var af embættismannanefndinni (ÄK-U) fyrri hluta árs 2001.
    Gildistími samnings um aðgang að æðri menntun var framlengdur til loka ársins 2003. Meginatriði samningsins er að allir norrænir stúdentar hafi jafnan aðgang að öllum háskólum á Norðurlöndum. Í samningnum eru ákvæði um greiðslukerfi sem Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð hafa tekið upp sín á milli. Samkvæmt þessu kerfi skulu þau ríki sem senda frá sér fleiri stúdenta en þau taka á móti greiða ákveðið gjald fyrir mismuninn. Ísland hefur verið undanþegið þessum ákvæðum. Þá verður jafnframt áfram í gildi samkomulag milli Noregs og Danmerkur um kvóta á fjölda námsmanna í ákveðnum greinum. Flest bendir til þess að samkomulag náist um að framlengja samninginn óbreyttan til þriggja ára, 2004–2006.

Norrænt rannsóknarsamstarf.
    Á sviði MR-U starfar ráðgefandi norrænt vísindastefnuráð (Nordisk Forskningspolitisk
Råd, FPR). Er það jafnframt ráðgefandi um stefnumörkun í vísinda- og tæknirannsóknum á öðrum fagsviðum ráðherranefndarinnar eftir því sem við á. Helsta hlutverk ráðsins er að leggja tillögur fyrir ráðherranefndina um norræna rannsóknarstefnu til að stuðla að markvissri forgangsröðun verkefna, með þverfaglegt samstarf í huga þar sem tekið er tillit til áherslna einstakra aðildarlanda. Ráðið er umsagnaraðili um stuðning ráðherranefndarinnar
við samstarf um rannsóknir og vísindamenntun. Ráðið heldur um fjóra fundi á ári.
    Að tillögu FPR hefur verið unnið að norrænum rannsóknaáætlanum á nokkrum rannsóknarsviðum:
          Netsamstarf um þjóðfræðirannsóknir.
          Vistfræði og mannlíf á norðurslóðum.
          Kynbundið ofbeldi.
          Tungutækni.
          Velferðarþjóðfélagið.
          Varnarmál.
          Vestnorrænt hafveðurfar.
    Þessum áætlunum mun ljúka á næstu árum.
    Auk ofangreindra rannsóknaráætlana eru norrænar stofnanir á starfssviði ráðsins. Á sviðinu starfar Nordisk Forskeruddannelsesakademi (NorFA), sem veitir styrki til vísindalegs framhaldsnáms og til annarra erlendra vísindamanna til starfa á Norðurlöndum. Þá gegnir Norræni iðnaðarsjóðurinn (NI, Nordisk Industrifond) mikilvægu hlutverki í stuðningi við rannsóknir og þróun á sviði vísinda og tækni í þágu atvinnulífisins og hefur m.a. veitt ómetanlegan stuðning við þróun upplýsingatækni, matvælatækni og líftækni hér á landi gegnum norræn samstarfsverkefni.
    Athugun á vísindalegum afköstum og fjármagni sem veitt er til rannsókna leiðir í ljós að Norðurlönd sem heild standa mjög sterk á sviði vísinda og tækni og geta sameiginlega boðið umheiminum upp á vísindasamstarf sem væri áhugavert fyrir önnur lönd. Hin nýja sýn um samstarf Norðurlanda út á við er líkleg til að opna nýja möguleika. Sérstaklega er horft er til samstarfs Norðurlanda innan Evrópusamvinnunnar, ekki síst innan 6. rammaáætlunarinnar
sem ýtt var úr vör í nóvember sl. En í vaxandi mæli líta menn einnig til samstarfs við ríki Norður-Ameríku, Rússland, þróunarríkin o.fl. Í þessu samhengi ber að hafa í huga samstarfið á vegum Norðurskautsráðsins, þar sem Íslendingar fara með formennsku næstu tvö árin.
    Ráðherranefndin á sviði mennta- og vísindamála hefur ákveðið að gera úttekt og drög að stefnumótun í formi „hvítbókar“ um möguleika og leiðir til að efla norræna samstarfið á sviði vísinda og tækni með því að beina norrænum fjárstuðningi að beinu samstarfi þjóðlegra stofnana eins og rannsóknarráða og háskóla. Í þessum anda var lagt út í samvinnu milli ráðherranefndarinnar og rannsóknarráðannna í öllum norrænu löndunum um stofnun Norrænna öndvegissetra. Leggur ráðherranefndin fram 3 millj. d.kr. og rannsóknarráðin 7 millj. d.kr. í þessu skyni. Að auki veitir NorFA 1 millj. d.kr. í styrk til rannsóknamenntunar í tengslum við þær miðstöðvar sem styrktar yrðu. Undir lok ársins var kynnt úthlutun og lokið við samninga um Norræna öndvegisstyrki til miðstöðva (Nordic Centres of Excellence) og samstarfsneta um rannsóknir á sviði „hnattrænna breytinga“. Veittir voru styrkir til fjögurra slíkra verkefna og voru íslenskir aðilar (Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Tilraunastöð Skógræktarinnnar á Mógilsá) með í einu þeirra.
    Markmiðið er að kanna hvort Norðurlönd geti gegnt ákveðnu forystuhlutverki á þessu sviði innan Evrópu og jafnframt virkjað þá samstarfsmöguleika sem kunna að opnast innan 6. rammaáætlunar ESB.
    
Ráðgjafarnefnd um upplýsingatækni.
    Frá því árið 1996 hefur verið starfandi sérstök ráðgjafarnefnd um stefnumótun í upplýsingatækni fyrir ráðherranefnd um menntamál og rannsóknir, IT-policygruppen. Þriggja ára rannsóknar- og þróunaráætlun sem nefnist NORDUnet2 sem nefndin samþykkti 1998 lauk á árinu. Unnið var að undirbúningi nýs verkefnis á grundvelli matsskýrslu, Nordunet3, en það hefur ekki verið fullfrágengið. Markmið áætlunarinnar er að viðhalda og efla samkeppnishæfni norrænu þjóðanna á sviði menntunar og rannsókna með því að þróa ný samvinnu- og samskiptaform byggð á aðferðum upplýsingatækninnar. Með því var stefnt að því að Norðurlönd héldu þeirri forystu í notkun háþróaðra tölvuneta (með Internettækni) sem þau höfðu í upphafi þessa áratugar þegar norræna samnetið, NORDUnet, var stofnað. Ávinningur af þátttöku í NORDUnet2 fyrir Íslendinga hefur meðal annars falist í þátttöku sérfræðinga á sviði háskóla og rannsókna í vinnuhópum um fjarlækningar, fjarkennslu, rafræn bókasöfn og tæknimál til samskipta á Netinu. Beinan ávinning hafa iðnfyrirtæki, netþjónustufyrirtæki, rannsóknabókasöfn, skólar, opinberir fjölmiðlar og fleiri vegna verkefna sem hafa verið styrkt undir hatti áætlunarinnar. Íslensk fyrirtæki, sem framarlega standa, t.d. í margmiðlun, hafa fengið tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri á álitlegu markaðssvæði og íslenskir notendur Netsins hafa fengið aðgang að nýjum nýtingarmöguleikum jafnskjótt og aðrir Norðurlandabúar. Verkefnið fór hægt af stað en samkvæmt matsskýrslunni var árangur af síðasta ári þess góður, einkum af starfsemi í fjórum vinnuhópum.
    Vinnuhópurinn kom einnig að mati á norræna skólanetinu, Óðni, og samþykkti að það yrði flutt frá skrifstofu ráðherranefndarinnar og auglýst með útboði. Svíar sendu það tilboð sem valið var og eru að undirbúa rekstur netsins á nýjum forsendum. Vinnuhópurinn beitti sér fyrir því að fjármagn til norræna skólanetsins yrði aukið eða að ýmsar nefndir verði settar undir skólanetið til að efla rekstur þess.
    Samstarfsverkefni á Netinu, IdunII, lauk á árinu. Samkvæmt matsskýrslu sem vinnuhópurinn lét gera voru þátttakendur, fjórir skólar frá hverju landi, ánægðir með verkefnið en stjórnendur þess og skrifstofan ekki að sama skapi miðað við kostnað verkefnisins. Vinnuhópurinn beitti sér fyrir áframhaldi samstarfsverkefna um notkun upplýsingatækni í skólastarfi en ekki hefur verið tekin slík ákvörðun.
    Háskólar á Neti hafa verið á dagskrá hópsins, þar sem unnin hefur verið stöðuskýrsla um fjarkennslu háskóla á Norðurlöndum. Í undirbúningi er vinna við norrænt samstarf um háskólakennslu á Neti.

7. Upplýsingatækni



Ráðherranefnd/embættismannanefnd.
    Í samræmi við ákvörðun fundar norrænna upplýsingatækniráðherra í september 2001 hefur starfsemi ráðherranefndar um upplýsingatækni (MR-IT) og samsvarandi embættismannanefndar (ÄK-IT) verið fest í sessi með svipuðu sniði og gildir um aðrar slíkar nefndir í norrænu samstarfi. Embættismannanefndin hélt fimm fundi á árinu og undirbjó ráðherrafund.

Ráðherrafundur um upplýsingatækni.
    Í október sl. var haldinn í Ósló annar fundur norrænna ráðherra er fara með upplýsingatækni. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sótti fundinn. Í tengslum við fundinn var haldið málþing er ráðherrarnir sátu ásamt um 50 leiðtogum fjarskipta- og hugbúnaðarfyrirtækja og fulltrúum sveitarfélaga og ríkisstofnana.
    Málþingið var þannig skipulagt að ráðherrar fluttu inngangserindi, um breiðbandsnet og stafrænt efnisframboð (Noregur); um undirstöður upplýsingasamfélagsins (Danmörk og Svíþjóð), og um hlutverk og viðfangsefni hins opinbera (Finnland, Ísland og Áland). Einn fulltrúi frá hverju landi flutti undirbúið andsvar, en síðan urðu líflegar umræður. Samandregnar niðurstöður eru að öll eru löndin í forystu á heimsvísu hvað varðar útbreiðslu upplýsingatækninnar, en áherslur örlítið mismunandi, til dæmis hvað varðar opinber afskipti
eða það að láta markaðinn ráða ferðinni. Áhugavert var talið að fá nánari upplýsingar um það hvað er í raun að gerast, til dæmis hvort upplýsingatæknin eykur í raun velferð íbúanna.

Stefnuyfirlýsing og aðgerðaáætlun.
    Ráðherrarnir samþykktu stefnuyfirlýsingu og aðgerðaáætlun um samstarfið á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni. Athyglinni verður beint að sameiginlegum og þverfaglegum málefnum sem ekki falla eðlilega undir aðrar ráðherranefndir. Fimm áhersluatriði eru dregin fram í stefnuyfirlýsingunni:
          Þekkingarsamfélag fyrir alla,
          tölfræðilegir mælikvarðar,
          rafræn stjórnsýsla,
          breiðband og stafrænt efnisframboð,
          öryggi og traust í upplýsingatækni og fjarskiptum.
    Stefnuyfirlýsingin var lögð fram sem ráðherranefndartillaga á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki í október sl. og var staðfest af ráðherrunum að fengnu jákvæðu áliti.

Önnur verkefni.
    Enn fremur samþykktu ráðherrarnir áætlanir embættismannanefndarinnar um að láta kanna og gera yfirlitsskýrslu um stöðu breiðbandsmála á Norðurlöndum og um verkefni á sviði tungutækni með tilliti til þarfa atvinnulífsins á því sviði. Fyrra verkefninu á að ljúka um mitt ár 2003. Það síðara, sem verður unnið í samvinnu við embættismannanefndina um iðnaðar- og atvinnumál og Norræna iðnaðarsjóðinn, mun taka lengri tíma. Sem dæmi um viðfangsefni sem til greina koma í tungutækni er vélræn þýðing úr einu máli á annað, t.d. á vefsíðum, orðabækur á norrænum málum og ensku og norrænar leitarvélar, það er að segja sem leita samtímis að hugtökum á fleiri málum en einu.
    Í desember sl. kom út ritið „Nordic Information Society statistics“, gefið út í sameiningu af Norrænu ráðherranefndinni og hagstofum norrænu landanna að frumkvæði þess fyrrnefnda.

8. Samstarf við grannsvæði Norðurlanda



    Samstarfið við grannsvæðin á árinu hefur verið í samræmi við rammaáætlun ráðherranefndarinnar um grannsvæðasamstarfið árin 2000–2002, og tekur til eftirfarandi starfsemi: upplýsingamiðlun og samskipti, þ.m.t. rekstur norrænna upplýsingaskrifstofa á grannsvæðunum, styrkjakerfi og verkefni á ýmsum sviðum.
    Á árinu var unnin ný rammaáætlun fyrir tímabilið 2003–2005 en unnið verður samkvæmt henni frá og með janúar 2003.

Verkefni.
    Fjárveitingar ráðherranefndarinnar til grannsvæðasamstarfsins námu tæplega 83,7 millj. d.kr. á árinu. Auk þess runnu u.þ.b. 65 millj. d.kr. frá öðrum samstarfssviðum til starfsemi og verkefna í samstarfi við grannsvæðalöndin.
    Af fjárlögum grannsvæðasamstarfsins var veitt um 3 millj. d.kr. til samstarfsins um málefni Norðurskautssvæðisins. Norðurskautssamstarfið var frá og með árinu 2002 skilið frá grannsvæðaáætluninni og verkefni innan þess varða málefni frumbyggja, lífskjör og afkomu íbúa og sjálfbæra nýtingu auðlinda á Norðurskautssvæðinu.

Upplýsingaskrifstofurnar, upplýsingamiðlun og samskipti.
    Starfsemi upplýsingaskrifstofanna í Tallinn, Ríga, Vilníus og Pétursborg hefur tekið breytingum en þær koma nú í ríkari mæli að framkvæmd verkefna fyrir ráðherranefndina. Markmiðið með því er að sníða verkefnin sem best að þörfum grannsvæðalandsins.

Styrkja- og dvalarkerfi.
    Norræna styrkjakerfið vegna Eystrasaltsríkjanna og Rússlands
var stofnað árið 1991 og markmið þess og áherslur hafa tekið breytingum á tímabilinu. U.þ.b. 85% styrkjanna eru veitt til uppbyggingar tengslanets kennara, vísindamanna og námsmanna, með áherslu á norræn tungumál, menningu og samfélag og umhverfistækni en 15% er veitt til að byggja upp tengslanet frjálsra félagasamtaka, með áherslu á heilbrigðis- og velferðarmál, börn og ungmenni, konur og jafnrétti.
    Starfsmannaskipti eru í umsjón upplýsingaskrifstofanna á grannsvæðunum, sem eykur skilvirkni við val á þátttakendum og úrvinnslu og möguleikana á að mæta breytilegum þörfum. Markmiðið með styrkveitingum til Eystrasaltsríkjanna er uppbygging tengslanets og þekkingar sem liður í undirbúningi landanna fyrir inngöngu í ESB. Við styrkveitingar til Rússlands er leitast við að stuðla að þróun í átt að lýðræði og stöðugleika með því að styrkja þróun stjórnunartækja og stjórnkerfis í opinberri stjórnsýslu.
    Þingmannaskipti: Styrkja- og skiptidvalarkerfi þingmanna er í umsjón Norðurlandaráðs. Markmiðið er að miðla reynslu af norrænu þingmannasamstarfi og fulltrúalýðræði. Styrkjakerfið var endurskoðað árið 2001 og tekin var ákvörðun um að því yrði fram haldið.

Ný stefnumótun.
    Meginmarkmið hinnar nýju stefnumótunar um grannsvæðasamstarfið, „Nær Norðurlöndum“, sem tekur til grannsvæðanna í austri og Norðurskautssvæðisins, voru höfð að leiðarljósi í starfsáætluninni fyrir árið 2002.
    Meginmarkmiðin eru:
          Áhersla á fá, stór verkefni, sem hafa sýnileg áhrif og pólitískt vægi.
          Aukin áhersla á Norðvestur-Rússland.
          Aðgerðir skulu miðast við þarfir viðkomandi svæðis og hafa ber í huga þarfir og óskir landanna.
          Að tryggja upplýsingamiðlun milli upplýsingaskrifstofanna, stjórnvalda og norrænna sendiráða í löndunum.
          Að tryggja betri samhæfingu við aðgerðir norrænu landanna hvers um sig.

Norðurskautssamstarfið.
    Norðurlandaráð samþykkti í október 2001 samstarfsáætlun fyrir Norðurskautssamstarfið.
Markmið norræns samstarfs um málefni Norðurskautssvæðisins eru að þróa og bæta lífsgæði íbúanna og samgöngur á svæðinu auk efnahagslegra forsenda fyrir áframhaldandi búsetu. Sérstök áhersla verður lögð á fjárhagslega, félagslega og menningarlega stöðu frumbyggja og umhverfi þeirra.
    Samstarfsáætlunin hefur einnig sem markmið að varðveita óbyggðirnar, náttúrugæði og fjölbreytileika náttúrunnar sem og að tryggja ábyrga og sjálfbæra nýtingu auðlinda á svæðinu í samræmi við hagsmuni þeirra landa sem eiga landsvæði á Norðurskautssvæðinu og í samræmi við takmarkanir vistkerfisins. Mikil áhersla er lögð á að takmarka og fjarlægja orsakir mengunar lands, sjávar, jökla og umhverfis þeirra með sameiginlegum aðgerðum. Um leið er leitast við að þróa hentugar samstarfsaðferðir og samstarfsstofnanir Norðurskautslandanna og leggja þá skyldu á löndin að þau fylgi eftir þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið en það er gert með sameiginlegri fjármögnun, verkefnastjórnun o.s.frv. Samkvæmt rammaáætluninni skiptist Norðurskautssamstarfið í þrjú svið:
          Frumbyggjar, þ.e. úttekt á og upplýsingar um lífskjör þeirra og tekjumöguleika, svo og uppbygging þekkingar og afnám hindrana fyrir framleiðslu hefðbundinna afurða frá Norðurskautssvæðinu. Almenn atvinnuþróun og möguleikar á tekjuöflun í dreifðum byggðum.
          Velferð og lífsgæði íbúa Norðurskautssvæðisins, einkum ákvarðanir sem stuðla að bættu heilbrigði, nýjar leiðir í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins t.d. með fjarlækningum, og uppbygging tengslanets milli kvenna sem starfa að rannsóknum og milli hinna mismunandi samtaka kvenna.
          Sjálfbær þróun á Norðurskautssvæðinu, á grundvelli skýrslunnar „Sjálbær þróun, ný stefna fyrir Norðurlönd“. Hér má m.a. nefna samstarfsáætlun um náttúru- og umhverfisvernd á Norðurskautssvæðinu, líffræðilega fjölbreytni, vistvæna ferðaþjónustu o.fl.
    Norræna ráðherranefndin á frá 2001 áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Í samræmi við samstarfsáætlunina fyrir Norðurskautssamstarfið kemur sérfræðinganefnd, sem samanstendur af starfsmönnum utanríkisráðuneyta landanna sem hafa með höndum málefni Norðurskautsins, að verkefnavali og framkvæmd samstarfsáætlunarinnar.


9. Orkumál



Inngangur.
    Markmiðið með samstarfi Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði orkumála er að stuðla að sjálfbærri, skilvirkri, samkeppnishæfri og öruggri orkuöflun á Norðurlöndum og grannsvæðunum. Lögð er áhersla á að orkulindir og orka séu nýtt til að efla atvinnulíf og styrkja efnahag og áhersla hefur verið lögð á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda á síðustu árum eins og víðast hvar annars staðar í heiminum. Áherslur í samstarfinu og þau verkefni sem unnið er að eiga að hafa pólitíska þýðingu fyrir Norðurlönd.

Rammaáætlun um norrænt samstarf á sviði orkumála.
    Á árinu 2001 samþykktu orkuráðherrar Norðurlanda rammaáætlun um norrænt samstarf á sviði orkumála árin 2002–2005.
    Á árinu var unnið að undirbúningi og framkvæmd helstu þátta rammaáætlunarinnar.
    Lögð er áhersla á þrjú meginsvið:
          Opnun raforkumarkaðarins á milli norrænu landanna fjögurra sem eru samtengd.
          Samstarf á sviði loftslagsmála.
          Samstarf við grannríkin í austri, þ.e. grannsvæðin, Eistland, Lettland og Litháen og Norðvestur-Rússland, svo og ríki innan Eystrasaltsráðsins og ESB.

    Áhersla á þessi meginsvið útilokar ekki að unnið er að ýmsum öðrum verkefnum. Má þar nefna athugun á þróun gasmarkaða á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Athuga skal möguleika á að þróa endurnýtanlega orkugjafa.
    Einnig er lögð áhersla á að vinna að sérstökum málum, t.d. þróun vetnissamfélags á Norðurlöndum og hvernig beri að leysa orkuvandamál strjálbýlli svæða. Þá er í áætluninni fjallað um hlutverk NEFP (Nordisk energiforskningsprogram) við að styðja við rannsóknir á kjarnasviðum áætlunarinnar og raunar var gerð breyting á skipulagi starfseminnar á árinu til að styrkja samband embættismannanefndarinnar og rammaáætlunarinnar.

Tilraunasvæði um losunarheimildir.
    Á fundi orkuráðherranna á Haugasundi í júní sl. var ákveðið að vinna að undirbúningi samkomulags um að gera Eystrasaltssvæðið að tilraunasvæði (Testing Ground) í viðskiptum með losunarheimildir á grundvelli Kyoto-bókunarinnar.
    Stefnt er að því að gera rammasamning með þátttöku þeirra landa Eystrasaltssvæðisins sem áhuga hafa á þátttöku um tilraunasvæði um sameiginleg verkefni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
    NEFCO (Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið) hefur lagt fram tillögu að samningi um skipulag og fjármögnun slíkra verkefna. Hugmyndin er að verkefnin verði ekki aðeins fjármögnuð af opinberum aðilum heldur einnig af aðilum atvinnulífsins. NEFCO kynnti íslenskum fyrirtækjum þessar hugmyndir á árinu.
    Á fundinum á Haugasundi var samþykkt að:
          hefja undirbúning tilraunasvæðis á grundvelli tillagna NEFCO,
          fjármagna verkefnið í upphafi með framlagsfé frá löndunum sem óska eftir þátttöku,
          Norðurlönd leggi fram á árunum 2003 og 2004 fjárhæð að upphæð 10 milljón Evrur sem skiptist á löndin í samræmi við framlög til norrænu fjárlaganna.
    Á fundi orkuráðherra Eystrasaltsríkjanna og framkvæmdastjórnar ESB sem haldinn var í Vilníus í Litháen í nóvember sl. var tekið undir þessi áform og ákveðið að gera Eystrasaltssvæðið að slíku tilraunasvæði fyrir viðskipti með losunarkvóta og sameiginleg verkefni (Joint Implementation) á grundvelli Kyoto-bókunarinnar.

Orkurannsóknir.
    Norræna orkurannsóknaráætlunin (NEFP) hefur frá árinu 1987 verið skipulögð sem markáætlun til þriggja eða fjögurra ára í senn. Markmiðið hefur verið að styrkja grunnþekkingu og efla samstarf háskóla, rannsóknastofnana o.fl. með það fyrir augum að stuðla að bættri samkeppnisstöðu landanna. Núgildandi áætlun nær til áranna 1999–2002, en á fundi orkuráðherranna í Helsinki í september 2001 var samþykkt ný áætlun fyrir árin 2003–2006 og í þeirri áætlun beinast áherslur í rannsóknum að þeirri pólitísku stefnumörkun
um áherslusvið, sem staðfest voru á sama fundi.
    Áherslur orkurannsóknaráætlunarinnar munu beinast að fimm höfuðverkefnum, þ.e. orkumarkaðsmálum, endurnýjanlegum orkulindum, orkunýtni, vetnissamfélaginu og áhrifum loftslagsbreytinga á orkubúskap Norðurlanda.
    Unnið er í sjö faghópum á ýmsum sviðum orkurannsókna. Íslendingar taka þátt í þremur faghópanna, á sviði orku- og samfélagsmála.
    Á árinu var ákveðið að mynda stofnun um starfsemina og flytja hana til Ósló.

ESB, EES og alþjóðaorkumál.
    Á fundum ráðherranefndarinnar, embættismannanefndarinnar og starfshópa á hennar vegum er að jafnaði fjallað um mál er varða EES og þróun orkumála innan ESB. Til undirbúnings funda í ráðherraráði ESB um orkumál eru áður haldnir óformlegir fundir norrænu orkuráðherranna og sitja fulltrúar Íslands og Noregs þá fundi. Þessir fundir eru afar mikilvægir fyrir okkur Íslendinga, sem ekki eigum möguleika að taka af fullum þunga þátt í öllum málaflokkum, sem heyra undir orkusviðið innan ESB.

Samstarf við grannsvæði Norðurlanda.
    Samstarfið við grannsvæðin í austri grundvallast á því starfi sem unnið hefur verið í samræmi við Bergenyfirlýsinguna og niðurstöðum funda norrænu orkuráðherranna og starfsbræðra þeirra handan Eystrasaltsins sem haldnir voru í Stafangri í desember 1998 og í Helsinki í október 1999. Slíkur fundur var eins og áður sagði haldinn í Vilníus í Litháen í nóvember sl.
    Í yfirlýsingu, sem forsætisráðherrar Norðurlanda samþykktu í Bergen 1997 um sjálfbæra þróun á sviði orkumála umhverfis Eystrasaltið, fólu þeir orkuráðherrunum að vinna að tilteknum verkefnum.
    Samstarfið við grannsvæðin felst annars vegar í samstarfi við Eystrasaltsríkin (Eistland, Lettland og Litháen) og Norðvestur-Rússland og hins vegar í samstarfi allra landa við Eystrasalt ásamt Noregi og Íslandi. Síðari samstarfsvettvangurinn fer fram á vegum BASREC (Baltic Sea Region Energy Cooperation) á vettvangi Eystrasaltsráðsins (Baltic Sea States Council, BSSC).
    Framfarir á sviði orkumála eru mjög mikilvægur liður í þróun Eystrasaltssvæðisins.
    Eystrasaltshópurinn hefur skipulagt einstök samstarfs- og stuðningsverkefni sérstaklega í Eystrasaltsríkjunum og Vestur-Rússlandi. Má þar m.a. nefna þjálfun starfsmanna orkufyrirtækja í þessum löndum og hafa nokkrir þeirra verið í þjálfun hér á landi.
    Samstarf innan undirnefndar um loftslagsmálin hefur komið okkur að góðu gagni á fundum með öðrum Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum hvað varðar upplýsingaöflun.
    Áhersla í samstarfinu hefur verið lögð á raforkumarkað, gasmarkað, orkustefnu og loftslagsmál svo og orkusparnað. Sérstakur gaumur hefur verið gefinn að fjárfestingum á sviði orkumála. Sérstök nefnd embættismanna frá löndunum hefur unnið að framkvæmd þessa máls.
    Tveir sérfræðingar hafa unnið að samstarfsverkefnum á sviði orkumála á Eystrasaltssvæðinu og hafa haft aðstöðu á skrifstofu Eystrasaltsráðsins (Baltic Sea States Council, BSSC) í Stokkhólmi, og hafa þeir að verulegu leyti verið kostaðir af Norrænu ráðherranefndinni.

Opinn norrænn raforkumarkaður.
    Á Norðurlöndum er löng hefð fyrir samvinnu á sviði raforkumála, bæði pólitísku samstarfi og samstarfi milli fyrirtækja. Með sérstöku samkomulagi frá árinu 1995, svokölluðu Louisianasamkomulagi, færðist samstarfið meira inn á hið pólitíska svið.
    Á þessum áratug hafa átt sér stað miklar breytingar á skipan raforkumála á Norðurlöndum. Norðmenn hófu fyrstir breytingar og gáfu viðskipti með rafmagn frjáls og síðan hafa bæði Svíar og Finnar og nú síðast Danir komið á markaðsbúskap í viðskiptum með raforku, meðal annars til þess að hrinda í framkvæmd tilskipun ESB um innri markað á sviði raforku.
    Á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á að kanna forsendur fyrir aukinni samtengingu raforkumarkaðarins umhverfis Eystrasaltið og meta afleiðingar þess. Er í áætluninni bent á nauðsyn þess að raforkumarkaðurinn á Norðurlöndum tengist í auknum mæli markaði annarra Evrópuríkja og þá sérstaklega í Eystrasaltsríkjunum og Austur-Evrópu. Sérstakur starfshópur ráðherranefndarinnar sinnir þessu verkefni.

Orka og loftslagsmál.
    Framkvæmd rammaáætlunar um samstarf á sviði orku- og umhverfismála hefur einkum beinst að verkefnum sem tengjast rammasamningi S.þ. um loftslagsbreytingar. Starf hópsins hefur verið öflugt og vakið athygli. Mikilvægi samstarfsins hefur komið í ljós m.a. í tengslum við ráðstefnu S.þ. í Jóhannesarborg.

Samstarf við önnur fagsvið innan Norrænu ráðherranefndarinnar.
    Undanfarin ár hefur verið formlegt samstarf á milli orkusviðs og umhverfismálasviðs á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Mest áhersla hefur verið lögð á mál er varða undirbúning loftslagssamninga og Kyoto-bókunina, eins og að ofan greinir.
    Þá hefur nefndin einnig unnið að undirbúningi þess að gera Eystrasaltssvæðið að tilraunasvæði, eins og getið var hér á undan.
    Til athugunar hefur verið að koma á samstarfi milli orkusviðs og landbúnaðar og skógræktarsviðs innan Norrænu ráðherranefndarinnar og héldu þessir aðilar einn fund á árinu um möguleika á auknu samstarfi.
    Einnig hefur verið til athugunar samstarf á milli orkusviðs og umferðar- og flutningasviðs á vettvangi ráðherranefndarinnar.

Niðurlag.
    Starf Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði orkumála hefur reynst gagnlegt fyrir Íslendinga. Mikilvægt er um þessar mundir að fylgjast með þróun raforkumarkaðarins í löndunum og læra af reynslu þeirra um skipan þessa málaflokks meðal annars vegna þeirrar víðtæku endurskoðunar á löggjöf um orkumál sem nú er unnið að hér á landi. Starf undirnefndar ráðherranefndarinnar í tengslum við rammasamning S.þ. um loftslagsbreytingar hefur komið okkur að góðu gagni í baráttunni fyrir hinu svokallaða íslenska ákvæði loftslagssamningsins. Íslendingar hafa notið góðs af orkurannsóknaráætluninni og hefur af Íslands hálfu verið lögð rík áhersla á það samstarf.


10. Umhverfismál



    Samstarf norrænu umhverfisráðherranna (MR-Miljö) byggist á norrænni umhverfisáætlun. Sú áætlun sem nú er unnið eftir gildir fyrir tímabilið 2001–2004 og þar er sett stefna um samstarfið bæði innan Norðurlanda, við grannsvæðin og Norðurskautssvæðið, ESB og um önnur alþjóðleg málefni. Endurskoðun áætlunarinnar hófst í lok árs og er gert ráð fyrir að sú endurskoðun haldi áfram árið 2003.
    Samstarf norrænu umhverfisráðherranna tekur einnig mið af áætlun um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum til ársins 2020, en ríkisstjórnir allra norrænu landanna hafa samþykkt áætlunina. Unnið var að framkvæmd norrænnar áætlunar um sjálfbæra þróun undir leiðsögn sérstakrar nefndar sem var falið það verkefni á síðasta ári. Um mitt ár kom út áfangaskýrsla um framkvæmd áætlunarinnar. Samkvæmt skýrslunni er framkvæmdin komin vel á veg bæði
í einstökum ríkjum og í starfsemi á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Nefndin kynnti líka fyrstu drög að vísum (indikatorer) til að gefa vísbendingar um árangur við framkvæmd áætlunarinnar. Athugasemdir við þau drög bárust frá einstökum ríkjum og nefndum innan Norrænu ráðherranefndarinnar og verður áfram haldið þeirri vinnu að þróa slíka vísa undir forystu Danmerkur. Nefndin samdi upplýsingaáætlun, sem miðar að því að kynna norrænu áætlunina um sjálfbæra þróun og framkvæmd hennar fyrir almenningi og stjórnendum á Norðurlöndum og einnig fyrir ríkjum og stofnunum utan þeirra.
    Síðustu ár hafa norrænir umhverfisráðherrar allir jafnframt verið ráðherrar skipulagsmála. Ráðherrarnir samþykktu í lok ársins 2001 samstarfsáætlun fyrir árin 2001–2004 sem ber nafnið „Skipulagsáætlanir sem tæki sjálfbærrar þróunar á Norðurlöndum“ (Planläggning som instrument för hållbar utveckling i Norden). Skilgreind eru fjögur samstarfsverkefni:
     1.      Ný stefna fyrir Norðurlönd – skipulag og sjálfbær þróun.
     2.      Borgarmálefni – sjálfbær þróun borga.
     3.      Landamærasvæði – þróun samvinnu um skipulagsmál landamærahéraða á Norðurlöndum.
     4.      Aðferðafræði og rannsóknir – skipulag í þágu sjálfbærrar þróunar.
    Á fundi í október sl. samþykktu umhverfisráðherrar Norðurlanda sameiginlega yfirlýsingu um borgarmálefni og samstarfsáherslur í því samhengi. Stefnt skal að því að skiptast á reynslu og auka samstarf um það hvernig skipulag og framkvæmd skipulagsáætlana geti stuðlað að lífsgæðum borga og bæja með því að móta margbreytilegt og gott borgarumhverfi.
    Málefni ESB eru fastur liður á dagskrá umhverfisráðherra, þar sem rædd eru helstu mál á döfinni innan ESB og eftir atvikum mótuð sameiginleg norræn afstaða til ýmissa mála. Þá var undirbúningur fyrir leiðtogafundinn í Jóhannesarborg einnig til umræðu á ráðherrafundum og á leiðtogafundinum héldu norrænir umhverfisráðherrar og fleiri ráðamenn sérstakan fund þar sem þeir kynntu norræna áætlun um sjálfbæra þróun. Áætlunin hefur vakið nokkra athygli þar sem hún er fyrsta svæðisbundna áætlunin um sjálfbæra þróun og þótti kynningin í Jóhannesarborg takast vel.
    Árið 2001 fór fram umfangsmikið starf við að endurskipuleggja starfsemi vinnunefnda umhverfissviðs Norrænu ráðherranefndarinnar. Var þetta gert í tengslum við gildistöku nýrrar umhverfisáætlunar og áætlunar um sjálfbæra þróun. Árið 2002 var því fyrsta árið sem vinnunefndir störfuðu eftir þessu nýja skipulagi. Alls eru nú starfandi fimm fastar vinnunefndir á umhverfissviði og aðrar fimm sem teljast þverfaglegar nefndir. Nánar er gerð grein fyrir starfsemi þessara vinnunefnda hér á eftir.

Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið
(NEFCO).
    Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið heyrir undir samstarfið um umhverfismál (sjá nánar um NEFCO, kafla 26.2.).

Fastir vinnuhópar á vegum norrænu umhverfisráðherranna:
Vinnunefnd um umhverfi hafs og lofts.
    Markmið vinnunefndarinnar er að efla vísindarannsóknir á Norðurlöndum og skapa grunn fyrir sameiginlegar aðgerðir gegn mengun hafsins og mengandi efnum sem berast langar leiðir með lofti. Nefndin leggur áherslu á að vinna verkefni sem skapa grunn fyrir sameiginlega norræna ákvarðanatöku í alþjóðlegri samvinnu varðandi mengun lofts og sjávar, afla þekkingar um ástand og þróun varðandi mengun lofts og sjávar á Norðurlöndum og nærliggjandi svæðum, og stuðla að norrænni samvinnu í málaflokknum. Vinnunefndin
hefur skipulagt starfið þannig að þrjú svið eru í sérstökum forgangi. Þau eru eftirfarandi: Næringaefnaauðgun í sjó, súrt regn og oxandi efni, og efni sem eru hættuleg umhverfinu, þar með talin þrávirk lífræn efni og þungmálmar.

Efnavörunefndin.
    
Vinnunefndin um efnavörur er í forsvari fyrir norrænu samstarfi á sviði eiturefna og hættulegra efna. Unnið er að öflun og úrvinnslu gagna sem leggja grunn að stefnumótun, ákvörðunum og aðgerðum heima fyrir, í Evrópusamstarfi og á alþjóðavettvangi. Markmið efnavörunefndarinnar er að notkun efna hafi ekki í för með sér óæskileg áhrif á heilsu og umhverfi og að losun skaðlegra efna verði hætt innan næstu 25 ára. Meðal verkefna má nefna þróun aðferða til að greina og mæla áhættu vegna efnanotkunar og flokkun og merkingar
hættulegra efna. Þá tekur nefndin þátt í ýmsum samstarfsverkefnum með öðrum vinnunefndum eins og t.d. verkefni um díoxín í fiski sem unnið er í samvinnu við matvælageirann.
    Á árinu tók efnavörunefndin þátt í útgáfu bæklings fyrir almenning sem hefur að geyma sex frásagnir af vel heppnuðu norrænu samstarfi á sviði nefndarinnar en bæklingurinn var unninn að frumkvæði upplýsingaskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar.

Vinnunefnd um náttúruvernd, útivist og menningarumhverfi.
    Nefndin hefur það hlutverk að fylgja eftir samþykktum ráðherranefndarinnar um náttúruvernd, útivist og verndun menningarumhverfis en málefnum varðandi menningarminjar var bætt við í upphafi ársins 2001. Undir nefndinni starfar einnig sérstakur arktískur stýrihópur sem hefur með höndum verkefni tengd framkvæmdaáætlun um vernd náttúru- og menningarminja á Norðurskautssvæðinu (Ísland, Grænland og Svalbarði).

Vinnunefnd um vörur og úrgang.
    Verkefni vinnunefndarinnar um vörur og úrgang eru á sviði framleiðsluvara, úrgangsmála, hreinni framleiðslutækni og framleiðslumiðaðrar umhverfisstefnu. Vinna í nefndinni fer að stærstum hluta fram í verkefna- og tengiliðahópum. Þessir undirhópar stýra tilteknum verkefnum og vinna að því að auka upplýsingastreymi milli aðila sem vinna innan málaflokksins. Þá tekur vinna nefndarinnar einnig mið af EES-samningum. Vinnunefndin hefur að mestu einbeitt sér að sameiginlegum málefnum norrænu landanna en á árinu hófst undirbúningur að verkefni um vöruþróun í Eystrasaltsríkjunum og er líklegt að starfsemi nefndarinnar muni í auknum mæli tengjast grannsvæðasamstarfinu á komandi árum.
    Ísland hefur farið með formennsku í nefndinni undanfarin tvö ár og mun áfram leiða starf hópsins árið 2003.

Vinnunefnd um umhverfisvöktun og meðferð gagna.
    Vinnunefndin skiptir verkefnum sínum í þrjá flokka. Í flokki eitt eru verkefni með norrænar áherslur. Í flokki tvö eru verkefni sem snúa að Norðurskautssvæðinu og Eystrasaltsríkjunum auk Rússlands og í flokki þrjú eru verkefni sem hafa víðari skírskotun í Evrópu. Stærsta verkefni síðustu ára var útgáfa bókar um líffræðilega fjölbreytni sem út kom á árinu. Í bókinni er ekki einungis fjallað um Norðurlönd, heldur einnig Eystrasaltsríkin, Rússland og Skotland. Önnur verkefni á vegum nefndarinnar sem Ísland tekur þátt í eru m.a. verkefni varðandi líffræðilega vöktun í fersku vatni sem tengist rammatilskipun ESB á sviði vatnsmála, verkefni sem tengist fráveitumálum og er stýrt af Náttúrustofu Vestfjarða og Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða, verkefni um vöktun hættulegra efna í landumhverfi, verkefni um kortlagningu búsvæða í sjó og verkefni um vöktun náttúru- og menningarminja.
    Á árinu samþykkti embættismannanefndin um umhverfismál (ÄK-M) nýtt skipunarbréf fyrir vinnuhópinn sem tekur gildi í ársbyrjun 2003. Vinnuhópurinn skal vera ábyrgur fyrir samræmingu á langtíma vöktun á Norðurlöndum og styðja sambærileg verkefni á grannsvæðum Norðurlanda. Helsta nýjungin í skipunarbréfinu er að öll verkefni vinnuhópsins í framtíðinni skulu vera samstarfsverkefni með öðrum vinnuhópum ráðherranefndarinnar eða verkefni pöntuð beint af ráðherranefndinni eða embættismannanefndinni.

Þverfaglegir vinnuhópar – samstarf við aðra geira:
Samstarfsnefnd um loftslagsmál.
    Nefndin, sem áður hét samstarfsnefnd um umhverfi og orku, er samstarfsnefnd umhverfisráðuneyta og ráðuneyta sem hafa orkumál á sinni könnu.
    Græn vottun á orkumarkaði og kvótamarkaður með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda er meðal þeirra verkefna sem nefndin hefur unnið að undanfarið. Eitt umfangsmesta verkefni loftslagsnefndarinnar undanfarið ár hefur hinsvegar verið undirbúningur að því að Eystrasaltssvæðið verði notað sem tilraunasvæði vegna viðskipta með losunarkvóta og sameiginlegrar framkvæmdar innan loftslagssamningsins og verður þetta verkefni áfram í forgrunni á næsta ári, ásamt nokkrum nýjum verkefnum sem eru í undirbúningi.

Samstarfsnefnd um umhverfis- og efnahagsmál.

    Sérstök vinnunefnd starfar á vegum þeirra embættismannanefnda sem fjalla um efnahagsmál (ÄK-Finans) og umhverfismál (ÄK-Miljö). Meginverkefni nefndarinnar eru almenn skoðanaskipti um umhverfismál út frá hagrænu sjónarmiði og notkun hagrænna stjórntækja.
    Meðal verkefna sem nefndin vinnur að og komin eru á útgáfustig er skýrsla um stjórnun á líffræðilegum fjölbreytileika í skógum og votlendi, skýrsla um möguleg stjórnkerfi til að bæta endurheimt á rafhlöðum á Norðurlöndum og skýrsla um hagræn stjórntæki á sviði umhverfismála á Norðurlöndum (The Use of Economic Instruments in Nordic Environmental Policy 2001–2002). Skýrslur um síðastnefnda efnið hafa verið gefnar út áður og hlotið töluverða athygli, bæði á Norðurlöndum en ekki síður utan þeirra. Þá hefur verið hleypt af stokkunum nýju verkefni sem snýst um hvernig hægt er að koma í veg fyrir að hagvöxtur hafi í för með sér aukið álag á umhverfi, svokölluð aftenging (decoupling). Þetta verkefni er unnið af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.

Samstarfsnefnd um fiskveiðar og umhverfismál.

    Nefndin er vettvangur fyrir samráð og samstarf umhverfis- og sjávarútvegsráðuneyta Norðurlanda. Nefndin hefur m.a. haft það hlutverk að hafa umsjón með framkvæmd norrænnar umhverfis- og sjávarútvegsáætlunar fyrir tímabilið 1999–2002. Umboð samstarfsnefndarinnar rann út á árinu og á haustfundum embættismannanefnda í umhverfisgeiranum og sjávarútvegsgeiranum var samþykkt nýtt skipunarbréf. Samstarfsnefndin hefur ákveðið þrjú svið sem meginviðfangsefni næstu ára:
     a.      sjálfbærar fiskveiðar og fiskeldi,
     b.      stjórnun vatnakerfa,
     c.      líffræðileg fjölbreytni í ferskvatni og í sjó.

Samstarfsnefnd um umhverfi, landbúnað og skógrækt.
    Í þessari nefnd starfa saman fulltrúar úr umhverfis- og landbúnaðargeirum. Megináhersla er lögð á að bæta stjórnun og nýtingu auðlinda á Norðurlöndum, jafnframt því sem sjónum er beint að rannsóknum og hvernig nýta má niðurstöður rannsókna í hagnýtum tilgangi fyrir landbúnað og skógrækt. Líffræðileg fjölbreytni og erfðaauðlindir eru þemu sem verið hafa ofarlega á baugi undanfarið ár. Jarðvegseyðing er annað dæmi um málefni sem verið hefur á dagskrá og samstarfshópurinn tengist einnig alþjóðlegu starfi t.d. innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og Alþjóðamatvæla- og fiskveiðistofnunarinnar (FAO).

Samstarfsnefnd um umhverfi og neytendamál.
    Þessi nefnd er samstarfsvettvangur umhverfisgeirans og þeirra sem starfa að neytenda- og efnahagsmálum. Samstarfsnefndin gengur undir skammstöfuninni NMRIPP (Nordisk Ministerråds Integrated Product Policy gruppe) og fjallar einkum um framleiðslumiðaða umhverfisstefnu. Aðalmarkmið með vinnu nefndarinnar er að draga úr þeim neikvæðu áhrifum sem framleiðsla á vörum og þjónustu getur haft á umhverfi og heilsu manna. Þetta á að gera m.a. með því að huga að umhverfisþáttum í öllum þáttum framleiðslu og nýta auðlindir á sem bestan hátt. Samstarfsnefndin vinnur náið með vinnunefnd um vörur og úrgang.


11. Efnahags- og fjármál


Ráðherrafundir.
    Fjármálaráðherrar Norðurlanda (MR-Finans) héldu tvo fundi á árinu. Fyrri fundurinn var haldinn í Ósló í júní sl. og sá seinni í Helsinki í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Eins og venja er ræddu ráðherrarnir stöðu og horfur í efnahagsmálum, einkum á Norðurlöndum. Málefni Norræna fjárfestingarbankans voru til umræðu á báðum fundunum. Á hinum fyrri var tekin ákvörðun um að þrefalda lánaramma bankans til umhverfismála. Alþingi hefur nú nýverið samþykkt lög sem heimila þetta fyrir Íslands hönd. Á síðari fundinum var til umræðu beiðni bankans um aukningu á svo kölluðum verkefnislánaramma en hann hefur aðallega verið notaður til að greiða fyrir útrás norrænna fyrirtækja í þróunarlöndum, með áherslu á grannsvæðin. Ákvörðun um að stíga frekari skref í þessum efnum bíður heildarúttektar á stöðu útistandandi lána hjá bankanum en hún stendur nú yfir. Ráðherrarnir hafa einnig rætt á fundum sínum sérstakar úttektir sem unnar hafa verið. Sú síðasta fjallar um stöðu norrænu landanna gagnvart þeirri eðlisbreytingu á efnahagslífinu sem á sínum tíma var nefnd „nýja hagkerfið“. Í febrúar 2003 er fyrirhugað að halda málþing í Stokkhólmi á vegum ráðherranefndarinnar þar sem fjallað verður um niðurstöður þessarar úttektar ásamt tveimur fyrri athugunum en þar var tekið á fjármögnun velferðarkerfisins annars vegar og framleiðni og skilvirkni opinbera geirans hins vegar. Ýmis önnur mál voru einnig til umfjöllunar hjá ráðherranefndinni á árinu. Má þar nefna undirbúning að norrænum samningi um samstarf í innheimtumálum, skattamál, jafnréttismál í fjárlagagerð og ýmis önnur.

Helstu nefndir, skýrslur o.fl.
a)    Embættismannanefndin og ýmsir vinnuhópar.
Embættismannanefndina um efnahags- og fjármál (ÄK-Finans) skipa háttsettir embættismenn í fjármálaráðuneytum landanna, einn frá hverju landi. Verkefni nefndarinnar eru fjölþætt. Meginverkefnið er að undirbúa ráðherrafundi og vera ráðgefandi í öllum málefnum sem varða starf ráðherranna á norrænum vettvangi. Nefndin hefur þannig yfirumsjón með skýrslugerð og greinargerðarskrifum fyrir ráðherrafundina. Jafnframt hafa gjarnan starfað sérstakir vinnuhópar á vegum nefndarinnar til að sinna ákveðnum verkefnum. Auk þess eru málefni Norræna fjárfestingarbankans mikið til umfjöllunar. Vinnuhópar hafa verið að störfum að eftirfarandi málum á árinu:
    Samstarf um innheimtu krafna. Vinnuhópur til að gera úttekt á þörfinni fyrir frekari upplýsingaskipti milli stjórnvalda á Norðurlöndum við innheimtu opinberra og einkaréttarlegra krafna skilaði skýrslu til ráðherranefndarinnar. Þeir samningar sem nú eru í gildi teljast ekki fullnægjandi heimild fyrir víðtækara samstarfi á þessu sviði og lagði vinnuhópurinn til að gerður yrði nýr samningur til að leggja grunninn að frekari norrænni samvinnu varðandi upplýsingaskipti við innheimtu. Áætlað er að ljúka samningsgerð á árinu 2003.
    Nýja hagkerfið; áhrif þess á framleiðni og hagstjórn.Verkefni hópsins hefur verið í fyrsta lagi að skilgreina hugtakið „nýja hagkerfið“ og hvort þær atvinnugreinar sem settar hafa verið í samband við nýja hagkerfið hafa náð að setja mark sitt á efnahagslíf Norðurlanda. Hópurinn hefur kannað framleiðniþróun í einstökum löndum og hugsanleg áhrif nýrra atvinnugreina á þá þróun. Hópurinn lauk störfum og skilaði skýrslu til ráðherranefndarinnar síðastliðið haust.
    Athugun á auknu samstarfi norrænna kauphalla. Áfram er unnið að samvinnu um innleiðingu EU-tilskipana á fjármálasviði og að öðru sem stuðlar að aukinni hagræðingu á norrænum verðbréfamörkuðum. Framhaldsathugun var gerð á lagaumhverfi verðbréfamarkaða í Eystrasaltsríkjunum á árinu og var skýrsla gefin út af ráðherranefndinni. Þá var haldin ráðstefna um uppgjör og skráningu viðskipta fyrir markaðsaðila og að auki vinnufundur (workshop) með fulltrúum frá Eystrasaltsríkjunum um EU-tilskipun um fjármálaveð.
    Samþætting fjárlagagerðar og jafnréttis. Sumarið 2001 ákváðu fjármálaráðherrar Norðurlanda að setja á fót starfshóp sem hafði það hlutverk að koma með tillögu að sameiginlegu norrænu verkefni um samþættingu fjárlagagerðar og jafnréttis. Hópurinn starfaði frá janúar til september sl., og voru í honum einn fulltrúi frá hverju fjármálaráðuneyti og einn fulltrúi jafnréttismála frá hverju landi. Fyrir liggur skýrsla starfshópsins sem hefur verið skilað til embættismannanefndar um jafnrétti (ÄK-JÄM) og embættismannanefndar um fjármál (ÄK-Finans) til frekari ákvarðanatöku. Tillögur starfshópsins felast í að unnið verði að verkefni um samþættingu fjárlagagerðar og jafnréttis í hverju landi fyrir sig en að stjórnun, ráðgjöf, ráðstefnuhald og kynningar fari fram í gegnum samnorrænan vinnuhóp sem í verði fulltrúar frá fjármálaráðuneytum hvers lands og fulltrúar frá jafnréttisgeira hvers lands.
b)     Eystrasaltsnefndin (Baltikumudvalget). Árið 1992 samþykkti Norðurlandaráð norræna fjárfestingaráætlun fyrir Eystrasaltsríkin sem miðaði að því að hjálpa litlum og meðalstórum fyrirtækjum og koma á fót sérstökum fjárfestingarbönkum í þessum ríkjum með árlegum fjárframlögum frá Norðurlöndum. Hlutverk þessarar nefndar var að hafa eftirlit og yfirumsjón með þessu verkefni, m.a. í nánu samstarfi við fulltrúa Norræna fjárfestingarbankans (NIB), Evrópubankans í London (EBRD) og Norræna verkefnaútflutningssjóðsins (Nopef). Þessari áætlun lauk formlega árið 2000 en nefndin hefur þó áfram fylgst með einstökum þáttum hennar eftir því sem ástæða þykir til.
c)     Efnahagsnefndin (Konjunkturgruppen). Helsta verkefni þessarar nefndar er að fjalla um ástand og horfur í efnahagsmálum, einkum á Norðurlöndum. Auk þess hefur nefndin iðulega fjallað um afmörkuð verkefni á sviði efnahagsmála sem eru ofarlega á baugi hverju sinni. Nefndin hittist tvisvar á ári og hana skipa embættismenn úr fjármálaráðuneytum landanna. Á hverju hausti skilar nefndin sérstakri skýrslu til fjármálaráðherranna sem síðan er gefin út á vegum Norðurlandaráðs.
d)     Norrænu-baltnesku ráðgjafanefndirnar. Haustið 2000 var ákveðið að styrkja samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna til undirbúnings funda á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Settar voru á laggirnar tvær embættismannanefndir með þátttöku frá fjármálaráðuneytum og seðlabönkum landanna. Önnur nefndin, norræna- baltneska fjármálanefndin, er almennt skipuð ráðuneytisstjórum og bankastjórum, en í hinni nefndinni, norrænu-baltnesku fulltrúanefndinni, sitja yfirmenn þeirra efnahags- og alþjóðaskrifstofa sem sinna málefnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þessar tvær nefndir tóku við því starfi sem áður hafði verið sinnt af ráðgjafarnefnd um fjármál (NFU) og annarri, óformlegri nefnd sem var skipuð norrænum og baltneskum embættismönnum. Þessi nýskipan hefur þær meginbreytingar í för með sér að fjármálaráðuneyti landanna koma með ákveðnari og markvissari hætti inn í þetta starf en verið hefur. Helstu verkefni nefndanna eru að undirbúa fundi í fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMFC). Einnig er nefndunum ætlað að skoða hvernig megi efla starf norrænubaltnesku skrifstofunnar í Washington og gera tengsl hennar við stjórnvöld heima fyrir markvissari. Loks er nefndunum falið að fylgjast náið með öllu starfi innan sjóðsins, með milligöngu skrifstofunnar í Washington, og undirbúa þær ákvarðanir sem þar þarf að taka.
e)     Vinnuhópur á sviði umhverfismála (Miljø- og økonomigruppen). Sérstakur vinnuhópur starfar á vegum ÄK-Finans og ÄK-Miljö. Meginverkefni hópsins eru almenn skoðanaskipti um umhverfismál út frá hagrænu sjónarmiði og notkun á hagrænum stjórntækjum í umhverfismálum. Nefndin hittist alla jafna tvisvar á ári. Starfsemin byggir að mestu á því að sérfræðingar eru fengnir til að skrifa skýrslur um tiltekin málefni á verkefnaskrá þessa samstarfs. Þau verkefni sem nú er helst unnið að og eru komin á útgáfustig eru eftirfarandi:
          Skýrsla um hagræn stjórntæki á sviði umhverfismála á Norðurlöndum (The Use of Economic Instruments in Nordic Environmental Policy 2001-2002). Skýrslur um sama hafa verið gefnar út áður og notið töluverðrar athygli, bæði á Norðurlöndum og ekki síður utan þeirra.
          Skýrsla um stjórnun á líffræðilegum fjölbreytileika í skógum og votlendi.
          Skýrsla um möguleg stjórnkerfi til að bæta endurheimt á rafhlöðum á Norðurlöndum.
    Hleypt hefur verið af stokkunum nýju verkefni sem snýst um það hvernig hægt er að koma í veg fyrir að hagvöxtur hafi í för með sér aukið álag á umhverfið, svo kölluð „aftenging“. Þetta verkefni er unnið af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.
f)     Nefnd norrænna skattahagfræðinga. Nefndin hittist á hverju ári og er farið yfir helstu skattamál sem hafa verið til umfjöllunar í hverju norrænu landanna fyrir sig. Auk þess eru til umfjöllunar í nefndinni ýmis skattamál sem eru ofarlega á baugi hverju sinni.
g)     Sérfræðinganefnd um norræn fjárlög (Budgetexpertgruppen). Hlutverk nefndarinnar er að skila faglegri umsögn um tillögu samstarfsráðherra um frumvarp til norrænu fjárlaganna, bæði tæknilegri og efnislegri. Nefndin tekur einnig til umfjöllunar afmörkuð mál sem samstarfsráðherrar vísa til hennar. Auk embættismanna fjármálaráðuneyta viðkomandi landa sitja starfsmenn frá skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar fundi hennar.
h)     Norræna launa- og starfsmannanefndin (Löne- och personalutskottet).
Nefndin er ráðgefandi fyrir ráðherranefndina (samstarfsráðherra Norðurlanda) og stjórnarnefnd Norðurlandaráðs í launa-, ráðningar- og lífeyrismálum þeirra starfsmanna sem starfa við norrænar stofnanir ráðherranefndarinnar svo og starfsmanna á skrifstofum Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn. Nefndin fær þessi mál til umfjöllunar frá starfsmannadeild skrifstofunnar í Kaupmannahöfn og annast starfsmannastjóri undirbúning fundanna en nefndin getur einnig að eigin frumkvæði skotið málum varðandi ráðningar- og starfskjör til ráðherranefndar og stjórnarnefndar. Enn fremur á nefndin að tryggja að um málefni er varða stofnanirnar fari eftir 5. gr. sáttmála þjóðanna frá 9. des. 1988, um réttarstöðu norrænna stofnana, og að starfsmannafélög njóti umsagnarréttar áður en ákvörðun er tekin. Aðeins var haldinn einn fundur í nefndinni á árinu en nokkur mál leyst með tölvupósti. Helstu mál sem fjallað var um á árinu eru: Ákvörðun um stjórnarlaun stofnananna á nýju ári. Áfram var fylgst með breytingum á ráðningarformi og launasetningu starfsmanna á skrifstofunum í Kaupmannahöfn. Nýtt samkomulag um samræmingu lífeyrisréttinda ríkisstarfsmanna á Norðurlöndum og starfsmanna samnorrænna stofnana sem og skrifstofunnar í Kaupmannahöfn tók gildi í mars sl.
i)     Norræn starfsmannaskipti (nordisk tjenestemandsudveksling
). Á árinu var fjárframlag til starfsmannaskiptanna með líkum hætti og verið hefur á undanförnum árum. Hlutdeild Íslendinga nam 119.000 d.kr. af heildarfjárveitingu ráðherranefndarinnar eða 5,9%. Einnig fékk Ísland heimild til þess að nota ónotaða fjárveitingu frá árinu áður og var því hægt að koma til móts við fleiri umsækjendur en ella. Styrkþegar ársins voru níu talsins og hlutu þeir styrki til eins til þriggja mánaða dvalar auk greiðslu ferðakostnaðar. Átta styrkþegar fóru til Danmerkur og einn til Finnlands. Á vorfundinum sem haldinn var í Stokkhólmi kom enn á ný upp umræða um hverjar skuli vera viðmiðanir vegna skiptingar fjárveitingarinnar til landanna því aðstæður eru mjög mismunandi. Nokkrar breytingar voru gerðar í framhaldi af því sem ekki koma til framkvæmda fyrr en á árinu 2003. Þær breytingar hafa þó ekki áhrif á framlagið til Íslands. Upplýsingar um starfsmannaskiptin er að finna á heimasíðu fjármálaráðuneytisins.
j)     Samstarf yfirmanna skattamála í fjármálaráðuneytum á Norðurlöndum.
Samstarfið hófst 1989 að frumkvæði fjármálaráðherra Norðurlanda í þeim tilgangi að skapa vettvang til upplýsingamiðlunar og skoðanaskipta milli landanna um þróun í skattamálum. Samstarfið er fólgið í einum árlegum fundi yfirmanna skattamála og á milli þeirra er upplýsingum miðlað meðal annars með því að send eru milli ráðuneytanna frumvörp og skýrslur um skattamál. Á hinum árlegu fundum er gerð grein fyrir þeim breytingum á skattalögum, sem gerðar hafa verið í hverju landi um sig og unnið er að á hverjum tíma. Annar fastur liður er greinargerð um breytingar í skattamálum innan ESB, einkum með tilliti til áhrifa þeirra á Norðurlönd, og er sjónarmiðum landanna utan ESB þá komið á framfæri. Í þriðja lagi eru rædd þau skattamál sem eru til umfjöllunar á vettvangi OECD og afstaða landanna til þeirra samræmd eftir atvikum. Að lokum er á fundum þessum fjallað um einstök stærri mál á sviði skatta, sem einstök lönd óska eftir að ræða.
k)     Norræna skattrannsóknarráðið.
Ráðið var stofnað árið 1973 með samningi milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Á árinu 1999 ákvað ríkisstjórn Íslands að sækja um aðild að ráðinu. Í nóvember sl. var undirrituð bókun á milli aðildarríkja samningsins og Íslands um aðild Íslands að norræna skattrannsóknarráðinu frá og með janúar 2003. Markmið skattrannsóknarráðsins er að stuðla að skattrannsóknum í lögfræði og hagfræði. Ráðið heldur fund einu sinni á ári auk þess sem árlega er haldin ráðstefna í einhverju aðildarlandanna þar sem tekin eru fyrir mismunandi rannsóknarverkefni á sviði skattamála. Þá gefur ráðið út árbók þar sem birtir eru fyrirlestrar og skýrslur frá ráðstefnu ársins. Á síðasta fundi ráðsins sem haldinn var í Helsinki var umfjöllunarefnið skattaleg meðferð á hlutabrefum sem fjárfest er í erlendis.
l)     Samstarf fjárlagastjóra norrænu landanna.
Fjárlagastjórar, það er forstöðumenn þeirra skrifstofa í fjármálaráðuneytum norrænu landanna sem hafa umsjón með fjárlögum hittast alla jafna tvisvar á ári. Á þessum fundum er fjallað um ýmis þau málefni sem eru efst á baugi í fjárlagagerð landanna hverju sinni. Enn fremur eru tiltekin mál tekin til umræðu sem hafa áhrif á fjárlagagerðina, stjórn ríkisfjármála, ríkisreksturinn og ákvörðun útgjaldaramma til lengri eða skemmri tíma. Tekin eru fyrir ákveðin áherslumál í ríkisrekstri hjá hverju ríki sem efst eru á baugi hverju sinni.

Norræni fjárfestingarbankinn (NIB).
    Norræni fjárfestingarbankinn var stofnaður 1975 til að styrkja norræna samvinnu og efnahag Norðurlanda. Með aukinni alþjóðavæðingu atvinnulífs á Norðurlöndum og stuðningi eigenda hans hefur starfsemi bankans orðið alþjóðlegri. Lán og ábyrgðir eru nú ekki aðeins veitt til verkefna á Norðurlöndum heldur einnig utan þeirra. Bankinn nýtir traust lánshæfi á alþjóðamarkaði til að veita lán á almennum bankakjörum til fjárfestingarverkefna einkaaðila og opinberra aðila í þágu bæði Norðurlanda og þeirra ríkja utan Norðurlanda sem fá lán eða ábyrgðir frá bankanum. Bankinn hefur lagt aukna áherslu á lán til Eystrasaltsríkjanna og NorðvesturRússlands. Í ljósi aukinnar alþjóðlegrar starfsemi bankans og þeirrar auknu áhættu sem því fylgir var talið mikilvægt að treysta með formlegum hætti alþjóðlega stöðu bankans. Í því skyni tók árið 1999 gildi nýtt samkomulag um bankann sem miðar að því að styrkja stöðu hans sem alþjóðlegrar fjármálastofnunar. (Sjá nánar um Norræna fjárfestingarbankann í kafla 26.3.)

Önnur starfsemi á vegum fjármálaráðherra.
    Auk þeirra verkefna sem hér hafa verið nefnd er rétt að vekja athygli á að fjármálaráðherrar Norðurlanda hafa um árabil haft náin samráð á vettvangi ýmissa alþjóðastofnana. Þannig hafa ráðherrarnir samráð fyrir fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eins og áður hefur verið minnst á. Enn fremur má nefna hliðstætt samráð vegna funda á vegum OECD. Meginlínurnar eru gjarnan lagðar á norrænum ráðherrafundum og þeim er fylgt eftir á hinum ýmsu fundum innan OECD, jafnt ráðherrafundum sem öðrum. Þá má nefna aðild ráðherranna að Eystrasaltsráðinu, ásamt fjármálaráðherrum Þýskalands, Póllands og Eystrasaltsríkjanna, en þessir aðilar halda að jafnaði einn fund á ári.


12. Byggðamál



Norræna embættismannanefndin um byggðamál (NÄRP).
    Nefndin er samstarfsvettvangur embættismanna þeirra ráðuneyta norrænu landanna sem fara með byggðamál. Markmið samstarfsins er að miðla upplýsingum, byggja upp þekkingu og stuðla að samstarfi innan svæðisins.
    Á árinu lauk verkefninu „verksted for nordisk regionalpolitikk“. Verkefnið fólst í því að bera saman byggðastefnu norrænu landanna fimm. Auk þess var tilgangur verkefnisins að miðla reynslu og þekkingu á milli embættismanna landanna um árangur af hinum ýmsu aðgerðum stjórnvalda til að efla svæði og einstök byggðalög. NÄRP hefur falið NORDREGIO að fylgja verkefninu eftir. Það verður annars vegar gert með námskeiðahaldi og hins vegar með því að viðhalda upplýsingum um byggðaaðgerðir á Norðurlöndum og árangri af þeim.
    Á vegum NÄRP hefur starfað vinnuhópur sem var falið það hlutverk að fylgjast með endurskoðun á byggðastefnu ESB en henni á að ljúka eigi síðar en árið 2006. Hlutverk vinnuhópsins er að halda embættismannanefndinni upplýstri um áhrif stækkunar ESB á byggðastefnu sambandsins þar á meðal reglur um ríkisstyrki. Á árinu skipulagði vinnuhópurinn kynningarfund fyrir NÄRP í Brussel þar sem fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar og ráðherraráðsins gerðu grein fyrir líklegum áhrifum af stækkun ESB á byggðastefnuna.
    Samstarfið sem tekið var upp við embættismannanefndina um upplýsingatækni hélt áfram á árinu. Ákveðið var að framkvæma athugun á því hver væri stefna norrænu landanna í breiðbandsmálum og hvernig henni hefur verið framfylgt. Er áætlað að skýrsla liggi fyrir á miðju árinu 2003. NÄRP hefur gert samstarfssamninga við átta svæðastofnanir á Norðurlöndum. Á árinu var af hálfu NÄRP lögð áhersla á að svæðastofnanirnar ynnu að verkefnum er miði að því að fjarlægja landamærahindranir í samræmi við þær ráðleggingar sem fram koma í Norrback-skýrslunni.
    Í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Helsinki var haldinn fundur byggðamálaráðherra Norðurlanda. Á fundinum var fjallað um skýrslu NORDREGIO um byggðaþróun á Norðurlöndum, rannsókn Umeå háskóla í Finnlandi um orsakir búferlaflutninga og pólitískt samstarf til að hafa áhrif á endurskoðun á byggðastefnu ESB.

NORDREGIO.
    Nordregio er norræn fræðslustofnun í skipulags- og byggðamálum. Hún var stofnuð árið 1997 upp úr eldra norrænu samstarfi á sviðinu. Hlutverk Nordregio er m.a. að þróa og miðla þekkingu um byggða- og skipulagsmál til viðeigandi stofnana innan þessara málaflokka á Norðurlöndum. Áhersla stofnunarinnar á byggðamál í Evrópu, sem og í málum tengdum Eystrasaltsríkjunum hefur farið vaxandi. Þá hefur hún tekið ákveðin skref í þá átt að efla rannsóknir og rannsóknasamstarf á Vestur-Norðurlöndum; Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og Vestur-Noregi. Stofnunin stundar umfangsmiklar rannsóknir á sínu sérsviði auk fræðslustarfs í formi námskeiða og rekur m.a. URSA – Urban and Regional Studies Academy, en þar er staðið fyrir sérhæfðum námskeiðum fyrir fagfólk. Í tengslum við rannsóknir stofnunarinnar hafa Íslendingar verið þátttakendur í auknum mæli, sem og í námskeiða- og ráðstefnuhaldi.
    Á árinu 2001 var heildarvelta Nordregio alls 33 millj. s.kr. Stofnunin er staðsett í Stokkhólmi og starfar þar einn Íslendingur, en alls starfa 30 manns hjá stofnuninni (22 mannár).

Norræna Atlantsnefndin (Nordisk Atlantsamarbejde – NORA).

    Norræna Atlantsnefndin (NORA) er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja, Grænlands og Norður- og Vestur-Noregs og heyrir undir Norrænu ráðherranefndina. Skrifstofa nefndarinnar er í Þórshöfn á Færeyjum. Einnig eru starfandi fulltrúar NORA í hverju aðildarlandi. Starfsmaður hjá þróunarsviði Byggðastofnunar hefur umsjón með starfi NORA á Íslandi.
    NORA veitir styrki til samstarfsverkefna er tengjast þróun atvinnulífs, nýsköpun og rannsóknasamstarfi á starfssvæði sínu. NORA hóf starfsemi í núverandi mynd árið 1996. Þrír fulltrúar frá hverju landi eiga sæti í Norrænu Atlantsnefndinni og eru fulltrúar Íslands skipaðir af iðnaðarráðherra. Framkvæmdaráð, þar sem hvert aðildarland á einn fulltrúa, undirbýr ákvarðanir, leggur fram tillögur og veitir framkvæmdastjóra leiðsögn í einstökum málum.
    Meginmarkmið með starfi NORA er að hvetja til og efla samvinnu innan svæðisins með áherslu á sjávarútveg, umhverfismál sjávar, ferðaþjónustu, landbúnað, jarðrækt, samgöngur, upplýsingatækni, verslun og iðnað, með áherslu á atvinnuþróun og nýsköpun í atvinnulífinu. Þá leitast nefndin við að koma á samstarfi milli nefndarinnar og annarra aðila sem vinna að hliðstæðum og tengdum verkefnum innan samstarfssvæðisins. Einkum hefur verið lögð áhersla á samvinnu við atvinnuþróunar- og rannsóknarstofnanir í löndunum fjórum. Einnig er miðluð reynsla og þekking í byggða- og atvinnumálum milli landanna og stuðlað að rannsóknum og þróun á framangreindum sviðum þar sem löndin geta notið góðs af reynslu hvers annars með því að koma á samskiptum stofnana, fyrirtækja og einstaklinga.
    NORA tekur jafnframt virkan þátt í NPP (Northern Periphery Programme) en það er eitt af svokölluðum Interreg-verkefnum ESB sem er ætlað að efla samvinnu yfir landamæri. Skrifstofa NORA aðstoðar Ísland, Grænland og Færeyjar við mat á umsóknum og annast ýmis sameiginleg verkefni landanna þriggja vegna þátttöku þeirra í NPP. Auk þess getur NORA tekið þátt í samfjármögnun verkefna sem hljóta styrk úr NPP áætluninni.
    NORA auglýsir eftir umsóknum um styrki til þróunarverkefna einu sinni á ári, að jafnaði síðla vetrar og eru umsóknir afgreiddar að vori. Styrkfjárhæðir geta numið allt að 500.000 d.kr. á ári. Einungis er greitt fyrir hluta af kostnaði við hvert verkefni og aldrei meira en 50% af heildarkostnaði.
    Á árinu bárust 30 umsóknir og voru 19 umsóknir styrkhæfar. Íslendingar eru þátttakendur í 18 af þeim 19 verkefnum sem fengu stuðning. Verkefnin eru af ýmsum toga t.d. vöruþróun, menningartengd ferðaþjónusta, rannsóknir í sjávarútvegi og verkefni tengd samgöngum og upplýsingatækni.
    Fjárveiting til NORA á árinu var 5,8 millj. d.kr. Norræna ráðherranefndin leggur til 4,3 millj. d.kr. og Lánasjóður Vestur-Norðurlanda 1,5 millj. d.kr. Úthlutað var 3,6 millj. d.kr. til þróunarverkefna.


13. Samgöngumál



    Norrænt samstarf um samgöngumál fer að mestu fram í norrænni embættismannanefnd um samgöngumál (NÄT), en í henni eiga sæti ráðuneytisstjórar samgönguráðuneytanna á Norðurlöndum, ásamt staðgenglum og ráðgjöfum. Nefndin hefur að jafnaði haldið tvo fundi á ári og svo var einnig á þessu ári. Samgönguráðherrar Norðurlanda héldu einn fund á árinu.

Sumarfundur samgönguráðherra Norðurlanda.

    Fundurinn var haldinn í Lofoten í Noregi í júní sl. og helstu mál fundarins voru þessi:
a)    ESB og EES.
Í fyrsta lagi var rætt um formennskutímabil Dana í ESB seinni hluta ársins. Danir gerðu grein fyrir þeim málum sem þeir leggja áherslu á á tímabilinu, en þau eru m.a.:
               sameiginleg flugumferðarstjórn í Evrópu (Single European Sky),
               tilskipun um járnbrautarsamgöngur,
               skipulag landsamgangna (TEN-verkefnið).
    Í öðru lagi var rætt um fyrirhugaða stækkun ESB en ákvörðun um við hvaða lönd verður samið var tekin á formennskutíma Dana.
b)    Norðlæga víddin (Den nordliga dimensionen).
Finnar lýstu ánægju með hvernig Svíar héldu á þessu máli á formennskutíma sínum í ESB og hvöttu Dani til að halda því starfi áfram. Danir greindu frá því að þeir myndu leggja til við Framkvæmdastjórnina að hún ynni að verkáætlun fyrir árin 2004–2006. Þar yrði skipulag samgangna á svæðinu sett í forgang. Finnski ráðherrann skýrði frá frumkvæði Finna varðandi lagningu hraðbrautar um Eystrasaltsríkin til Mið-Evrópu til að greiða fyrir flutningum til og frá Eystrasaltssvæðinu. Öll löndin lýstu yfir ánægju með frumkvæði Finna og sagði sænski ráðherrann m.a. að slíkar framkvæmdir myndu létta á sænska vegakerfinu, þar sem um 40.000 vöruflutningabifreiðar aka um það á hverju ári.
c)    Verklag vegna samstarfs um EES/ESB-mál.
Á fundinum voru samþykkt drög að verklagi við störf fulltrúa landanna að EES- og ESB-málum, er snerta samgöngur. Rætt var um að bjóða fulltrúum frá Eystrasaltsríkjunum að taka þátt í þessum störfum til undirbúnings ýmissa mála á sviði EES og ESB. Þá lýsti sænski ráðherrann því yfir að hann myndi beita sér fyrir sameiginlegum fundi samgönguráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna, hliðstæðum þeim sem haldinn var í Finnlandi árið 2001.
d)     Farþegaskattar.
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, vakti máls á afskiptum Eftirlitsstofnunarinnar (ESA) af álagningu farþegaskatta á Íslandi og spurðist fyrir um hvernig þeim málum væri háttað í hinum norrænu löndunum og lýsti eftir afstöðu þeirra til afskipta ESA, en á Íslandi litu menn þessi afskipti alvarlegum augum. Sænski ráðherrann sagði að mismunandi farþegaskattar í innanlandsflugi og í flugi milli landa væru brot á reglum ESB og að Ísland gæti ekki vænst stuðnings frá hinum norrænu löndunum í þessu máli. Finnski ráðherrann greindi frá því að Finnland hefði þurft vegna aðildar sinnar að ESB að breyta sköttunum hjá sér á líkan hátt og Ísland verður að gera. Danir fylgja þegar reglum ESB varðandi farþegaskatta.
e)     Samstarf um menntun flugumferðarstjóra og lestarstjóra. Á fundinum var kynnt starf nefndar um sameiginlegt norrænt nám fyrir flugumferðarstjóra og lestarstjóra. Samþykkt var að beina því til hlutaðeigandi stofnana á Norðurlöndum að meta þörfina fyrir slíkt samstarf.
f)     Skattar og gjöld fyrir afnot samgöngumannvirkja (Infrastrukturavgifter).
Danir kynntu greinargerð sem þeir lögðu fram á fundinum og byggð er á hvítbók ESB varðandi þessi mál. Greint var frá stöðu þessara mála innan sambandsins. Samþykkt var að efla norrænt samstarf á þessu sviði og var rætt um að halda ráðstefnu um skatta og gjöld fyrir afnot samgöngumannvirkja á árinu 2003 og ætla Svíar að eiga frumkvæðið að henni.
g)     Breytingar á rekstrarfyrirkomulagi járnbrauta.
Sænski samgönguráðherrann greindi frá áformum um breytingar á rekstrarfyrirkomulagi járnbrauta í Svíþjóð. Þegar væri búið að skipta sænsku járnbrautunum upp í annars vegar rekstur járnbrautateinanna og hins vegar rekstur járnbrautanna sem fyrirtækis. Á fundinum voru kostir og gallar þessara breytinga almennt ræddir og greint var frá stöðu þessara mála í Noregi, Finnlandi og Danmörku.
h)     Umferðaröryggismál á Norðurlöndum.
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, gerði að umtalsefni skipulag umferðaröryggismála á Norðurlöndum. Hann greindi frá því að á Íslandi hefðu menn litið svo á að þau væru í þokkalegu lagi. Þó verði að segja það að á Íslandi ekki síður en í öðrum löndum væri erfitt að fækka dauðsföllum í umferðinni þegar þau hefðu náð ákveðnum fjölda. Svo virðist sem um ósýnilegan þröskuld sé að ræða sem erfitt væri að stíga yfir. Hann greindi frá því að á Íslandi heyrðu umferðaröryggismálin undir dómsmálaráðuneyti en ekki undir samgönguráðuneyti. Hann taldi ókosti þessu samfara og spurðist fyrir um hvernig þessum málum væri háttað í hinum norrænu löndunum.
    Í svari samgönguráðherranna kom fram að í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi heyrðu umferðaröryggismálin undir samgönguráðuneyti landanna. Norski samgönguráðherrann upplýsti að ráðgert væri að halda norræna ráðstefnu um umferðaröryggismál á þessu ári, þar sem m.a. norrænir sérfræðingar á þessu sviði héldu fyrirlestra. Sænski samgönguráðherrann greindi frá stöðu þessara mála í Svíþjóð. Þar í landi hefði dauðsföllum ekki fækkað á síðustu árum þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda. Alvarlegast væri að ein af orsökum þessara dauðsfalla væri að bílbelti voru ekki notuð og að menn óku oft undir áhrifum áfengis. Stjórnvöld hefðu hrundið af stað upplýsingaherferð sem vonir eru bundnar við. Finnski samgönguráðherrann sagði ástandið í Finnlandi líkjast ástandinu í Svíþjóð hvað varðaði akstur undi áhrifum áfengis. Kom fram á fundinum að nýlega var gerð sú breyting í Danmörku að umferðaröryggismálin voru færð að hluta til frá samgönguráðuneyti til dómsmálaráðuneytis.
i)     Tryggingar í flugi.
Rætt var um ríkisábyrgð á tryggingum í flugi í kjölfar atburðanna í Bandaríkjunum 11. september 2001. Sænski samgönguráðherrann tók þetta mál upp og kvað sænsku ríkisstjórnina vera þeirrar skoðunar að menn yrðu að finna aðrar lausnir en að veita flugfélögum ríkisábyrgð. Málið væri á borði Framkvæmdastjórnarinnar í Brussel. Hinir ráðherrarnir lýstu viðhorfum sínum til þessa máls og lýstu almennt yfir stuðningi við hugmyndir Framkvæmdastjórnarinnar um stofnun tryggingarsjóðs sem ríkin fjármögnuðu en tryggingarfélögin rækju (Eurotime).

Efst á baugi í samgöngumálum Norðurlanda.

    Á ráðherrafundinum og á fundum NET kynnir hvert land það sem efst er á baugi í samgöngumálum hvers lands.
    Í ár voru breytingar á rekstri járnbrautanna, fast vegasamband milli Danmerkur og Þýskalands, afnotagjöld á brúnni yfir Stórabelti, aukning umferðar á brúnni yfir Eyrarsund, fjárfestingaáætlun í samgöngumálum til ársins 2010 og breyting á rekstrarformi Post- Danmark ofarlega á blaði í Danmörku, samgönguáætlun fyrir árin 2004–2015, samkeppni í innanlandsfluginu, almenningssamgöngur, fjárfestingar í vegum og járnbrautum og umferðaröryggismál í Svíþjóð, bættar járnbrautarsamgöngur milli Helsinki og Pétursborgar, bygging hraðbrautar milli Helsinki og Åbo, siglingamál, stafrænt sjónvarp og umferðaröryggismál í Finnlandi, samkeppni á farsímamarkaðinum, breyting á norska póstinum og norsku járnbrautunum í hlutafélög, breyting á norsku flugmálastjórninni í hlutafélag í eigu ríkisins, skipulag norsku Vegagerðarinnar og umferðaröryggismál í Noregi, fjárfestingaáætlun til tíu ára, bygging jarðganga í tengslum við flugvöllinn og samkeppni á póstmarkaðinum í Færeyjum og siglingar, flugsamgöngur og umferðaröryggismál á Álandseyjum.
    Ísland gerði grein fyrir samræmdri samgönguáætlun fyrir árin 2003–2014, flutningi stofnana og verkefna í samgöngumálum út á land, samstarfi við Færeyjar og Grænland á sviði ferðamála, stafrænu sjónvarpi og áherslum á aukið öryggi í flugi og umhverfismálum í samgöngugeiranum.

Störf vinnuhópa.
    Á árinu störfuðu vinnuhópar á vegum NET að eftirtöldum verkefnum:
a)     Umferðaröryggismál á Norðurlöndum. Þetta er eitt af mikilvægustu verkefnunum sem unnið er að á þessum vettvangi. Markmið þessa starfs er að löndin skiptist á upplýsingum um umferðaröryggismál, m.a. til að læra af reynslu hvers annars og til að koma í veg fyrir tvíverknað. Þetta starf er á ábyrgð Norðmanna. Á fundi NET í mars sl. var samþykkt að gera athugun á því hversu margir ækju undir áhrifum fíkniefna á Norðurlöndum. NET samþykkti á fundi sínum í nóvember sl. vinnutilhögun starfshópsins fyrir árið 2003.
b)     Upplýsingatækni í samgöngumálum.
Verkefnið hefur verið unnið á ábyrgð Dana og gerði danski fulltrúinn í NET grein fyrir starfinu. Verkefni vinnuhópsins skiptist í þrennt (1) að setja upp sameiginlegt ferðaskipulagskerfi, (2) að gera úttekt á stöðu einstaklingsins í umhverfi þar sem upplýsingatækni verður nýtt til að auðvelda samgöngur og (3) að setja upp tölvukerfi sem fylgist með flutningi á hættulegum vörum. Á ráðherrafundinum 2001 var verkefnum forgangsraðað þannig að lögð var höfuðáhersla á (2) þ.e. upplýsingatæknina í þágu einstaklingsins. Finnland fór með formennsku í vinnuhópnum frá byrjun ársins.
c)     Sjálfbærar samgöngur á Norðurlöndum. Þetta verkefni er eitt af forgangsverkefnum NET. Starfið er unnið á ábyrgð Svíþjóðar og gerði sænski fulltrúinn í NET grein fyrir því á árinu. Kom m.a. fram að starf þessa vinnuhóps styrkti pólitíska umræðu um þennan málaflokk og væri gott innlegg í umræðuna innan ESB og EES. Á fundi NET í nóvember 2001 var samþykkt að skipa vinnuhóp tímabundið með tveimur fulltrúum frá hverju landi, einn frá samgönguráðuneyti og einn frá umhverfisráðuneyti, til að styrkja samstarfið milli aðila í þessum málaflokki. Svíar greindu frá því að starfshópurinn ynni samkvæmt þeirri verkáætlun sem NET hafði samþykkt.
d)     Samstarfið á Eystrasaltssvæðinu.
Danmörk greindi á fundi NET í mars sl. frá starfi vinnuhópa um þetta samstarf. Meðal annars var unnið eftir tillögu um að skipulagt yrði málþing um hvítbók ESB um samgöngustefnu sambandsins. Af öðrum samstarfsverkefnum má nefna annars vegar samstarf Eystrasaltsríkjanna og Rússlands um umferðaröryggismál og hins vegar samstarf um samgöngurannsóknir.
    Svíþjóð mun taka ákvörðun um það hvort efnt yrði til sérstaks ráðherrafundar ríkjanna á árinu 2003. NET samþykkti á fundinum umrætt vinnufyrirkomulag vegna þessa starfs á árinu 2003.

Samstarfið í framtíðinni – formennskuáætlun Svíþjóðar 2003.
    Það er sameiginlegt álit samgönguráðherra Norðurlanda að áhugi sé fyrir og þörf á því að viðhalda norrænu samstarfi á sviði samgöngu- og umferðarmála. Þetta samstarf getur átt sér stað annað hvort innan vébanda Norrænu ráðherranefndarinnar eða milli einstakra landa.
    Samgöngumál snerta alla þætti þjóðlífsins og ekki óeðlilegt að þau séu vistuð á einum stað þótt þau gangi þvert á verkefni annarra ráðuneyta. Þetta á einkum við um umhverfismál samgöngugeirans, svo og upplýsingatækni í samgöngum.
    Svíþjóð kynnti á fundi NET í nóvember sl. formennskuáætlun sína fyrir árið 2003. Í áætlun Svíþjóðar er lögð áhersla á eftirfarandi málefni, auk þeirra viðfangsefna sem norrænu samgönguráðherrarnir og NET hafa unnið að á undanförnum árum:
     a.      Umferðaröryggismál.
     b.      Umhverfismál samgöngukerfisins.
     c.      Aukið samstarf um Evrópumál í ljósi norðlægrar víddar.
     d.      Skattlagning samgöngukerfisins (afnotagjöld).
     e.      Aukið samstarf við Eystrasaltsríkin.


14. Landbúnaður og skógrækt



    Norrænt samstarf á sviði landbúnaðar á sér langa sögu og byggir samstarfið innan Norrænu ráðherranefndarinnar á þeim hefðum sem skapast hafa og er í stöðugri þróun í samræmi við áherslur á hverjum tíma. Starfið á árinu hefur mótast af þeim breyttu áherslum sem nú eru að koma fram í norrænu samstarfi og skipulagsbreytingum í starfi ráðherranefndarinnar. Á árinu 2001 varð samstaða um myndun nýrrar ráðherranefndar um landbúnað, skógrækt, sjávarútveg og matvæli þannig að ekki er lengur um að ræða sérstaka ráðherranefnd fyrir landbúnað og skógrækt einvörðungu. Með þessari skipulagsbreytingu er stefnt að samþættingu samstarfsins þvert á ráðuneytaflokka enda skipan þessara málefna ólík í löndunum fimm. Þessi breyting hefur ekki áhrif á skipulag og verkefni norrænu embættismannanefndarinnar um landbúnað og skógrækt (NÄJS) og hefur því áfram verið unnið eftir samþykktri starfsáætlun nefndarinnar. Á sameiginlegum fundi NÄJS, NÄF og ÄK-LIVS í Helsinki í október sl. var hins vegar samþykkt að yfirfara verklag og leita leiða til einföldunar og meiri skilvirkni í samstarfi embættismannanefndanna þriggja.
    Í samstarfsáætluninni sem unnið hefur verið eftir á sviði landbúnaðar og samþykkt var árið 2000, er megináhersla lögð á verkefni á eftirfarandi sviðum:
          Sjálfbær landbúnaður og sjálfbær skógrækt.
          Varðveisla erfðaefnis og líffræðilegs fjölbreytileika.
          Öryggi matvæla.
          Byggðaþróun á landsvæðum sem eru sérstaklega háð landbúnaði og skógrækt.
    Í áætluninni er rík áhersla lögð á sjálfbærni allra þátta innan landbúnaðar og skógræktar sem áætlunin tekur til. NÄJS hefur á fundum sínum fjallað um forgangsröðun verkefna innan samstarfsáætlunarinnar.
    Noregur fór með formennsku á árinu og mótuðust áherslur í útfærslu samstarfsáætlunarinnar af þeirri forgangsröðun sem Norðmenn lögðu fram í september 2001. Á sviði landbúnaðar var megináhersla Norðmanna á matvælaöryggi og aukið samstarf Norðurlanda á eftirfarandi sviðum:
          Mótun sameiginlegrar norrænnar stefnu í því skyni að auka áhrif Norðurlanda innan alþjóðastofnana og í alþjóðlegum samningum um viðskipti með matvæli.
          Aukin neytendafræðsla og umræða um matvæli með það fyrir augum að neytendur geti verið virkari í ákvarðanatöku á því sviði.
          Áætlun um rannsóknir á matvælasviðinu sem aukið gætu öryggi matvæla.
          Mat á þeirri áhættu á dreifingu sjúkdóma sem aukinn flutningur matvæla og lifandi dýra milli landa í Evrópu getur skapað.
          Rekjanlegur uppruni matvæla.

    Á fundi hinnar nýju ráðherranefndar á Grænlandi í ágúst sl. samþykkti ráðherranefndin ályktun um matvælaöryggi og aukna neytendafræðslu með það fyrir augum að neytendur geti verið virkari í ákvarðanatöku á því sviði. Fól ráðherranefndin embættismannanefndunum, ÄK-Livs, NÄF og NÄJS að koma á fót samstarfsverkefnum á þessu sviði.

    Þau föstu verkefni sem heyra undir NÄJS eru eftirfarandi:
          Norræni genbankinn fyrir nytjaplöntur (NGB) sem hefur það hlutverk að varðveita og tryggja sjálfbæra nýtingu erfðalinda í nytjajurtum sem upprunnar eru á Norðurlöndum.
          Norræni genbankinn fyrir húsdýr (NGH) sem hefur það hlutverk að vera þekkingarmiðstöð fyrir verndun og sjálfbæra nýtingu erfðalinda í norrænu búfé.
          Norræna samstarfsráðið um landbúnaðarrannsóknir (NKJ).
          Samstarfsnefndin um norrænar skógræktarrannsóknir (SNS).
          Samstarf Norrænu landbúnaðarháskólanna (NOVA).
          Norræna dýralæknasamstarfið (NKVet).
          Samstarfsnefnd um plöntusjúkdóma.
          Samstarfsráð um erfðalindir.
    Á öllum þessum sviðum eru íslenskir vísindamenn virkir þátttakendur.

    Rétt er að geta sérstaklega samstarfs Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna á sviði landbúnaðar og skógræktar.
    Í samræmi við Kaupmannahafnaryfirlýsingu um sjálfbæra þróun dreifbýlis, sem samþykkt var í desember 2000, hefur verið unnið að auknu samstarfi milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna á sviði skógræktar og landbúnaðar, með áherslu á að efla stofnanir og stjórnsýslu á því sviði. Ákveðið var 46 að samvinna á þessum vettvangi næði einnig til sjálfstjórnarsvæðanna, Álandseyja, Færeyja og Grænlands, svo og til Norðvestur-Rússlands, þ.e. héraðanna sem liggja austan landamæra Finnlands og Noregs. Erfiðlega hefur gengið að finna samstarfsaðila í Rússlandi. Sérstök samráðsnefnd (Consultation Committee) vinnur að þróun þessa samstarfs. Nefndin hefur haldið fjóra fundi. Starf nefndarinnar til þessa hefur fyrst og fremst beinst að því að finna þessu samstarfi farveg og er niðurstaðan sú að halda verkefninu sem mest innan verkefnis Norrænu ráðherranefndarinnar um öryggi matvæla í stað þess að dreifa kröftunum of víða. Þegar rætt er um matvælaöryggi (food safety) í þessu sambandi er átt við að matvæli séu örugg/hæf til neyslu en ekki að nægt framboð sé af matvælum eða hollustu þeirra. Ljóst er að staða norrænu landanna og Eystrasaltsríkjanna á þessu sviði er mjög ólík. Þar til fyrir 10–15 árum voru Eystrasaltsríkin hluti af Sovétríkjunum og lifðu og störfuðu undir því skipulagi sem þar ríkti. Mikið verk er því að þróa löggjöf landanna þannig að unnt sé að takast á við þær breytingar sem gera þarf. Hlutverk norrænu landanna í samstarfinu verður því væntanlega fyrst og fremst í því fólgið að miðla reynslu og þekkingu og veita aðstoð við þjálfun og fræðslu á þessum sviðum. Þrýstingurinn á Eystrasaltsríkin að koma þessum málum í viðunandi horf er hins vegar mikill því frá og með árinu 2004 verða þau hluti af ESB, að vísu með nokkurra ára aðlögun. Eðlilegt virðist að setja verkefninu það markmið að Eystrasaltsríkin nái hliðstæðri stöðu og Norðurlönd í þessu efni. Á fundi samráðsnefndarinnar í október sl. var samþykkt að mæla með því að samstarfið á matvælasviðinu næði einnig til fiskjar. Lögð var áhersla á að það ætti við fisk sem matvæli en ekki fiskveiðistjórnun eða annað sem snerti fiskveiðar. Stefnt er að fundi norrænna og baltneskra ráðherra í október 2003 í Eistlandi. Gert er ráð fyrir að á þeim fundi verði teknar ákvarðanir um framtíð þessa samstarfs.


15. Sjávarútvegsmál



    Á árlegum ráðherrafundi norrænu sjávarútvegs-, landbúnaðar- og matvælageirannna sem haldinn var í Ilulissat á Grænlandi seint í ágúst sl., samþykktu ráðherrarnir svokallaða Grænlandsyfirlýsingu um öryggi matvæla. Þar er lögð áhersla á að Norðurlönd yrðu áfram í fremstu röð við að tryggja öryggi matvæla. Því markmiði skal náð með því að norrænu löndin beiti sér á alþjóðavettvangi og með því að auka enn áhrif neytenda á matvælasviðinu. Hvað varðar hið fyrrnefnda voru ráðherrarnir sammála um að efla norrænt samstarf á sem flestum sviðum er varða matvælaöryggi og undirbyggja þannig öfluga norræna þátttöku á alþjóðavettvangi eftir því sem við verður komið. Áhrif neytenda á að auka meðal annars með aukinni upplýsingagjöf og efldum skoðanaskiptum og samskiptum milli stjórnvalda, framleiðenda og neytenda.
    Auk þessarar yfirlýsingar var samþykkt á Grænlandi yfirlýsing um sjálfbæra nýtingu auðlinda og líffræðilegan fjölbreytileika, en ráðherrarnir höfðu rætt meðal annars hverjir hefðu ákvörðunarvald hvað varðar auðlindir hafsins og hverjir hefðu þar áhrif. Í yfirlýsingunni kemur meðal annars fram að öflugir fiskstofnar séu forsenda sjálfbærrar nýtingar og lögð er áhersla á að vísindaleg ráðgjöf um veiðar sé það besta sem menn hafi til að byggja ákvarðanir á en jafnframt sé þörf á að bæta hana. Á ráðherrafundinum var einnig samþykkt að búa til framkvæmdaáætlun um að draga úr notkun plágueyða (pesticider). Ákveðin markmið hvað þetta varðar og hvernig þeim skuli náð verða lögð fyrir næsta ráðherrafund til samþykktar. Nánar mun vikið að starfinu varðandi sjálfbæra þróun hér ögn aftar.
    Önnur mál er varða sjávarútveg sérstaklega sem rædd voru í Ilulissat má nefna að matvælaráðherra Svía ræddi um nauðsyn þess að efna til nánara samstarfs um mælingar á díoxíni í fiski og Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra gerði grein fyrir nauðsyn norræns samstarfs innan CITES (Convention on International Trade in Endangered Species of Wild Fauna and Flora). Í Ilulissat voru einnig teknar ákvarðanir um vistvænan landbúnað, um skógrækt og um genaauðlindir svo nokkuð sé nefnt. Fulltrúi Noregs gerði grein fyrir því á embættismannafundi að matvælaeftirlit í Noregi sem skipst hefur í tvennt – fyrir landbúnaðarafurðir annars vegar og fyrir sjávarafurðir hins vegar – yrði sameinað undir eina stofnun í Ósló frá janúar 2004 að telja. Flyst sjávarafurðaeftirlitið frá norsku fiskistofunnni í Bergen þangað. Hægt er að kynna sér nánar niðurstöður fundarins í Ilulissat á vefsíðu norræna samstarfsins, (www.norden.org/fisk/sk/ministermoede02.asp?lang=2).
    Á árinu var unnið áfram að framkvæmd norrænnar áætlunar um sjálfbæra þróun en sérstök nefnd (BU-gruppen) hafði þetta verkefni með höndum. Um mitt ár kom út áfangaskýrsla um framkvæmd áætlunarinnar. Samkvæmt skýrslunni er framkvæmdin komin vel á veg bæði í einstökum ríkjum og í starfsemi á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Verkefnum hefur verið hrint í framkvæmd innan allra þátta þess markmiðs sem sett var. Nefndin kynnti líka fyrstu drög að vísum (indikatorer) sem ætlaðir eru til að gefa vísbendingar um árangur við framkvæmd áætlunarinnar. Norræna áætlunin er fyrsta svæðisbundna áætlunin um sjálfbæra þróun og hefur sem slík vakið nokkra athygli. Hún var kynnt á leiðtogafundinum um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg og þótti sú kynning takast vel. Nefnd sú sem starfað hefur að verkefninu síðustu árin mun ljúka starfi sínu með ráðstefnu í janúar 2003 og ný starfsnefnd mun þar taka við og halda verkefninu áfram (Arbetsgruppen för hållbar utveckling).
    Þrír fundir voru haldnir í embættismannanefnd sjávarútvegssamstarfsins (NÄF) á árinu, sá fyrsti var haldinn í apríl sl. í Ósló, sá næsti í Ilulissat þar sem lokahönd var lögð á undirbúning ráðherrafundarins þar og loks var haldinn fundur í lok október sl. í tengslum við afmælisþing Norðurlandaráðs í Helsinki. Þar lögðu Svíar fram formennskuáætlun sína fyrir næsta ár (www.norden.org/session2002/dokument/sk/integrationnorden.pdf). Einnig var haldinn sameiginlegur fundur embættismannanefndanna um sjávarútvegs-, landbúnaðar- og matvælamál (NÄF, NÄJS og ÄK-Livs). Þá var á árinu starfað í nokkrum minni hópum innan sjávarútvegssamstarfsins, meðal annars var skoðað hvar verkefni sköruðust og hvernig einfalda mætti samstarf landbúnaðar-, matvæla- og sjávarútvegssviðanna og starfslýsing vísindanefndarinnar endurskoðuð.
    Norrænt fjárframlag til sjávarútvegssamstarfsins voru rétt rúmar 7 millj. d.kr. á árinu. Ein milljón danskra króna fór til verkefna sem unnin eru með umhverfisgeiranum (MiFi) en eins og áður fór stærstur hluti fjárins eða á sjöttu milljón danskra króna til rannsóknaverkefna og til að halda fundi eða ráðstefnur um tiltekin mál (t.d. brottkast). Vísindanefnd samstarfsins leggur línur um úthlutun þess. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu vísindasamstarfsins (www.norden.org/fisk/sk/naf.asp?lang=2).
    Á næsta ári hafa ráðherranefndirnar þrjár sem standa að samstarfinu um matvælamál 36 millj. d.kr. til ráðstöfunar, þar af koma 7,3 millj. d.kr. í hlut sjávarútvegshlutans. Þegar ákveðið var að slá ráðherrafundum þessara fagsviða saman var sérstaklega tekið fram að samstarfið og fjárframlög til þess ættu að öðru leyti að vera aðgreind áfram. Meginástæður voru þær að vægi fagsviðanna þriggja er mjög mismunandi milli vesturs og austurs á Norðurlöndum og full ástæða þótti til að ýta áfram undir öflugt samstarf innan hvers fagsviðs fyrir sig.
    Gildi norræna sjávarútvegssamstarfsins felst í því að fólk kynnist og getur því talað saman og borið saman bækur sínar þegar á reynir. Mikilvægi þess felst einnig í að þar starfa saman stærstu útflutningsríki sjávarafurða til ESB og áhrifamikil ríki innan sambandsins, t.d. á sviði matvælaöryggis. Fiskveiðiráðgjafi Norrænu ráðherranefndarinnar sér um daglegan rekstur verkefna, samræmingu og undirbúning funda og á stóran þátt í því hvernig til tekst.


16. Norrænn vinnumarkaður og vinnuvernd



    Samstarfið á vinnumálasviðinu byggir aðallega á samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði atvinnumála (MR-A).
    Fjögur meginmarkmið ráðherranefndarinnar fram að árslokum 2004 eru:
          Full atvinna – jafnvægi framboðs og eftirspurnar á vinnuafli.
          Góða vinnan – öryggi á vinnustað og á vinnumarkaði.
          Afnám landamærahindrana á Norðurlöndum – þróun norræns samstarfs.
          Efling norræna velferðarþjóðfélagsins, Evrópusamstarfsins og samstarfs við grannsvæði Norðurlanda.

    Eftirfarandi fagnefndir hafa með höndum stjórnun einstakra málaflokka: Vinnumarkaðsnefnd, atvinnulífs- og vinnuréttarnefnd (NAU), nefnd um málefni innflytjenda, vinnuumhverfisnefnd og vinnuumhverfisrannsóknanefnd.
    Auk þess starfar á vegum embættisnefndarinnar tengiliðahópur sem aðstoðar skrifstofu ráðherranefndarinnar við lausn á ópólitískum stjórnunarverkefnum, norrænn upplýsingahópur (NIAL) sem miðlar upplýsingum um norræn vinnumál og samráðshópur um vinnumarkaðsþjónustu sem starfar undir vinnumarkaðsnefndinni.
    Vinnumarkaðs- og vinnuumhverfissviðið fjármagnar Norræna stofnun fyrir framhaldsmenntun innan vinnuumhverfissviðs (NIVA) sem undirbýr og heldur námskeið og námstefnur.
    Einnig er Nordjobb-áætlunin styrkt með árlegum framlögum.
    Á árinu varð breyting á starfi nefnda á vegum embættismannanefndarinnar á sviði atvinnumála (ÄK-A), en samstarfshópur um vinnumarkaðsþjónustu var lagður niður og ákveðið var að sameina hann vinnumarkaðsnefndinni.
    Nýr stýrihópur um vinnumiðlun á Norðurlöndum verður settur á laggirnar frá árinu 2003. Verkefni hópsins verður m.a. að kanna vinnuaflsþörf á Norðurlöndum og koma með tillögur að stefnu sem getur aukið hreyfanleika vinnuafls.

Vinnumarkaðssamstarf:

Vinnumarkaðsnefndin.

    Vinnumarkaðsnefndin er vettvangur fyrir umræðu um atvinnumál, vinnumarkaðsmál og vinnumarkaðsrannsóknir í norrænu samstarfi. Nefndin fékk nýtt umboð sem tekur gildi á árinu 2003. Meðal breytinga á starfssviði eru vinnumarkaðsaðgerðir að því er varðar vinnumiðlun og atvinnuleysistryggingar, rannsóknir sem geta aukið möguleika á fullri atvinnu og aukið framboð vinnuafls í framtíðinni og þróa á þann hátt tengsl hópa sem eiga erfitt með að fóta sig á vinnumarkaðnum í því skyni að draga úr vandkvæðum á minnkandi framboði vinnuafls auk þess að styðja við uppbyggingu á norrænu vinnumiðlunarneti á tímabilinu 2003–2004.
    Verkefni undir heitinu „Nýtt norrænt skipulag“, þar sem fjallað er m.a. um velferðarþáttinn, hófst á árinu með stofnun vinnuhóps um aðlögun innflytjenda að norrænum samfélögum. Meðal verkefna hópsins er að greina aðlögun innflytjenda á norrænum vinnumarkaði með samanburði milli landanna, aðstoða við öflun upplýsinga og leggja mat á gerð skýrslunnar sem er í höndum verkefnastjóra.
    Nefndin styrkti ýmis verkefni á árinu m.a. útgáfu og vinnslu skýrslna um efni tengd vinnumarkaðsmálum og rannsóknum. Í samræmi við samstarfsáætlunina fyrir 2001–2004 hefur nefndin lagt áherslu á framboð vinnuafls á Norðurlöndum og í því sambandi athugað eftirfarandi:
    Virkni eldra fólks á vinnumarkaði, samspil menntastefnu og vinnumarkaðsstefnu í hagkerfinu, stækkun ESB til austurs og áhrif á norrænan vinnumarkað og skipulag virkrar vinnumarkaðsstefnu.

Samstarfshópur um vinnumarkaðsþjónustu.
    Samstarfshópurinn, sem nú hefur verið lagður niður, annaðist m.a. vinnumiðlun, starfsmenntun í atvinnulífinu og veitti faglega ráðgjöf á vinnumálasviðinu gagnvart vinnumarkaðsnefndinni.
    Meðal verkefna sem unnið var að á árinu voru:
          Skýrsla byggð á samanburðarrannsókn um norræna vinnumiðlun.
          Miðlun á hagnýtri reynslu til einstakra stofnana sem bera ábyrgð á stýringu og þróun vinnumiðlunar á Norðurlöndum.
          Skýrsla um kortlagningu á þjónustu vinnumiðlana einstakra landa gagnvart innflytjendum á Norðurlöndum í þeim tilgangi að koma til móts við þarfir innflytjenda.
          Nýr stýrihópur um vinnumiðlun á Norðurlöndum, sem verður settur á laggirnar frá árinu 2003. Verkefni hópsins verður m.a. að kanna vinnuaflsþörf á Norðurlöndum og koma með tillögur að stefnu sem geta aukið hreyfanleika vinnuafls.

Atvinnuskipti ungs fólks.

    Eitt helsta norræna samstarfsverkefnið á sviði vinnumarkaðar er NORD-JOBB, sem byggir á atvinnuskiptum ungs fólks milli norrænu landanna, en Norrænu félögin annast nú þessi samskipti á Norðurlöndum. Á árinu fóru 196 ungmenni héðan í vinnu á Norðurlöndum á vegum NORDJOBB og 102 norræn ungmenni komu hingað til lands til vinnu.
    Á vegum NORDPRAKTIK-verkefnisins komu 19 frá Eystrasaltsríkjunum á árinu.

NIAL – Nordisk informationsgruppe om arbejdslivsspörsmål.

    Nefndin starfar sem eins konar ritstjórn Arbejdsliv i Norden sem kom út þrisvar á árinu og Nordic Labor Journal kom út einu sinni.
    Nefndin hefur einnig haft með höndum skipulagningu á þátttöku í Employment Week i Brussel.
    Enn fremur hefur verið unnið að endurbótum á svæði NIAL á vefnum www.norden.org

Atvinnuleysistryggingar.
    Norrænt samstarf vegna atvinnuleysistrygginga hefur farið fram í tveim nefndum á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, þ.e. í norrænum samstarfshópi um atvinnuleysistryggingar og fastanefndinni vegna norræns atvinnuleysistryggingamóts sem haldið er reglulega á tveggja ára fresti í einhverju norrænu ríkjanna. Næsta mót verður í Danmörku árið 2003.
    Samstarfsnefndin fjallar um samskipti norrænu ríkjanna á sviði atvinnuleysistrygginga og samræmingu á reglum, sérstaklega svonefndra E-vottorða.

Atvinnulíf og vinnuréttur (NAU).

    Norrænu samstarfsnefndinni um vinnurétt og atvinnulíf er ætlað að vera vettvangur fyrir kynningu, umræður og samræmingu norrænna sjónarmiða í málefnum á sviði vinnuréttar og atvinnulífs bæði innan og utan Norðurlanda.
    Nefndin hefur lagt megináherslu á að fjalla um áhrif nýrra tillagna á sviði vinnuréttar sem hafa verið til umfjöllunar hjá ESB og framkvæmd annarra sem þegar hafa verið samþykktar af sambandinu og fyrirhugað er að nái til evrópska efnahagssvæðisins. Þá hefur umfjöllun innan nefndarinnar einnig náð til annarra þátta í alþjóðlegu vinnumálasamstarfi, svo sem á vettvangi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Nefndin hélt tvo fundi á árinu þar af annan í Reykjavík.

Innflytjendamál.

    Hlutverk norrænu samstarfsnefndarinnar um innflytjendamál (migrasjonutvalget) er að vera vettvangur norrænna embættismanna fyrir umræðu um málefni innflytjenda á vinnumarkaðnum og skiptast á upplýsingum um málefni er varða innflytjendur og flóttafólk, svo sem um löggjöf, tölfræði, skýrslur um rannsóknir o.fl.

Norrænt samstarf á sviði vinnuverndar:
    Norræna samstarfsnefndin um vinnuvernd hefur það meginhlutverk að vinna að samstarfi stjórnvalda á Norðurlöndum á sviði vinnuverndarmála. Meðal verkefna á árinu má nefna:
          samstarf um þátttöku í starfi evrópsku staðlastofnunarinnar CEN til þess að auka þar áhrif Norðurlanda,
          verkefni um eftirlit með hættulegum vélum á markaði og þátttöku í Evrópusamstarfi á því sviði,
          samstarfsverkefni um markaðseftirlit með persónuhlífum og öryggisbúnaði ýmiss konar,
          samstarfsverkefni um efnahagsleg áhrif vinnuverndar,
          ráðstefnu um eftirlitsmálefni,
          undirbúning ráðstefnu um sjálfbæra þróun og vinnuvernd,
          þátttöku í ráðstefnu í Tallinn um markaðseftirlit með vélum og tækjum og í Ríga um framkvæmd eftirlits á vinnustöðum,
          umræðu um skipulag samstarfsins og hugsanlega sameiningu nefnda á vinnuverndarsviðinu.

Norræna samráðsnefndin um ESB málefni.

    Nefndin hefur það hlutverk að skiptast á sjónarmiðum varðandi þau mál sem til umfjöllunar eru á vettvangi ráðherraráðs ESB og samræma sjónarmið norrænu landanna. Starfssviðið nær bæði til vinnuverndar- og vinnumarkaðsmála.
    Ýmis mál komu til umfjöllunar nefndarinnar á árinu sem vörðuðu vinnumarkað, jafnrétti og vinnuvernd.

Norræna rannsóknanefndin á vinnuverndarsviði og stjórn NIVA.
    
Stjórn NIVA og norræna nefndin um rannsóknir á vinnuverndarsviði, sem starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, halda fundi tvisvar á ári. Var efnt til stuttrar ráðstefnu í tengslum við vorfundina. Þar voru flutt tvö erindi sem voru vel sótt, annars vegar um áhættumat – siðferðilegt álitamál og hins vegar um öryggisstjórnun.
    Á fundi stjórnar NIVA í apríl var greint frá stefnu ráðherranefndarinnar undir forystu Norðmanna og ársskýrsla og rekstraráætlun NIVA voru samþykktar. Tólf námskeið eru áætluð á árinu 2003 (sjá heimasíðu NIVA www.niva.org) og hafinn var undirbúningur að námskeiðum á árinu 2004. Rætt var um fyrirhugað mat á starfsemi NIVA sem gera skal þriðja hvert ár.
    Nefndin um rannsóknir á vinnuverndarsviði úthlutar styrkjum til rannsókna á vinnuverndarsviði og til ýmissa verkefna, en þess er jafnan krafist að a.m.k. þrjú norræn lönd starfi saman að verkefnunum. Íslendingar tóku þátt í gerð norræns spurningalista um vinnutengda húðsjúkdóma sem kynntur var á vorfundinum. Rætt var um stöðu verkefna sem notið hafa styrkja og þá sérstaklega starf sérfræðinefndarinnar um mengunarmörk efna.
    Á ágústfundi stjórnar NIVA var fjallað um mat á starfssemi NIVA 1999–2002 en kynnt var uppkast að skýrslu um það efni. Í heild var niðurstaðan jákvæð, þ.e. NIVA býður upp á gott fræðsluefni sem samrýnist markmiðum stofnunarinnar. Gengið var frá drögum að samningi um starfsemi NIVA við Norrænu ráðherranefndina fyrir tímabilið 2003–2005. NIVA hefur þegar gengið frá tillögum að ellefu námskeiðum fyrir árið 2004.
    Á ágústfundi nefndarinnar um rannsóknir á vinnuverndarsviði var lögð fyrir vinnuáætlun ársins 2003. Gengið var frá umsóknum um verkefni fyrir árið 2003. Á grundvelli matsskýrslu utanaðkomandi sérfræðinga um störf hópsins og gagnsemi starfseminnar fór fram umræða um hvernig ætti að standa að áframhaldandi fjármögnun sérfræðinefndarinnar um mengunarmörk efna.


17. Heilbrigðis- og félagsmál



Ráðherrafundur.

    Í júní sl. var árlegur fundur heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Norðurlanda haldinn í Svolvær í Lofoten í Noregi. Ráðherrarnir skrifuðu undir samning um viðbúnað á heilbrigðissviði en sá samningur nær til samvinnu milli heilbrigðisyfirvalda landanna um að efla sameiginlega getu þeirra til að bregðast við hættuástandi og hamförum, að meðtöldum náttúruhamförum og atvikum (slysum og hryðjuverkaárásum), þar sem m.a. geislavirk efni og sýkla- og efnavopn koma við sögu. Ráðherrafundurinn fjallaði einnig um fjármögnun Norræna heilbrigðisfræðaháskólans (NHV) í Gautaborg, formennskuáætlun Norðmanna, Norrback-skýrsluna um norræna samvinnu, málefni sem tengjast ESB og alþjóðlegri samvinnu, og vottorð fyrir þá sjúklinga sem ferðast á Schengen-svæðinu og þurfa að hafa með sér lyf sín sem innihalda örvandi efni.
    Meginþema fundarins var hins vegar fátækt á Norðurlöndum og gerðu ráðherrarnir grein fyrir stöðu mála í hverju landi fyrir sig. Jafnframt var skýrt frá því helsta sem fram kom á norrænni ráðstefnu um fátækt og félagslega einangrun sem haldin var í Ósló í júní sl. Ráðherrarnir töldu brýnt að skiptast reglulega á upplýsingum um rannsóknir á fátækt og efla samstarf sérfræðinga í löndunum, auk þess sem var lögð áhersla á mikilvægi þess að ríkin tækju virkan þátt í alþjóðlegum rannsóknum á sviði velferðarmála.

Embættismannanefndin.
    Norræna embættismannanefndin á sviði heilbrigðis- og félagsmála (ÄK-S) hélt þrjá fundi á árinu. Á fundi nefndarinnar í apríl sl. í Gautaborg var m.a. fjallað um formennskuáætlun Norðmanna, málefni ESB/ESS, önnur alþjóðleg mál, fjármögnun NHV, nýja stofnskrá fyrir NIOM, nýjan samning við NOPUS, sjálfbæra þróun, norrænt samstarf á sviði lyfjamála og fjárhagsáætlun fyrir árið 2003. Á fundi embættismannanefndarinnar í tengslum við ráðherrafundinn í júní var, auk undirbúnings fundar ráðherranna, sérstaklega fjallað um lyfjavottorð, fjármögnun NHV, samning við NOPUS, norrænt ár fatlaðra og málefni NIOM. Á dagskrá haustfundar, sem haldinn var í desember sl. í Brussel voru evrópsk málefni aðalefni fundarins. Danir gerðu þar grein fyrir formennsku sinni í ESB á síðari hluta ársins og því sem efst er á baugi hjá ESB á næstu misserum.

Norræni heilbrigðisfræðaháskólinn (NHV).
    Norræni heilbrigðisfræðaháskólinn í Gautaborg, Svíþjóð, er samnorræn menntastofnun fyrir æðri menntun og rannsóknir innan heilbrigðisfræði.
    Sautján Íslendingar stunduðu nám við skólann á árinu og tóku þeir samtals 44 námskeið. Mikið var unnið að því að efla tengsl við aðra háskóla sem kenna heilbrigðisfræði á Norðurlöndum og gera samkomulag um að námskeið sem tekin eru við skólann geti nýst sem námseiningar í öðrum háskólum. Eins og nokkur undanfarin ár átti skólinn samstarf við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands um kennslu í rekstri og stjórnun í heilbrigðisþjónustu. Var eitt slíkt námskeið haldið hér á landi á árinu.
    Mikil vinna var lögð í að reyna að breyta fyrirkomulagi á skiptingu kostnaðar milli norrænu landanna og greiðslufyrirkomulagi landanna sem hefur þótt óhentugt þar sem greiðslur hafa verið innheimtar allt að tveimur árum eftir að til útgjalda hefur komið. Samkomulag um breytingar náðist ekki milli landanna.

Norræna tannlækningastofnunin (NIOM).
    Verkefnum NIOM á sviði tannlækninga er skipt í fjóra meginþætti: (1) stöðlun („standariseringu“), (2) prófun efna, (3) rannsóknir og (4) fræðslu. Á alþjóðlegum vettvangi tekur NIOM þátt í mótun staðla varðandi gæði og öryggi í tannlækningum með þátttöku í ISO (International Organization for Standardization), CEN (Comité Européen de Normalisation) og FDI (Federation Dentaiere Internationale).
    Starfsemin við NIOM gekk vel á árinu og nýlega var ráðinn starfsmaður með sérmenntun í efnafræði plastefna (polymerkjemi).

Norræna lyfjanefndin (NLN).

    Norræna lyfjanefndin var samstarfsvettvangur Norðurlanda í lyfjamálum í nærri þrjá áratugi en starfsemi hennar var lögð niður í lok mars sl. Í framtíðinni munu forsvarsmenn lyfjamála á Norðurlöndum þinga árlega um sín mál.

Norræna rannsóknarnefndin á sviði vímuefna (NAD).
    
NAD (Nordiska nämnden för alkohol- och drogforskning) hefur það markmið að efla og þróa þverfaglega samvinnu á sviði áfengis- og vímuefnarannsókna. Starfsemin miðast að verulegu leyti við samfélagslegar rannsóknir, samfélagslækningar og samfélagsgeðlækningar. NAD er ætlað að auka þekkingu manna á neyslu vímuefna, forvörnum, stefnumótun og meðferð á fíklum. Helsta verkefni NAD er að stuðla að öflugum sameiginlegum rannsóknum á þessu sviði og miðla upplýsingum. NAD á að vera vettvangur skoðanaskipta og upplýsinga fyrir norræna þegna sem hafa áhuga á áfengis- og vímuefnamálum. NAD gefur út eigið blað (NAT) og rekur skrifstofu í Helsinki.
    NAD hélt tvo reglulega stjórnarfundi á árinu; annan í Ósló og hinn í Kaupmannahöfn. Á þessum fundum var rekstur NAD ræddur, ákvarðanir teknar um styrkveitingar og þau verkefni sem fyrir hendi eru.

Norræna samstarfsmiðstöðin um málefni fatlaðra (NSH).
    Helstu verkefni NSH eru að stuðla að því að markmið hinna einstöku norrænu landa um jafnrétti og fulla þátttöku fatlaðra verði að veruleika. NSH styrkir fjölda verkefna sem hafa það að markmiði að auka og bæta þjónustu við fatlaða á Norðurlöndum og auðvelda þeim aðgang að upplýsingasamfélaginu. NSH hefur það einnig á stefnuskrá sinni að styrkja stöðu fatlaðra gagnvart stefnumótun velferðarsamfélagsins. NSH hélt þrjá fundi á árinu.
    Á fundi miðstöðvarinnar í febrúar sl. í Stokkhólmi var m.a. fjallað um skýrslu miðstöðvarinnar um hindranir sem fatlaðir verða fyrir þegar þeir ferðast á milli norrænu landanna. Stjórn stöðvarinnar lýsti sig sammála efnisatriðum skýrslunnar og mun hún vera gefin út á vegum NSH. Einnig var fjallað um skýrslu um tæknilausnir fyrir fatlaða á grannsvæðum Norðurlanda.
    Á fundi í maí í Ósló var fjallað um ársskýrslu miðstöðvarinnar fyrir árið 2001, skýrslu NFTH (Norræna samstarfsráðið um tjáskiptatækni og fötlun), nýja útgáfu NSH á „Frelsi fyrir alla – hindranir í lífi fatlaðra á Norðurlöndum“, auk fundar félags- og heilbrigðisráðherra í júní sl.
    Í Stokkhólmi í lok október sl. var fjallað um skýrslu um vinnuumhverfi á NSH. Einnig var fjallað um það sem væri á döfinni hjá norræna ráðinu um málefni fatlaðra (NHR), auk atburða á vettvangi NSH svo sem útgáfustarfsemi um skipulagsmál o.fl. Loks var fjallað um faglega og fjárhagslega áætlanagerð fyrir árið 2003.

Norræna menntamiðstöðin á sviði daufblindu (NUD).
    Meginmarkmið með starfsemi NUD er að vinna að framgangi og þróun norrænnar samvinnu á sviði daufblindu. NUD á að stuðla að því að styrkja faglega þróun starfsfólks og þeirra stofnana eða samtaka sem starfsfólkið tengist. Norræna samvinnan á að auka gæðin á tilboðum til daufblindra og skapa sameiginlega norræna sjálfsmynd meðal starfsfólks á þessu sviði.
    Verkefni NUD eru að:
          sjá starfsfólki, sem vinnur með daufblindum, fyrir norrænni menntun sem styður og bætir upp menntun í hverju landi,
          þjóna sem þekkingarmiðstöð á sviði daufblindu,
          vinna að söfnun og þróun þekkingar, viðhalda tengslaneti og sinna alþjóðlegu samstarfi á sviði daufblindu,
          koma á og stýra starfi við þróun og skráningu grunnþekkingar á þessu sviði.
    Haldin voru þrjú grunnnámskeið, þrjú þemanámskeið, tvær ráðstefnur og tvö ráðgjafanámskeið. Samtals voru 236 þátttakendur á þessum námskeiðum, þar af 8 íslenskir. Auk fyrrgreindrar starfsemi voru haldin á NUD tvö seminör og eitt alþjóðlegt námskeið. Sex fyrirlestrar voru fluttir frá NUD í fjarkennslu (videokonferencer) til samstarfslandanna.

Norræna hagskýrslunefndin á sviði félagsmála (NOSOSKO).

    Meginverkefni NOSOSKO er að vinna að samanburðarhæfri skýrslugerð um velferðarmál á Norðurlöndum og gefa árlega út skýrslu um það efni. Af öðrum verkefnum má nefna að nefndinni ber að fylgjast með alþjóðlegu samstarfi í hagskýrslugerð og vinna að samræmingu upplýsinga sem frá þátttökulöndunum koma. Allar Norðurlandaþjóðirnar fimm eru aðilar að samvinnu Evrópulanda á sviði hagskýrslugerðar, Eurostat, ýmist vegna aðildar sinnar að ESB eða EES. Eurostat vinnur að bættri hagskýrslugerð á sviði heilbrigðis- og félagsmála og sundurliðun útgjalda eftir svonefndri ESSPROS-flokkun.
    Á árinu var m.a. á vegum NOSOSKO unnið að viðamiklu riti um sjálfbæra þróun, þ.e. hvernig væri hægt mæla og veita tölulegar upplýsingar um hana á sviði heilbrigðis- og félagsmála.

Norræna heilbrigðistölfræðinefndin (NOMESKO)
    Meginmarkmið NOMESKO er að vinna að samræmingu og söfnun tölfræðilegra upplýsinga um ýmsa þætti heilbrigðisþjónustunnar, sjúkdóma, dánarorsakir ásamt tengdum þáttum.
    Starf þetta fer að töluverðu leyti fram með samræmingu skilgreininga, skráninga og afmörkunar innan einstakra þátta til þess að tryggja að um sé að ræða sem líkastar upplýsingar og til þess að þær verði sem best sambærilegar.
    NOMESKO kemur niðurstöðum sínum á framfæri aðallega í gegnum meginútgáfu sína, „Health Statistics in the Nordic Countries“ en einnig í sérútgáfum og öðrum upplýsingum sem eru birtar á heimasíðu nefndarinnar.
    Samræming flokkunarkerfa hefur í auknum mæli verið unnin af Norrænu skrifstofunni fyrir flokkun á sjúkdómum í Uppsölum, en mjög náið samstarf er milli þessara stofnanna.
    Helstu verkefni sem unnið hefur verið að á árinu hafa verið athugun á mannafla og fjármagni innan heilbrigðisþjónustunnar, staðtölur fyrir sjúklinga sem ekki eru lagðir inn, dánarorsakaflokkun, lyfjanotkunarupplýsingar, gæðamat á flokkun aðgerða og fleira.
    Undanfarin ár hefur NOMESKO unnið í miklu samstarfi við Eystrasaltsríkin og hefur m.a. unnið að bæði útgáfumálum og námskeiðshaldi fyrir þau lönd. Áfram er unnið á því sviði.
    Norræna stofnunin um sjúkdómaflokkanir (Nordiskt Center för klassifikation av sjukdomar) í Uppsölum starfar í nánu samstarfi við NOMESKO og eru fundir stjórna oft haldnir sameiginlega.

Norræna menntamiðstöðin fyrir þróun félagsþjónustu (NOPUS).

    Í byrjun árs var gengið frá samningi milli Norrænu ráðherranefndarinnar og NOPUS um framtíðarstarfsemi NOPUS og skiptingu kostnaðar á milli landanna. Í samningnum er kveðið á um aukna starfsemi NOPUS allt til loka árs 2004 en meginmarkmið starfseminnar er að bjóða upp á menntun/fræðslu fyrir fólk er starfar að félagsþjónustu. Markmiðið er að auka þátt og samstarf allra stofnanna eða skóla er gætu haft (og hafa nú þegar) upp á slíka fræðslu að bjóða.
    Fyrir árið 2002 var sett það markmið að ráðnir skyldu þrír starfsmenn NOPUS, tvo til að halda utan um menntanetið (samstarf milli háskóla landanna) og einn er starfaði að markaðssetningu NOPUS. Í desember var hins vegar ákveðið að ráða ekki nema einn starfsmann vegna menntanetsins en ráðgert er að þeir verði tveir í framtíðinni. Jafnframt kveður samningurinn á um að sérstakir „tengslafulltrúar“ verði í Finnlandi og á Íslandi til að aðstoða starfsmenn NOPUS við að koma á slíku samstarfi milli landanna. Einnig var sett það markmið fyrir árið að ákveða hvar starfsemi NOPUS yrði staðsett og nú í lok árs lítur út fyrir að Malmö verði fyrir valinu.

Norðurlandasamningur um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir og dýralækna.

    Samningurinn fjallar um gagnkvæmar viðurkenningar prófskírteina ákveðinna starfsstétta innan heilbrigðis- og dýralæknaþjónustunnar og á að tryggja aðgang norrænna ríkisborgara að norrænum vinnumarkaði á þessum sviðum. Samningurinn nær nú í heild til 22 faghópa en Ísland er einungis aðili varðandi 19 hópa. Eftirlitsnefnd samningsins hefur ekki aðeins eftirlit með framkvæmd samningsins heldur tekur einnig saman upplýsingar um flutning heilbrigðisstarfsmanna milli norrænu landanna, svo og um fjölda innritaðra og útskrifaðra nemenda á þeim sviðum er undir samninginn heyra. Nefndin fylgist auk þess með framkvæmd á tilkynningarskyldu vegna sviptingar eða takmarkana starfsleyfa á Norðurlöndum. Haldnir voru tveir fundir á árinu, í maí og nóvember.

18. Jafnréttismál



    Ísland tekur virkan þátt í fjölda norrænna nefnda og verkefna á sviði jafnréttismála. Hér verður gerð grein fyrir því starfi sem tengist Norrænu ráðherranefndinni sérstaklega, auk samstarfs á vestnorrænum og Norðurskautsvettvangi.

Ráðherranefnd jafnréttismála (MR-JÄM).

    Ráðherranefndin hélt einn fund á árinu, í Ósló í október, sem skrifstofustjóri jafnréttisskrifstofu félagsmálaráðuneytis sótti fyrir hönd Íslands. Meðal þess sem samþykkt var þar, var að athuga möguleika á að hrinda í framkvæmd tillögu karlanefndar Norrænu ráðherranefndarinnar, um þriggja ára rannsóknaáætlun um hinn norræna karl. Meginrannsóknarefni yrðu: karlar og karlmennska í fjölskyldunni; atvinnulíf og efnahagur; föðurhlutverkið og náin tengsl; uppeldi og kynjamótun; og síðast en ekki síst andstaða karla við jafnrétti kynjanna. Gert er ráð fyrir að halda undirbúningsráðstefnu 2003, en hrinda áætluninni af stað í formennskutíð Íslands 2004.
    Í tengslum við ráðherrafundinn stóð norski jafnréttisráðherrann fyrir norrænum fundi um jafnrétti í fjölmenningu Norðurlanda og stöðu erlendra kvenna á Norðurlöndum. Þann fund sóttu f.h. Íslands tvær erlendar konur sem búsettar hafa verið hérlendis um nokkra hríð. Sænski ráðherrann ákvað að fylgja því máli eftir með ráðstefnu vorið 2003 í Svíþjóð.
    Fyrir fundinum lá tillaga frá norska ráðinu, „Ledelse, likestilling og mangfold“, um samstarfsverkefni sem legði áherslu á aukinn fjölda og áhrif kvenna í atvinnulífinu. Tillagan var samþykkt og verkefnið hefst 2003.
    Þá var samþykkt tillaga Dana um rannsóknarverkefni um áhrif klámvæðingarinnar á sjálfsmynd og ímynd kynjanna.

Embættismannanefnd jafnréttismála (ÄK-JÄM).

    Embættismannanefndin hélt fimm fundi á árinu þar af einn á Íslandi í apríl. Unnið var samkvæmt framkvæmdaáætlun fyrir árin 2001–2005, og voru starfandi sérstakir vinnuhópar um flest eftirtalinna verkefna. Áhersla var lögð á samþættingu og voru því flestir vinnuhópar skipaðir fulltrúum af jafnréttissviði og viðkomandi fagsviði. Ísland á fulltrúa í öllum vinnuhópunum. ÄK-JÄM hafði á árinu forystu innan Norrænu ráðherranefndarinnar um að móta reglur varðandi hlutverk, ábyrgð og verkaskiptingu þeirra sem taka þátt í starfi nefndarinnar, í nefndum, vinnuhópum og daglegu starfi. Reglurnar hafa nú verið nýttar sem fyrirmyndir að reglum annarra nefnda og sviða.

Vinnuhópar:
–     Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða í fjárlagagerð.
    Norræna ráðherranefndin hefur undanfarin ár unnið að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumörkun og daglegt starf nefndarinnar. Á árinu var samþykkt sérstök áætlun um slíka samþættingu í fjárhagsáætlanagerð ráðherranefndanna og tekið upp sérstakt vinnulag til að tryggja að svo megi verða. Þessi þróun er í anda þeirrar umræðu sem m.a. fór fram á tveimur ráðstefnum sem Norræna ráðherranefndin stóð að í París árið 2000 og í Brussel árið 2001. Sumarið 2001 ákváðu ráðherranefndir fjármála- og jafnréttismála að koma á fót verkefni, með það að markmiði að samþætta kynja- og jafnréttisjónarmið í fjárlagagerð og fjármálastefnu allra Norðurlanda. Í janúar tók til starfa norrænn vinnuhópur vegna þessa og fulltrúar Íslands í hópnum eru frá fjármálaráðuneyti og Jafnréttisstofu. Hópur þessi hefur hist reglulega, og hélt m.a. einn fund í Reykjavík. Nú liggur fyrir tillaga að verkefni sem áætlað er að hefjist 2003.
    Verslun með konur.
    Eitt af aðaláhersluatriðum nýju framkvæmdaáætlunarinnar er að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Á árinu var unnið áfram að átakinu gegn mansali, eða verslun með konur. Norrænn-baltneskur vinnuhópur starfaði ötullega en auk þess voru skipaðir starfshópar í hverju landi. Fulltrúar Íslands í erlenda starfshópnum eru frá dómsmálaráðuneyti og Jafnréttisstofu. Ráðinn var verkefnisstjóri sem stýrir einnig sænska verkefninu. Haldnar voru þrjár ráðstefnur á vegum norræna-baltneska verkefnisins: í Tallinn, Ríga og Vilníus. Skipaður var íslenskur vinnuhópur með verkefnisstjórum frá bæði dómsmála- og félagsmálaráðuneyti. Fulltrúar úr hópnum sóttu allar þrjár ráðstefnurnar í Eystrasaltsríkjunum, og undirbjuggu upplýsingaherferð hérlendis. Norræni verkefnisstjórinn sótti Ísland heim tvisvar á árinu, sat fund með embættismannanefndinni í apríl og heimsótti íslenska vinnuhópinn í september, og hélt þá m.a. erindi á ráðstefnu Stígamóta. Mikið var fjallað um málið í fjölmiðlum. Heimasíða verkefnisins er www.nordicbalticcampaign.org/
    Karlar og jafnrétti.
    Í tvö ár hefur verið starfandi sérstakur karlahópur á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og hefur hann haft það hlutverk að reyna að auka hlut karla í umræðunni um og vinnunni að auknu jafnrétti karla og kvenna. Ísland á fulltrúa í hópnum. Karlanefndin hélt þrjá fundi á árinu, þar á meðal einn í Reykjavík. Auk þess að undirbúa ofangreinda rannsóknaáætlun, vann karlanefndin m.a. að undirbúningi ráðstefnu um kynjamótun í skólum, sem haldin var í Lilleström, Noregi í desember. Nokkrir Íslendingar sóttu ráðstefnuna. Einnig var unnið að undirbúningi bókar um kynjamótun í skólum og leikskólum, þar sem sérstaklega verður miðað við sjónarhorn karla.
    Jafnlaun.
    Árið 2000 ákváðu norrænir ráðherrar jafnréttis- og vinnumarkaðsmála að leita nýrra leiða til að halda áfram starfinu að launajafnrétti kynjanna. Skipaður var starfshópur sérfræðinga frá annars vegar jafnréttisgeiranum og hins vegar vinnumarkaðsgeiranum í hverju landi sem hóf störf í ársbyrjun með það að markmiði að leggja fram tillögur á árinu 2003. Af Íslands hálfu hefur aðeins komið að starfinu einn aðili, sérfræðingur á Jafnréttisstofu. Nefndin fundaði nokkrum sinnum á árinu og einstakir meðlimir fóru yfir og lögðu fram yfirlit yfir þekkingarstöðuna í hinum einstöku löndum. Málþing sérfræðinga í kynjuðum launamun var haldið í Ósló í nóvember sl. og sóttu það tveir fulltrúar frá Íslandi. Stefnt er að því að lokafundur nefndarinnar verði á Íslandi í mars 2003 og þá verði endanlega gengið frá tillögum til nýrra rannsókna og aðgerða.
–      Vefsíða um jafnréttismál.
    Á árinu var unnið að mótun upplýsingastefnu embættismannanefndarinnar. Nefndin hefur gefið út fréttabréf, en nú var ákveðið að leggja megináherslu á miðlun upplýsinga á netinu, bæði í tengslum við NIKK (sjá að neðan) og með eigin vefsíðu á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar. Nokkrir fundir voru haldnir í þessu sambandi, þar af einn á Akureyri. Skipuð var ritstjórn sem fundar í gegnum síma og net. Sérfræðingur á Jafnréttisstofu er fulltrúi Íslands þar. Heimasíðan var formlega opnuð á 50 ára afmælisþingi Norðurlandaráðs í Helsinki, og voru ráðherrar Noregs, Finnlands og Svíþjóðar viðstaddar opnunina. Vefslóðin er www.norden.org/gender
–      Norrænt-baltneskt samstarf.
    Í samstarfsáætlun Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna fyrir 2001–2003 er lögð áhersla á eftirfarandi þætti:
     –     Samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í norræn/baltnesk verkefni og áætlanir;
     –     Samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í fjárlagagerð;
     –     Atvinnurekstur kvenna;
     –     Ofbeldi gagnvart konum;
     –     Karla og jafnrétti;
     –     Ungt fólk og jafnrétti.
    Vinnuhópur um framkvæmd áætlunarinnar starfar undir forystu Eistlands. Hópurinn fundaði nokkrum sinnum á árinu og kom m.a. á virkan hátt að verkefninu um verslun með konur og undirbúningi þriðju ráðstefnunnar um konur, karla og lýðræði (WoMen and Democracy). Sú verður haldin í Tallinn í febrúar 2003. Fulltrúi Íslands í samstarfshópnum er framkvæmdastýra Jafnréttisstofu.

NIKK – norræna rannsóknarstofan um kvenna- og kynjarannsóknir.

    Ný stjórn NIKK tók til starfa á árinu og á Ísland fulltrúa í stjórn. NIKK stóð fyrir mikilli ráðstefnu um kynjamótun í Stokkhólmi í febrúar: „Subjekt, politik och könskonstruktion: det jämställda Norden som framtidsverkstad“ og vann áfram að útgáfu og fjölmörgum rannsóknarverkefnum. NIKK heldur úti mjög virkum upplýsingavef á heimasíðu sinni www.nikk.uio.no/

Norræna vísindaakademían (NorFA).
    Á vegum NorFA er starfrækt áætlunin „Kön och våld“, sem rannsakar umfang, eðli og leiðir til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi á Norðurlöndum. Af Íslands hálfu er sérfræðingur á Jafnréttisstofu í úthlutunarnefndinni. Í byrjun maí var í þriðja og síðasta sinn auglýst úthlutun styrkja. Þrjátíu og þrjár umsóknir bárust og fengu tuttugu einhverja úthlutun. Þar á meðal var verkefnið „Young people, gender and violence“ á vegum Rannsóknastofu í kvennafræðum. Íslendingar eru eða hafa verið þátttakendur í tveim öðrum verkefnum sem hlotið hafa styrk. Að auki stóð verkefnið að stórri ráðstefnu 2001, í Danmörku, og voru mörg erindanna sem þar voru flutt gefin út. Skýrslan er aðgengileg á heimasíðu NorFA (www.norfa.no). Einnig var ákveðið að nefndin skipulegði í samvinnu við aðra ráðstefnu um rannsóknir á kynferðislegu ofbeldi gegn börnum.
    Önnur rannsóknaáætlun á vegum NorFA, „Velferðaráætlunin“, hóf göngu sína á árinu. Jafnréttisstofa tekur þátt í tveimur jafnréttisverkefnum á því sviði.

Konur fara, karlar eru um kyrrt.

    Byggðarannsóknastofnun og Jafnréttisstofa eru sameiginlega þátttakendur í verkefni á vegum norræna velferðarrannsóknaverkefnisins. Verkefnið ber heitið „Kvinner reiser, menn blir“ og beinist að því að kanna orsakir og afleiðingar þess sameiginlega einkennis jaðarbyggða á norðurslóðum að konur flytja frekar en karlar. Hvað Ísland varðar hefur verið ákveðið að beina athyglinni að þrem stórum svæðum. Á árinu hófst gagnasöfnun hérlendis, bæði söfnun tölfræðilegra gagna og viðtöl við fólk sem hefur búið alla tíð á viðkomandi svæði, fólk sem hefur flutt og þá sem hafa flutt en komið aftur. Áætlað er að verkefninu ljúki árið 2004.

Velferð, karlar og félagsleg frumkvæði.
    Hitt verkefnið sem Jafnréttisstofa er aðili að ber heitið „Velferd, maskulinitet og social innovation“ og þar er sjónum beint að áhrifum breytinga á stöðu kynjanna á stöðu og hegðun karla sérstaklega. Hvaða áhrif hefur það á stöðu karla og samspil launavinnu og fjölskyldulífs að konur eru sífellt að auka þátttöku sína í launavinnu og karlar hafa aukið þátttöku sína í heimilisstörfum og við uppeldi og umönnun barna. Hérlendis verður sjónum sérstaklega beint að áhrifum hinna nýju laga um fæðingar- og foreldraorlof. Á árinu var unnið að sameiginlegum viðtalsvísi sem síðan verður aðlagaður að hinum einstöku rannsóknarverkefnum. Verkefninu lýkur 2004.

Taking Wing – ráðstefna um konur og jafnrétti á Norðurslóðum.

    Norðurskautsráðið undir formennsku Finnlands stóð fyrir mikilli ráðstefnu um konur og jafnrétti á norðurslóðum, sem haldin var í Saarisälkä í Finnlandi í ágúst sl. Að undirbúningi og þátttöku í ráðstefnunni komu konur frá öllum aðildarlöndum Norðurskautsráðsins, auk fulltrúa allra samtaka frumbyggja sem aðild eiga að ráðinu. Einnig kom Norræna ráðherranefndin að undirbúningi og eftirfylgni ráðstefnunnar. Hópur íslenskra kvenna sótti ráðstefnuna og tók þar virkan þátt.
    Niðurstöður „Taking wing“ og tilmæli til ráðsins má finna á heimasíðu Norðurskautsráðsins á vefslóðinni www.arcticcouncil.org/taking_wing.html. Ísland gegnir nú formennskuhlutverki í ráðinu og þar með mikilvægu hlutverki við eftirfylgni þessara tillagna.

Vestnorrænt samstarf.
    Í maí 2000 var samþykkt þingsályktun um nokkur vestnorræn samstarfsverkefni, flest á jafnréttissviði. Aðeins eitt þessara verkefna er komið í framkvæmd. Það er starfshópur um aðgerðir til að vinna gegn ofbeldi gagnvart konum. Í hópnum eiga sæti tveir fulltrúar frá hverju landanna þriggja, einn frá jafnréttissviðinu og einn frá þeim aðilum sem starfa að stuðningi við konur sem beittar eru ofbeldi. Hópurinn tók til starfa í febrúar og mun skila niðurstöðum sínum í byrjun árs 2003.

19. Vímuefnamál



    Fundur var haldinn í norrænu embættismannanefndinni um vímuefnamál (ÄK-Narko) í Ósló í janúar sl. Var þar farið yfir helstu atriðin, sem þóttu m.a. eiga erindi inn á fund norrænu ráðherranna um vímuefnamál í nóvember. Urðu nokkuð snarpar umræður um lyfjakort, sem ferðamenn þurfa að hafa meðferðis eftir að Schengen-samstarfið varð að veruleika. Af Íslands hálfu var lögð áhersla á að kortið væri einfalt, en önnur lönd vildu viðamiklar skýrslur. Sprautuherbergi fyrir eiturlyfjaneytendur, sem væru þjáðir af eftirköstum, voru mjög rædd. Það úrræði hefur Ísland ekki viljað taka upp, enda meðferðarúrræði mun fleiri hér á landi en annars staðar. Enn fremur er lögð á það áhersla hér á landi að uppræta fíknina en ekki halda henni við, sé þess nokkur kostur. Málefni Eystrasaltsríkjanna voru einnig á dagskrá og fer sú umræða eðlilega vaxandi. Var þetta í flesta staði gróskumikill fundur og opin umræða sem fyrr.
    Annar fundur embættismannanefndarinnar var haldinn á Holmenkollen í nóvember sl. Á fundinum voru flutt mörg yfirlitserindi og fréttir af gangi mála í hinum ýmsu starfsnefndum og rannsóknarhópum svo sem NAD, PTN o.fl. Athyglinni var mjög beint í austur á þessum fundi sem fyrr og lögð áhersla á að styrkja nærliggjandi lönd þ.e. Eystrasaltsríkin og Rússland, enda verður góðum hluta fjárveitinga til samstarfs um vímuefnamál af fjárlögum ársins 2003 varið til starfsemi á þessu svæði. Sem dæmi má nefna að 100 þús d.kr. verður veitt til Pétursborgar í baráttu við alnæmi, sem þjakar m.a. marga fíkla.
    Fundur Norrænu ráðherranefndarinnar um vímuefnamál var haldinn í Ósló í nóvember sl. Ráðherrafundurinn fór fram með frjóum umræðum og sat Páll Pétursson, félagsmálaráðherra, fundinn fyrir Íslands hönd og fór yfir mörg mál. Hann lauk máli sínu með því að lýsa því yfir, að lögleiðing vímuefna væri ekki á dagskrá á Íslandi.
    Undirbúning þessa fundar önnuðust fulltrúar dómsmála-, félagsmála- og heilbrígðis- og tryggingamálaráðuneytis með góðu fulltingi framkvæmdastjóra Áfengis- og vímuefnaráðs.
    Fulltrúar Íslands í ÄK-Narko leggja áherslu á að til að sinna þessum verkefnum með þeim hætti sem þeir telja æskilegt, þyrftu fleiri aðilar hérlendis að koma að málaflokknum, ekki síst vegna formennsku Íslands árið 2004.

20. Iðnaður og atvinnumál


    Bætt samkeppnisstaða norrænu þjóðanna er meginviðfangsefni ráðherranefndarinnar um iðnaðar- og atvinnumál. Starfið tekur fyrst og fremst mið af samstarfsáætluninni „Nordiskt Näringspolitiskt samarbetsprogram 2002–2005“ (ANP 2001:729) sem m.a. hefur að markmiði að afmá réttarheimildir sem standa í vegi samstarfs milli landanna og bættrar samkeppnisstöðu þeirra. Skýrslan „Ny nordisk dagsorden – opfølgning af vismandsrapporten“ (ANP 2001:731) hefur gegnt veigamiklu hlutverki við mótun starfsins, svo og ályktanir nefnda Norðurlandaráðs, t.d. atvinnumálanefndarinnar (Nordisk Råds næringsutvalg). Áherslur á árinu snerust að miklu leyti um viðfangsefnið: „Norðurlönd sem einn hindrunarlaus innri markaður“.
    Eitt mikilvægasta framlagið til þessarar umræðu á árinu var skýrsla Ole Norrback „Nordboarnas rättigheter“ sem unnin var fyrir norrænu samstarfsráðherrana. Í skýrslunni er fjallað um réttarstöðu Norðurlandabúa í öðru norrænu landi en heimalandinu er varðar t.d. búsetu, atvinnumarkað, menntun, skattlagningu og atvinnurekstur. Þar koma fram ábendingar um ákvæði í lögum og reglugerðum sem hindra eðlileg samskipti milli landanna. Þrátt fyrir að skýrsla Ole Norrback fjalli aðeins að litlu leyti um atvinnupólitísk málefni er á vettvangi iðnaðar- og atvinnumálaráðherranna lögð áhersla á að efni skýrslunnar fái víðtæka umfjöllun þar sem tillögurnar eru atvinnuþróuninni ótvírætt til framdráttar.
    Iðnaðarráðherrarnir hafa látið gera úttekt á samkeppnisstöðu norrænu þjóðanna „Konkurrencekraft i Norden“ (ANP 2000:537) en þar kemur fram að fyrirtæki á Norðurlöndum halda í vaxandi mæli á lofti norrænum einkennum. Fram kemur að skortur sé á upplýsingum um lög og reglur í hinum norrænu löndunum og kvartað er yfir ósamræmi í réttarheimildum. Fyrirtækin óska eftir auknum möguleikum á samstarfi við fyrirtæki í öðrum norrænum löndum og að meira verði um sameiginlegar rannsóknir og þróunarvinnu.
    Mikil áhersla hefur ávallt verið á að bæta stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja enda á stór hluti af nýsköpun atvinnulífsins sér stað innan veggja þeirra og þar verða flest störf til. Að frumkvæði Evrópunefndar Norðurlandaráðs hefur verið unnið stefnumótandi skjal um sprotafyrirtæki, frumkvöðla og uppfinningamenn („Nordisk Charter for små innovative virksomheder, iværksættere og selvstændige opfindere“) sem norrænu iðnaðarráðherrarnir hafa ákveðið að fella inn í störf sín. Markmiðið er að búa þessum hópi sem best starfsskilyrði en aðgengi hans að nauðsynlegri stoðþjónustu, viðskiptaþekkingu, nýrri tækni og fjármagni er víða mjög takmarkað.
    Með samþykkt sinni hafa norrænu ráðherrarnir sammælst um að leggja sitt af mörkum til þess að ytri skilyrði verði frumstigi nýsköpunarinnar hliðholl. Það verði gert t.d. með því að gera stofnun fyrirtækja auðvelda, veita leiðsögn um stofnun og rekstur lítilla fyrirtækja, hafa tiltækt fjármagn til tækniþróunar og fjármögnunar sprotafyrirtækja, gera skattakerfið hagstætt fyrir rannsóknir, þróun og stofnun nýrra fyrirtækja, sníða einkaleyfalöggjöf að þörfum þeirra, veita þeim leiðsögn og miðla til þeirra þekkingu, svo nokkuð af því helsta sé nefnt. Þessi samþykkt fellur mjög vel að stefnu iðnaðarráðuneytis um nýsköpun og atvinnuþróun og stefnu þess í byggðamálum. Ef frumvarp til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins verður að lögum verður stuðningurinn við þessa aðila mun öflugri og markvissari en áður hefur verið.
    Einföldun réttarheimilda og samræming þeirra á milli norrænu landanna er umfangsmikið verkefni sem þarf aðkomu margra annarra ráðherra en iðnaðarráðherranna, t.d. norrænu fjármálaráðherranna. Þetta mikilvæga mál kom nokkuð til umfjöllunar á árinu en búast má við að því verði gefin aukin áhersla á árinu 2003 undir formennsku Svía. Um þetta er fjallað í skýrslunni „Over grænsen efter Konkurrenceevne – udredning om betydningen af skatte- og selskabsretlige barrierer for virksomhedssammenlægninger og -køb over grænserne i Norden“ sem unnin var fyrir ráðherranefndina.
    Ferðaiðnaður og umhverfisvernd eru málaflokkar sem iðnaðarráðherrarnir láta sig varða. M.a. hefur verið starfandi vinnuhópur um ferðaiðnað frá árinu 2000 („Næringssektorens Ad hoc arbejdsgruppe for turisme“). Umhverfis- og ferðamál tvinnast saman í verkefninu „Miljø og turisme i Arktis“, sem Norræni iðnaðarsjóðurinn kostaði, en því lauk á árinu. Áfram verður unnið að verkefnum er tengjast sjálfbærri ferðaþjónustu („bæredygtig turisme“) og hefur Iðntæknistofnun Íslands verið virkur þátttakandi í þeim verkefnum.
    Helstu verkefni iðnaðarráðherranna er tengjast sjálfbærri þróun voru kynnt á sýningu í tengslum við heimsráðstefnuna um sjálfbæra þróun („World Summit for Sustainable Development“) í Jóhannesarborg í Suður-Afríku í ágúst og september sl.
    Skipulag starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar kom til umfjöllunar á árinu. Borið hefur á vaxandi efasemdum um rekstrarform hinna fjölmörgu litlu stofnana sem reknar eru á vegum hennar. Sú skoðun á auknu fylgi að fagna að ná megi meiri árangri með því að samræma og sameina skylda starfsemi. Iðnaðar- og atvinnumálaráðherrarnir settu á árinu í gang mat á ávinningi þess að sameina Nordtest og Norræna iðnaðarsjóðinn sem eru þær tvær stofnanir sem undir þá falla. Sú vinna er komin vel á veg og virðist ástæða til að skoða ávinning af enn víðtækari samræmingu og sameiningu.
     Norræni iðnaðarsjóðurinn.
    Norræni iðnaðarsjóðurinn (Nordisk Industrifond – senter for innovation og næringsutvikling) er stofnun á vegum ráðherranefndarinnar um iðnaðar- og atvinnumál. (Sjá nánar um Norræna iðnaðarsjóðinn, kafla 26.5.).

Nordtest.
    Á árinu var haldið áfram með breytingar í starfsemi Nordtest, sem byrjað var á árið 2000 í samræmi við úttekt Norrænu ráðherranefndarinnar árið 1999. Helsta breytingin er sú að horfið er frá megináherslu á prófanir en í staðinn kemur „conformity assessment“ (CA) eða samræming krafna og prófana. Tilgangur þessarar áherslubreytingar er að gæta hagsmuna norræns iðnaðar með því að fjarlægja tæknilegar hindranir í viðskiptum, sér í lagi til hagsbóta litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
    Áhersla hefur verið lögð á að bæta upplýsingaflæði Nordtest, nýta upplýsingar frá markaðshópum um áherslur í verkefnavali og að útvíkka starfssvið sjóðsins með því að styrkja verkefni sem fjalla um CA í víðtækri merkingu.
    Viðræður milli stjórna Nordtest og Norræna Iðnaðarsjóðsins um samvinnu hafa haldið áfram, en árið 2001 var ákveðið að þessar tvær stofnanir hafi með sér samvinnu á sviði mælitækni, pre-normatívra rannsókna og staðla og í stefnumótun iðnþróunar á Norðurlöndum 2002–2005. Stefnt er að því að á næsta ári verði gengið frá þessu samstarfi á formlegan hátt.
    Helstu viðfangsefni Nordtest eru verkefnavinna – árlega er unnið að um 50 verkefnum, birtar eru fjölmargar skýrslur og samþykktar prófunaraðferðir. Þessar upplýsingar eru allar aðgengilegar á heimasíðu Nordtest, www.nordtest.org
    Önnur verkefni fólust í ráðstefnuhaldi og þátttöku í alþjóðlegu starfi á sviði CA, prófana og staðla. Mikilvægur þáttur í starfi Nordtest er einmitt að hafa áhrif á þróun staðlamála og prófana þeim tengdum. Góður árangur náðist á þessu sviði á árinu.

21. Húsnæðis- og byggingarmál



    Samstarfið á árinu grundvallaðist á samstarfsáætlun Norðurlanda á sviði húsnæðis- og byggingarmála fyrir tímabilið 2002–2005 sem húsnæðisráðherrarnir (MR-Bygg) samþykktu árið 2001. Samstarfsáætlunin miðast við samstarf um félagsleg húsnæðismál, sjálfbæra þróun húsnæðis- og byggingarmála auk borgarstefnu.
    Á árinu var haldinn húsnæðisráðherrafundur, fjórir fundir í embættismannanefndinni (ÄK- Bygg), samráðsfundur um húsnæðismál í Tallinn með stjórnsýsluaðilum í Eystrasaltsríkjunum auk þess sem haldnar voru fjölmargar ráðstefnur um ýmis viðfangsefni. Á ráðstefnum og fundum á vegum samstarfsins var fjallað m.a. um blöndun þjóðfélagshópa í íbúðahverfum, stefnumótun í húsnæðismálum, vandamál vegna íbúða sem standa auðar og íbúðaskort. Einnig voru ræddar aðgerðir vegna húsnæðisleysingja, fjallað um húsnæðiskostnað og stöðu félagslegra húsnæðismála.

Útgáfa og rannsóknarstarf á árinu.
    Í ársbyrjun kom út skýrslan „Utgifter och kostnader för boendet i Norden“ (TemaNord 2002:501). Hún er afrakstur námsstefnu undir heitinu „Boendekostnader i Norden“ sem haldin var árið áður. Í skýrslunni er fjallað um skilgreiningar á annars vegar hugtakinu „húsnæðisútgjöld“ (bostadsutgift) og hins vegar hugtakinu „notkunarkostnaður“ (brukarkostnad). Einnig er fjallað um þróun byggingarkostnaðar og leiguverðs.
    Skýrsla undir heitinu „Norges bostadskonsumenter och det uthålliga boendet“ kom út á vormánuðum (TemaNord 2002:523). Verkefnið var styrkt af ÄK-Bygg í samvinnu við neytendanefndina. Mikilvægasta niðurstaða verkefnisins er samantekt um úrræði sem tiltæk eru til að draga úr mengun sem tengist húsnæðinu á einn eða annan hátt.
    Húsnæðisleysi hefur verið ofarlega á dagskrá samstarfsins en árið 2001 var veittur styrkur til að koma á fót samstarfi milli aðila sem vinna að rannsóknum á húsnæðisleysi. Styrkurinn var notaður til að halda námsstefnu og setja á laggirnar tengslanet. Í kjölfarið var gefin út skýrsla með erindum og umræðu námsstefnunnar undir heitinu „Bostadslöshet som problem och politik“ (TemaNord 2002:558). Skýrslan gefur innsýn í rannsóknir á húsnæðisleysi og fjallar um húsnæðisleysingja sem einstaklinga og þjóðfélagsvandamál auk þess sem gerð er grein fyrir þeim stofnunum sem beint eða óbeint fást við það verkefni að vinna gegn húsnæðisleysi.
    Veittur var styrkur til forverkefnis um aðgengi að byggingum undir heitinu „Virkemidler til fremme af tilgængelighed“. Markmið verkefnisins er að kortleggja hvaða aðferðum er beitt til að auka aðgengi að eldri og nýrri byggingum. ÄK-Bygg veitti viðbótarstyrk til að ljúka skýrslu um verkefnið sem mun liggja fyrir í upphafi ársins 2003.
    Á árinu hófst vinna við verkefni sem fjallar um samanburð á norrænni byggingarlöggjöf. Endurskoðun byggingarlaga og reglugerða er víða á döfinni. Rannsóknarverkefnið heitir „Sammenligning af Nordisk bygningslovgivning“ og er áætlað að því ljúki á árinu 2003. Einnig var samþykkt að styrkja námsstefnu sem hefur það markmið að samræma tölfræðiupplýsingar á sviði húsnæðis- og byggingarmála. Verkefnið heitir „Önskemål om kartläggning av statistikproduktionen för bygg- och bostadssektorn“. Undirbúningur hófst að rannsóknarverkefni um borgarstefnu. Forkönnun var gerð með verkefninu „Erfaringer med implementering af bypolitik i de nordiske lande“. Markmiðið með verkefninu var að kortleggja og greina stöðu borgarstefnu á Norðurlöndum. Niðurstöður eiga að liggja fyrir árið 2003.
    Rannsóknarverkefni um framtíðarþróun félagslega húsnæðiskerfisins er styrkt af ÄK- Bygg. Heiti verkefnisins er „Almennyttige og sociala boligers framtid i Norden“ og er það á vegum Íslands. Ráðgert er að gefa skýrsluna með niðurstöðum út í upphafi árs 2003 og hafa tillögur komið fram um að hún verði grundvöllur ráðstefnu um framtíðarþróun félagslegra húsnæðismála en sú spurning brennur mjög á stjórnvöldum bæði á Norðurlöndum og í Evrópu.

Ráðstefnur og fundir.
    Embættismannanefndin ÄK-Bygg í samstarfi við norska Húsbankann stóðu fyrir ráðstefnu undir heitinu „Nordisk konference om boliglöshet“. Þar fluttu erindi fulltrúar frá öllum norrænu löndunum og kynntu stöðu mála ásamt þeim úrræðum sem notuð hafa verið til að leysa og fyrirbyggja húsnæðisleysi.
    Í júní sl. var haldin ráðstefna undir heitinu „Goda bostäder for alla – kommunernas arbete med svaga hushåll“. Á ráðstefnunni var fjallað um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga varðandi félagslega þætti húsnæðismála og úrræði til einstaklinga sem þurfa aðstoð við að koma þaki yfir höfuðið. Kynnt voru félagsleg úrræði í húsnæðismálum á Norðurlöndum. Einnig var rætt um aðgerðir vegna fjölgunar eldri borgara, vegna íbúða sveitarfélaga sem standa tómar og aðgengismál.
    Embættismannanefndin ÄK-Bygg veitti stuðning til kynningar á norrænum arkitektúr í Berlín á árinu í tengslum við alþjóðaþing arkitekta undir heitinu „Nordic Architecture as a resource“. Á sýningunni var kynnt verkefni um sjálfbæra þróun í byggingarlist á Norðurlöndum.
    Húsnæðismál í ljósi byggðaþróunar og mismunandi aðstæðna sveitarfélaga voru í brennidepli á árinu. Ákveðið var að efna til ráðstefnu um málið árið 2003 undir heitinu „Regioner i balans“ og er ráðgert að hún verði haldin á Íslandi.
    Embættismannanefndin hélt samráðsfund með stjórnsýsluaðilum í Eystrasaltsríkjunum. Þar var rætt um form og fyrirkomulag samstarfs á þessum vettvangi. Umræður fóru fram um mál sem tengjast einkavæðingu húsnæðismála og fyrirkomulagi eignarhalds á húsnæði. Lög og reglur sem gilda um eignaríbúðir og samskipti íbúa í fjöleignarhúsum er í brennidepli í kjölfar breyttrar þjóðfélagsgerðar. Einnig eru viðhaldsmál knýjandi úrlausnarefni. Á fundinum var rætt um framhald og framtíð samstarfs á þessu sviði. Unnið var að mótun frekara samstarfs á árinu 2003.
    Í lok október sl. var haldinn húsnæðisráðherrafundur í Helsinki í tengslum við Norðurlandaráðsþingið. Á fundinum ræddu ráðherrarnir m.a. um íbúðir fyrir ungt fólk, innflytjendur og aðra sem eru að stíga sín fyrstu spor á fasteignamarkaði. Þá var fjallað um aðgerðir til að lækka byggingarkostnað, um stöðuna á húsnæðismarkaðnum og þróun mála. Fram kom að á Norðurlöndum er mikil eftirspurn eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðum en framboð umfram eftirspurn víða í dreifðari byggðum landsins. Rætt var um hlutverk húsnæðiskerfisins í velferðarkerfum norrænu landanna. Samdóma álit var að fundirnir og samstarfið væri mjög gagnlegt og nauðsynlegt að ráðherrafundir séu haldnir a.m.k. árlega.


22. Neytendamál



    Norðmenn gegndu á árinu formennsku í samstarfi Norðurlanda á sviði neytendamála. Af hálfu formennskulandsins var lögð áhersla á þrjú svið neytendamála. Áhersla var lögð á atriði sem geta stuðlað að betri vernd barna og ungmenna gegn sífellt vaxandi markaðsfærslu og þrýstingi frá viðskiptalífinu á þennan samfélagshóp. Jafnframt lögðu Norðmenn sérstaka áherslu á öryggi matvæla og sjálfbæra þróun.
    Norræna ráðherranefndin á sviði neytendamála (MR-Konsument) hélt árlegan fund sinn að þessu sinni á Svalbarða í apríl sl. Jafnframt var haldinn sameiginlegur fundur þessarar ráðherranefndar og norrænu ráðherranefndarinnar á sviði atvinnu- og iðnaðarmála (MR- Näring).
    Á fundi ráðherranefndarinnar á sviði neytendamála var embættismannanefndinni falið að finna leiðir til þess að efla samstarf milli stjórnsýslunnar í einstökum ríkjum Norðurlanda um mál sem varða samstarf þeirra á vettvangi ESB. Auk þess óskaði ráðherranefndin eftir því að undirbúin yrði áætlun um þátttöku neytenda við undirbúning alþjóðlegra staðla sem gilda um ýmiss konar framleiðsluvörur. Ráðherrarnir samþykktu að leggja áherslu á nánara samstarf við grannsvæði Norðurlanda. Embættismannanefndinni á sviði neytendamála var falið, í samstarfi við fulltrúa í ráðuneytum Eistlands, Lettlands og Litháen, að skilgreina nánar með hvaða hætti Norðurlönd geti aðstoðað við frekari uppbyggingu neytendaverndar í þessum ríkjum. Ráðherranefndin á sviði neytendamála ræddi einnig um nýjar leiðir til þess að tryggja fjármögnun og áframhaldandi rekstur á norræna umhverfismerkinu (svaninum) og lýstu yfir vilja sínum til þess að fjárframlög Norðurlandaráðs yrðu aukin í þessu skyni.
    Á sameiginlega fundi ráðherranefndanna tveggja (MR-Konsument og MR-Näring) var rætt um upplýsingatækni og viðskipti yfir Netið. Ráðherrarnir hvöttu embættismannanefndirnar að kanna í sameiningu öll meginatriði sem varða öryggi gagna, jafnt frá sjónarmiði fyrirtækja sem og neytenda. Auk þess var þverfaglegri nefnd falið að gera tillögu um norræna stefnuáætlun um hvernig auka megi viðskipti á Netinu, til hagsbóta fyrir fyrirtæki og neytendur. Lögð var áhersla á að jafnframt væri hugað að því með hvaða hætti Norðurlönd geti spornað við misnotkun tækninnar svo sem í auglýsingum o.s.frv. Á fundinum var undirstrikað mikilvægi þess að embættismannanefndirnar hugi áfram að þverfaglegu samstarfi og tryggi að mál sem einungis verða leyst með þeim hætti hljóti fullnægjandi meðferð á sameiginlegum fundum ef það telst nauðsynlegt.
    Í lok árs 2004 rennur út sú verkefnaáætlun sem samþykkt var árið 1999 af hálfu Norðurlanda á sviði neytendamála. Af þeirri ástæðu hefur embættismannanefndin á sviði neytendamála því nú þegar samþykkt að skoða nánar starfshætti og starfsskipulag hins norræna samstarfs þannig að tryggt verði við undirbúning næstu verkefnaáætlunar að starfið sé eins skilvirkt og kostur er.

23. Matvæli



    Á árinu hafa Norræna embættismannanefndin um matvælamál (ÄK-Livs) og fastanefndir á hennar vegum, sem fjalla um eiturefnafræði matvæla og áhættugreiningu (NNT), matvælaörverufræði og áhættugreiningu (NNM), matvælaeftirlit (NNK), matvælalöggjöf (NNL) og manneldi (NKE), lagt áherslu á eftirtalin verkefni:
          Að öryggi matvæla verði haft í fyrirrúmi. Haldinn var ráðherrafundur á Grænlandi í ágúst sl. þar sem öryggi matvæla var meginviðfangsefnið;
          Að samstarf á vegum Codex Alimentarius, sem starfar á vegum aðildarríkja S.þ. og OECD verði eflt þar sem norræn sýn sameiginlegra hagsmuna verði komið á framfæri;
          Að haldið verði áfram stuðningi við faglegt fræðslustarf vegna matvælaeftirlits í Eystrasaltsríkjunum innan Nordic-Baltic verkefnisins;
          Að samstarf þeirra er vinna að matvælamálum í vesturbyggðum Norðurlanda verði styrkt enn frekar með tímabundna verkefninu í Vest-Norden Forum;
          Að þverfaglegt samstarf um matvæla- og neytendamál, milli ÄK-Livs og ÄK-Konsument verði haldið áfram og fé til þess verði tryggt;
          Að einfalda og auðvelda aðgengi almennings og fyrirtækja að lögum og reglum á sviði matvælamála;
          Að endurskoða norræna matvælalöggjöf, þar á meðal stjórnsýslu og eftirlit innan málaflokksins og birtist sú vinna í skýrslu um áhættustjórnun matvæla „Frá haga í maga“. Í framhaldinu hefur orðið breyting á stjórnsýslu málaflokksins í flestum landanna;
          Að koma á tengineti til að miðla upplýsingum um eiturefnafræðilegt áhættumat fyrir bragðefni sem notuð eru í matvæli og um þróun löggjafar í ESB á þessu sviði. Haldið var málþing um „Regionalt principp“ sem er að svæði eða ríki sem búa við lága tíðni vissra sýkingarvalda geti takmarkað innflutning matvæla og búfjár sem líklegur er til að raska ríkjandi ástandi.

    Fjöldi vinnunefnda og verkefnahópa vann að sérgreindum verkefnum tengdum vandamálum sem upp hafa komið og öðrum mikilvægum málefnum varðandi matvæli.
    Ísland hefur tekið virkan þátt í starfi allra fastanefnda Norrænu ráðherranefndarinnar sem varða matvæli svo og undirnefnda þar sem unnið er að einstökum verkefnum.
    Afrakstur þessara verkefna eru ýmsar útgáfur, ráðstefnur o. fl., m.a.:
          Norrænt orðasafn og íðorðasafn um matvæli.
          Skýrslur um:
        Íblöndun A-vítamíns og steinefna í matvælum og umfjöllun um áhættu samfara fæðubótarefnum.
        Reynslu viðkvæmra neytenda af merkingum matvæla.
        Bestu fáanlegu slátrunartækni í sláturhúsum á Norðurlöndum.
        Heilsufarsfullyrðingar á umbúðamerkingum matvæla.
        Ráðleggingar um útreikninga á neyslu aukefna og aðskotaefna.
        Áhættumat vegna erfðabreyttra örvera.
          Framkvæmd var könnun á því hvernig neytendur nýta sér merkingar á matvælum.
          Haldnar voru ráðstefnur og gefnar út skýrslur um:
        Fisk sem matvæli.
        Áhættumat – áhættugreining vegna „Campylobacter“ og „coffíns“.
        Veirur í matvælum og vatni.
        Lím í umbúðum um matvæli.


24. Málefni dómsmálaráðuneytis



Samstarf um löggjafarmál.

    Norrænt samstarf dómsmálaráðuneytanna byggist aðallega á samstarfsáætlun um löggjafarsamstarf.
    Ný samstarfsáætlun fyrir árin 2002–2005 og framkvæmdaáætlun 2002–2003 var samþykkt á fundi dómsmálaráðherranna á Svalbarða í júní sl. Markmið samstarfsáætlunarinnar eru þau sömu og í hinni fyrri, m.a. að standa vörð um lýðræðislega ákvarðanatöku á Norðurlöndum og tryggja réttaröryggi þeirra sem búa og dveljast þar. Löggjafarsamstarfið á að miða við notagildi meðal Norðurlandaþjóða og ná til þeirra sviða réttarins þar sem það er mest. Stefnt skal að samræmingu löggjafar, en þó er sá fyrirvari gerður að útfærsla einstakra réttarreglna þurfi ekki endilega að vera sú sama í öllum löndunum. Á sviði einkamálaréttar er hefð fyrir samræmdri löggjöf, og stefnt er að áframhaldandi þróun norræns samstarfs á því. Einnig hefur verið vaxandi þörf á samræmingu á sviði refsiréttar. Á þeim réttarsviðum þar sem ekki er hægt að ná samræmingu er lögð áhersla á gagn þess að miðla af reynslu og skiptast á upplýsingum. Þá er sérstaklega tekið fram að norrænt löggjafarsamstarf skuli leggja sitt af mörkum til réttarþróunar í evrópsku og alþjóðlegu samhengi.
    Í framkvæmdaáætluninni 2002–2003 kemur fram að ráðherrarnir leggja í samvinnu sinni áfram áherslu á að vinna gegn afbrotum barna og ungmenna, kynferðisbrotum gegn börnum, verslun með konur, skipulagðri glæpastarfsemi og brotastarfsemi sem einkennast af nasistiskum viðhorfum og kynþáttafordómum. Sérstök verkefni sem styrkt verða af norrænum fjárlögum eru:
     1.      Réttarstaða brotaþola samkvæmt refsiréttarfari. Metin verður þörfin á samræmingu norrænnar löggjafar á þessu sviði.
     2.      Refsimörk á Norðurlöndum. Rannsakaðar verða refsingar við brotum eins og morðum, líkamsárásum, kynferðisbrotum og fíkniefnabrotum. Athugað verður hvort mismunandi refsing er dæmd vegna svipaðra brota og ef svo er, hver gæti verið orsök þessa.
     3.      Hryðjuverk. Settur hefur verið á laggirnar starfshópur undir forystu Norðmanna til að fjalla um aðgerðir gegn hryðjuverkum, sérstaklega með tilliti til mannréttinda og réttaröryggis.
     4.      Staða tjáningarfrelsis í sambandi við ýmis önnur grundvallarréttindi (svo sem persónuvernd og vörn gegn mismunun sökum kynþáttar). Stefnt er að norrænu málþingi.
     5.      Norrænn sifjaréttur. Metin verður þörfin á samræmingu norrænnar löggjafar í kjölfar ítarlegrar samantektar um þetta efni. Samantektin skiptist í þrjár bækur; um hjúskaparlöggjöf, um foreldra og börn og um erfðarétt og skipti. Samantekt á tveimur þeirra hefur komið út í skýrslu, „Äktenskapsrätten och successionsrätten i de fem nordiska länderna – Om möjligheterna och nyttan av lagharmonisering“ (TemaNord 2002:538).
     6.      Löggjafarstefna. Hlutverk norræns samstarfs í löggjafarmálum verður metið í ljósi Helsingforssamningsins. Í framhaldi af málþingi um löggjafarstefnu síðsumars í Finnlandi verða frekari aðgerðir teknar til athugunar. Sérstaklega verður hugað að athafnafrelsi löggjafans, m.a. í ljósi valdsviðs alþjóðlegra dómstóla. Stefnt verður að málþingi í Noregi um þetta efni.
     7.      Framsalsreglur. Metin verður þörf á að endurskoða norrænar framsalsreglur í ljósi þróunar reglna í ESB.
    Auk samþykktar á nýrri samstarfsáætlun og framkvæmdaáætlun ræddu hinir norrænu dómsmálaráðherrar á fundi sínum á Svalbarða ýmis mál. Fjallað var m.a. um norrænar aðgerðir í baráttunni gegn hryðjuverkum. Samþykkt var að stofna norrænan vinnuhóp sem fjalla átti um málið m.t.t. mannréttinda, réttaröryggis og alþjóðlegra ákvarðana. Þá var samþykkt að endurskoða norrænar framsalsreglur í ljósi Evrópsku handtökuskipunarinnar með það að leiðarljósi að norrænar reglur gengju jafnvel lengra í sumum atriðum. Einnig var rætt um refsiramma og refsimörk vegna kynferðisbrota (að frumkvæði íslenska dómsmálaráðherrans), nauðungarhjónabönd og um ofbeldi gegn konum.
    Ýmis verkefni voru styrkt á árinu af fjármagni því sem úthlutað var norrænu löggjafarsamstarfi í norrænu fjárlögunum. Málþing og fundir ýmiss konar eru oft áberandi þáttur í norrænum verkefnunum, en gildi þess að menn komi saman og beri saman bækur sínar hefur löngum verið í hávegum haft í löggjafarsamstarfinu sem og í öðru norrænu samstarfi.
    Í september sl. var haldið málþing um norræna löggjafarstefnu í Helsinki. Markmið þess var að fara í gegnum feril lagasetningar í löndunum, ræða það sem vel var gert, það sem betur mátti fara og hvort vinna ætti að þessu málefni á norrænum vettvangi. Bæði var farið í þátt framkvæmdavaldsins við undirbúning löggjafar sem og hlutverk þjóðþinganna við setningu laga. Einnig var fjallað um innihald laga með tilliti til alþjóðlegra samninga o.fl. Mun skýrsla um málþingið koma út síðar. Enn fremur var haldið sl. haust málþing í Ósló um réttarstöðu brotaþola í norrænum rétti og var markmiðið að athuga hvort þörf væri á norrænni samvinnu um þetta mál. Málþinginu var fylgt úr hlaði með skýrslu þar sem borin var saman löggjöf landanna. Loks má nefna málþing dómara frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum sem haldið var í Ósló í ágústmánuði.
    Enn fremur var áberandi á árinu fyrrnefnd samantekt um löggjöf á sviði sifjaréttar á Norðurlöndum (sbr. 5. lið hér fyrir framan), en hún er mjög ítarleg og vönduð. Er úrvinnsla þeirra upplýsinga sem þar koma fram og mat á því hvort og hvernig samræma eigi norræna sifjalöggjöf á einstökum sviðum eitt af helstu verkefnum ársins 2003.
    Norrænt löggjafarsamstarf fer að miklu leyti fram í sérstökum vinnuhópum, sem óformlegt samstarf ýmist milli ráðuneytanna eða einstakra embættismanna. Hið hefðbundna löggjafarsamstarf er fyrirferðarmest á sviði einkamálaréttarins, fyrst og fremst á sviði sifjaréttar, félagaréttar, skaðabótaréttar og neytendamála. Samstarf á sviði refsiréttarins hefur verið í vaxandi mæli undanfarin ár svo sem sýnt hefur sig í kjölfar hryðjuverka þeirra er hrjáð hafa heimsbyggðina undanfarið. Auk eiginlegs löggjafarsamstarfs nær norrænt samstarf einnig til annarra þátta í starfi dómsmálaráðuneytanna, þar á meðal lögreglu og ákæruvalds, forvarna og viðurlagastefnu.
    Samstarf dómsmálaráðuneytanna fer einkum fram undir yfirstjórn norrænu embættismannanefndarinnar um löggjafarsamstarf (ÄK-Lag) þar sem unnið er að samræmingu samstarfsins og sameiginleg hagsmunamál rædd. Taka má fram að á hverjum fundi er gerð grein fyrir nýrri eða væntanlegri löggjöf í löndunum. Til að vinna að forgangsverkefnum eru starfshópar gjarnan settir á fót til tiltekins tíma og eru þeir skipaðir fulltrúum landanna. Nýr starfshópur gegn hryðjuverkum var skipaður á árinu og tekur hann til starfa í byrjun árs 2003. Ákveðið var að leggja niður starfshóp um rannsóknir á Evrópurétti frá og með 2003. Í staðinn munu einstök verkefni á þessu sviði vera styrkt af norrænum fjárlögum. Á árinu störfuðu eftirtaldir starfshópar sem hver fyrir sig hefur til ráðstöfunar tiltekna fjárveitingu af norrænu fjárlögunum:
     a.      Starfshópur um aðgerðir til að berjast gegn brotastarfsemi sem einkennist af nasisma eða kynþáttafordómum.
     b.      Starfshópur um rannsóknir á Evrópurétti.
     c.      Starfshópur um samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna.

    Af óformlegum starfshópum ber einkum að nefna sérfræðingahóp um sifjarétt og sérfræðingahóp um refsirétt. Sá fyrrnefndi hélt fund í desember sl. og var eitt af meginefnum fundarins að ræða hver væru næstu skref í framhaldi af fyrrnefndri samantekt um norrænan sifjarétt. Hópurinn á að skila áliti sínu til embættismannanefndarinnar um löggjafarsamstarf (ÄK-Lag). Refsiréttarhópurinn hélt tvo fundi á árinu og annan þeirra á Íslandi. Á báðum fundum skipaði umræða um hina Evrópsku handtökuskipun og áhrif hennar á norrænar framsalsreglur (sbr. lög um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar nr. 7 14. mars 1962) stóran sess.
    Á árinu var haldið áfram, ásamt jafnréttissviðinu, þátttöku í starfshópi norrænu landanna og Eystrasaltsríkjanna um átak gegn verslun með konur. Voru meðal annars skipulagðar þrjár ráðstefnur á árinu í Ríga, Tallinn og Vilníus. Áætlað er að starfinu ljúki árið 2003 með skýrslu frá starfshópnum þar sem árangur átaksins verður metinn.

Málefni flóttamanna.

    Samráðsnefnd háttsettra embættismanna um málefni flóttamanna (NSHF) fjallar um stefnumótun í málum flóttamanna. Fara þar einnig fram upplýsingasamskipti milli stjórnvalda um þróun löggjafar um málefni útlendinga almennt, um móttöku flóttamanna, um breytingar á framkvæmd mála er varða flóttamenn, ákvarðanatöku í slíkum málum, heimflutning o.fl. Samstarf er einnig um öflun upplýsinga vegna aðstæðna í löndum þaðan sem flóttamenn koma, m.a. með miðlun skýrslna sem sendinefndir einstakra landa gera. Þá er haft samráð um ýmis atriði er varða útlendingaeftirlit, m.a. með hliðsjón af norræna vegabréfasambandinu og Schengen-samstarfinu, sem kom að fullu til framkvæmda á Norðurlöndum í mars 2001, og þar með atriði er varða framkvæmd Dyflinnarsamnings ESB-ríkjanna sem Ísland og Noregur eru nú einnig aðilar að. Þá hafa verið rædd á fundunum atriði sem varða verslun með konur og um innflutning vinnuafls.
    Starf nefndarinnar á árinu fólst einkum í þremur fundum. Var fyrsti fundurinn haldinn í Hróarskeldu í mars. Annar fundurinn var á Selfossi í júní. Síðasti fundurinn var haldinn í Helsingør í desember ásamt fundi ráðherra sem haldinn var í beinu framhaldi.

Björgunarsamstarf.
    Norræn samvinna um björgunarsamstarf (NORDRED) tekur til samstarfs yfir landamæri og miðar að því að koma í veg fyrir eða takmarka tjón á mönnum, eignum eða umhverfi vegna slysa eða óhappa. Markmiðið er að veita gagnkvæma aðstoð og auðvelda að hjálparlið og búnaður komist sem allra fyrst á vettvang. Ísland hefur tekið þátt í þessu samstarfi undanfarin ár en það byggist á rammasamningi um björgunarþjónustu (NORDRED) frá árinu 1989 milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Ísland er formlegur aðili samningsins.
    Starf NORDRED á árinu fólst í tveimur fundum sem haldnir voru í maí og október, þar sem m.a. var fjallað um undirbúning að ráðstefnu sem verður í Kaupmannahöfn í maí árið 2003. Verður aðalþema hennar áhættugreining, stjórnunaraðgerðir og samskipti viðbragðsaðila.

25. Norrænar stofnanir á Íslandi


25.1. Norræna húsið

    Norræna húsið er lifandi miðstöð norrænnar menningar og lista. Í húsinu fer fram fjölþætt menningar- og upplýsingastarfsemi sem miðar að því að auka þekkingu á tungu og menningu norrænu þjóðanna og vekja áhuga fólks á norrænu samstarfi á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins.
    Árið hefur verið viðburðaríkt ekki síst vegna 50 ára afmælis Norðurlandaráðs. Þetta ár var einnig merkisár vegna þess að bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru nú veitt í fertugasta sinn og í tilefni þess var öllum þeim höfundum sem tilnefndir voru boðið að heimsækja norrænu löndin og lesa upp úr verkum sínum. Hingað til lands komu þau Kari Aronpuro (FIN), Ole Korneliussen (GR) og Eva Runefelt (SE). Upplestrarkvöldið fór fram í kaffistofu hússins í byrjun febrúar sl.
    Norrænu sendikennararnir við Háskóla Íslands skipulögðu dagskrá í samstarfi við Norræna húsið og íslenskan bókmenntafræðing í tengslum við fund dómnefndar bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í Reykjavík. Dagskráin fór fram í febrúar sl. og þar greindu meðlimir dómnefndarinnar frá því sem efst var á baugi í bókmenntum landanna. Daginn eftir kvað dómnefndin upp úrskurð sinn og tilkynnti að norski rithöfundurinn Lars Saabye Christensen hefði hlotið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2002. Svo skemmtilega vildi til að Norræna húsið var á þessum tímapunkti búið að skipuleggja menningardagskrá í mars sl. frá Vesturáli í Noregi. Til landsins komu rúmlega 30 manns, bæði sveitarstjórnarfólk og listamenn frá Andøy, Bø, Hadsel, Sortland og Øksnes og var Lars Saabye Christensen þeirra á meðal. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá; ljósmyndasýningu, þjóðlagatónleika, bókmenntakvöld o.fl. Tilgangur ferðarinnar var að efla gagnkvæm menningartengsl og mynda tengslanet á sem flestum sviðum.
    Fyrsta myndlistarsýningin í sýningarsal á vormisseri kom frá Nordiska Akvarellmuseet í Svíþjóð en þar var sýnt úrval verka úr eigu safnsins. Í apríl sl. var sett upp sýning ungra finnskra samtímalistamanna, sem nefndist „Púslusving“, með innsetningum, ljósmyndum og vídeóverkum. Sýningin vakti verðskuldaða athygli ekki síst á meðal ungra upprennandi listamanna. Í anddyri hússins mátti sjá verk dönsku listakonunnar Anette Holdensen en hún hefur notað bátsformið sem viðfangsefni og nýtir til þess efnivið af ýmsum toga. Tattóveraðir Álendingar prýddu veggi anddyrisins í marsmánuði en um var að ræða heimildarljósmyndir frá Þjóðminjasafni Álandseyja um hina lifandi alþýðulist, húðflúrið. Til að heiðra minningu Halldórs Laxness var opnuð sýning á afmælisdegi hans 23. apríl á teikningum sænsku listakonunnar Siri Derkerts við smásöguna Ungfrúna góðu og húsið.
    Boðið var upp á þrenna tónleika á vormisseri. Í samstarfi við Vetrarhátíðina í Reykjavík var boðið upp á slagverkstónleika með sænska slagverksleikaranum Jonas Larsson þar sem hann flutti m.a. verk eftir Áskel Másson.
    Þremenningarnir sem mynda GRISFO tríóið, Edvard Nyholm Debess (Fær), Jim Milne (USA/GR) ásamt Sigurði Flosasyni, héldu jazztónleika í mars sl. og mun þetta vera í fyrsta sinn sem tónlistarsamvinna þessara þriggja landa fæðir af sér jasstríó. Norska þjóðlagasöngkonan Sigrid Randers-Pehrson hélt síðan tónleika í tengslum við menningardagskrána frá Vesturáli.
    Fulltrúar „Norðurlandanna í fókus“ og norrænu upplýsingaskrifstofanna héldu sinn árlega fund í Reykjavík í apríl sl. í tengslum við þemaráðstefnu Norðurlandaráðs um lýðræði. Meðal dagskrárliða var fyrirlestur Ole Norrbacks, sendiherra Finnlands í Ósló, um réttindi Norðurlandabúa. Fyrirlesturinn var opinn almenningi.
    Í maímánuði var haldið málþing um menningarstefnu á Norðurlöndum í samstarfi við Bandalag íslenskra listamanna og Stofnun Sigurðar Nordals. Meðal fyrirlesara var danski menningarfræðingurinn Peter Duelund.
    Ýmislegt var í boði fyrir yngri kynslóðina en auk hefðbundinna kvikmyndasýninga var opnuð alþjóðleg vefsíða fyrir börn sem hlotið hefur nafnið „Sagnaarfur Evrópu“ (www.europeoftales.net) og er samstarfsverkefni fimm Evrópulanda. Á vefnum er að finna fræðandi og skemmtilegar sögur sem tilheyra sagnaarfi Íslendinga, Finna, íbúa Bretagneskaga, Skota og Ítala. Framlag Íslands er Eddukvæðið Þrymskviða sem miðlað er með texta, teiknimyndum, ljósmyndum og leik íslenskra leikara. Vefurinn er á átta mismunandi tungumálum og er einkum ætlaður til kennslu í efri bekkjum grunnskóla. Íslenski hlutinn er samstarfsverkefni Norræna hússins, Háskóla Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar, Kennaraháskóla Íslands og Þjóðminjasafns Íslands.
    Í febrúar sl. var 10–16 ára börnum boðið að taka þátt í teiknimyndaverkstæði og var afraksturinn sýndur á kvikmyndatjaldi Norræna hússins og einnig var fjallað um það í Stundinni okkar.
    Kennsluráðgjafinn í Norræna húsinu bauð að venju upp á fjölbreytta dagskrá fyrir kennara og nemendur sem ætlað er að auka þekkingu íslenskra skólabarna á norrænum tungumálum og menningu. Kennsluráðgjafinn skipulagði jafnframt menningarkvöld fyrir menntaskólanemendur í samstarfi við norrænu sendikennarana.
    Matar- og tónlistarmenning var fyrirferðarmikil í sumar. Sýningin „LiST með LyST – Yndi fyrir augað og borðið“ vakti verðskuldaða athygli. Um var að ræða verk allt frá 16. öld til okkar tíma, sem bera vitni um mat og máltíðir að fornu og nýju, og eru í eigu Nationalmuseet og Moderna Museet í Svíþjóð. Camerarctica hélt þrenna sumartónleika á norrænum nótum í júní sl. en kammertónlistarhópurinn á tíu ára afmæli í ár. Danska parið DuoDenum flutti frumsamda nútímatónlist fyrir saxafón og slagverk í lok júní og hinir ungu og upprennandi tónlistarmenn Nikolaj Wolf (DAN), Karoline Skriver (DAN) og Grímur Helgason (ÍSL), sem mynda tríóið MARR, héldu tónleika í lok ágúst sl.
    Í sumar var einnig boðið upp á fyrirlestra um íslenska sögu, tungu og menningu í tengslum við námskeið í íslensku og íslenskri menningu sem er orðinn fastur liður í dagskrá hússins. Sænski rúnasérfræðingurinn Marit Åhlen hélt fyrirlestur um konur á víkingatímum, eins og þeim bregður fyrir í textum rúnasteinanna.
    Auk þess að skipuleggja íslenskunámskeið bauð kennsluráðgjafinn níu og tíu ára börnum upp á vikunámskeið í dönsku þar sem hlustun, tal og lestur er þjálfaður með hjálp spila, leikja og tónlistar.
    Framlag Norræna hússins til Menningarnætur Reykjavíkur var listaverkstæði fyrir börn. Dansk-bangladesski listamaðurinn Ra Kajol hefur þróað listrænt konsept sem hann kallar umferðarlist, litskrúðug listaverk sem gjarnan eru máluð á opinber svæði, götur, húsveggi o.s.frv. Hann fékk fjölda barna og unglinga til liðs við sig til að mála litríkar myndir á bílastæðið framan við Norræna húsið. Verkinu lauk síðan á menningarnótt en haldið var upp á það með gjörningi og magadansi.
    Listaverkstæðið var eitt af mörgum verkefnum „Norðurlandanna í fókus“ sem er tilraunaverkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar í höfuðborgunum, Reykjavík, Kaupmannahöfn, Ósló, Stokkhólmi og Helsinki. Verkefnið mun halda áfram á næsta ári en síðan verður tekin ákvörðun um hvort það er komið til að vera eður ei. „Norðurlöndin í fókus“ hafa í ár lagt mikla áherslu á innbyrðis samstarf. NIF skrifstofurnar fengu myndarlegan styrk til að framkvæma samstarfsverkefnið „Norrænt lýðræði í brennidepli“, þar sem 23 norrænum framhaldsskólanemum var boðið í námsferð um lýðræði til Óslóar, Stokkhólms og Helsinki í lok október sl. Hópurinn heimsótti þingin, ýmsar stofnanir og fjölmiðla sem eiga að standa vörð um lýðræðið, hlustuðu á fyrirlestra og tóku þátt í umræðum. Hluti hópsins myndaði ritstjórn í Helsinki og birti fréttir, greinar og viðtöl í greina- og myndaformi á vefnum www.odin.dk undir stjórn verkefnisstjóra. Eftir heimkomuna miðluðu nemendurnir af reynslu sinni til annarra framhaldsskólanema með ýmsum hætti.
    Í haust voru norrænu barnakvikmyndirnar á sínum stað en jafnframt var boðið upp á norræna tónleikaröð fyrir börn sem hlaut nafnið „Töfratónar“. Meðlimir úr Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar riðu á vaðið með verkinu „Ferðin til skýjanna“ þar sem sagan af Stellu og afa hennar var sögð í leik og tónum. Frá Ríkistónleikunum í Noregi komu tónlistarmennirnir Raymond og Kossa sem ættaðir eru frá Vestur-Afríku og heilluðu börn og unglinga með kraftmiklum söng og trumbuslætti. Að síðustu var börnum boðið að kynnast töfrum óperunnar sem liðsmenn danska tónlistarleikhússins Undergrunden miðluðu til þeirra í brúðuleikhúsverkinu „Hans og Grétu“.
    Á síðasta degi ágústmánaðar opnaði sýningin „CLOCKWISE“ þar sem sýnd voru verk níu norrænna samtímalistamanna sem starfa á ólíkum vettvangi með innsetningar, ljósmyndir, teikningar og myndbönd en eiga það sameiginlegt að velta fyrir sér hnattvæðingunni og afleiðingum hennar.
    Farandsýningin „Veiðimenn í útnorðri“ sem er samstarfsverkefni Norræna hússins, Norðurlandahússins í Færeyjum og NAPA, Norrænu stofnunarinnar á Grænlandi, var opnuð í nóvember sl. og er ætlað að lýsa veiðimannamenningu þjóðanna þriggja. Færeyski listamaðurinn Edward Fuglø á heiður af hönnun sýningarinnar. Sýningin, sem unnin var að frumkvæði Vestnorræna ráðsins, hefur vakið mikla athygli hvarvetna og á eflaust eftir að ferðast víða.     
    Í haust var haldin alþjóðleg ráðstefna um Tolkien, Laxness og Undset í samstarfi við Stofnun Sigurðar Nordals með mörgum merkum fyrirlesurum, bæði íslenskum og erlendum, á sviði bókmenntanna. Haldnir voru fyrirlestrar af ýmsu tagi; sænski prófessorinn Sture Allen hélt fyrirlestur um bókmenntaverðlaun Nóbels og Knud Enggaard, fyrrverandi orkumálaráðherra Danmerkur og ritstjóri afmælisrits Norðurlandaráðs, hélt fyrirlestur í tengslum við útgáfuna. Haldið var námskeið í norrænum gagndönsum í samstarfi við Íslenska dansfræðafélagið en norrænu dansnámskeiðin hafa jafnan verið vinsæl og vel sótt. Í tilefni norrænu bókasafnavikunnar voru haldnir mjög óhefðbundnir tónleikar en þar kom fram norski hópurinn AKKU sem hefur vakið athygli fyrir að líkja eftir manna- og dýrahljóðum í tónlistarflutningi sínum.
    Bókasafnið hefur haldið uppi reglubundinni starfsemi í ár en þess ber að geta að nýverið var samþykkt tillaga í Riksdagen í Svíþjóð að norrænu húsin skyldu fá sænskar bækur endurgjaldsfrítt og njóta þar með sömu fríðinda og sænsku almenningsbókasöfnin en þetta mun taka gildi um næstu áramót. Það hefur einnig komið safninu mjög vel að aðflutningsgjöld af bókum lækkuðu úr 24,5% í 14% um mitt ár, enda eru nánast allar bækur, sem keyptar eru til safnsins, frá Norðurlöndum.
    Bæði bókasafnið og upplýsingafulltrúi hússins veita almenna upplýsingaþjónustu um ýmislegt sem viðkemur Norðurlöndum og íbúum þeirra. Til hússins berast ýmiss konar fyrirspurnir og beiðnir sem reynt er að sinna eftir fremsta megni. Hluti af miðlum „Norðurlandanna í fókus“ er ætlað til að styrkja þennan þátt í starfseminni. Á heimasíðu Norræna hússins er að finna ýmsar nytsamlegar upplýsingar og tengla er varða norræn málefni og þar er jafnframt að finna ítarlegar upplýsingar um dagskrá hússins á hverju misseri.
    Eins og áður hefur komið fram, fer fram gróskumikil starfsemi á vegum kennsluráðgjafans allt árið um kring. Hannað hefur verið sérstakt námsefni fyrir öll skólastig grunnskólans í tengslum við starfsemi Norræna hússins, samstarf, tungu og menningu norrænu þjóðanna. Þess má geta að fjöldi heimsókna skólabarna hefur aukist verulega á síðustu misserum og í desember sl. hefur, svo dæmi sé tekið, verið tekið á móti rúmlega 4000 börnum á dagskrá um norræna jólasiði.
    Kaffistofan fékk styrk frá Norrænu ráðherranefndinni til að endurnýja eldhúsið sem komið var til ára sinna. Þetta var orðið mjög brýnt enda komin krafa frá heilbrigðisyfirvöldum um aðgerðir. Kaffistofan hefur því fengið upplyftingu og gestir og starfsfólk hefur lýst yfir ánægju með breytingarnar.
    Norræna húsið er mjög vinsælt til tónleika- og ráðstefnuhalds enda einstaklega góður hljómburður í salnum. Margir nýta sér einnig 16 manna fundaraðstöðu og semja þá gjarnan við kaffistofuna um veitingar. Viðskiptavinir halda tryggð við húsið en þar má nefna Sagnfræðingafélag Íslands, Kalak, Garðyrkjufélag Íslands, Vísindafélag Íslendinga og Leikskóla Reykjavíkur og eins og á undanförnum árum hafa verið haldnir háskólatónleikar hálfsmánaðarlega á vor- og haustmisseri.
    Norrænu sendikennararnir hafa eftir sem áður skrifstofu- og kennslurými í Norræna húsinu og hefur samstarf þeirra og hússins gengið vel að vanda.

25.2. Norræna eldfjallastöðin (NORDVULK)

    Á árinu rann út þriggja ára rammasamningur milli Norrænu ráðherranefndarinnar og Norrænu eldfjallastöðvarinnar um starfsemi stofnunarinnar. Samningur um óbreytta starfsemi hefur verið framlengdur til ársloka 2003. Rammasamningurinn segir til um umfang reksturs af föstum fjárframlögum. Stofnunin er norrænt öndvegissetur í jarðfræði með áherslu á rannsóknir á eldvirkni og jarðskorpuhreyfingum. Við stofnunina störfuðu átján manns í árslok, þar af tíu Íslendingar. Þar af eru fimm einsárs stöður fyrir unga vísindamenn frá Norðurlöndum sem auglýstar eru árlega. Þjálfun ungra vísindamanna frá öðrum norrænum löndum er einn mikilvægasti þátturinn í starfseminni og grundvöllurinn að norrænni vídd. Heildarfjárveitingar á árinu námu 119 millj. ísl. kr. Þar af var heildarframlag Norrænu ráðherranefndarinnar 83 millj. ísl. kr. og framlag íslenska menntamálaráðuneytisins 17,4 millj. ísl. kr. Styrkir og aðrar tekjur námu 18,6 millj. ísl. kr.
    Árið einkenndist af umræðu um starf og stöðu samnorrænna rannsóknastofnana, en níu stofnanir Norrænu ráðherranefndarinnar eru á sviði menntaog vísindamála. Sérstök úttekt var unnin að frumkvæði embættismannanefndar í mennta- og vísindamálum þar sem fjallað var um hvort ástæða væri til að breyta fjármögnun og stjórnun þessara stofnana. Höfundur úttektarskýrslunnar leggur m.a. til að fjármögnun Norrænu eldfjallastöðvarinnar og annarra sambærilegra stofnana verði í auknum mæli frá þeim löndum sem þær hýsa. Í framhaldi af skýrslunni hefur embættismannanefndin um mennta- og vísindamál ákveðið að kanna hug stjórnvalda til að yfirtaka starfsemi stofnananna a.m.k. að hluta. Áætlað er að fyrri hluti árs 2003 verði nýttur til viðræðna og ákvarðanatöku um málið. Ef af breytingum yrði er áætlað að þær komi til framkvæmda í áföngum árin 2004–2006.
    Rannsóknir á stofnuninni miða að auknum skilningi á myndun og mótun jarðskorpunnar. Mikið er lagt upp úr að rannsóknirnar hafi alþjóðlegt gildi, en flest rannsóknaviðfangsefnin er þó að finna í náttúru Íslands. Þannig hafa núverandi rannsóknir ótvírætt mikið gildi fyrir Íslendinga, þótt stofnunin hafi engar lagalegar skyldur gagnvart íslenska ríkinu umfram önnur Norðurlönd. Lögð hefur verið áhersla á rannsóknir á myndun og tilfærslu bergkviku í jarðskorpunni, ásamt rannsóknum á umhverfisáhrifum eldgosa, eins og kveðið er á um í rammasamningnum um starfsemina. Rannsóknaniðurstöður birtust í fimmtán greinum í alþjóðlegum vísindatímaritum á árinu (sjá www.norvol.hi.is) og unnið var ötullega að kynningu rannsóknaniðurstaðna á innlendum og alþjóðlegum vettvangi. Árið hófst með norrænu vetrarmóti jarðvísindamanna í Reykjavík í janúar sl., en það er ein stærsta alþjóðlega jarðvísindaráðstefna sem haldin hefur verið hér á landi. Jarðfræðafélag Íslands stóð fyrir ráðstefnunni en forstöðumaður Norrænu eldfjallastöðvarinnar var formaður undirbúningsnefndar. Stofnunin stóð þar fyrir öflugri kynningu á rannsóknarniðurstöðum, sem og í árslok þegar stofnunin kynnti rannsóknarniðurstöður á haustráðstefnu Bandaríska jarðeðlisfræðifélagsins, en það er ein stærsta alþjóðlega ráðstefna sem haldin er í jarðvísindum.

Norræn verkefni og samstarf.
    Sex vísindamenn frá öðrum norrænum löndum starfa á Eldfjallastöðinni og norræn samstarfsverkefni snúast að miklu leyti um rannsóknir þeirra. Einn ungur danskur vísindamaður lauk tveggja ára starfi við stofnunina á árinu og hóf störf við háskólann í Álaborg í Danmörku. Nýr starfsmaður frá Noregi var ráðinn í hans stað, og nú starfa tveir Norðmenn, tveir Danir, einn Finni og einn Svíi við stofnunina.
    Eitt af norrænu samstarfsverkefnunum sem nú er unnið að á Eldfjallastöðinni eru rannsóknir á öskulögum í ískjörnum úr Grænlandsjökli. Verkefnið er unnið í samvinnu við Niels Bohr stofnunina í Kaupmannahöfn. Sýni úr nýjasta ískjarnanum frá Grænlandsjökli sem spanna tímabilið fyrir 10–15 þúsundum ára síðan eru nú til athugunar. Leitað er að öskulögum í ískjarnanum og þau notuð til að meta eldgosatíðni við lok ísaldar þegar loftlagsbreytingar á jörðinni voru gríðarlegar. Markmiðið er m.a. að varpa skýrara ljósi á samspil eldvirkni og veðurfars.
    Stofnunin fékk styrk á árinu frá NorFA (Nordisk Forskerutdanningsakademi) til að standa fyrir sumarskóla um umhverfisáhrif stórra eldgosa á norðurhveli jarðar. Sumarskólinn var haldinn í lok ágúst og byrjun september í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands og var sóttur af 25 þátttakendum sem komu flestir frá öðrum norrænum löndum. Norræna eldfjallastöðin hefur staðið fyrir sumarskólum um valin efni í jarðvísindum síðan 1995 og eru þeir mikilvægur liðir í starfsemi stofnunarinnar, vegna þess að þar er stuðlað að menntun stórs hóps ungra vísindamanna frá Norðurlöndum.

Alþjóðleg verkefni og samstarf.
    Í febrúarbyrjun hófst evrópska rannsóknaverkefnið RETINA (Realistic Evaluation of Interaction of Natural Hazards). Verkefnið fjallar um samspil jarðskjálfta, eldgosa og skriðufalla og markmiðið er að skilja betur tengsl mismunandi náttúruvár. Norræna eldfjallastöðin leiðir þann hluta verkefnisins sem unnin er hér á landi, en auk hennar koma Veðurstofan, Raunvísindastofnun Háskólans, Orkustofnun og Almannavarnir ríkisins að verkefninu. Verkefnið fær 116 millj. ísl. kr. styrk frá ESB á árabilinu 2002–2005. Átján stofnanir frá Íslandi, Frakklandi, Portúgal og Bretlandi koma að verkefninu. Hlutur Eldfjallastöðvarinnar árið 2002 nam 6,7 millj. ísl. kr. Þrjú landssvæði í Evrópu verða notuð sem sérstök áherslusvæði, Ísland til að rannsaka tengsl jarðskjálfta og kvikuhreyfinga, Azoreyjar til að rannsaka tengsl eldvirkni og skriðufalla, og Alparnir í SuðurFrakklandi, til að rannsaka tengsl skriðufalla og jarðskjálfta.
    Norræna eldfjallastöðin efldi einnig tengsl við rannsóknahópa í Evrópu á árinu vegna undirbúnings styrkumsókna í sjöttu rannsóknaáætlun ESB. Þannig átti eldfjallastöðin aðild að sex forumsóknum um styrki sem sendar voru inn fyrri hluta ársins. Rannsóknaáætlunin hófst í desember sl. með fyrstu auglýsingu eftir styrkjum úr áætluninni. Endanleg skilgreining fyrri hluta sjöttu rannsóknaáætlunarinnar (2003 og 2004) gefur hins vegar takmarkaða möguleika á styrkjum til eldfjallafræði. Árið 2004 verður þó hægt að sækja til ESB um hefðbundin verkefni tengd eldfjallavá. Norræna eldfjallastöðin tekur þátt í undirbúningi umsókna um stór verkefni og netsamstarf í seinni hluta áætlunarinnar þar sem vonast er eftir að eldfjallarannsóknir verði ofar í forgangsröðinni.
    Á árinu hefur verið unnið að því að efla tengsl við vísindamenn í Bandaríkjunum. Tveir vísindamenn þaðan luku dvöl við stofnunina á árinu, annar hafði dvalið hér á landi með styrk frá Fulbright stofnuninni, og hinn var í eins árs rannsóknarleyfi frá háskóla í Texas. Bandaríska vísindastofnunin, National Science Foundation, hefur lýst yfir áhuga á auknu samstarfi milli bandarískra vísindamanna og Norrænu eldfjallastöðvarinnar.

Íslenskt verkefni og samstarf.
    Stofnunin kemur að margvíslegum mælingum á eldfjöllum Íslands og jarðskjálftasvæðum, sem eru mikilvægur þáttur í heildarrannsóknum á náttúru landsins. Hluti rannsóknanna nýtist sem hlekkur í vöktun eldfjalla, án þess að það sé að jafnaði megintilgangur þeirra. Á undanförnum árum hefur komið til sérstök fjárveiting til verkefna er tengjast vöktun jarðhræringa og eldsumbrotum, en svo var þó ekki á þessu starfsári. Mælingar sem þá voru unnar voru hluti af öðrum verkefnum. Gerðar voru nákvæmar GPS-landmælingar á stórum hluta Suðurlands til að rannsaka breytingar sem nú eiga sér stað eftir jarðskjálftana þar árið 2000. Einnig voru mælingar gerðar á mörgum virkustu eldstöðvum landsins til að meta innstreymi kviku undir þessum fjöllum. Rannsóknir á jarðskorpuhreyfingum eru unnar í náinni samvinnu við Raunvísindastofnun Háskólans og Jarðeðlissvið Veðurstofu Íslands. Niðurstöður sýna landris og þennslu í Grímsvötnum og við Kötlu, sem bendir til þess að þar sé bergkvika að safnast fyrir grunnt í jarðskorpunni.
    Norræna eldfjallastöðin kemur að handleiðslu doktorsnema í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands en tveir fyrstu doktorsnemendurnir eru hluti af rannsóknahópi Norrænu eldfjallastöðvarinnar. Annar þeirra er einn hinna ungu vísindamanna á stofnuninni, hinn er sameiginlegur starfsmaður Raunvísindastofnunar Háskólans og Norrænu eldfjallastöðvarinnar. Báðir nemendurnir vinna verkefni um jarðskorpuhreyfingar á Íslandi þar sem beitt er nýjustu aðferðum, m.a. nákvæmum samanburði á gervitunglamyndum sem sýna hvernig jarðskorpan hreyfist með um 5–10 millimetra nákvæmni.

26. Norrænir sjóðir og peningastofnanir



26.1. Norræni menningarsjóðurinn
    
Norræni menningarsjóðurinn var stofnaður árið 1966 og hlutverk hans er að efla menningarsamstarf norrænu landanna. Sjóðurinn styrkir verkefni af ýmsum toga á sviði rannsókna, menntunar og menningar í víðri merkingu. Fjárveitingar til sjóðsins á árinu námu 26,5 millj. d.kr. og stjórnarfundir á árinu voru fjórir.
    Skrifstofa sjóðsins er í Kaupmannnahöfn og starfsmanna- og fjármál voru í umsjón Skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar í samræmi við samstarfssamning við stjórn sjóðsins.
    Í stjórn sjóðsins hafa verið tveir fulltrúar frá hverju norrænu landanna og einn fulltrúi fyrir sjálfstjórnarsvæðin þrjú. Árið 2003 tekur sú breyting gildi að hvert sjálfstjórnarsvæðanna fær sinn fulltrúa.
    Sjóðurinn úthlutar aðallega styrkjum til verkefna á menningarsviði, sem einstaklingar, samtök og stofnanir geta sótt um. Umsóknarfrestur er tvisvar á ári. Alls bárust sjóðnum 850 umsóknir en af þeim voru 192 óstyrkhæfar af ýmsum ástæðum. Veittir voru styrkir til 239 verkefna. Styrkhæfar umsóknir voru að upphæð u.þ.b. 140 millj. d.kr. en til úthlutunar voru 26 millj. d.kr.
    Á árinu bárust 21 styrkhæf umsókn frá Íslandi. Styrkveitingar til íslenskra verkefna voru 11, að upphæð alls 1,2 millj. d.kr. Hér eru ekki talin með norræn verkefni sem styrkt eru af menningarsjóðnum og fela í sér samstarf við eða heimsókn til Íslands.
    Á árinu átti sjóðurinn samstarf við bæði norrænu svæðisupplýsingaskrifstofurnar sem eru átta talsins og tvíhliða norræna sjóði, sem eru alls 12 talsins. Ein upplýsingaskrifstofanna er staðsett á Akureyri og Ísland á aðild að fjórum tvíhliða sjóðum, þ.e. Sjóðnum fyrir dansktíslenskt samstarf, Danskíslenska sjóðnum, Menningarsjóði Íslands og Finnlands og Sænskíslenska samstarfssjóðnum.
    Í lok ársins lauk rannsóknarverkefninu „Nordisk kulturpolitik under förandring“ sem hefur að megninu til verið fjármagnað af menningarsjóðnum. Gefin var út skýrsla um verkefnið auk fimm skýrslna um afmarkað efni. Í framhaldinu verður haldin röð ráðstefna, alls sex talsins, þar af ein á Íslandi í maí 2003.
    Menningarmálaráðherrar Norðurlanda undirrituðu í apríl sl. breyttar starfsreglur sjóðsins með því markmiði að skýra stöðu sjóðsins sem sjálfstæðs lögaðila. Í framhaldi af því ákvaðu samstarfsráðherrar Norðurlanda breytingar á gildandi samningi um réttarstöðu Norðurlandaráðs og ráðherranefndarskrifstofunnar og sá samningur nær nú einnig yfir skrifstofu Norræna menningarsjóðsins. Breytingarnar verða staðfestar í löndunum á árinu 2003.
    Frekari upplýsingar um norræna menningarsjóðinn er að finna á vefsíðu www.nordiskkulturfond.dk

26.2. Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (NEFCO)
    Árið 2002 var tólfta starfsár Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins (NEFCO). Megintilgangur félagsins skv. stofnsamningi norrænu landanna er að stuðla að umhverfisbótum svo sem bættum mengunarvörnum í löndum Mið- og Austur-Evrópu. Núverandi stofnfé félagsins er 93 millj. ekna. NEFCO tekur þátt í verkefnum með því að leggja fram fjármagn í formi hlutafjár eða lána til fyrirtækja. Þátttaka NEFCO er ákveðin á grundvelli mats á umhverfisáhrifum verkefna og efnahagslegra forsenda þeirra. Almenn skilyrði fyrir þátttöku NEFCO í umhverfisverkefnum er að fyrirtæki eða einstaklingar í því landi þar sem verkefnið er unnið og frá einu norrænu landanna eigi aðild að verkefninu og leggi til þess fjármagn. Hlutdeild NEFCO nemur að jafnaði ekki meiru en 25% af heildarhlutafé eða stofnkostnaði.
    Í árslok hafði stjórn NEFCO samþykkt þátttöku í alls 65 verkefnum með fjármögnun í formi hlutafjár og lána að upphæð 77 millj. ekna en áætluð heildarfjárfesting í þessum verkefnum er um 912 millj. ekna.
    Verkefnin skiptast þannig eftir löndum: Pólland 12, Slóvakía 2, Eistland 11, Lettland 19, Litháen 9, Tékkland 2 og Rússland 10. Aðild norrænna fyrirtækja skiptist þannig eftir löndum: Ísland 2, Danmörk 14, Finnland 13, Noregur 16 og Svíþjóð 20. Verkefnin með íslenskri aðild eru bæði á sviði jarðhitanýtingar í Slóvakíu. Annars vegar er um að ræða ráðgjafarfyrirtæki á því sviði, Slovgeoterm, þar sem íslenska fyrirtækið Virkir-Orkint er eignaraðili, hins vegar orkuveitu á sviði jarðhita, Galantaterm, þar sem Orkuveita Reykjavíkur er meðeigandi auk Slovgeoterm.

Norræni umhverfisþróunarsjóðurinn (NMF).
    Með hliðsjón af því, að allmörg viðfangsefni sem við blasa, einkum austast í Austur- Evrópu, verða ekki leyst við óbreyttar aðstæður með markaðslausnum, var ákveðið að stofna styrktarsjóð við NEFCO og starfrækja hann til reynslu næstu þrjú ár. Árið 1998 var ákveðið að halda starfsemi sjóðsins áfram næstu 5 árin með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hafði af starfsemi sjóðsins. Því þarf að ákveða á árinu 2003 hvort starfseminni verður haldið áfram eftir 2003 með nýju fjármagni. Á starfsárinu námu framlög til sjóðsins 38 millj. d.kr., 26 millj. d.kr. frá norrænu löndunum og 12 millj. d.kr af norrænum fjárlögum. Tilgangur sjóðsins er að styrkja verkefni til umhverfisbóta á sama landsvæði og hefðbundin starfsemi NEFCO, en fyrst og fremst verkefni sem ekki hafa sömu fjárhagslegar forsendur og NEFCO gerir kröfu til. Þátttaka sjóðsins í verkefnum er annars vegar í formi styrkja en hins vegar í formi lána á hagstæðum kjörum. Stjórn NEFCO, sem er einnig stjórn Norræna umhverfisþróunarsjóðsins, hafði í árslok samþykkt þátttöku í 48 verkefnum, sem skiptast þannig eftir löndum: Eistland 7, Lettland 10, Litháen 2, Pólland 1 og Rússland 29.

26.3. Norræni fjárfestingarbankinn (NIB)

Starfsemi og afkoma.

    Afkoma Norræna fjárfestingarbankans hefur verið góð á undanförnum árum og á fyrstu átta mánuðum ársins 2002 var afkoman góð. Hreinar vaxtatekjur námu EUR 100 milljónum, en fyrir sama tímabil í fyrra EUR 98 milljónum. Hagnaður á tímabilinu nam EUR 97 milljónum í samanburði við EUR 83 milljónir á sama tímabili í fyrra. Efnahagsreikningur bankans nam EUR 14,9 milljörðum í lok tímabilsins, í samanburði við EUR 15 milljarða í árslok 2001. Lausafé í lok tímabilsins nam EUR 2.287 milljónum í samanburði við EUR 2.641 milljónir í árslok 2001.
    Á árinu var greiddur arður til eigenda bankans vegna hagnaðar á árinu 2001 sem nemur EUR 39 milljónum.
    Á fyrstu átta mánuðum ársins greiddi NIB út lán eða veitti ábyrgðir að fjárhæð EUR 937 milljónir samanborið við EUR 927 á sama tímabili árið 2001. Útistandandi lán bankans hinn 31. ágúst 2002 námu EUR 9.929 milljónum í samanburði við EUR 10.067 milljónir við árslok 2001.

Orkugeirinn í brennidepli.

    Norrænn iðnaður er fyrirferðarmestur í útlánastarfsemi NIB á Norðurlöndum. Bankinn tók þátt í fjármögnun fyrirtækjakaupa í pappírsiðnaði og verkefna sem fela í sér umhverfisbætur í greininni. Í orkugeiranum fjármagnaði NIB fjárfestingar í finnskum orkuverum sem knúin eru með lífrænum orkugjöfum, vindmyllur í Danmörku og fjárfestingu í raforkuflutningskerfum í Danmörku, Noregi og á Íslandi.
    Fjármögnun innviðaframkvæmda er mjög stór þáttur í útlánastarfseminni utan Norðurlanda. Þar eru fyrirferðamestar fjárfestingar í vegasamgöngum, fjarskiptum og orkumálum. Bankinn hefur lagt sitt lóð á vogarskálarnar til þess að gera orkufyrirtækjum í Eystrasaltsríkjunum kleift að fjárfesta í framleiðslu, flutningi og dreifingu orku. NIB skrifaði undir nýja lánssamninga við orkufyrirtæki Eistlands og Lettlands, sem bæði eru í ríkiseigu. Bankinn er nú stærsti einstaki fjármögnunaraðili orkugeirans í Eystrasaltsríkjunum. Lánið til eistneska orkufyrirtækisins verður nýtt til fjármögnunar endurbóta á orkuveri í Narva ásamt fjárfestingu í raforkuflutningskerfi og dreifingu. Þessar fjárfestingar munu leiða til umtalsverðrar minnkunar á útsleppi brennisteinsmengunar og koltvísýring frá orkuverunum þannig að þau munu uppfylla mengunarkröfur ESB.

Aukin umhverfislán.
    Umhverfislán eru einn af hornsteinum útlána bankans. Í júní sl. samþykkti Norræna ráðherranefndin hækkun á umhverfislánaramma bankans vegna lána til verkefna í nágrenni Norðurlanda úr EUR 100 milljónum í EUR 300 milljónir. Þessi aukning er mikilvæg forsenda þess að bankinn geti tekið af krafti þátt í NDEP (Northern Dimension Environmental Partnership), sem hefur að markmiði að samþætta og efla fjármögnun brýnna umhverfisverkefna m.a. í norðvesturhéruðum Rússlands og Kalíníngrað.
    NIB hafði forystu í NDEP samstarfinu á fyrsta starfsári þess og fram til júlímánaðar á þessu starfsári.

Hágæði útlána- og eignasafns.
    Á tímabilinu tók NIB lán sem samsvöruðu EUR 1.679 milljónum í samanburði við EUR 1.889 milljónum á sama tímabili í fyrra. Japönsk jen, bandarískir dollarar, nýir tævanskir dollarar, Hongkong dollarar og evrur voru mikilvægustu lántökumyntir bankans. Á tímabilinu stóð NIB að lántöku í íslenskum krónum með útgáfu skuldabréfa á íslenska markaðnum. Er þessi útgáfa sú fyrsta sinnar tegundar sem fjölþjóðleg stofnun stendur að í íslenskum krónum.
    Útlána- og eignasafn bankans er í jafnháum gæðaflokki og fyrr. Á tímabilinu lagði NIB í afskriftarsjóð útlána fjárhæð sem samsvarar EUR 1,2 milljónum vegna tveggja lána.
    Góð afkoma NIB fyrstu átta mánuði ársins gefur til kynna að vænta megi hagstæðrar framvindu fyrir árið í heild.
    Reikningsskil NIB eru í samræmi við alþjóðlega reikningsstaðalinn International Accounting Standards (IAS).

NIB á Íslandi.

    Útistandandi lán til íslenskra lántakenda námu ríflega EUR 580 milljónum í lok ársins. Þetta samsvarar nærri 8% af heildarlánveitingum bankans til lántaka á Norðurlöndum.
    Útborguð lán til Íslands námu um EUR 79 milljónum en námu um EUR 76 milljónum árið á undan. Samþykkt ný en óutborguð lán á árinu námu EUR 3 milljónum. Útborguð eða samþykkt voru ný lán til 12 verkefna á árinu. Nær öll verkefni sem NIB lánar til í einkageiranum eru í samstarfi við innlenda banka.
    Flugstöð Leifs Eiríkssonar var veitt lán að upphæð um 2 milljarðar íslenskra króna vegna stækkunar flugstöðvarinnar.
    Sem fyrr voru verkefni á vegum sveitarfélaga fyrirferðarmikil í lánastarfsemi NIB á Íslandi.
    Á árinu var Norðurorku á Akureyri veitt lán að upphæð 300 milljónum króna m.a. til borana á Hjalteyri og Þeistareykjum. Reykjavíkurhöfn var veitt lán að upphæð 1,2 milljarðar króna til uppbyggingar í Sundahöfn. Þá var Orkuveitu Reykjavíkur veitt lán að upphæð 500 milljónir króna vegna Nesjavalla. Loks var Lánasjóði sveitarfélaga veitt lán að upphæð 600 milljónir til endurlána til 22ja sveitarfélaga. Lánað var m.a. til frárennslismála hjá 13 þeirra, þar á meðal Akureyrar, Árborgar, Garðabæjar, Hornafjarðar og Hveragerðis.
    NIB tók þátt í fjármögnun nýrra höfuðstöðva Marels í Garðabæ og lánaði bankinn sem nemur um 280 milljónum íslenskra króna til verkefnisins. Þá var greitt út lán til Skeljungs hf. að upphæð 100 milljónir króna vegna uppbyggingar fyrirtækisins á vetnisstöð í Reykjavík.
    Lán til byggðamála nema um 9% af útlánum bankans til Íslands og á árinu var veitt eins milljarðs króna lán til Byggðastofnunar til endurlána í ýmis verkefni á landsbyggðinni.
    NIB fjármagnaði helming kostnaðar fyrir ný húsakynni Viðskiptaháskólans á Bifröst á árinu eða sem nemur um 100 milljónum íslenskra króna.
    Á árinu hélt NIB fund í Reykjavík um umhverfismál þar sem kynnt var umhverfismat bankans. Tilgangur fundarins var að vekja áhuga íslenskra fjármálastofnana á umhverfismati í lánastarfsemi.

26.4. Norræni verkefnaútflutningssjóðurinn (Nopef)
    Norræni verkefnaútflutningssjóðurinn (Nopef) hefur það að markmiði að efla alþjóðlega samkeppnishæfni norrænna fyrirtækja og stuðla að þátttöku þeirra í verkefnum á alþjóðavettvangi. Sjóðurinn sinnir hlutverki sínu með því að styðja við útflutning fyrirtækja á skilgreindum verkefnum og með stuðningi við fyrirtæki sem vilja koma á fót starfsemi erlendis. Þau verkefni sem sjóðurinn kemur að verða að liggja utan EFTA- og EU-landanna.
    Stuðningur sjóðsins felst m.a. í þátttöku í kostnaði við for- og hagkvæmniathuganir, gerð viðskiptaáætlana, lögfræðiaðstoð, samningagerð m.m. Lán til alþjóðavæðingar geta numið allt að 40% af viðurkenndum kostnaði og er hægt að fara fram á að láninu verði breytt í styrk liggi fyrir skýrsla um árangur verkefnisins og samþykkt kostnaðaruppgjör. Í þeim tilfellum þar sem alþjóðavæðingunni er hrundið í framkvæmd er hægt að sækja um viðbótarstyrk upp á 20% af undirbúningskostnaðinum. Lán vegna verkefnaútflutnings eru 50% af samþykktum kostnaði og greiðast til baka verði af sölu verkefnisins og eru 84 lánin vaxtalaus. Misheppnist verkefnið er hægt að sækja um niðurfellingu á láninu og breytist það þá í styrk.
    Sjóðurinn leggur áherslu á samstarfsverkefni norrænna og baltneskra fyrirtækja sem stuðla að alþjóðavæðingu í Eystrasaltsríkjunum: Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Svipuð tilhögun gildir gagnvart grannsvæðum í Norðvestur-Rússlandi.

    Helstu forsendur fyrir stuðningi Nopefs eru:
          Verkefnið verður að vera vel skilgreint og byggt á viðskiptalegum grunni.
          Verkefnið verður að tengjast löndum utan ESB og EFTA.
          Norrænir hagsmunir þurfa að liggja að baki verkefninu.
          Raunhæf fjárhagsáætlun vegna verkefnisins þarf að liggja fyrir.

    Stjórn sjóðsins er skipuð fimm fulltrúum, einum frá hverju norrænu landanna. Nopef, sem sett var á stofn árið 1982, er systurstofnun Norræna fjárfestingarbankans (NIB), Norræna þróunarsjóðsins (NDF) og Norræna umhverfisfjármögnunarfélagins (NEFCO). Þessar stofnanir eru allar með aðsetur í Helsinki í Finnlandi. Upplýsingar um starfsemi sjóðsins er að vinna á vefsíðu hans, www.nopef.com.
    Stjórnin hélt fjóra fundi á árinu eins og venjulega. Á milli stjórnarfunda voru haldnir tólf verkefnafundir á árinu. Á verkefnafundum taka starfsmenn, framkvæmdastjóri og formaður stjórnar fyrir þær umsóknir sem borist hafa og afgreiða þær í samræmi við þær heimildir sem sjóðsstjórnin hefur samþykkt. Niðurstaðan er síðan formlega staðfest af stjórn Nopef á næsta stjórnarfundi. Vinnureglan er hugsuð til að bæta þjónustu sjóðsins við viðskiptavinina.

Verkefni.
    Nopef bárust 269 umsóknir á árinu en þær voru 235 árið 2001. Samþykktar umsóknir voru samtals 165 (141 árið 2001). Fjórar íslenskar umsóknir voru samþykktar á árinu en tvær árið 2001. Verkefnin sem samþykkt voru hjá Nopef í ár fara fram í Rússlandi (33), Litháen (30), Eistlandi (17), Lettlandi (11), Kína (12), Póllandi (16), Úkraínu (14), Baltikum (12), Austur- Evrópu (9) og 11 verkefni voru í öðrum löndum.

    Hlutfallsleg skipting verkefna sjóðsins milli aðildarlanda hans hefur verið sem hér segir:

    Árið 2002     1998–2002

    Danmörk     36,0%     35,5%
    Finnland     21,0%     21,5%
    Ísland     3,0%     2,0%
    Noregur     17,0%     17,0%
    Svíþjóð     23,0%     24,0%

    Á árinu lagði Ísland fram 1,1% af heildarframlagi til Nopef. Á sama tíma var framlag Nopef til íslenskra verkefna um 4% af heildarfjárframlagi til verkefna á vegum Nopef.
    Á árinu var gert sérstakt átak í því að koma Nopef á framfæri við íslensk fyrirtæki. Átakið var gert í samráði við Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins (VUR). Tveir kynningarfundir voru haldnir í Reykjavík og einn á Akureyri og í tengslum við þá gátu fulltrúar íslenskra fyrirtækja átt einkafundi með fulltrúum Nopef. Kynningarátak þetta skilaði sér í fleiri umsóknum en áður. Ætlunin að formleg kynning á Nopef hér á landi verði árleg héðan í frá.

26.5. Norræni iðnaðarsjóðurinn (NI)
    Norræni iðnaðarsjóðurinn (Nordisk Industrifond – senter for innovation og næringsutvikling > www.nordicinnovation.net) hefur tekið allmiklum breytingum hin síðari ár. Hlutverk hans sem hefðbundins iðnaðarsjóðs hefur farið minnkandi í réttu hlutfalli við minna ráðstöfunarfé. Hann hefur á móti fengið mun meira hlutverk við að koma hinum atvinnupólitísku áherslum ráðherranna í framkvæmd, t.d. með beinni þátttöku í verkefnum og með því að veita nefndum á vegum ráðherranna faglega þjónustu. Norræni iðnaðarsjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki við að hrinda í framkvæmd samstarfsáætlun norrænu iðnaðarráðherrana „Nordiskt Näringspolitiskt samarbetsprogram 2002–2005“.
    Fjárveitingar til einstakra rannsókna- og nýsköpunarverkefna hafa minnkað en aukin áhersla verið lögð á að styrkja rannsókna- og nýsköpunarsamstarf þjóðanna, samstarf lítilla og meðalstórra fyrirtækja og rannsóknastofnana. Sjóðurinn tekur þátt í fjármögnun verkefna sem eru til þess fallin að efla mannauð þjóðanna og sem stuðla að uppbyggingu nýrra fyrirtækja sem tengjast þekkingariðnaði. Sérstök áhersla er lögð á miðlun þekkingar og að niðurstöður allra verkefna sem sjóðurinn kemur að fái sem víðtækasta útbreiðslu meðal þeirra sem hag kunna að hafa af þeim.
    Norræni iðnaðarsjóðurinn hefur unnið að verkefnum sem eru til þess fallin að afmá hindranir á landamærum norrænu ríkjanna. Iðnaðarsjóðurinn stóð fyrir úttekt á fyrirtækjum sem mynda samstæða klasa („Kartlägging av kluster och rekommendasjoner som kan stödja gränsoverskridande klustersamarbete i Norden“). Á grundvelli þessarar skýrslu er unnið að því að koma á nánara samstarfi milli fyrirtækjaklasa á Norðurlöndum. Þar á meðal er samstarf fyrirtækja á sviði heilbrigðistækni sem fer fram að frumkvæði og undir forystu Íslands. Verkefnið nefnist „Kartlägging av kluster inom hälso- och bioteknologisektorn“. Einnig er unnið að verkefni í líftækni með Eystrasaltsríkjunum („Scan-Balt in Biotechnology“).
    Iðnaðarsjóðurinn hefur markvisst sinnt verkefnum er tengjast nauðsynlegum umbreytingum fyrirtækja að breyttum þjóðfélags- og markaðsaðstæðum. Eitt mikilvægasta verkefnið á þessu sviði nefnist Nordika þar sem unnið er að þróun viðmiða til að meta þekkingarverðmæti og mannauð fyrirtækja. Nordika verkefnið hófst á árinu 1999 og lauk á árinu. Það hefur verið unnið í nánu samstafi við OECD og eru bundnar vonir við að niðurstöður verkefnisins geti orðið upphaf að samræmdum bókhaldsviðmiðum til að meta óhlutbundin verðmæti fyrirtækja, en stór hluti verðmæta í t.d. hugbúnaðarfyritækjum er óhlutbundinn.
    Samstarfið við Eystrasaltsríkin og Norðvestur-Rússland hefur heldur farið vaxandi á síðustu árum. Enn sem komið er virðist ávinningur norrænu ríkjanna ekki vera mikill. Gerðar hafa verið tvær kannanir á samstarfsmöguleikum tæknigarða og frumkvöðlasetra, „Internationalisation in Nordic and Baltic Science Parks“ og „Recommendations for Nordic Industrial Fund for the development of Baltic and Northwest-Russian Technology Centers“. Þessar skýrslur liggja til grundvallar mats á frekara samstarfi Norræna iðnaðarsjóðsins og iðnaðarráðherranna við þessi nágrannasvæði í austri.
    Sjóðurinn leggur mikla áherslu á hvers konar stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki og hefur sérstaka verkefnisstjórn til að sinna þeim (SMB-forum). Markmið þess er að vera vettvangur samstarfsverkefna lítilla og vaxandi fyrirtækja er starfa á framsæknum tæknisviðum. „SMB-forum“ hefur reynst mjög hentugur vettvangur fyrir íslensk fyrirtæki, enda eru þau almennt minni en fyrirtæki annars staðar á Norðurlöndum. Lögð er áhersla á að styrkja starfsemi frumkvöðla, miðla tækniþekkingu til lítilla fyrirtækja sem ekki hafa getu til að stunda eigin rannsóknir og að hvetja til nýsköpunarverkefna í starfandi fyrirtækjum.
    Norræni iðnaðarsjóðurinn hefur náið samstarf við ráðherranefndina (Nordisk Ministerråd – MR-Näring) og annast framkvæmd verkefna fyrir hönd þess og í samstarfi við embættismannanefndina (ÄK-Näring). Meðal þessara verkefna má nefna þátttöku og skipulagningu sýningar um sjálfbæra þróun í atvinnulífinu í tengslum við heimsráðstefnuna um sjálfbæra þróun („World Summit for Sustainable Development“) í Jóhannesarborg í Suður-Afríku í ágúst og september sl.
    Alþjóðleg ráðstefna um sprotafyrirtæki og frumkvöðla („Små innovative foretak og entreprenørskap i Norden“) sem haldin var í Ósló í október sl. er annað dæmi um þetta samstarf. Við skipulagningu ráðstefnunnar og val á fyrirlesurum var tekið mið af áherslum ráðherranna og nýju stefnumótandi skjali um sprotafyrirtæki, frumkvöðla og uppfinningamenn („Nordisk Charter for små innovative virksomheder, iværksættere og selvstændige opfindere“) sem unnið var að frumkvæði Evrópunefndar Norðurlandaráðs.
    Hugmyndir hafa komið fram um nánara samstarf og jafnvel sameiningu stofnana Norrænu ráðherranefndarinnar í þeim tilgangi að ná fram hagræðingu í rekstri og meiri faglegum árangri. Norræni iðnaðarsjóðurinn hefur sýnt þessum hugmyndum áhuga enda eru þær í anda þeirra verkefna sem sjóðurinn vinnur að til hagsbóta fyrir atvinnulífið.

26.6. Norræni þróunarsjóðurinn (NDF)
    Norræni þróunarsjóðurinn (NDF) tók formlega til starfa árið 1989 og er í eigu norrænu landanna fimm, Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar. NDF hefur aðsetur við hlið Norræna fjárfestingarbankans (NIB) í Helsinki og nýtur samrekstrar með honum og öðrum norrænum stofnunum í Helsinki að mörgu leyti.
    Markmið NDF er að styrkja efnahagslegar og félagslegar framfarir í fátækustu þróunarríkjunum í samvinnu við aðrar lánastofnanir. Lánakjörin eru með þeim bestu sem þekkjast: lán eru til 40 ára, afborganalaus fyrstu 10 árin, vaxtalaus, en bera 0,75% þjónustugjald á ári fyrir þann hluta láns, sem er útgreiddur, og 0,5% staðfestingargjald fyrir þann hluta láns, sem ekki hefur verið greiddur. Lánin eru að öðru jöfnu veitt til ríkissjóða viðkomandi landa en til afmarkaðra vekefna í samstarfi við aðrar alþjóðlegar lánastofnanir. Helstu samstarfsaðilar NDF eru Alþjóðabankinn í Washington, þróunarbankarnir í Ameríku (IADB), Asíu (AsDB) og Afríku (AfDB), auk tvíhliða þróunarstofnana á Norðurlöndum, þar á meðal Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ).
    Stofnfé sjóðsins, sem greiðist samkvæmt norræna deililyklinum, er 515 milljón SDR og 330 milljón EUR, eða alls um 1 milljarður EUR (um 85 milljarðar ísl. kr.). NDF tók Evruna (EUR) sem mynteiningu 1. janúar 2001. Á árinu undirritaði NDF 9 lánasamninga að fjárhæð 60 milljón EUR (um 5,1 milljarðar ísl. kr.). Frá stofnun hefur sjóðurinn þar með veitt lán að fjárhæð 773 milljón EUR (um 66 milljarðar ísl. kr.) til 156 verkefna í 33 þróunarlöndum. Um 45% lánsfjárins hefur farið til landa í Afríku, 36% til Asíu og 14% til Rómönsku Ameríku.
    Alþjóðastofnanir flokka þróunarlöndin eftir vergri þjóðarframleiðslu á íbúa og er yfirleitt miðað við Bandaríkjadali (USD) á ári. Um 43% lána NDF hafa farið til fátækustu landanna (LLDC, <380 USD/ári), 43% til lágtekjulanda (LIC, <760 USD/ári), og 14% til lægri meðaltekjulanda (LMC, 761-3030 USD/ári). Þjóðarhagur hefur sem betur fer batnað í allmörgum lántökulöndum NDF frá fyrstu árum sjóðsins og hafa þau ekki lengur möguleika á að taka lán hjá sjóðnum. Árið 2001 samþykkti stjórn sjóðsins að takmarka lán sjóðsins næstu árin við um tuttugu samstarfslönd. Áður var miðað við um 30 samstarfslönd.
    Stærstu lántakendur sjóðsins eru Senegal, Mósambík, Úganda, Ghana, Malaví, Laos, Nepal, Bólivía og Níkaragúa. NDF tekur fullan þátt í að létta lánabyrðir skuldsettustu lántökulanda sinna í samræmi við ramma og reglur sem alþjóðlegar lánastofnanir setja til aðstoðar fátækustu ríkjum heims. Sjóðurinn hefur þegar tekið á sig slíkar skuldbindingar vegna Bólivíu, Eþíópíu, Ghana, Malaví, Mósambík, Níkaragúa, Senegal, Tansaníu og Úganda. Heildarkostnaður sjóðsins vegna skuldbindinganna er áætlaður 24,5 milljón EUR (rúmlega 2 milljarðar króna).
    Norræna ráðherranefndin breytti samþykktum NDF árið 2001 þannig að nú getur sjóðurinn veitt áhættulán til einkafyrirtækja í lántökulöndum sínum án ríkisábyrgðar. Slík lán verða þó aðeins lítill hluti heildarlána sjóðsins á hverju ári. Áhættulánin verða veitt á þrenna vegu: (a) beint til fjárfestingarverkefna; (b) með lánaramma í samstarfi við þróunarbanka; (c) með eignaraðild að áhættulánasjóðum í viðkomandi löndum. Þessi lán munu væntanlega auka möguleika íslenskra útrásarfyrirtækja til samstarfs við fyrirtæki í þróunarlöndunum. NDF starfar með norrænu áhættulánasjóðunum, þar á meðal Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, en einnig með áhættulánasjóðum alþjóðlegu þróunarbankanna. NDF hefur nýlega hafið samstarf við áhættulánasjóði í Afríku (African Infrastructure Fund og Development Bank of South Africa), í Asíu (Mekong Enterprise Fund, sem starfar í Víetnam, Laos og Kambódíu), og í Mið-Ameríku (Central American Small Enterprise Investment Fund).
    Frá stofnun sjóðsins hafa sjö lán verið undirrituð þar sem íslensk fyrirtæki eiga beinna hagsmuna að gæta. Þar á meðal eru fimm fiskveiðiverkefni (í Malaví, Mósambík, Namibíu, Grænhöfðaeyjum og Úganda). Fiskveiðiverkefnin á Grænhöfðaeyjum, í Malaví og Mósambík voru í samvinnu við ÞSSÍ. Heildarlán til verkefna með beinum íslenskum hagsmunum eru u.þ.b. 17 milljón SDR (tæpir 2 milljarðar ísl. kr.). Íslensk fyrirtæki hafa unnið samninga sem nema um 1,2% af heildarfjárhæð samninga við norræn fyrirtæki sem sjóðurinn hefur fjármagnað frá stofnun. Hlutdeild Íslands í fjármögnun sjóðsins er aðeins lægri (1,1%). Auk þess hefur sjóðurinn í nokkrum tilvikum keypt íslenska sérfræðiþjónustu til verkefnaundirbúnings og eftirlits.
    Í stjórn NDF sitja fulltrúar Norðurlandanna fimm. Fulltrúi Íslands er stjórnarformaður 1. maí 2002 til 30. apríl 2003. Starfsmenn sjóðsins eru 15, þar á meðal tveir Íslendingar.

26.7. Lánasjóður Vestur-Norðurlanda


Útlán.
    Lánasjóður Vestur-Norðurlanda hefur á árinu greitt út átta lán, tvö til Færeyja og sex til Grænlands.

Rekstur.

    Samkvæmt ársreikningum var eigið fé sjóðsins um áramót 2001/2002 119,2 MDKK og á sama tíma námu útlán samtals 73,1 MDKK.
    Breytingar á samþykktum er tóku gildi um áramótin 1997/98 kveða svo á um að Lánasjóður Vestur-Norðurlanda skuli styrkja NORA um allt að 1,5 MDKK á ári.

Stjórn.

    Stjórn Lánasjóðs Vestur-Norðurlanda skipa sjö menn, einn frá hverju aðildarlandi, og hefur hver þeirra einn varamann. Stjórnarmaður og varamaður hvers aðildarlands eru skipaðir af ríkisstjórn þess.
    Nánari upplýsingar má finna á slóð: www.vestnorden.is


II. MEGINÞÆTTIR NORRÆNU FJÁRLAGANNA 2003



    Fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2003 tengja þau samstarfsverkefni sem nú er unnið að við framkvæmd nýrra forgangsverkefna. Þannig er áhersla lögð á að tengja verkefni sem ráðist var í vegna formennsku Norðmanna árið 2002 við fyrirhuguð verkefni formennsku Svía árið 2003. Segja má því að reynt sé að skapa samfellu milli markmiða til lengri tíma og daglegs samstarfs norrænu landanna. Endurskoðun fjárlagagerðarinnar með það að markmiði að gera þau að pólitísku stjórnunartæki gengur samkvæmt áætlun en þar eru lykilhugtökin gagnsæi og sveigjanleiki höfð að leiðarljósi. Framkvæmd þessara breytinga á fjárlagaferlinu er tímafrek. Til að auka gæði og samræmi milli yfirgrípandi þverfaglegra markmiða og framkvæmdaáætlana fagráðherranefndanna og þess sem efst er á baugi á hverjum tíma, þurfa bæði ráðherranefndir og embættismannanefndir að taka virkari þátt í fjárlagaferlinu en áður. Jafnframt er haft samráð við Norðurlandaráð um grundvallarforsendur og fjárlagarammann fyrr í ferlinu en áður hefur tíðkast.
    Á grundvelli skýrslunnar „Ný norræn dagskrá – Ný stefnumótun“ frá árinu 2001 veitir Norræna ráðherranefndin fimm samstarfssviðum forgang næstu ár.
    Þau eru:
          Tækniþróun, sérstaklega hvað varðar upplýsingasamfélagið og rannsóknasvið þar sem Norðurlöndin skara fram úr.
          Velferðarkerfi, þar með talin réttindi íbúa Norðurlanda og möguleikar þeirra til að búa, starfa og stunda nám í norrænu nágrannaríki, ásamt málefnum sem tengjast lýðþróun og fólksflutningum.
          Innri markaður á Norðurlöndum, að meðtöldu samstarfi sem beinist að afnámi landamærahindrana.
          Samstarf við nágrannalönd og -svæði.
          Umhverfismál og sjálfbær þróun.

    Þessar áherslur endurspegla áhrif hnattvæðingarinnar í átt að nánara samstarfi, bæði norrænu landanna á milli og alþjóðlega. Þó margt sé sameiginlegt með norrænu löndunum fimm er margt sem skilur þau að. Þörfin á norrænu samstarfi hvílir ekki síður á því en hinu sem þau eiga sameiginlegt. Evrópskt samstarf innan ramma ESB mun jafnframt í auknum mæli hafa áhrif á norrænt samstarf. Fyrirhuguð aðild Eystrasaltsríkjanna og ríkja Austur-Evrópu að ESB er mikilvægur þáttur sem Norræna ráðherranefndin nálgast með nýrri stefnumótun í grannsvæðamálum eins og kemur fram í skýrslunni „Nær Norðurlöndum” (Närmare Norden). Samfara því að þrjú norræn lönd hafa farið með formennsku í ESB hefur aukin athygli beinst að innbyrðis samstarfi norrænu landanna og möguleikum þeirra á að gæta sameiginlegra hagsmuna, bæði í evrópsku og hnattrænu tilliti. Forsætisráðherrar Norðurlanda hafa því ákveðið að hafa reglubundið samráð í tengslum við það samstarf sem fer fram innan vébanda ESB. Þó nokkrar fagráðherranefndir hafa þegar þróað svipað fyrirkomulag.
    Norrænt samstarf tekur til margra sviða og endurspeglast það í fjárlögum Norrænu ráðherranefndarinnar. Með ráðstöfunarfé ráðherranefndarinnar er unnt að marka stefnu samstarfsins til framtíðar. Markvisst norrænt samstarf er ekki síður hagkvæmt fyrir Norðurlönd en fyrir ESB með auknum fjölda ríkja.
    Í starfsáætlun ráðherranefndarinnar fyrir starfsárið 2003 er fjallað um hvert ofangreindra fimm samstarfssviða og forgangsröðun markmiða og viðfangsefna ásamt dæmum um verkefni á hverju sviði. Auk þess verður lögð áhersla á eftirgreinda þrjá málaflokka:
          Starf að málefnum barna og unglinga.
          Norrænt samstarf um málefni frjálsra félagasamtaka.
          Kynja- og jafnréttissjónarmið.

Fjárlög fyrir 2003
    Í fjárlögum fyrir árið 2003 er fjárhagsramminn, 811,263 millj. d.kr. að teknu tilliti til verðlagsþróunar og gjaldeyrisbreytinga, óbreyttur frá síðasta ári. Á greiðslugrunni eru fjárlögin 801,263 millj. d.kr., sem er 10 millj. d.kr. lægra en fjárhagsramminn. Ráðherranefndin á þannig kröfu á hendur löndunum sem þeirri upphæð nemur.
    Fjárlög ráðherranefndarinnar byggja á „nettóreglu” á þann veg að þau taka einungis til þess hluta starfsemi stofnana og annarrar starfsemi sem ráðherranefndin fjármagnar. Stofnanir og önnur starfsemi geta með annarri fjáröflun aukið umsvif starfsemi sinnar en það kemur ekki fram á fjárlögum Norrænu ráðherranefndarinnar.
    Í þeim áherslum sem koma fram í fjárlögunum er tekið mið af tilmælum Norðurlandaráðs, áherslum í „Nýrri norrænni dagskrá”, ásamt þeirri forgangsröðun sem formennskuáætlanir landanna hafa í för með sér.
    Nýr fjárlagaliður sem stofnaður var á fjárlögum fyrir árið 2002, ráðstöfunarfé ráðherranefndarinnar (strategiske initiativer) sem áður var varasjóður ráðherranefndarinnar, er áfram á fjárlögum fyrir 2003. Ráðstöfunarfé ráðherranefndarinnar er hugsað til einstakra aðgerða fremur en langtímaverkefna. Ef veitt er fé af þeim lið til langtímaverkefna skal í upphafi fjallað um hvernig staðið skuli að framtíðarfjármögnun.
    Að beiðni samstarfsráðherranna gerði framkvæmdastjórn ráðherranefndarskrifstofunnar úttekt á fjárlögum ráðherranefndarinnar eins og fram kemur í skýrslunni „Úttekt á fjárlögum 2000 – Norræn fjárlög“. Tilgangur úttektarinnar var að meta norrænu fjárlögin sem stjórnunartæki og verkfæri í fjárlagaferlinu. Í úttektinni er að finna tillögur sem varða fjárlagaferlið, samnorrænar stofnanir og aðgerðir í því skyni að auka gagnsæi fjárlaganna í tæknilegu tilliti. Tæknilegu tillögurnar komu til framkvæmda við gerð fjárlaga fyrir árið 2002. Til að fylgja úttektinni enn frekar eftir, hafa samstarfsráðherrarnir tekið ákvörðun um nýtt fjárlagaferli fyrir norrænu ráðherranefndina sem fylgt var við gerð fjárlaga fyrir árið 2003.
    Breytingar á fjárlagaferlinu eiga að uppfylla eftirfarandi markmið:
          Þróa samstarf við Norðurlandaráð til að tryggja því möguleika á áhrifum á fjárlagavinnuna.
          Samþætta pólitískar ákvarðanir fagsviðanna að fjárlagaferlinu.
          Efla tengsl stefnumörkunar og framkvæmdaáætlana fagsviðanna við fjárlögin.
          Nýta fjármagnið betur sem tæki til yfirgrípandi forgangsröðunar.
          Auka samhengi milli markmiða/árangurs og fjárveitinga.

    Þetta nýja fjárlagaferli hefur aðallega haft í för með sér markvissari ákvörðun um áherslur fjárlaganna þar sem fjármagnsrammar fagsviðanna eru ákveðnir samtímis áherslunum, aukin þátttaka fagsviðanna í fjárlagavinnunni, nánara samráð við Norðurlandaráð um fjárlögin, ásamt smávægilegum breytingum á uppsetningu miðað við fyrri ár.
    Í því skyni að auka sýnileika og gefa til kynna hvaða svigrúm fyrir nýjar aðgerðir er fyrir hendi, er í fjárlögunum fyrir árið 2003 lagður fram skipulagsrammi til lengri tíma á sama hátt og áður. Þar koma fram þær kröfur sem liggja fyrir um breytingar á forgangsröðun á næstu árum. Skipulagsramminn endurspeglar þær ákvarðanir sem hafa verið teknar og hvaða starfsemi heldur áfram á óbreyttu stigi.
    Í fjárlögunum er einnig sérstakt yfirlit yfir samstarf við frjáls félagasamtök, starf að málefnum barna og unglinga, starf ráðherranefndarinnar að málefnum grannsvæðanna og yfir fjárveitingar til upplýsingamiðlunar um norrænt samstarf. Þetta er gert vegna þeirrar athygli sem beinst hefur að þessum sviðum sökum þverfaglegs eðlis þeirra. Þar að auki er birt yfirlit yfir áætlaða þróun rannsóknarverkefna vegna þess að þau binda verulegan hluta fjárlaganna til lengri tíma.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Vegna verkefna og styrkja sem nema samtals 55% af fjárlögum ráðherranefndarinnar, eru á hverju ári yfirfærðir einhverjir óráðstafaðir fjármunir. Óráðstafaðir fjármunir eru skilgreindir sem fjármunir sem ekki hefur verið ákveðið að verja á tiltekinn hátt. Á árunum 2000–2001 hafa óráðstafaðir fjármunir ráðherranefndarinnar lækkað um 34,5 millj. d.kr., eða 64%.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Skipting fjárlaganna á ýmsa þætti fjárlagaliðanna 2003 og 2002

    Flokkun fjárlagaliðanna í verkefni, styrki, stofnanir og félagasamtök, byggir á þeirri úttekt sem gerð var á fjárlögunum árið 2000. Vakin er athygli á því að margir fjárlagaliðir fela í sér fleiri flokka fjárveitinga og ræður þungvægasti flokkurinn því undir hvaða flokk fjárveitinga fjárlagaliðurinn fellur. Stofnanirnar eru skilgreindar út frá skipulagi þeirra en ekki faglegu inntaki. Því flokkast Norræna vísindaakademían, Norræni iðnaðarsjóðurinn og Norræni verkefnaútflutningssjóðurinn (NOPEF) með stofnununum. Fjárveitingar til skrifstofu ráðherranefndarinnar og upplýsingaskrifstofanna (sem eru hluti skrifstofunnar) í Pétursborg og Eystrasaltsríkjunum eru einnig skilgreindar sem stofnanarekstur en koma fram sem sérstakur flokkur á eftirfarandi myndum. Á yfirlitinu á næstu blaðsíðu er skrifstofa ráðherranefndarinnar hluti af fjárlagaliðnum Skrifstofan og önnur samnorræn starfsemi, en upplýsingaskrifstofurnar aftur á móti hluti af fjárlagaliðnum Umhverfis- og auðlindamál og grannsvæðin, og flokkast með stofnunum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Yfirfærsla og samruni fjárlagaliða
    Miðað við fjárlög fyrir árið 2002 hefur einn fjárlagaliður verið lagður niður og honum skipt á aðra fjárlagaliði. Þetta á við um fjárlagalið 3-0850-1, Markaðsbúskapur sem hefur verið skipt á fjárlagaliðina 3-0820-2, Styrkir, 3-0830-1, Lýðræði og málefni þegnanna og 3-0860-1, Sjálfbær nýting auðlindanna. Nettóáhrif þessara breytinga, miðað við fjárlög fyrir árið 2002, eru 1.124 þús. d.kr.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tekjuliðir fjárlaganna
    Starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar er fyrst og fremst fjármögnuð með beinum framlögum frá löndunum, og er skipting þeirra ákveðin samkvæmt sérstakri skiptireglu. Skiptireglan byggir á hlutdeild hlutaðeigandi lands í vergum þjóðartekjum á Norðurlöndum miðað við framleiðsluverð tveggja síðustu ára sem upplýsingar liggja fyrir um, þ.e. árin 1999 og 2000. Allar upphæðir eru samkvæmt verðlagi hvers tíma.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Athugasemdir:

Gjöld af tekjum starfsmanna: Byggja á gjaldskyldri launafjárhæð starfsmanna
á skrifstofunni.
Vaxtatekjur: Í fjárlögunum er gert ráð fyrir vaxtatekjum að fjárhæð 7,68 millj. d.kr., sem eru áætlaðar á grundvelli þess að væntanlegir meðalvextir fjárfestinga nemi 3,2% árið 2003 og að meðallausafjárstaða á því ári nemi 240 millj. d.kr.
Aðrar tekjur: Þessi tekjuliður felur í sér væntanlegar endurgreiðslur óráðstafaðra verkefnafjármuna frá ýmsum stjórnsýslustofnunum.

Kröfur gagnvart löndunum
    Vegna þeirrar fjárstreymisskerðingar sem ákveðin hefur verið fyrir 2001, 2002 og 2003 verða til kröfur gagnvart löndunum. Skiptingin milli landanna ræðst af skiptireglunni vegna viðkomandi fjárlagaárs. Þetta felur í sér að löndin koma til með að standa í skuld við Norrænu ráðherranefndina sem ber enga vexti og ekki er tiltekinn endurgreiðslutími. Kröfurnar dreifast á löndin eins og segir í eftirfarandi töflu. Einnig er tiltekið hve miklar heildarkröfur verða við árslok 2003.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Meiri háttar breytingar á tilteknum fjárlagaliðum
    Í fjárlögunum nemur hækkun á tilteknum fjárlagaliðum samtals 20,129 þús. d.kr. á verðlagi ársins 2002. Til að auðvelda samanburð yfirlitsins við fjárlög 2002 er miðað við verðlag ársins 2002 (án tillits til væntanlegra verðhækkana). Af töflunni hér fyrir neðan má sjá hvernig helstu hækkanir skiptast á tiltekna fjárlagaliði á verðlagi ársins 2002. Þar kemur einnig fram hvar niðurskurður á fjárlagaliðum er mestur. Til samanburðar námu breytingar
á fjárlögum fyrir 2002 24,402 þús. d.kr.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Skipulagsrammi Norrænu ráðherranefndarinnar til lengri tíma

    Skipulagsramminn til lengri tíma sýnir þróun fjárlaganna, miðað við þriggja ára tímabil, að óbreyttum fjárhagsramma frá fjárlögum fyrir 2003 á því tímabili sem fjárlagaspáin nær til.
    Varðandi einstaka fjárlagaliði eru forsendur skipulagsrammans til lengri tíma sem hér segir:
          Ef annað er ekki ákveðið eða áætlað, er áætluðu umfangi starfseminnar í fjárlögum fyrir 2003 haldið óbreyttu á spátímabilinu, þ.e. árin 2004 og 2005.
          Fjármögnun starfsemi sem samkvæmt áætlun fellur niður er ekki reiknuð með inn í spátímabilið.

    Líta ber á upplýsingar um spátímabilið sem leiðbeinandi en þær sýna þá þróun sem búast má við miðað við óbreytt fjárlög næstu tvö árin, að teknu tilliti til ákveðinna og fyrirhugaðra breytinga. Hér er því ekki um að ræða fjárlög til fleiri ára þar sem upphæðir á spátímabilinu eru þekktar. Þeir fjármunir sem eru til ráðstöfunar eru líkt og áður einungis árlegar fjárveitingar eins og þær koma fram á samþykktum fjárlögum. Heildarrammi fjárlaganna er
ákveðinn á ári hverju og er ekki þekktur fyrir spátímabilið. Í yfirlitinu er gert ráð fyrir að rammar fyrir spátímabilið séu þeir sömu og fyrir fjárlagaárið 2003.
    Yfirlit í töflu er samantekt fjárlagaliða hinna einstöku fagsviða.
    Með hugtakinu „Frávik frá fjárlögum 2003“ – er átt við muninn á upphæðum hvers árs á spátímabilinu og þeim upphæðum sem koma fram á samþykktum fjárlögum fyrir 2003. Ef frávikið er neikvætt, merkir það ófullnægða fjármögnunarþörf á því ári spátímabilsins. Jákvætt frávik merkir að það er fjármagn til ráðstöfunar miðað við árið 2003.
    Að óbreyttum heildarramma að fjárhæð 811,263 millj. d.kr. á spátímabilinu verða 9,5 millj. d.kr. samtals til ráðstöfunar fyrir árið 2004 og 18,4 millj. d.kr. fyrir árið 2005 hjá ráðherranefndinni, að gefnum ofangreindum forsendum.
    Yfirlitið er samantekt yfir meginsamstarfssviðin fjögur, að því gefnu að fjárlagarammi hinna einstöku sviða sé óbreyttur.
    Fyrir „Menningar-, menntamál og rannsóknir“ verða 5,88 millj. d.kr. til ráðstöfunar fyrir árið 2004 og 14,78 millj. d.kr. fyrir 2005. Þetta er vegna þess að rannsóknaráætlun um Norðurskautssvæðið er að ljúka (fjárlagaliður 2-3130-1) en lokafjárveiting vegna hennar er áætluð fyrir árið 2003. Sama á við um rannsóknarverkefni um kyn og ofbeldi sem og tungutækni, en áætlaðar lokafjárveitingar vegna þessara verkefna eru á árinu 2004 (fjárlagaliðir 2-3131-1 og 2-3132-1).
    Á samstarfssviðinu „Umhverfis- og auðlindamál og grannsvæðin“ nemur ófullnægð fjármögnunarþörf 1,6 millj. d.kr. fyrir hvort árið 2004 og 2005. Þetta er vegna samnings milli landanna frá árinu 2002 um fjárveitingar til NOPEF (fjárlagaliður 3-5280-3). Samþykkt hefur verið að fjárveiting ráðherranefndarinnar til NOPEF verði aukin um 1,6 millj. d.kr. á árinu 2004.
    Á sviðinu „Velferðar- og atvinnumál“ nemur ófullnægð fjármögnunarþörf 1,19 millj. d.kr. fyrir hvort árið 2004 og 2005. Þetta er vegna fyrirhugaðrar þróunar á velferðarrannsóknarverkefninu (fjárlagaliður 4-4620-1).
    Þær 6,4 millj. d.kr. sem eru til ráðstöfunar undir liðnum „Skrifstofan og önnur samnorræn starfsemi“ hvort árið 2004 og 2005 eru vegna upplýsingaverkefnanna, Norðurlöndin í fókus (fjárlagaliður 4-1025-2). Norðurlöndin í fókus er tilraunaverkefni til þriggja ára og lýkur árið 2003. Fyrir þann tíma verður verkefnið metið og ákvörðun tekin um framhaldið að reynslutímabili loknu. Hvað varðar rannsóknarverkefnið um öryggismál (fjárlagaliður 5-0461-1) er lokafjárveiting fyrirhuguð árið 2003.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Samstarf við frjáls félagasamtök og aðra aðila sem hvorki eru opinberar né einkareknar stofnanir
    Í fjárlögum fyrir 2003 er lagt fram sérstakt yfirlit yfir fjárveitingar til frjálsra félagasamtaka, en þar er gerður skýr greinarmunur á þremur flokkum og tekið mið af inntaki samstarfsins við samtök sem hvorki eru opinberar né einkareknar stofnanir, og falla frjáls félagasamtök þar undir. Samstarf ráðherranefndarinnar við frjáls félagasamtök markast af að samræmdar kröfur um starfsemina eru ekki forsenda þess að viðkomandi samtök falli undir hugtakið frjáls félagasamtök. Því eru styrkir sem einstaklingar/óformlegir hópar jafnt sem frjáls félagasamtök geta sótt um, hluti af yfirlitinu. Það sem greinir á milli er hvort styrkþegi sé opinber aðili eða einkaaðili. Því er ekki hægt að bera þetta yfirlit saman við þau yfirlit sem lögð hafa verið fram á fyrri árum um samstarfið við frjáls félagasamtök.
    Það eru því 3 eftirgreindir flokkar sem liggja til grundvallar yfirlitinu.
1)     Fjárveitingar til reksturs frjálsra félagasamtaka.
2)        Fjárveitingar til verkefna sem frjáls félagasamtök stjórna fyrir hönd ráðherranefndarinnar.
3)        Styrkir sem frjáls félagasamtök/einstaklingar/óformleg hagsmunasamtök geta sótt um.

    Á yfirlitinu sem hér fer á eftir má sjá hvaða fjárlagaliðir fela í sér fjárveitingar og hversu háar upphæðirnar eru, samkvæmt ofangreindri flokkun. Það skal tekið fram að upphæðirnar á hverjum lið fyrir sig eru byggðar á mati og því ekki bindandi fyrir einstaka fjárlagaliði. Matið endurspeglar væntingar og byggir á reynslu fyrri ára og þeim áætlunum sem liggja fyrir um hin ýmsu fagsvið fyrir árið 2003.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Heildaryfirlit yfir starfsemi ráðherranefndarinnar að málefnumgrannsvæðanna

    Starfsemi ráðherranefndarinnar að málefnum grannsvæðanna er fjármögnuð bæði af fjárveitingum fagsviðanna og af grannsvæðaáætluninni. Hlutdeild einstakra fagsviða fyrir árin 2003 og 2002 er byggð á mati á því hve stór hluti fjárhagsramma þeirra rennur til grannsvæðasamstarfsins. Smávægileg aukning frá 2002 til 2003 kemur fram í heildarframlagi til grannsvæðasamstarfs. Hvað varðar niðurstöður fyrir 2001, byggja þær á skráningu verkefnis þegar fjárveitingin var veitt og á ársskýrslum fyrir starfsárið 2001 frá stofnunum,
samstarfsaðilum og styrkjakerfum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Aðgerðir á sviði vísinda og rannsókna

    Á sviði vísinda og rannsókna einkennist þróun á alþjóðavettvangi af auknum fjárfestingum í rannsóknum, sem ætlað er að tryggja áframhaldandi þróun þekkingarsamfélaga. Því fylgir aukin samkeppni háskóla, rannsóknarstofnana og fyrirtækja sem byggja starfsemi sína á rannsóknum. Þessir aðilar keppa um fjármagn, besta námsfólkið, vísindamenn og annað starfsfólk. Á evrópskum vettvangi er verið að kanna möguleikana á að byggja upp evrópskt rannsóknarsvæði (European Research Area) og Norðurlönd standa andspænis sama úrlausnarefni, þ.e. að þróa möguleika svæðisins á vísindalegri framþróun.
    Til að styrkja stöðu norrænna vísindamanna á alþjóðlegum vettvangi þarf norrænt samstarf um rannsóknir og menntun vísindafólks því að beinast út á við. Uppbygging alþjóðlega viðurkenndra miðstöðva fyrir afburða rannsóknir (Centres of Excellence) með þátttöku vísindamanna úr alþjóðlegu rannsóknarumhverfi gæti styrkt samkeppnisstöðu Norðurlanda til framtíðar. Sem tilraun í þessa átt hefur Norræna samstarfsnefndin á sviði náttúruvísinda (NOS-N) í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina hafið tilraunaverkefni um norræn öndvegissetur á tímabilinu 2002–2005.

Norrænu fjárlögin.
    Á norrænu fjárlögunum nema fjárframlög til vísinda- og þróunarsamstarfs (FoU) u.þ.b. 200 millj. d.kr. en það er minna en 1% af því heildarfjármagni sem varið er til rannsókna á Norðurlöndum. Áherslur ráðherranefndarinnar stuðla því einkum að því að prófa nýjar hugmyndir og örva sérstaka norræna starfsemi. Hana þarf að samræma svo hún falli að áherslum og forgangsröðun landanna.
    Aðgerðir Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði FoU skiptast á þrenns konar starfsemi:
          Samnorrænar rannsóknarstofnanir.
          Sjóði og styrki (Norræna vísindaakademían, NorFA).
          Tímabundnar rannsóknaráætlanir.

    Hlutverk Norræna vísindastefnuráðsins (FPR) er að vera til ráðgjafar og brydda upp á nýjum hugmyndum um rannsóknarsamstarf. Viðmiðunarreglur fyrir starfið koma fram í Norrænu vísindastefnuáætluninni sem samþykkt var árið 1999. Auk þess hefur FPR lagt fram skýrsluna: „Norðurlönd – vettvangur fyrir afburða rannsóknir, 2000“ sem hefur að geyma greiningu á þeim úrlausnarefnum sem vænta má í framtíðinni.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Yfirlit yfir rannsóknaráætlanir sem eru komnar til framkvæmda eða eru áformaðar á tímabilinu 2000–2007 í þús. d.kr. á verði hvers tíma fyrir árin 2000–2003 og á verðlagi 2003 fyrir tímabilið 2004–2007. Við gerð skipulagsramma fyrir tímabilið 2004–2007 er gert ráð fyrir að fjárlagarammi Norrænu ráðherranefndarinnar verði óbreyttur á komandi árum.

Samnorrænar rannsóknarstofnanir.
    Samnorrænar rannsóknarstofnanir eru stofnanir sem búa yfir einstakri sérfræðiþekkingu
á sviðum þar sem Norðurlönd telja samstarf vera hagkvæmt. Af 33 stofnunum ráðherranefndarinnar verja 14 þeirra meira en 50% fjárveitinga til rannsókna og nýsköpunar, og 6 stofnanir verja á milli 10 og 50% fjárveitinga til rannsókna. Sem dæmi um hreinar rannsóknarstofnanir má nefna Norrænu stofnunina um Asíurannsóknir (NIAS), Norrænu sjóréttarstofnunina (NifS) og Norrænu kjarnfræðistofnunina (NORDITA).

Norræna vísindaakademían (NorFA).
    Norræna vísindaakademían (NorFA) sér um þróun og skipulagningu samstarfsverkefna
og styrkjafyrirkomulags þar sem megináherslan liggur á menntun og hreyfanleika vísindamanna.

Rannsóknaráætlanir.
    Samnorrænum rannsóknaráætlunum er hrint í framkvæmd á forgangssviðum þar sem Norðurlöndin búa yfir sérþekkingu og hafa sérstakra hagsmuna að gæta. Norrænum rannsóknaráætlunum er meðal annars ætlað að stuðla að því að:
          Efla myndun tengslaneta og menntun og hreyfanleika vísindamanna.
          Tryggja skilvirka nýtingu norræns fjármagns.
          Stuðla að verkaskiptingu og sérhæfingu á Norðurlöndum.
          Efla norræna þátttöku í evrópsku og alþjóðlegu samstarfi á sviði rannsókna og þróunar (FoU).

    Heildarfjárlög vegna þátttöku í fjármögnun rannsóknaráætlana nema 30,8 millj. d.kr. árið 2003, samanber yfirlit hér að framan.
    Markmið með áætlun um norræn öndvegissetur (Centres of Excellence) er að efla rannsóknir og menntun vísindamanna á tilteknum sviðum og stuðla þannig að sýnileika norrænna rannsókna á alþjóðlegum vettvangi. Meginhluti heildarfjármögnunar þessa tilraunaverkefnis sem nemur 10 millj. d.kr. á ári kemur frá NOS-N og árlegt framlag Norrænu ráðherranefndarinnar nemur 3,1 millj. d.kr.

Fjárlagaliðir þar sem sameiginleg upplýsingamiðlun er mikilvægur þáttur
    Verulegur hluti fjárveitinga ráðherranefndarinnar fer til upplýsingamiðlunar af ýmsum toga. Þar er um að ræða útgáfu tímarita og skýrslna, málþing og ráðstefnur, fréttamannafundi og rekstur heimasíðu með daglegum fréttum. Markmið þessarar starfsemi er margþætt. Bæði eru þar veittar upplýsingar um verkefni og niðurstöður norrænna samstarfsverkefna og almennar upplýsingar um norrænt samstarf.
    Skrifstofa ráðherranefndarinnar og skrifstofa Norðurlandaráðs reka sameiginlega upplýsingadeild. Norræna ráðherranefndin stendur undir 60% af útgjöldum við rekstur deildarinnar og Norðurlandaráð 40%.
    Eftirfarandi er yfirlit yfir þá þætti upplýsingastarfseminnar sem eru sérstakir fjárlagaliðir á fjárlögum fyrir árið 2003. Hér er fyrst og fremst um að ræða starfsemi sem er sameiginleg fyrir ráðherranefndina í heild sinni. Það skal þó tekið fram að veigamikill hluti upplýsingastarfseminnar er fjármagnaður beint af fjárveitingum fagsviðanna og norrænu stofnananna. Fjármagn til upplýsinga er og oft samofið almennri starfsemi og kemur því ekki fram á þessu yfirliti.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.