Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 222. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 927  —  222. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ingvarsdóttur um notkun þunglyndislyfja.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver er árleg notkun þunglyndislyfja eða geðlyfja hér á landi, sundurliðað eftir kyni og aldri notenda?

    Á undanförnum árum hafa tölur um notkun lyfja byggst á upplýsingum um sölu lyfja í heildsölu. Með tilkomu gagnagrunns Tryggingastofnunar ríkisins, TR, er unnt að svara spurningum eins og þeirri sem hér um ræðir og er hann eitt þeirra tækja sem nota má til að fylgjast með þróun lyfjakostnaðar hér á landi.
    Eins og staðan er núna nýtist gagnagrunnur TR ekki sem skyldi, því að einungis er unnt að greina afgreiðslu lyfja eftir kyni og aldri, en ekki raunverulegan fjölda einstaklinga því að kennitölur þeirra eru dulkóðaðar tilviljanakennt við hverja afgreiðslu, en ekki eins hverju sinni. Þess vegna er ekki unnt að greina hversu margir einstaklingar eru á hverju aldursbili, heldur einungis hversu oft einstaklingar á viðkomandi aldri hafa fengið afgreidd lyf, því að sami einstaklingur getur fengið afgreiðslu oftar en einu sinni á ári. Lagt verður fram frumvarp til breytinga á lyfjalögum þar sem TR verður heimilað að dulkóða kennitölur einstaklinga eins hverju sinni.
    Af eftirfarandi línuriti má sjá notkun geðdeyfðarlyfja, þ.e. fjölda skilgreindra dagsskammta (DDD) á hverja 1.000 íbúa skipt eftir aldri og kyni fyrir árið 2001. Línuritið er þeim annmörkunum háð að það tekur einungis til um 94% lyfjanotkunar í umræddum flokki, en um 6% lyfjanna eru notuð á sjúkrahúsum.
    Á línuritinu kemur fram að 0,9% af heildarnotkun þessara lyfja er notuð við ofvirkniröskun í börnum níu ára og yngri. Í Læknablaðinu 2000; 86: 337–342 er greint frá greiningu og meðferðarúrræðum 102 barna sem komu á barna- og unglingageðdeild Landspítalans vegna ofvirknieinkenna frá 1. júní 1998 til 31. maí 1999. Í inngangi greinarinnar segir að greining og meðferð við ofvirkniröskun hafi aukist mjög á undanförnum árum, en lítið sé vitað um meðferðarhefðir hér á landi og er í greininni reynt að varpa ljósi á þær og þau úrræði, sem notuð eru hér og erlendis. Í niðurstöðu greinarinnar segir síðan: „Alls greindust 72 börn með ofvirkniröskun. Algengasta fylgiröskunin var mótþróa-þrjóskuröskun bæði í þeim hópi barna sem greindust með ofvirkniröskun og þeim sem fengu aðra fyrstu greiningu. Hjá umtalsverðum hluta hópsins greindust einnig tilfinningaraskanir. Algengast var að lyfjameðferð væri hafin milli fjögurra og átta ára aldurs. Amitryptilin og methylphenidat voru oftast valin sem fyrsta meðferð, en önnur lyf voru mun sjaldnar notuð og hjá 35% barnanna hafði lyfjameðferð ekki verið reynd. Við komu voru 56 börn á lyfjameðferð og 11 þeirra fengu fleiri en eitt lyf. Algengasta sálfélagslega meðferðarúrræðið var að bjóða foreldrum upp á sérstök ráðgjafarviðtöl. Næstalgengast var að meðferðartilboð um þjálfunarnámskeið og fræðslunámskeið.“
    Þess skal getið að notkun geðdeyfðarlyfja gegn ofvirkni hefur minnkað jafnhliða aukinni notkun örvandi lyfja.
    Árið 2001 afgreiddu lyfjaverslanir sem svarar 73,7 af skilgreindum dagskömmtum af geðdeyfðarlyfjum fyrir hverja 1000 íbúa, eða tæplega 94% af skráðri sölu. Tæplega 2/ 3 hlutar (63,4%) lyfjaávísana voru til kvenna. Línuritið sýnir skiptingu ávísaðra skammta milli kynja í fimm ára aldursbilum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Konur fengu 74% fleiri dagskammta en karlar í heild, mismunandi eftir aldri. Fleiri ungir drengir en stúlkur fengu geðdeyfðarlyf, en við kynþroskaaldur verða konur í vaxandi meiri hluta fram undir áttrætt er munurinn minnkar aftur. Kyn- og aldursdreifingin er svipuð og í rannsóknum frá 1984, 1989 og 1993 að því frátöldu að ávísanir til barna undir 15 ára aldri voru þá hverfandi (Tómas Helgason, Júlíus K. Björnsson, Haraldur S. Þorsteinsson og Helgi Tómasson: Psychopharmacoepidemiology in Iceland; effects of regulations and new medications. Eur Arch Psychiatry Clin Neusosci 1997; 247: 93–99). Hins vegar hefur ávísað magn aukist meira en fram kom í áliti nefndar sem heilbrigðisráðherra skipaði 1999 til að fjalla um notkun geðdeyfðarlyfja og þunglyndisraskanir (Læknablaðið 1999; 85. árg. Fylgirit 38).
    Algengi þunglyndisraskana og þunglyndiseinkenna er tvisvar sinnum meira hjá konum en körlum. Því kemur ekki á óvart að fleiri konum sé ávísað geðdeyfðarlyfjum. Algengi þunglyndis eykst ekki með hækkandi aldri. Hins vegar koma konur og eldra fólk oftar til lækna og kann það að valda nokkru um hve margt fólk yfir sextugt fær geðdeyfðarlyf. Hámark notkunar geðdeyfðarlyfjanna hjá konum er á aldrinum 55–59 ára en hjá körlum 80–84 ára. Samkvæmt erlendum rannsóknum er algengi þunglyndiseinkenna um 10% hjá körlum og 20% hjá konum. Við rannsókn hér á landi á árinu 1984 fundust einkenni sem bentu til þunglyndis- og/eða kvíðaraskana hjá 14% karla og 17% kvenna á aldrinum 20–59 ára. Algengi geðraskana er meira hjá drengjum undir 15 ára aldri en hjá stúlkum.
    Geðdeyfðarlyf eru fyrst og fremst notuð við þunglyndisröskunum og -einkennum, en á síðari árum hafa þau verið notuð við öðrum geðkvillum og einkennum í vaxandi mæli, m.a. hjá börnum undir 15 ára aldri. Má þar nefna að ákveðin tegund geðdeyfðarlyfja hefur reynst gagnleg við athyglisbresti og skyldum geðröskunum meðal barna. Skýrir það að einhverju leyti notkunina í yngstu aldurshópunum.
    Hér á eftir fylgja einnig línurit sem sýna lyfjanotkun skyldra lyfja eða róandi og kvíðastillandi lyfja (anxiolytica, ATC flokkur N05B) og svefnlyfja og róandi lyfja (hypnotica og sedativa, ATC flokkur B05C). Á línuritunum sést, að notkunin eykst með hækkandi aldri, nær hámarki og fer síðan lækkandi. Notkun róandi og kvíðastillandi lyfja hefst á aldrinum 75–79 ára, en seinna í flokknum svefnlyf og róandi lyf eða við 80–84 ára aldur. Þá nota konur meira af þessum lyfjum en karlar. Þessi lyf eru ekki greidd af almannatryggingum, nema fyrir sjúklinga með sjúkdóm á lokastigi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.