Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 588. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 945  —  588. mál.




Fyrirspurn



til iðnaðarráðherra um rekstraröryggi væntanlegrar Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði og bilanatíðni virkjana.

Frá Kolbrúnu Halldórsdóttur.



     1.      Verði fyrirvaralaus bilun í Kárahnjúkavirkjun gæti byggðalína þá flutt það rafmagn sem á vantaði fyrir væntanlegt álver í Reyðarfirði?
     2.      Hvernig er fyrirhugað að tryggja rekstraröryggi álvers í Reyðarfirði án tengingar yfir hálendið við meginflutningskerfi Landsvirkjunar á Suðurlandi?
     3.      Hefur það einhvern tíma gerst að tæma hafi þurft virkjanalón, t.d. vegna viðgerða? Ef tæma þyrfti fyrirhugað Hálslón, hverjar yrðu þá afleiðingarnar fyrir rekstur álvers í Reyðarfirði?
     4.      Hefur það gerst að einhver af stærri virkjunum Landsvirkjunar hafi stöðvast tímabundið eða að þurft hafi að hægja verulega á framleiðslu vegna þess að klæðning hafi losnað innan úr göngum? Er gert ráð fyrir að aðrennslisgöng væntanlegrar Kárahnjúkavirkjunar verði fóðruð og fallgöng hennar klædd?
     5.      Eru dæmi um að einhverjar af stærri virkjunum Landsvirkjunar hafi stöðvast tímabundið eða að þurft hafi að hægja verulega á framleiðslu vegna
                  a.      vatnsskorts,
                  b.      viðhalds og viðgerða, annarra en á klæðningu í göngum, sbr. 4. lið?
             Hverjar eru líkur þess að Kárahnjúkavirkjun stöðvist eða að draga þurfi úr framleiðslu af slíkum orsökum?
     6.      Hver hefur bilanatíðni vatnsaflsvirkjana Landsvirkjunar og eininga þeim tilheyrandi verið undanfarin 30 ár? Hversu oft hefur starfsemi virkjana legið niðri á þessu tímabili að hálfu eða öllu leyti vegna fyrirvaralausra bilana og hversu lengi, í klst., hafa þessar bilanir staðið yfir?
     7.      Hverjar gætu afleiðingar bilunar í Kárahnjúkavirkjun orðið ef hún stöðvast að hálfu eða öllu leyti í meira en 4 klst. og hver bæri ábyrgð á því tjóni sem af hlytist, t.d. í álveri í Reyðarfirði?


Skriflegt svar óskast.






Prentað upp.