Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 537. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1033  —  537. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar um mannshvörf.

     1.      Hvert er hlutfall óupplýstra mannshvarfa á Íslandi frá 1945, fyrir utan þá sem farist hafa við störf á sjó, samanborið við óupplýst mannshvörf annars staðar á Norðurlöndunum á sama tímabili, sbr. svar ráðherra við fyrirspurn um mannshvörf á 125. löggjafarþingi (þskj. 286, 142. mál) þar sem fram kemur að samkvæmt bráðabirgðasamantekt séu 42 mannshvörf frá árunum 1945–99 óupplýst?
    Til að fá svör við spurningunni um óupplýst mannshvörf annars staðar á Norðurlöndunum frá 1945, annarra en þeirra sem farist hafa á sjó, var leitað til Interpol-skrifstofa í hverju landanna með milligöngu ríkislögreglustjóra og hafa svör borist frá Danmörku og Svíþjóð.
     *      Í svari frá Danmörku kemur fram að 292 einstaklingar hafi horfið frá árinu 1945 til 31. desember 2002. Hins vegar hafi 80 manns horfið á síðustu fjórum árum, eða frá 1999 til 31. desember 2002. Ekki er sundurgreint hvort í þessum upplýsingum sé einnig getið um þá er horfið hafa á sjó og það er ekki útskýrt í hverju mikil fjölgun mála frá 1999 liggur.
     *      Í svari frá Svíþjóð segir að ekki sé unnt að veita áreiðanlegar upplýsingar um horfna menn frá árinu 1945 til 1989. Frá 1990 liggi þessar upplýsingar fyrir samkvæmt tilkynningum til sænskra lögregluyfirvalda um mannshvörf og þar sé einnig getið þeirra sem horfið hafa utan Svíþjóðar. Í svarinu er sagt frá fjölda þeirra sem horfið hafa á sjó og vötnum, en skipting þar á milli er ekki sundurgreind. Með þessum fyrirvara er svar sænskra lögregluyfirvalda það að frá árinu 1990 til 2002 hafi borist 462 tilkynningar um horfna menn.
     *      Í tölum sem teknar voru saman af embætti ríkislögreglustjóra í tilefni af fyrirspurn til dómsmálaráðherra á 125. löggjafarþingi, þingskjal 286, 142. mál, um óupplýst mannshvörf hér á landi síðan 1944, „ef frá eru talin sjómanna“ eins og það er orðað, var getið um þá sem horfið hafa í vötn, ár og fossa. Óupplýst mannshvörf hér á landi frá 1945 til ársins 2002, annarra en þeirra sem farist hafa við störf á sjó, eru talin vera 47.
    Eins og sjá má hér að framan er skráning málanna ekki með sama hætti í Danmörku og Svíþjóð. Upplýsingar frá Finnlandi og Noregi liggja ekki fyrir. Rannveig Þórisdóttir, félagsfræðingur hjá embætti ríkislögreglustjóra, hefur lagt mat á þær upplýsingar sem borist hafa og er það hennar mat að fjöldatölur sem byggt er á þyki ekki samanburðarhæfar.

     2.      Er ráðgert að skipa sérstaka rannsóknarnefnd sem vinni að því að upplýsa mannshvörf?
    Í 3. mgr. 6. gr. lögreglulaga er kveðið á um að lögreglustjórar fari með yfirstjórn leitar- og björgunaraðgerða á landi. Í 3. mgr. 66. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, er tekið fram að rannsókn skuli fara fram svo sem tíðkast hefur út af mannshvörfum, þótt ekki liggi fyrir sérstakur grunur um refsivert athæfi. Í öllum tilvikum fer fram rannsókn af hálfu lögreglu þegar grunur leikur á að maður hafi horfið og lögreglu berst tilkynning um hvarf hans.
    Í lögreglulögum og reglugerð um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn opinberra mála, nr. 396/1997, eru ákvæði sem heimila lögreglustjórum að hafa með sér samstarf og ákveða hvernig það skuli vera. Ríkislögreglustjóri veitir lögreglustjórum aðstoð og stuðning í lögreglustörfum og við rannsókn máls getur hann sent staðarlögreglu aðstoðarlið, að höfðu samráði við lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi.
    Sérstök rannsóknarnefnd sem hefur það hlutverk að bera kennsl á látna menn heyrir stjórnsýslulega undir ríkislögreglustjóra og starfar samkvæmt reglugerð nr. 401/1997. Dómsmálaráðherra skipar nefndarmenn til þriggja ára og var ný nefnd skipuð í júní á síðasta ári. Í tilefni af skipan þessarar nefndar hefur ríkissaksóknari gefið út leiðbeiningar og fyrirmæli til lögreglustjóra um skyldur þeirra, og samskipti við nefndina, og á síðasta ári setti ríkislögreglustjóri nefndarmönnum sérstaka starfslýsingu og verklagsreglur.
    Af þessu leiðir að lagaumhverfi og stjórnsýslulegu skipulagi, sem snýr að leit að týndu fólki og rannsókn mannshvarfa, er vel fyrir komið með gildandi löggjöf og fyrirmælum sem sett hafa verið. Með því að setja á fót sérstaka rannsóknarnefnd sem færi með rannsókn mála, þegar grunur leikur á að maður hafi horfið, er hætt við því að samstarf nefndarinnar við lögregluna verði ekki þjált með sama hætti og milli lögregluliða og einstakra deilda innan lögreglunnar sem fara með rannsókn brota. Því er vandséð að skipun sérstakra rannsóknarnefnda mundi þjóna þeim tilgangi að efla rannsóknir mannshvarfa.