Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 540. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1056  —  540. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar um Suðurstrandarveg.

     1.      Ætlar ráðherra að beita sér fyrir því að staðið verði við fyrirheit sem gefin voru við myndun Suðurkjördæmis um að gerð Suðurstrandarvegar árið 2003 væri forsenda kjördæmabreytinganna og samgönguáætlun breytt í þá veru?
    Í umræðum sem urðu um Suðurstrandarveg í tengslum við síðustu kjördæmabreytingu komu fram ýmis rök sem mæltu með endurbótum á þessari leið. Í þeim umræðum komu þó hvergi fram beinar ákvarðanir um tímasetningu framkvæmda. Endurbætur á þessari leið eru því í sömu stöðu og fjölmargar aðrar nauðsynlegar vegaframkvæmdir um land allt að því leyti að framkvæmdatími og framkvæmdahraði verður að fara eftir fjárveitingum hverju sinni.
    Á það skal jafnframt bent að 12. febrúar sl. var kynnt sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja til viðbótar 4,6 milljarða kr. sérstaklega til samgöngumála. Inni í þeirri ákvörðun er 500 millj. kr. viðbótarframlag til Suðurstrandarvegar. Fyrir átti Suðurstrandarvegur inneign að upphæð 100 millj. kr., á öðru tímabili samgönguáætlunar 100 millj. kr. framlag og því þriðja 500 millj. kr.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður við Suðurstrandarveg?
    Samkvæmt mati Vegagerðarinnar stendur áætlun um kostnað við Suðurstrandarveg í 1,5 milljörðum kr.

     3.      Hver er ástæða þess að fallið var frá áætlunum um að hefja gerð Suðurstrandarvegar árið 2003 eins og samgöngunefnd Alþingis hafði áður samþykkt að veita fé til?
    Við gerð vegáætlunar árið 2000 var áætlað að töluvert fjármagn rynni til vegagerðar umfram markaða tekjustofna til vegagerðar og átti að verja þessu fé til nokkurra tilgreindra verkefna, m.a. 400 millj. kr. til Suðurstrandarvegar 2003–2004. Við gerð fjárlaga fyrir árin 2001 og 2002 lækkaði fjárveiting til vegagerðar til þess að ná fram jöfnuði í ríkisfjármálum og varð því að draga úr eða fresta ýmsum framkvæmdum frá því sem áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Þrátt fyrir þetta hefur verið stefnt að því að hefja gerð vegarins á þessu ári. Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem áður er vísað til í svari við 1. lið verður unnt að stækka fyrsta áfanga til mikilla muna frá því sem ella hefði verið.