Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 669. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1086  —  669. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Við 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama á við um hafnir með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags.

2. gr.

    Í stað orðanna „31. desember 2003“ í 1. málsl. ákvæðis til bráðabirgða X í lögunum kemur: 31. desember 2005.
    

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta, um breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, er lagt fram í tengslum við frumvarp til hafnalaga sem lagt var fram á 127. löggjafarþingi og er nú til meðferðar að nýju fyrir Alþingi.
    Í 8. gr. frumvarps til hafnalaga er gert ráð fyrir þrenns konar rekstrarfyrirkomulagi hafna. Samkvæmt því frumvarpi má reka höfn sem:
     1.      Höfn án sérstakrar hafnarstjórnar í eigu sveitarfélags.
     2.      Höfn með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags.
     3.      Hlutafélag, hvort sem það er í eigu opinberra aðila eða ekki, einkahlutafélag, sameignarfélag eða sem einkaaðila í sjálfstæðum rekstri.
    Í athugasemdum við umrætt ákvæði 8. gr. í frumvarpi til hafnalaga segir um 1. tölul. að það rekstrarform sé ætlað fyrir hafnir sem koma ekki til með að taka þátt í samkeppni og gilda reglur um gjaldtöku opinberra fyrirtækja um þær. Rekstri þessara hafna er ekki ætlað að vera í atvinnuskyni. Þessar hafnir uppfylla því ekki skilyrði 5. mgr. 5. gr. virðisaukaskattslaga, nr. 50/1988. Því er talið rétt að halda þeim utan skattskyldu.
    Um 2. tölul. segir í greinargerð með frumvarpi til hafnalaga að heimilt sé að reka höfn með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags. Þetta er það rekstrarform í raun sem núverandi hafnalög leyfa. Með frumvarpi til nýrra hafnalaga kemur skýrt fram að vilji stendur til að gera hafnir skv. 2. tölul. virðisaukaskattsskyldar. Er því lagt til í frumvarpi þessu að á sama hátt



Prentað upp.

og með opinber orku- og veitufyrirtæki verði hafnir með hafnarstjórn í eigu sveitarfélaga virðisaukaskattsskyldar að því leyti sem þær selja skattskyldar vörur og þjónustu. Er höfnum með hafnarstjórn í eigu sveitarfélaga því bætt við 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    Um 3. tölul. 8. gr. frumvarps til hafnalaga er það að segja að hafnir þær sem þar eru tilgreindar verða virðisaukaskattsskyldar skv. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. virðisaukaskattslaga eins og önnur atvinnufyrirtæki. Því þarf ekkert að aðhafast varðandi þær.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að gildandi heimild samkvæmt ákvæði til bráðabirgða X í lögum um virðisaukaskatt, sem fjallar um heimild til endurgreiðslu 2/ 3hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða á tímabilinu 1. september 2000 til 31. desember 2003, verði framlengd til 31. desember 2005.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er höfnum með hafnarstjórn í eigu sveitarfélaga bætt í þá upptalningu sem fyrir er í 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Þannig er kveðið á um að skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvíli á höfnum með hafnarstjórn í eigu sveitarfélaga, að því leyti sem þær selja skattskylda vöru og þjónustu. Um nánari skýringu er vísað er til almennra athugasemda við frumvarp þetta. Við þessa breytingu geta umræddar hafnir einnig nýtt sér innskattsreglur virðisaukaskattskerfisins.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á eða leigu hópbifreiða verði framlengd til 31. desember 2005, en samkvæmt gildandi ákvæði til bráðabirgða hefði fresturinn runnið út í árslok 2003.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 50/1988,
um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvær breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Fyrri breytingin tengist frumvarpi til hafnalaga sem er til meðferðar á Alþingi. Samkvæmt því frumvarpi er gert ráð fyrir að hafnir með hafnarstjórn í eigu sveitarfélaga verði virðisaukaskattsskyldar. Það kallar á breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Er því lagt til í þessu frumvarpi að á sama hátt og á við um opinber orku- og veitufyrirtæki verði hafnir með hafnarstjórn í eigu sveitarfélaga virðisaukaskattsskyldar að því leyti sem þær selja skattskyldar vörur og þjónustu. Vísað er til kostnaðarumsagnar um fyrirliggjandi frumvarp til hafnalaga varðandi umfjöllun um málið að öðru leyti. Síðari breytingin snýr að bráðabirgðaákvæði við virðisaukaskattslögin. Þar er kveðið á um að heimilt sé að endurgreiða 2/ 3hluta virðisaukaskatts af kaup- eða leiguverði hópbifreiða af tiltekinni gerð sem nýskráðar eru á tímabilinu frá 1. janúar 2001 til 31. desember 2003. Í þessu frumvarpi er lagt til að bráðabirgðaákvæðið verði framlengt til 31. desember 2005. Hvorug breytingin ætti að leiða til teljandi útgjalda fyrir ríkissjóð verði frumvarpið að lögum.