Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 630. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1139  —  630. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um sérstaka slysastaði í vegakerfinu.

     1.      Hvað er gert til að lagfæra sérstaka slysastaði, eða svokallaða „svarta bletti“, í vegakerfinu, þ.e. í
                  a.      dreifbýli og
                  b.      þéttbýli?
    Rétt er að hafa þann formála á þessu svari að taka strax fram að allar endurbætur á vegakerfi landsins miða að mati ráðuneytisins að því að auka umferðaröryggi og lagfæra þar með slysastaði. Þetta ber að hafa í huga nú þegar að framlög til vegamála hafa aldrei í sögu Íslands verið meiri.
     Dreifbýli. Vegagerðin vinnur eftir ákveðnum reglum um úttekt á slysastöðum og gerir kerfisbundnar úttektir á þjóðvegakerfinu. Árið 2002 voru lagaðir 22 staðir í þjóðvegakerfinu og voru aðgerðir breytilegar, frá því að bæta merkingar til endurgerðar á gatnamótum. Auk þess bæta ýmsar nýframkvæmdir umferðaröryggið. Vegagerðin lætur skoða öll hönnunargögn fyrir stærri framkvæmdir af sérstökum vinnuhópi í þeim tilgangi að koma eins og kostur er í veg fyrir að vegir séu lagðir með annmörkum sem gætu leitt til slysa.
     Þéttbýli. Gerð voru tvenn hringtorg, annars vegar Hringvegur/Breiðholtsbraut og hins vegar Hringvegur/Skarhólabraut og var kostnaður greiddur af fjárveitingum til umferðaröryggis og nýbygginga. Allar nýbyggingar á höfuðborgarsvæðinu eiga að bæta umferðaröryggið og má þar nefna ný gatnamót og göngubrýr.

     2.      Hversu mikið fé rennur árlega til lagfæringa á slysastöðum og hversu hátt hlutfall er það af öllum nýframkvæmdum í vegamálum?
     3.      Gerir samgönguáætlun til 2006 ráð fyrir að unnið sé að slíkum lagfæringum?

    Árið 2002 voru veittar 130 millj. kr. til lagfæringa á „svartblettum“ og eftirlits með þunga ökutækja og hvíldartíma ökumanna, ásamt almennri löggæslu í samvinnu við ríkislögreglustjóra. Í breytingatillögum við tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2003–2006 er lagt til að veita til öryggisaðgerða 140 millj. kr. árið 2003, 153 millj. kr. árið 2004, 184 millj. kr. árið 2005 og 194 millj. kr. árið 2006 en af þessum upphæðum verður 30 millj. kr. varið til umferðareftirlits. Hlutfall til lagfæringa á „svörtum blettum“ af stofnkostnaði samkvæmt breytingatillögunum er 1,1% árið 2003, 1,4% árið 2004, 1,9% árið 2005 og 2,2 % árið 2006. Þessu til viðbótar kemur fé til nýframkvæmda sem í mörgum tilfellum fer til að auka umferðaröryggi, m.a. má þar nefna breikkun brúa, gerð göngubrúa og gerð mislægra gatnamóta.

     4.      Hefur verið lagt mat á arðsemi þess að lagfæra „svarta bletti“?
    Vegagerðin hefur gert fjórar skýrslur um úttektir á „svörtum blettum“ (sjá heimasíðu Vegagerðarinnar vgvefur.vegagerdin.is/) og þar er arðsemi hverrar aðgerðar reiknuð út.

     5.      Kæmi til greina að verja ákveðnum hundraðshluta þeirrar upphæðar sem ríkisstjórnin ákvað nýverið að setja í framkvæmdir í vegamálum til lagfæringa á „svörtum blettum“ eða annarra aðgerða til að auka umferðaröryggi?
    Nauðsynlegt er fyrir Vegagerðina að hafa sérstaka fjárveitingu til ýmissa minni háttar lagfæringa á stöðum sem reynast varasamir og til að geta brugðist fljótt við ef nauðsyn krefur. Þarna er af nógu að taka, t.d. bætt umhverfi vega, lagfæringar á gatnamótum, uppsetning leiðara og margt fleira. Hefur því verið lagt til í samgönguáætlun að fjárveiting til þessa liðar fari hækkandi á næstu árum, eins og fram kemur í svari við 2. tölulið fyrirspurnarinnar. Eðlilegt er hins vegar að sérstakar fjárveitingar komi til stærri verkefna, eins og verið hefur.