Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 696. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1216  —  696. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um kröfulýsingu fjármálaráðherra um þjóðlendur.

Flm.: Kristján Pálsson.



    Alþingi ályktar að skora á fjármálaráðherra að draga nú þegar til baka kröfulýsingu sína um þjóðlendur þar sem kröfurnar ná yfir þinglýst eignarlönd bænda og annarra jarðeigenda. Jafnframt verði kröfurnar færðar úr veðbókum.
    Einnig verði bændum og öðrum landeigendum greiddur kostnaður þeirra af hagsmunagæslu í þjóðlendumálum, sbr. 17. gr. þjóðlendulaga. Þá dragi fjármálaráðherra til baka dómsmál sem áfrýjað var um úrskurð óbyggðanefndar í Árnessýslu.

Greinargerð.


    Þegar frumvarp til laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta var til afgreiðslu í Alþingi árið 1998 var það sagt höfuðmarkmiðið með frumvarpinu að ná utan um skipulag miðhálendis Íslands, þess svæðis sem telst einskis manns land. Eðlilegt þótti að lönd sem ekki teldust eign neins væru sjálfkrafa eign ríkisins. Hvergi í lögunum er að finna heimild til að gera kröfur í þinglýstar eignir manna.
    Nefnd sem fjármálaráðherra skipaði gerir nú kröfur í þinglýst eignarlönd. Jafnvel er gerð krafa um lönd sem ríkissjóður hefur þegar afhent í landskiptum, sbr. kröfu í Skeiðarársand. Þegar ríkið keypti Skaftafell var gerður landskiptasamningur þar sem 435 ha. af Skeiðarársandi gengu til fyrri eigenda Skaftafells. Samninginn undirritaði menntamálaráðherra árið 1969. Í kröfugerð nefndar fjármálaráðherra er farið fram á að þetta land, sem landeigendur Skaftafells fengu í landskiptum árið 1969, verði núna gert að þjóðlendu. Þegar þjóðlendur eru færðar þjóðinni er ekki gert ráð fyrir greiðslum til yfirlýstra eigenda samkvæmt mati eða markaðsvirði. Þessi krafa og fleiri eru líkari því að ríkið ætli sér að yfirtaka þinglýst eignarlönd án tillits til forsögu málsins og þeirra sjálfsögðu réttinda að sé eign manna tekin eignarnámi sé greitt sanngjarnt verð fyrir.
    Meðfylgjandi er ályktun búnaðarþings 7. mars 2003 og ályktun bændafundar að Hofgarði í Öræfum 15. febrúar 2003.


Fylgiskjal I.


Ályktun búnaðarþings 2003 í þjóðlendumálum.
(Reykjavík, 7. mars 2003.)

    Búnaðarþing 2003 ályktar eftirfarandi um þjóðlendumál:
     .      Búnaðarþing mótmælir því harðlega að fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands skuli hafa áfrýjað úrskurði óbyggðanefndar í Árnessýslu til dómstóla. Ekki verður annað séð en stefnt sé að stórfelldri eignaupptöku á landi sem er í einkaeign. Búnaðarþing mótmælir því harðlega og minnir á ákvæði í 72. gr. stjórnarskrár Íslands um eignarrétt.
     .      Við ákvörðun þjóðlendumarka verði tekið fullt tillit til þinglýsts eignarréttar. Jafnframt er þess krafist að allar þinglýsingar á vegum fjármálaráðherra, sem fara í bága við eldri þinglýsingar, verði þegar í stað dregnar til baka og afmáðar úr veðbókum.
     .      Að kröfugerð fjármálaráðherra sem gengur í berhögg við ofangreind grundvallaratriði verði þegar í stað afturkölluð, bæði fyrir óbyggðanefnd og dómstólum.
     .      Að staðið verði við þau fyrirheit að ríkissjóður greiði allan kostnað landeigenda fyrir óbyggðanefnd og dómstólum.
     .      Óbyggðanefnd verði gert skylt að leita sátta með málsaðilum á hverju því landsvæði sem tekið er fyrir áður en mál eru tekin til úrskurðar.
     .      Óbyggðanefnd leggi fram á árinu 2003 áætlun um hvaða landsvæði hún hyggist taka til úrskurðar og í hvaða röð.
     .      Ef ekki fæst ásættanleg niðurstaða fyrir íslenskum dómstólum verði farið með málið fyrir mannréttindadómstólinn í Strassborg.


Fylgiskjal II.


Ályktun fundar bænda um þjóðlendumál sem haldinn var
að Hofgarði í Öræfum 15. febrúar 2003.

    Fundurinn skorar á alþingismenn að leggja þegar í stað fram breytingarfrumvarp á þjóðlendulögunum og samþykkja frumvarpið sem lög á yfirstandandi þingi. Í breytingarfrumvarpinu verði lögð áhersla á eftirfarandi atriði.
     1.      Við ákvörðun þjóðlendumarka verði tekið fullt tillit til þinglýstra eignarheimilda og allar þinglýsingar á vegum fjármálaráðherra sem fara í bága við eldri þinglýsingar verði þegar í stað afmáðar úr veðbókum.
     2.      Að sérstökum tölulið verði bætt inn í 7. gr. þjóðlendulaga, sem fjallar um hlutverk óbyggðanefndar, að nefndin skuli við upphaf hvers máls leita sátta með málsaðilum og leggja fram sjálfstæða sáttatillögu áður en mál eru tekin til úrskurðar.
     3.      Að kröfugerð fjármálaráðherra sem fer í bága við ofangreind grundvallaratriði verði þegar í stað dregin til baka bæði fyrir óbyggðanefnd og dómstólum.

Samþykkt samhljóða.



Tillaga frá Reyni Ragnarssyni:


    Fundurinn láti athuga möguleika á að kæra fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins fyrir kröfugerð í þjóðlendumálum fyrir óbyggðanefnd og dómstólum þar sem þær eiga sér enga stoð í þjóðlendulögunum.

Samþykkt samhljóða.