Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 700. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1223  —  700. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stefnumótun um markaðssetningu, framleiðslu og neyslu lífrænna afurða.

Flm.: Ólafur Örn Haraldsson.



    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að skipa starfshóp sem hafi það hlutverk að gera úttekt á markaðsstöðu lífrænnar framleiðslu hér á landi og kostum hennar fyrir neytendur, byggðaþróun og útflutningsmöguleika.
    Starfshópurinn setji fram tillögur um opinberar ráðstafanir sem gera þarf til þess að Ísland fái hagnýtt einstætt náttúrulegt forskot sitt til sóknar á ört vaxandi alþjóðamarkaði vottaðrar sjálfbærrar framleiðslu og komist í flokk með helstu viðskipta- og nágrannaþjóðum á því sviði.
    Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum ráðuneyta viðskipta-, umhverfis- og landbúnaðarmála, Neytendasamtakanna, VOR – landssamtaka bænda í lífrænum búskap, fagaðila á sviðum eftirlits og vottunar, Samtaka iðnaðarins, Útflutningsráðs Íslands, Verslunarráðs Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Starfshópurinn skili fyrsta áliti innan sex mánaða og ljúki störfum innan eins árs.

Greinargerð.


1. Hvað er lífræn framleiðsla?
    Þjóðir heims taka í ört vaxandi mæli upp sjálfbærar aðferðir við framleiðslu á vörum og þjónustu. Vísindaleg stjórnun fiskveiða, þróun vistvænnar orkuframleiðslu og umhverfisvottuð ferðaþjónusta eru nokkur dæmi um hvernig atvinnulíf lagar sig að kröfum um sjálfbæra þróun. Stjórnvöld og almenningur víða um heim hafa lagst á sveif með þessari framvindu í fullvissu þess að hún skili bættum hag, betra umhverfi og auknu öryggi og heilbrigði borgaranna.
    Vöxtur lífrænnar framleiðslu er e.t.v. skýrasta dæmið um sjálfbæra þróun í atvinnulífi undanfarinna áratuga. Lífrænar aðferðir eru skilgreindar í fjölþjóðlegum stöðlum og reglugerðum en þær byggjast á því að við framleiðsluna er fylgt ströngustu kröfum um verndun lífríkis. Þeim má beita við söfnun, ræktun og úrvinnslu hráefna til framleiðslu á matvælum (þ.m.t. matreiðslu), áburði og fóðurvöru, lyfjum og fæðubótarefnum, snyrtivöru, vefnaðarvöru, og öðrum iðnaðar- og neysluvörum úr náttúrulegum efnum. Þá býr lífræn framleiðsla við þá sérstöðu að allur ferill framleiðslunnar, allt frá söfnun og ræktun hráefna til úrvinnslu og pökkunar, er undir reglubundnu eftirliti faggiltrar vottunarstofu.

2. Hverjir eru kostir lífrænnar framleiðslu?
    Lífræn framleiðsla hefur marga kosti fyrir neytendur. Á undanförnum árum hafa komið fram stórmerkar upplýsingar byggðar á vísindalegum rannsóknum sem benda til þess að lífrænar aðferðir hafi mikil og jákvæð heilsufarsleg áhrif. Þær benda og til þess að lífrænar afurðir séu auðugri af mikilvægum næringarefnum en sambærilegar afurðir framleiddar með hefðbundnum efna- og erfðatækniaðferðum og jafnvel að neysla þeirra hafi bein áhrif á heilsufar manna og dýra, þar á meðal á almennan vöxt og þroska, frjósemi, sjúkdómslíkur og á batahorfur. Þá auka lífrænar aðferðir á öryggi afurða gagnvart neytendum. Þetta er einkum rakið til þess að lífrænar afurðir eru framleiddar án skordýra- og sveppaeiturs, erfðabreyttra efna, hormóna og sýklalyfja. Sérstakrar varúðar er krafist við meðferð og val á lífrænum úrgangi til áburðar, t.d. gerjun búfjáráburðar og safnhaugagerð, og dregur það stórlega úr líkum á sýkingum og matareitrun. Þar sem notkun tilbúins áburðar er bönnuð í lífrænni framleiðslu ber mun minna á skaðlegum nítrötum í lífrænum afurðum en í sambærilegum hefðbundnum afurðum. Ekki hefur svo vitað sé orðið vart riðu í nautgripum sem ræktaðir eru og aldir með lífrænum aðferðum. Þá er vert að hafa í huga að meðan hefðbundin matvælaiðja leyfir notkun meira en 500 tegunda aukefna (samheiti fyrir ýmis íblöndunarefni) eru aðeins um 30 aukefni leyfð í vinnslu lífrænna afurða. Til dæmis eru öll efni sem vitað er að tengst hafi ofnæmi, verkjum, astma, vaxtarröskun, ofvirkni, gigt og hjartatruflunum bönnuð við úrvinnslu lífrænna afurða.
    Lífræn framleiðsla getur haft margháttuð jákvæð áhrif á efnahagslega og félagslega þróun á landsbyggðinni. Hún skapar ný atvinnutækifæri og eykur verðmætasköpun til markaðssetningar á innlendum og erlendum gæðamörkuðum. Með lífrænum aðferðum er dregið úr ýmsum óbeinum útgjöldum, t.d. vegna landhreinsunar, sorpeyðingar og áburðarnotkunar. Þá hafa „lífræn héruð“ ótvírætt aðdráttarafl fyrir ferðafólk og jafnvel fyrir fjárfesta og mögulega íbúa, vegna bættrar ímyndar svæðanna og aukinnar ásóknar í hrein og ómenguð matvæli. Auk þess hafa lífrænar aðferðir jákvæð áhrif á lífríkið og náttúruna, stuðla að hreinna starfsumhverfi og auka almenn lífsgæði þegnanna. Ýmsar aðrar þjóðir hafa komið auga á þessa möguleika og hagnýtt þá til varnar dreifðum byggðum.
    Þótt Íslendingar státi af tiltölulega hreinu og ómenguðu umhverfi sem auðveldar þeim markaðssetningu afurða á erlendum vettvangi mun það eitt og sér ekki duga til þess að standast samkeppni frá ört vaxandi lífrænni framleiðslu annarra þjóða þar sem vottun samkvæmt ströngum alþjóðlegum kröfum ræður úrslitum. Takist okkur hins vegar að framleiða útflutningsafurðir okkar með lífrænum aðferðum kann það að skipta sköpum fyrir samkeppnisstöðu okkar á erlendum mörkuðum.
    Þörungaverksmiðjan á Reykhólum er áhrifamikið dæmi um hvernig unnt er að efla íslenska útflutningsframleiðslu með því að taka upp lífrænar aðferðir. Verksmiðjan framleiðir mjöl úr sjávargróðri Breiðafjarðar sem hagnýtt er víða í Norður-Ameríku og Evrópu til áburðar, fóðurgerðar og margvíslegrar framleiðslu í matvælaiðnaði, lyfjaiðnaði og snyrtivöruiðnaði. Í viðtali við framkvæmdastjóra fyrirtækisins fyrir nokkru kom fram að lífræna vottunin hafi styrkt stöðu þess í samkeppni á erlendum mörkuðum og að hún hafi nánast undantekningarlaust aukið áhuga á viðskiptum.

3. Hver er staða lífrænnar framleiðslu hér á landi?
    Eftirspurn eftir lífrænum afurðum á íslenskum markaði hefur aukist á undanförnum árum þrátt fyrir takmarkaða kynningu. Eftirspurn er í flestum tilvikum svo mikil að innlend framleiðsla dugar hvergi nærri til að mæta henni. Henni hefur að einhverju leyti verið svarað með því að nokkrir aðilar flytja nú inn árið um kring ferska ávexti, grænmeti og sífellt meira úrval af unnum vörum. Þeim Íslendingum fjölgar stöðugt sem gera sér grein fyrir að hreinleiki og fegurð fósturjarðarinnar er ekki næg trygging fyrir gæðum matvæla sem hér eru framleidd. Margir sem dvalist hafa erlendis hafa fengið mikla og góða reynslu af daglegri neyslu lífrænna afurða og æ fleiri erlendir ferðamenn sem hingað koma til að sjá hið hreina og fagra land okkar búast eðlilega við því að fá hér gnægð af lífrænt framleiddum matvælum líkt og þeir eiga kost á í heimalöndum sínum. Það má því búast við að eftirspurn eftir lífrænum afurðum muni aukast á komandi árum, líkt og gerist í öðrum löndum í kringum okkur, en það mun þó fyrst og fremst ráðast af því hvort íslenskir neytendur og framleiðendur verða upplýstir jafnvel og aðrar þjóðir um kosti lífrænnar framleiðslu og lífrænna aðferða.
    Hvað framleiðslu lífrænna afurða snertir standa Íslendingar langt að baki nær öllum viðskiptaþjóðum sínum, einkum öðrum Norðurlöndum og löndum á Evrópska efnahagssvæðinu. Ekki liggja fyrir upplýsingar um magn afurða og hlutdeild þeirra á markaðnum, en ljóst má vera að framboð innlendra afurða er enn mjög lítið, bæði hvað varðar magn, tegundir og árstíma. Samkvæmt upplýsingum frá vottunarstofunni Túni, sem annast hefur vottun lífrænna afurða frá árinu 1996, er vel innan við hálft prósent nytjalands á Íslandi vottað, þetta hlutfall er sexfalt hærra í Noregi og stefnir raunar í 10% innan fárra ára. Í Danmörku og Finnlandi er hlutfallið nú um 7% og í Svíþjóð 12%. Einungis um 30 bændur og 10 fyrirtæki hafa nú vottun til lífrænnar framleiðslu hér á landi. Þeir framleiða flestar algengustu tegundir íslenskra búvara, þ.e. grænmeti, brauð og kornvöru, mjólk og lambakjöt, svo og þaramjöl og nokkrar heilsu- og snyrtivörur. Það sem hér hefur þó verið gert má meðal annars þakka fordæmi nokkurra dugandi framleiðenda og kynningarstarfi vottunarstofunnar Túns. Í mörgum Evrópuríkjum er nú unnið eftir skipulegum áætlunum sem miða að því að stórauka lífræna framleiðslu á næstu 5–10 árum, en engin slík áætlun er hér á landi.
    Stoðkerfi lífrænnar framleiðslu er enn á frumstigi og ekki ofsagt að það sé að mestu óþróað. Segja má að eini fullmótaði hlekkur þess sé vottunar- og eftirlitskerfi sem Tún hefur byggt upp í samræmi við alþjóðlega staðla og reglugerðir, ásamt landbúnaðarráðuneyti, Löggildingarstofu og fleiri aðilum. Rannsóknir og þróunarstarf varðandi hagnýtingu lífrænna aðferða við íslenskar aðstæður hafa hins vegar ekki náð fótfestu, og er brýnt að úr því verði bætt, en benda má á að samtök framleiðenda og fleiri lögðu fyrir nokkrum árum fram áætlun um forgangsverkefni á þessu sviði. Menntastofnanir atvinnulífsins hafa að mestu horft fram hjá þessari mikilvægu nýsköpunarstefnu í námskrám sínum, þótt einstaka skólar hafi boðið upp á námskeið þar sem fjallað er um lífrænar aðferðir. Hið sama má segja um leiðbeiningarþjónustu helstu atvinnugreinanna þar sem það er að mestu komið undir áhuga einstakra ráðgjafa hvort framleiðendur eiga völ á aðstoð. Þá hefur skort á að ýmis þróunar- og umhverfisverkefni sem sinnt er hér á landi hafi beitt sér fyrir því að lífrænar aðferðir verði teknar upp í framleiðslu eða sem liður í umhverfisstefnu sem þó liggur beint við.
    Ýmsir aðilar hafa þó sýnt lífrænni framleiðslu áhuga í störfum sínum og stefnu og á sinn hátt myndað óformlegt stoðkerfi um lífræna nýsköpun. Má þar meðal annarra nefna Neytendasamtökin, MATVÍS, sem eru hagsmunasamtök matvælagreinanna, náttúrulækningahreyfinguna, Staðardagskrá 21, Verslunarráð Íslands, auk ýmissa fyrirtækja og stofnana sem lagt hafa málinu lið beint og óbeint hætti. Stuðningur þessara aðila ber vott um að þeir telji lífræna framleiðslu hafa mikið gildi fyrir neytendur, byggðaþróun og samkeppnisstöðu Íslands.
    Í flestum ríkjum Vestur-Evrópu er stutt myndarlega við bakið á lífrænni framleiðslu. Auk þess að veita frumframleiðendum styrki til aðlögunar að kröfum styðja stjórnvöld jöfnum höndum við öflugt kynningar- og markaðsstarf. Það skilar sér í auknum áhuga almennings og aukinni eftirspurn eftir lífrænt framleiddum afurðum. Þannig hafa skapast miklir möguleikar til framleiðslu og markaðssetningar, og ekki síst til útflutnings á lífrænum gæðavörum, en mörg Evrópulönd þurfa að flytja inn mikið magn lífrænna afurða til þess að mæta eftirspurn. Má sem dæmi nefna að 65–70% lífrænna afurða sem seldar eru á breskum markaði eru innfluttar þrátt fyrir stöðuga og mikla aukningu heimaframleiðslu. Það hlýtur að teljast mikilvægt fyrir Íslendinga að hagnýta sér þau tækifæri sem felast í þessari þróun með því að verða virkir þátttakendur í henni.

4. Stefnumótunar hins opinbera er þörf.
     Íslensk stjórnvöld hafa undirritað yfirlýsingu um sjálfbær Norðurlönd og í framhaldi af því tekið þátt í mótun stefnu um sjálfbæra þróun þar sem m.a. er kveðið á um að efla skuli sjálfbæra og lífræna framleiðslu. Nýlega ályktuðu norrænir matvælaráðherrar um það mál. Sem aðilar að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði hafa Íslendingar tekist á hendur skuldbindingar um að vinna samkvæmt evrópskum stöðlum um lífræna framleiðslu. Í ljósi þess að ESB og stjórnvöld einstakra aðildarríkja EES vinna að eða hafa þegar mótað stefnu um eflingu lífrænnar framleiðslu er ekki óeðlilegt að ætla íslenskum stjórnvöldum að hefjast einnig handa.
    Lífræn framleiðsla snertir mörg svið þjóðlífsins. Hún tengist náið margvíslegum land- og sjávarnytjum, iðnaði, neytendavernd, heilbrigðismálum, byggðaþróun, verslun og utanríkisviðskiptum. Í ljósi þess að Íslendingar eru nú þegar orðnir langt á eftir flestum grannþjóðum sínum á þessu sviði er tímabært að stjórnvöld stuðli að því að kortleggja þá fjölþættu möguleika sem lífræn framleiðsla býður íslenskum neytendum og framleiðendum og hvernig hið opinbera geti stutt við þá þróun.