Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 648. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1294  —  648. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 28/1993, um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og á fund nefndarinnar komu fulltrúar frá Sementsverksmiðjunni hf. Akranesi, Starfsmannafélagi Sementsverksmiðjunnar, Verkalýðfélaginu á Akranesi, Akraneskaupstað og iðnaðarráðuneyti ásamt fulltrúa frá Samtökum iðnaðarins.
    Minni hlutinn er efnislega ekki á móti sölu á Sementsverksmiðjunni hf. en gerir athugasemd við aðferðafræði ríkisstjórnarinnar og þar með iðnaðarráðherra. Innflutningur á sementi hefur aukist á undanförnum missirum. Sement er nú flutt inn frá Danmörku og mun hlutdeild innflutts sements vera 20–25% af heildarnotkun í landinu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem minni hlutinn hefur er verð innflutta sementsins mun lægra en í útflutningslandinu og jafnframt lægra en sementsverð í öðrum löndum sem viðkomandi aðilar flytja út til. Sementsverksmiðjan hf. hefur kært meint undirboð samkeppnisaðilans til samkeppnisyfirvalda. Þau mál eru enn óútkljáð enda þótt ESA hafi kveðið upp þann úrskurð að Sementsverksmiðjan sé ekki ráðandi á markaði hérlendis. Það er alveg ljóst að biðtími eftir úrskurði ESA hefur verið verksmiðjunni dýrkeyptur og það hefur verið skoðun minni hlutans að ríkisstjórnin eða iðnaðarráðherra hefði átt að setja einhliða lágmarksverð á sement í landinu þar til málefni veksmiðjunnar væru komin á hreint.
    Minni hlutinn telur að standa beri vörð um Sementsverksmiðjuna hf. og að strax hefði átt að setja lágmarksverð á sement til þess að vinna tíma og ganga úr skugga um samkeppnismál verksmiðjunnar og verðmyndun á innfluttu sementi. Minni hlutinn minnir á þingsályktunartillögu undirritaðs og Jóns Bjarnasonar á þskj. 32 um úttekt á verðmyndun á innfluttu sementi.
    Minni hlutinn minnir einnig á tillögu sömu flutningsmanna á þskj. 133 um úttekt á framtíðarhlutverki Sementsverksmiðjunnar hf. við förgun spilliefna. Reikna má með að flestir landsmenn viti hvert meginhlutverk Sementsverksmiðjunnar á Akranesi er, en líklega hafa fæstir áttað sig á því að Sementsverksmiðjan getur gegnt lykilhlutverki hvað varðar förgun spilliefna og notkun á iðnaðarúrgangi. Nú þegar hefur verksmiðjan unnið brautryðjandastarf á því sviði. Í ofni Sementsverksmiðjunar er brennt talsvert af olíu, framköllunarefnum og leysiefnum og hefur sú brennsla sparað umtalsverð kaup verksmiðjunnar á eldsneyti erlendis frá. Komið hefur fram í viðtölum við forráðamenn verksmiðjunnar að hún geti hæglega tekið að sér förgun aukins hluta úrgangsefna sem til falla. Má þar nefna gúmmí, svo sem hjólbarða sem hægt væri að nota í brennsluferli verksmiðjunnar, en einnig timburafganga og olíur af ýmsu tagi í meira mæli en gert hefur verið fram að þessu. Í fyrrgreindri þingsályktunartillögu er lagt til að gengið verði úr skugga um hvernig Sementsverksmiðjan getur í enn ríkari mæli unnið að förgun úrgangsefna. Gríðarlegt magn úrgangsefna fellur til í landinu, afgangsolíur af ýmsu tagi, timbur og gúmmíafgangar. Pappír sem til fellur er t.d. um 15–20 þús. tonn, timbur 14–15 þús. tonn, dagblöð 10–12 þús. tonn, plast 1.500–2.000 tonn og hjólbarðar 1.500–2.000 tonn. Verksmiðjan fargar nú þegar um 5.000 tonnum af fljótandi efnum sem eru nær eingöngu úrgangsolíur. Sum þessara efna eru flutt úr landi til förgunar en vegna eðlis sementsverksmiðja þar sem vara er unnin við mjög hátt brennslustig er talið að hún geti auðveldlega sinnt mun stærri hluta þessarar nauðsynlegu förgunar og jafnframt gæti það styrkt rekstur verksmiðjunnar að einhverju leyti.
    Minni hlutinn telur afar brýnt að þessi úttekt á framtíðarhlutverki verksmiðjunnar varðandi förgun úrgangsefna fari fram áður en áformað verður að selja Sementsverksmiðjuna hf. Í umsögnum kemur fram að Sementsverksmiðjan hefur í samstarfi við Efnamóttökuna hf. látið vinna drög að skýrslu um brennslu úrgangsefna í ofni fyrirtækisins og telur þá málinu til framdráttar að fulltrúar frá fleiri aðilum hafa einnig komið að málinu. Forsvarsmenn Sementsverksmiðjunnar benda á að framtíðarförgun á þessum efnum sé að vísu háð því að hægt verði að tryggja framtíðarverkefni fyrirtækisins. Í umsögn Efnamóttökunnar hf. kemur fram að sementsverksmiðjur erlendis hafa lagt mikla áherslu á að fá úrgangsefni til brennslu í stað olíu og kola. Þannig losna verksmiðjurnar við kaup á eldsneyti og fá jafnvel greitt með brennslu úrgangsefnanna og viðkomandi samfélag þarf ekki að leggja til land undir urðun þeirra úrgangsefna sem þannig er unnt að brenna eða eyða þeim með öðrum og oft dýrari hætti. Með úrvinnslulögum skapast hagrænir hvatar til að safna umbúðaúrgangi, hjólbörðum o.fl. og þau lönd sem hafa á annað borð einhver umhverfismarkmið leitast við að nýta urðun úrgangs eins og kostur er. Sum úrgangsefni er hægt að endurvinna sem hráefni í aðra framleiðsluvöru en fyrir önnur efni þarf að finna aðrar úrvinnsluaðferðir. Á Íslandi er núna engin úrvinnsluaðferð fyrir hjólbarða nema urðun. Hjólbarða og ýmsan umbúðaúrgang er tiltölulega einfalt að brenna til orkuvinnslu eða til að koma í stað annarra orkugjafa. Þannig getur Sementsverksmiðjan hf. gegnt stóru hlutverki. Það yrði því verulegt áfall fyrir úrvinnsluiðnaðinn hér á landi ef brennslu úrgangsefna yrði hætt í Sementsverksmiðjunni hf. Þá þarf að koma þessum efnum annað, í flestum tilfellum til útlanda með tilheyrandi kostnaði. Einnig þarf að hafa í huga að reglur um flutning úrgangsefna á milli landa verða sífellt strangari. Það er því ákaflega mikilvægt að tryggja megi rekstur Sementsverksmiðjunnar á Akranesi til frambúðar.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 11. mars 2003.



Árni Steinar Jóhannsson.


Fylgiskjal.


Umsagnir um þingsályktunartillögu um úttekt á framtíðarhlutverki
Sementsverksmiðjunnar hf. við förgun spilliefna.

(133. mál 128. löggjafarþings.)

Umsögn samtaka atvinnulífsins.
(25. nóvember 2002.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,
f.h. Samtaka atvinnulífsins

Óskar Maríusson.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Umsögn Byggðastofnunar, þróunarsviðs.
(26. nóvember 2002.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,

Bjarki Jóhannesson     Guðmundur Guðmundsson
forstöðumaður þróunarsviðs.     ráðgjafi.




Umsögn iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis.
(2. desember 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


F.h.r.

Þorgeir Örlygsson.
Gunnar Örn Gunnarsson.


Umsögn Efnamóttökunnar hf.
(2. desember 2002.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,
f.h. Endurvinnslunnar hf.

Gunnar Bragason
framkvæmdastjóri.

Umsögn Samtaka iðnaðarins.
(18. nóvember 2002.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Samtök iðnaðarins

Jón Steindór Valdimarsson
aðstoðarframkvæmdastjóri.


Umsögn spillefnanefndar.
(5. desember 2002.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


F.h. spilliefnanefndar

Már Karlsson.

Umsögn Hollustuverndar ríkisins.
(5. desember 2002.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,
f.h. Hollustuverndar ríkisins

Davíð Egilson
forstjóri.

Helgi Jensson
forstöðumaður.


Umsögn Iðntæknistofnunar.
(2. desember 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,

Hallgrímur Jónasson
forstjóri.




Umsögn Samtaka verslunar og þjónustu.
(2. desember 2002.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,

Sigurður Jónsson
framkvæmdastjóri.