Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 501. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1311  —  501. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um tekjutap sveitarfélaga.

     1.      Er ráðherra sammála því mati Sambands íslenskra sveitarfélaga að sveitarfélögin verði af 1½ milljarði kr. í útsvar á þessu ári vegna fjölgunar einkahlutafélaga á síðasta ári? Ef svo er ekki, hvað áætlar fjárlagaskrifstofa tekjutap sveitarfélaganna mikið á þessu ári?
    Að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga er áætlað að tekjutap sveitarfélaga vegna tilfærslu frá einkarekstri yfir í rekstur einkahlutafélaga hafi numið 1,1 milljarði kr. í fyrra. Við þessa áætlun eru þó gerðir ýmsir fyrirvarar og bent á að erfitt sé „ ... að draga fram óumdeilanleg áhrif á sveitarfélögin nema með mjög ítarlegum og tímafrekum rannsóknum“.
    Sem dæmi má nefna að ekki liggja fyrir tölulegar upplýsingar um fjölda þeirra rekstraraðila sem hafa breytt rekstrarformi úr einstaklingsrekstri í einkahlutafélög heldur einungis um breytingar í hvorum þessara flokka fyrir sig.
    Auk þess er rétt að benda á að í lok ársins 2001 voru gildandi reglur um reiknað endurgjald hertar þannig að nú ber öllum sem starfa við eigin atvinnurekstur, hvort heldur er um að ræða einstaklingsrekstur, einkahlutafélög eða hlutafélög, að reikna sér tiltekin lágmarkslaun. Jafnframt var viðmiðunarflokkum reiknaðs endurgjalds fjölgað og viðmiðunarfjárhæðir hækkaðar verulega.
    Þessi aðgerð ætti að óbreyttu að leiða til umtalsverðrar hækkunar á útsvarsstofni sveitarfélaga og þar með vega á móti hugsanlegu tekjutapi vegna tilfærslu úr einstaklingsrekstri í einkahlutafélög.
    Að öllu samanlögðu er fjármálaráðuneytið sammála því mati Sambands íslenskra sveitarfélaga um að afar erfitt sé að meta áhrif þeirra breytinga sem hér um ræðir nema að undangengnum ítarlegum rannsóknum. Ekki er heldur unnt að fullyrða nokkuð um niðurstöðu slíkra athugana hvað afkomu sveitarfélaga varðar.

     2.      Hvað má áætla að tekjutap ríkissjóðs verði (miðað við fjölgun einkahlutafélaga á síðasta ári) vegna þeirrar yfirfærslu sem varð á síðasta ári á einkarekstri yfir í einkahlutafélög og hver var áætlun fjárlagaskrifstofu í því efni þegar skattalagabreytingarnar voru lagðar fram á haustþingi 2001?
    Á haustþingi 2001 voru samþykkt lög sem meðal annars kváðu á um lækkun tekjuskatts lögaðila úr 30% í 18%. Að mati efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins var áætlað að hreint tekjutap ríkissjóðs af þeim breytingum gæti numið 2,7 milljörðum kr. Þessar áætlanir byggðust meðal annars á efnahagslegu mati á áhrifum þessara breytinga á almenn umsvif í þjóðarbúskapnum sem mundu skila sér í auknum skatttekjum. Ekkert mat var hins vegar lagt á áhrif hugsanlegrar tilfærslu milli rekstrarforma af sömu ástæðum og tilgreindar eru í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar.

     3.      Hvaða áhrif má ætla að yfirfærslan á síðasta ári á einkarekstri yfir í einkahlutafélög hafi á vaxta- og barnabætur þar sem einungis 50% arðstekna koma til útreiknings þeirra tekna sem skerða tekjutengdar bætur?
    Ekki er unnt að svara þessari spurningu af sömu ástæðum og tilgreindar eru í svari við 1. og 2. lið fyrirspurnarinnar.

     4.      Hvernig áformar ráðherra að bæta sveitarfélögunum tekjutapið, sbr. 1. lið?
    Ekki liggur fyrir að um verði að ræða tekjutap sveitarfélaga, sbr. svör við 1. og 2. lið fyrirspurnarinnar.