Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 655. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1333  —  655. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um útgáfu ritverksins Saga Íslands.

     1.      Hvað líður útgáfu ritverksins Saga Íslands sem samið er að tilhlutan þjóðhátíðarnefndar 1974?
    Út eru komin fimm bindi af Sögu Íslands. Fimmta bindið kom út árið 1990. Sakir fjárskorts var þá ekki unnt að halda verkinu áfram og lagðist það því af í nokkurn tíma. Í desember 1997 gerðu forsætisráðuneytið og Hið íslenzka bókmenntafélag með sér samning sem tryggir fjárhagslegan grundvöll söguritunarinnar. Verkinu hafa verið tryggð framlög í fjárlögum og greiðslufyrirkomulag er með þeim hætti að útgefandi fær greiddan einn þriðja hluta meðan á vinnslu stendur en tvo þriðju við útkomu hvers bindis fyrir sig.

     2.      Hver hefur framvinda verksins verið?

    Lengri tíma tók en ætlað var að koma verkinu af stað á nýjan leik og ná upp dampinum. Finna þurfti hæfa skrásetjara og gera við þá samning. Oft og tíðum voru og eru viðkomandi sagnfræðingar við vinnu erlendis sem valdið hefur töfum. Tafir hafa einnig orðið á verkinu vegna forfalla og andláts höfunda. Auk þess var farið í viðameiri heimilda- og myndasöfnun en áætlað hafði verið í fyrstu.

     3.      Hvenær er gert ráð fyrir að næsta bindi Sögu Íslands komi út og hver eru áætluð verklok útgáfunnar?
    Nú er unnið að ritun 6., 7. og 8. bindis og gera má ráð fyrir að samtals verði Saga Íslands 10–11 bindi. Gert er ráð fyrir að sjötta bindi komi út í ár og ef til vill það sjöunda. Að öðrum kosti verður það útgefið árið 2004 ásamt áttunda bindi. Ritstjóri getur því miður ekki enn sem komið er sagt til um endanleg verklok. Ástæður þess eru m.a. framangreindar tafir og enn er ekki búið að fá höfund eða höfunda til að semja alla síðustu hluta verksins. En óhætt er að fullyrða að verkið er í fullum gangi núna og komin eru drög fram á síðustu öld. Nánari upplýsingar um ritun Sögu Íslands er hægt að fá hjá ritstjóranum, Sigurði Líndal.

     4.      Hverjir sitja nú í ritstjórn verksins, hversu lengi hafa þeir setið þar og hvað hefur valdið þeirri töf sem orðið hefur á útgáfu Sögu Íslands?
    Eiginleg ritstjórn er ekki starfandi lengur. Þann 7. nóvember 1978 voru skipaðir í ritnefnd Sögu Íslands þeir Gísli Jónsson menntaskólakennari, Jakob Benediktsson prófessor og Jónas Kristjánsson, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar. Tveir hinna fyrrnefndu eru nú látnir og hafa nýir ekki verið skipaðir í þeirra stað. Sigurður Líndal hefur verið ritstjóri Sögu Íslands frá árinu 1972 og honum til aðstoðar eru söguritarar hver á sínum tíma. Hvað varðar tafir á útgáfunni sjá svör við 2. og 3. lið.