Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 596. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1380  —  596. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um aðgerðir til að bæta þjónustu við sjúk börn og unglinga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða stefnumið ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna, sbr. stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá í maí 1999, hafa komið til framkvæmda og hver á eftir að uppfylla á sviði menntamála,
     a.      varðandi leikskólavist langveikra barna og aðstöðu, gjaldtöku og forgang systkina,
     b.      að fella reglugerð um leikskóla að þörfum langveikra barna,
     c.      að langveik börn fái kennslu við hæfi, sbr. grunnskólalög,
     d.      að efla fræðslu fyrir kennara um langveik börn,
     e.      að efla nemendaverndarráð,
     f.      að gera ráð fyrir langveikum unglingum í framhaldsskólum, og
     g.      að auka samvinna sérfræðiþjónustu skóla og heilsugæslu?


     a.      Leikskólavist langveikra barna, gjaldtaka og forgangur systkina.
    Í aðalnámskrá leikskóla sem menntamálaráðuneytið gaf út 1999 er fjallað um sérþarfir barna. Lög um leikskóla eru frá árinu 1994.
    Leikskólar og grunnskólar eiga lögum samkvæmt að taka við öllum börnum hvernig sem á stendur um atgervi þeirra til líkama og sálar, félagslegt og tilfinningalegt ásigkomulag eða málþroska, fötluðum börnum og ófötluðum og börnum af innlendum sem erlendum uppruna. Ráðuneytið gaf í árslok 2002 út skýrslu um hvernig það hyggst ná settum markmiðum í kjölfar svokallaðrar Dakar-yfirlýsingar um Menntun fyrir alla. Markmið yfirlýsingarinnar eru í sex liðum og ber hverju aðildarlandi UNESCO að skilgreina hvernig það hyggst ná markmiðunum fyrir árið 2015. Fyrsta markmiðið í Dakar-skýrslunni um menntun fyrir alla er að auka skuli og bæta alla umönnun og menntun ungra barna, einkum þeirra sem verst eru á vegi stödd. Í skýrslunni segir að börn sem búa við erfiðar aðstæður, eða eru illa á vegi stödd að öðru leyti, séu forgangshópur á leikskólum en slík ákvæði eru þegar í reglugerð um starfsemi leikskóla, nr. 225/1995. Í skýrslunni segir enn fremur að huga þurfi sérstaklega að langveikum börnum og brýnt sé að þörfum þeirra sé sinnt með samstarfi við skóla.
    Engin sérstök ákvæði eru í reglugerðum um gjaldtöku og systkinaafslátt fyrir langveik börn. Ráðuneytið hefur þó upplýsingar um að almennt tíðkist að veita langveikum og fötluðum börnum forgang í leikskóla. Einnig hefur ráðuneytið upplýsingar um að systkinaafsláttur sé gefinn en ákvörðun um hann er tekin í viðkomandi sveitarfélagi.
    Í ráðuneytinu er að hefjast vinna við að móta verklag við úttektir á aðalnámskrám leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla sem tóku gildi 1999. Í þeim úttektum gefst tækifæri til að skoða hvernig lögunum er framfylgt, m.a. er varðar réttindi langveikra barna og ungmenna til aðstoðar og þjálfunar á þessum skólastigum. Í kjölfar slíkrar úttektar er eðlilegt að lagt verði mat á hvort eða hvernig þurfi að breyta lögum um viðkomandi skólastig, reglugerðum og námskrárákvæðum til að taka af öll tvímæli um rétt langveikra barna í menntakerfinu.
     b.      Að fella reglugerð um leikskóla að þörfum langveikra barna.
    Reglugerð um starfsemi leikskóla tekur ekki sérstaklega á málefnum langveikra barna en eins og að framan getur eru öll börn sem standa höllum fæti forgangshópur samkvæmt gildandi reglugerð.

     c.      Að langveik börn fái kennslu við hæfi, sbr. grunnskólalög.
    Í aðalnámskrá grunnskóla, almennum hluta, sem menntamálaráðuneytið gaf út 1999 kemur skýrt fram á bls. 14 að grunnskólinn skuli „leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska hvers og eins. Grunnskólar eiga að taka við öllum börnum hvernig sem á stendur um atgervi þeirra til líkama og sálar, félagslegt og tilfinningalegt ásigkomulag eða málþroska. …Á grunnskólastigi eiga allir nemendur rétt á að stunda skyldunám í heimaskóla nema foreldrar og sérfræðingar skóla meti aðstæður nemandans þannig að honum sé fyrir bestu að vera í sérskóla eða heilsu hans sé þannig farið að ekki verði komist hjá vistun fjarri heimili“.
    Samkvæmt grunnskólalögum skal hver skóli gefa árlega út skólanámskrá og í aðalnámskrá grunnskóla er nánari útfærsla á þessu lagaákvæði. Þar kemur m.a. fram, bls. 26, að í skólanámskrá þurfi að gera grein fyrir kennslufræðilegri stefnu skólans, sérkennsluúrræðum og kennslu langveikra barna.
    Reglugerð um sérkennslu, nr. 389/1996, var endurskoðuð í kjölfar flutnings grunnskólans til sveitarfélaga. Grundvöllur sjúkrakennslu grunnskólanemenda er í 15. gr. reglugerðar um sérkennslu, nr. 389/1996. Bent er á að skv. 1. gr. laga nr. 77/1996, um breyting á lögum nr. 66/1995, um grunnskóla, hefur Samband íslenskra sveitarfélaga frumkvæði að lausn málefna grunnskólans sem varða fleiri en eitt sveitarfélag, ef þeim er ekki skipað með öðrum hætti í lögum, reglugerðum eða með samkomulagi aðila. Kennsla á sjúkrahúsum þar sem nemendur eru frá mörgum sveitarfélögum getur fallið undir ákvæði þessara laga. Undirbúningur er hafinn í ráðuneytinu vegna nýrrar endurskoðunar á reglugerðinni.
    Heildarúttekt hefur ekki verið gerð á sérkennslu í grunnskólum, eðli hennar og umfangi en samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur fengið frá sveitarfélögum hefur sérkennsla aukist eftir flutning grunnskólans til sveitarfélaga, í sumum tilvikum verulega. Sérstaklega er vakin athygli á úttekt á sérkennslu í Reykjavík sem gerð var árið 2001 en þar kemur m.a. fram að aukning hefur verið til sérkennslu á undanförnum árum, bæði hvað varðar fjármagn og fjölda nemenda. Í ýmsum tilvikum er slík aukning tilkomin vegna skólagöngu langveikra barna sem sækja í auknum mæli heimaskóla og njóta fjarkennslu frá skólunum þegar þau dvelja á sjúkrahúsum eða eru veik heima. Einnig hefur þjónusta við langveik vörn aukist í sérdeildum og sérskólum. Fjarkennsla á grunnskólastigi hefur á undanförnum árum auðveldað langveikum börnum að stunda nám eins og aðrir jafnaldrar þeirra og viðhalda félagslegum tengslum við bekkjarfélaga með viðeigandi tæknibúnaði. Þessi fjarkennsluþjónusta hefur komið til viðbótar þjónustu við langveik börn sem veitt er samkvæmt sérkennslureglugerð.
    Skipuð hefur verið nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins til að huga að endurskoðun á reglugerð um sérfræðiþjónustu skóla. Í nýrri reglugerð um sérfræðiþjónustu verða ákvæði sem skylda grunnskóla til að framkvæma greiningu á sértækri lesröskun með kerfisbundnum hætti. Þar verður enn fremur kveðið á um hvaða aðferðum skuli beitt við greininguna og hvaða skyldur skólar bera gagnvart nemendum sem greinast með sértæka lesröskun. Ráðuneytið leggur áherslu á að lestrarerfiðleikar greinist sem fyrst á skólagöngu barnsins svo að hægara sé að leita leiða til úrbóta. Ræða þarf verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þessu sambandi, svo og skiptingu ábyrgðar, auk þess sem nauðsynlegt er að skilgreina ábyrgð og verkaskiptingu ráðuneyta. Í reglugerð um sérfræðiþjónustu verður einnig fjallað um málefni langveikra barna og hlutverk þjónustunnar skilgreind.

     d.      Að efla fræðslu fyrir kennara um langveik börn.
    Menntamálaráðuneytinu er kunnugt um að málefni langveikra barna hafa fengið aukna áherslu í kennaranámi að undanförnu, bæði í námi grunnskólakennara og leikskólakennara, og veittir hafa verið styrkir úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla til námskeiða fyrir kennara um málefni langveikra barna.

     e.      Að efla nemendaverndarráð.
    Menntamálaráðuneytið hefur fellt tvo úrskurði á grundvelli gildandi reglugerðar um nemendaverndarráð, nr. 388/1996, annan árið 1999 og hinn 2001, og þannig skýrt og styrkt stöðu nemendaverndarráða. Stefnt er að því festa frekar í sessi stöðu og hlutverk ráðanna, m.a. varðandi málefni langveikra barna. Nemendaverndarráð hafa á undanförnum árum eflst mjög víða í grunnskólum og orðið skilvirkari í meðferð og úrlausn mála hvað varðar einstaka nemendur. Einnig hefur teymisvinna innan skóla víða aukist í þeim tilgangi að styrkja kennara í að koma til móts við þarfir nemenda sem eiga við ýmsan vanda að etja. Loks hefur samstarf skólaþjónustu og barnaverndaryfirvalda við úrlausn mála aukist.

     f.      Að gera ráð fyrir langveikum unglingum í framhaldsskólum.
    Samkvæmt lögum um framhaldsskóla og aðalnámskrá eiga langveikir nemendur í framhaldsskóla að fá kennslu og nauðsynlegan stuðning í skólanum. Framhaldsskólum ber að greina frá þjónustu við langveik ungmenni í skólanámská viðkomandi skóla. Fjarnám er einnig orðið algengt á framhaldsskólastigi og hentar það vel til að veita langveikum ungmennum þjónustu.
    Á undanförnum árum hefur orðið hröð þróun í uppbyggingu sérdeilda framhaldsskóla. Gerð hefur verið sérstök námskrá og eiga nemendur rétt á fjögurra ára námi í sérdeildum. Stóraukið fjármagn hefur verið veitt til sérkennslu innan framhaldsskóla á undanförnum árum. Almenn heilbrigðisþjónusta hefur einnig verið efld í nokkrum framhaldsskólum í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld.

     g.      Að auka samvinnu sérfræðiþjónustu skóla og heilsugæslu.
    Málefni langveikra barna hafa verið til umfjöllunar í samráðsnefnd ráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og samtaka kennara og skólastjóra. M.a. hefur verið rædd nauðsyn þess að sérfræðiþjónusta skóla vinni samhæft með heilbrigðisyfirvöldum og félagsmálayfirvöldum. Í vinnu nefndar forsætisráðuneytisins um stefnu í málefnum barna og ungmenna hefur verið fjallað um eflingu heilsugæslu í skólum á öllum skólastigum. Skýrslan er á lokastigi.
    Í Dakar-skýrslunni, sem getið er undir a-lið, segir að efla þurfi og samhæfa betur sérfræðiþjónustu og ráðgjöf, leggja þurfi áherslu á þróun mats- og greiningartækja, auka þurfi samstarf ríkis og sveitarfélaga á sviði mennta-, heilbrigðis- og félagsmála og skilgreina rétt einstaklinga til sérfræðiþjónustu vegna fötlunar og námsörðugleika, t.d. vegna lesröskunar.
    Loks skal þess getið að ráðuneytisstjórum menntamálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis hefur verið falið að ræða sérstaklega ýmis málefni sem skarast milli ráðuneyta og finna þeim málum farsælan farveg og úrlausn. Sérfræðiþjónusta vegna langveikra barna er eitt þeirra mála sem eðlilegt er að verði rædd á þeim vettvangi.