Fyrirtæki sem framleiða sjónvarpsefni

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 14:38:10 (5423)

2004-03-17 14:38:10# 130. lþ. 85.4 fundur 685. mál: #A fyrirtæki sem framleiða sjónvarpsefni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁF
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[14:38]

Fyrirspyrjandi (Ásgeir Friðgeirsson):

Herra forseti. Það veldur mér vonbrigðum hversu vel hæstv. menntmrh. virðist una því ástandi sem ríkir á þessu sviði hér á landi nú um stundir. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra líkt og hjá mér að um 15 millj. kr. hefði verið varið á síðasta ári til leikins efnis. Það jafngildir tugum síðna í útgáfuefni forsrh. af tilefni heimastjórnarafmælis.

Eitt er að bera ekki skynbragð á mikilvægi sjónvarps í nútímamenningu og nauðsyn sögulegrar og þjóðlegrar viðspyrnu á tímum aukinnar alþjóðavæðingar og annað að skilja ekki þann veigamikla þátt sem menning, einkum dægurmenning, hefur í atvinnulífi þróaðra þjónustusamfélaga. Tónlist, sjónvarpsefni og kvikmyndir eru stórar útflutningsgreinar í mörgum nærliggjandi löndum. Menning eykur öðrum útflutningsgreinum byr á öðrum mörkuðum. Björk og 101 Reykjavík hafa trúlega gert meira fyrir íslenska ferðaþjónustu en öll ráðuneyti núv. forsrh. frá 1991. Það er mikilvægt að fá fram hjá hæstv. menntmrh. hvort hann sé sáttur við hlut innlendrar dagskrárgerðar í íslensku sjónvarpi.

Það var ánægjulegt að heyra að til stendur að auka fjármagn til þessarar greinar. En þá vil ég vitna, með leyfi hæstv. forseta, í grein eftir flokksbróður hæstv. menntmrh. og fyrrum borgarstjóra Sjálfstfl., Markús Örn Antonsson. Hann segir, með leyfi:

,,Ráðamenn hafa við hátíðleg tækifæri gefið fögur fyrirheit um eflingu innlends sjónvarpsefnis. Minna hefur orðið úr framkvæmdum.``

Þessi málaflokkur hefur heyrt undir Sjálfstfl. í hartnær tvo áratugi. Megum við að þessu sinni vonast til þess að menntmrh. Sjálfstfl. muni efna loforð sín?