Minnst látins fyrrverandi alþingismanns

Mánudaginn 22. mars 2004, kl. 15:03:39 (5562)

2004-03-22 15:03:39# 130. lþ. 87.1 fundur 421#B minnst látins fyrrverandi alþingismanns#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Forseti (Halldór Blöndal):

Garðar Sigurðsson, fyrrverandi alþingismaður, lést síðastliðinn föstudag, 19. mars, á hjúkrunarheimilinu Skjóli hér í bæ. Hann var sjötugur að aldri.

Garðar Sigurðsson var fæddur í Reykjavík 20. nóv. 1933, sonur hjónanna Sigurðar Hjálmarssonar bifreiðasmiðs og Klöru Tryggvadóttur. Hann fluttist barn að aldri með móður sinni og síðari manni hennar, Hallgrími Júlíussyni skipstjóra, til Vestmannaeyja og ólst þar upp með þeim. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1953 og lagði síðan stund á verkfræði við Háskóla Íslands í tvö ár. Hann var kennari við Gagnfræðaskólann á Neskaupstað 1957--1961 og eftir það við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum til 1971, settur skólastjóri hans veturinn 1969--1970. Garðar Sigurðsson fór ungur til sjós, var sjómaður á sumrin frá fermingaraldri meðan hann var í skóla og að aðalstarfi nokkur ár eftir að hann hvarf frá námi. Hann lauk stýrimannaprófi utan skóla í Reykjavík árið 1962 og var upp frá því stýrimaður á fiskiskipum í hléum frá kennslu eða öðrum störfum.

Garðar Sigurðsson varð þegar á unga aldri róttækur í skoðunum og gekk til liðs við sósíalista. Hann var kjörinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja árið 1966 fyrir Alþýðubandalagið og varð skjótt forustumaður þess þar í bæ, sat í bæjarstjórn til 1978. Við alþingiskosningarnar í júní 1971 var hann í framboði fyrir Alþýðubandalagið og var kosinn þingmaður Suðurlandskjördæmis. Hann sat samfellt á þingi til ársins 1987, á 18 þingum.

Garðar Sigurðsson var tæplega fertugur er hann var kjörinn á Alþingi og hafði þá þegar talsverða reynslu af stjórnmálastörfum. Hann hafði mikla þekkingu á málefnum sjávarútvegs, bæði sem sjómaður og forustumaður í bæjarmálum í öflugum útgerðarbæ. Hann lét sig þau mál mestu skipta í umræðum hér á Alþingi, svo og samgöngumál. Hann var kjörinn í flugráð 1972 og sat þar til 1980. Er jarðeldar komu upp á Heimaey 1973 var hann kjörinn í stjórn Viðlagasjóðs sem var settur á stofn til að bæta það tjón sem þá varð á eignum Vestmanneyinga og til að hefja þar uppbyggingu að nýju. Hann sat í bankaráði Útvegsbankans 1981--1987. Enn fremur tók hann allmikinn þátt í alþjóðasamstarfi þingmanna, einkum í Alþjóðaþingmannasambandinu og á vettvangi Evrópuráðsins.

Garðar Sigurðsson var öflugur talsmaður síns flokks og þeirra þjóðfélagsskoðana sem hann aðhylltist. Hann var þó sjálfstæður í málflutningi, snjall ræðumaður, orðheppinn og vel ritfær. Hann var réttsýnn og hreinskilinn, var glaðsinna og góður félagi í þingmannahópi.

Eftir að Garðar Sigurðsson hvarf af þingi vann hann hjá Veiðieftirliti sjávarútvegsráðuneytisins og varð síðar starfsmaður Landsbanka Íslands þar til hann lét af störfum sakir heilsubrests, aðeins sextugur að aldri. Hann átti síðar við þungbæran sjúkdóm að stríða.

Ég bið háttvirta alþingismenn að minnast Garðars Sigurðssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]