Vernd og sjálfbær nýting lífvera á hafsbotni

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 15:52:25 (793)

2003-10-17 15:52:25# 130. lþ. 14.13 fundur 31. mál: #A vernd og sjálfbær nýting lífvera á hafsbotni# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur er alveg örugglega einn af þeim seku ef hægt er að tala um seka menn í þessu sambandi. Hann var skipstjóri á togara í 20 ár, og það er alveg hárrétt sem komið hefur fram í umræðunni að togveiðar, kröftugar togveiðar með botnlægum veiðarfærum eins og botnvörpunni breyta ástandi hafsbotnsins. Það hefur lengi verið ljóst og skipstjórnarmönnum hefur lengi verið það ljóst. Það var hins vegar ekki fyrr en fyrir um 20--25 árum sem menn fóru að hugleiða það í alvöru að menn gætu verið að skemma botninn til framtíðar.

Ég hygg að fiskimenn hafi ekki almennt gert sér grein fyrir því frekar en sá sem hér stendur að það gróðurfar sem er á botninum þar sem dýpi er komið niður fyrir 100 faðma væri jafnseinvaxið eins og komið hefur í ljós með nútímarannsóknum og að menn hafi áttað sig á því að þeir voru að ryðja burt kóralhrúgunum eða slíta upp gríðarlega stórar og hávaxnar plöntur af hafsbotninum, stærstu plöntur sem ég hef séð, hálfgerð tré um 3--4 metrar sem stundum komu upp með veiðarfærunum. Þessi gróður var hins vegar mjög takmarkaður og hann var á tiltölulega takmörkuðum svæðum, þ.e. svona gróður sem var mjög áberandi eins og t.d. stórvaxin, rauð tré, ég vil kalla það tré því að þetta eru stofnar sem verða mjög sterkir og sverir og hafa síðan fjölda greina. Þetta barst auðvitað upp með veiðarfærunum á ákveðnum svæðum.

Ég hygg, virðulegi forseti, að Hafrannsóknastofnun með fullri virðingu fyrir henni hafi ekki þá þekkingu að geta bent á slík svæði, en það hafa hins vegar fiskimenn. Og ég er alveg sannfærður um að í dag miðað við þá umræðu sem fiskiskipstjórar hafa auðvitað fylgst með og flestir fiskiskipstjórar hafa mikinn áhuga á lífríkinu sem þeir nýta, þá eru menn orðnir þess meðvitaðir að með þeim kröftum sem verið er að nota við togveiðar í dag er auðvitað mjög auðvelt að breyta botnlagi verulega. Það er alls ekki sama hvar botnvarpan er notuð með tilliti til þess hvaða áhrif hún hefur á lífríki sjávar.

Það er alveg ljóst að á sumum hafsvæðum hér við land þar sem voru kóralsvæði fyrir tveim til þrem áratugum, þar er núna sléttlendi, tiltölulega slétt slóð sem menn þekkja orðið mjög vel eins og fingurna á sér. Á sumum svæðum þar sem áður voru kísil- og kóraltré og sveppatré, þar er núna líka búið að breyta botnlaginu og breyta landslagi á hafsbotni. En hins vegar eru sennilega eftir nokkrir staðir þar sem fer saman gróður og mjög erfið botngerð, þ.e. hraun eða hraundrangar og önnur sú botngerð sem mjög erfitt er að fara yfir með nútímaveiðarfæri, jafnvel með þeirri veiðarfærastýringu sem menn eru komnir með, að geta séð hversu fast trollið situr o.s.frv.

Það sem hefur hins vegar verið að gerast á undanförnum 25 árum, virðulegi forseti, er það að aflið sem notað er til togveiðanna hefur ekki bara tvöfaldast og ekki bara þrefaldast, það hefur í sumum tilfellum fimm- og sexfaldast.

Sem dæmi get ég tekið að þegar verið var að flytja inn og endurnýja bátaflotann, hinn gamla síldveiðiflota upp úr 1970, og inn voru að koma togarar, hinir svokölluðu minni skuttogarar sem voru fluttir hingað til lands á árunum frá 1970 og fram undir 1980, þá voru flest þessi skip með togafl á bilinu frá 11 og upp í kannski 15 tonna togafl á skrúfu. Ég hugsa að okkar öflugustu skip í dag séu með togafl þar sem togspyrnan er 50--60 tonn á skrúfu, þar sem togspyrnan áfram hefur margfaldast með þessum hætti. Þetta er auðvitað gert bæði með stærri vélum í skipunum, stærri og öflugri skipum og einnig með stærri skrúfum og hæggengari og betri útbúnaði til þess að nýta togaflið.

Á sama tíma hefur svo orðið breyting á veiðarfærunum þar sem toghlerarnir sem við notuðum upp úr 1970 voru rétt um tonn og toghlerarnir í dag eru allt upp í fimm tonn per stykki. Það er auðvitað í samræmi við aflið sem dregur þá áfram. Með sama hætti er spilaflið, því það verður auðvitað að fylgja eftir, sem var kannski 6--8 tonn á hverja tromlu í upphafi skuttogaraaldarinnar er sennilega núna orðið upp undir 40, 50 tonn á hverja tromlu. Þessir miklu kraftar gera það auðvitað að verkum að sum hver þau svæði sem ekki var farið yfir hér á árum áður og töldust ódragandi, voru kortlögð af íslenskum skipstjórum sem slík, eru núna dregin af miklum krafti og þau svæði hafa verið að breytast smátt og smátt. Þetta vita íslenskir fiskiskipstjórar mjög vel. Og vegna umfjöllunar um nýtingu sjávarins, umgengni um hafsbotninn og þeirra miklu upplýsinga sem komið hafa inn í umræðuna á undanförnum árum, þá gera þeir sér sennilega manna best grein fyrir því í dag hvað hefur gerst á undanförnum 20--30 árum þegar menn hugsa aftur í tímann. En sú þróun verður ekki tekin til baka.

Þess vegna hefði ég talið, virðulegi forseti, og vil leggja það hér sérstaklega inn í þessa umræðu að mynda þarf samstarf við íslenska togaraskipstjóra og biðja þá að benda á þau fáu svæði sem enn þá eru algjörlega ónýtt, sum eru nýtt aðeins að hluta. Þeir gætu þegar í dag bent á nokkur svæði allt í kringum landið, tiltölulega lítil svæði með erfiða botngerð sem þeir teldu að ætti að friða. Ef menn vilja virkilega gera átak í þessum efnum, sem ég tek undir að er þörf á, þá ættu menn að leita til íslenskra skipstjórnarmanna. Þeir eru örugglega fúsir til að veita slíkar upplýsingar. En þær liggja ekki á lausu endilega í Hafrannsóknastofnuninni þó að Hafrannsóknastofnun á undanförnum árum hafi vissulega fengið meiri þekkingu frá skipstjórnarmönnum og aukna þekkingu af eigin rannsóknum, m.a. með hinu nýja skipi sínu, Árna Friðrikssyni, til þess að annast slík verkefni. En ef menn virkilega vilja koma málinu fljótt á hreyfingu þá væri aðferðin sem ég legg til betri.