Starfsmenntun leiðsögumanna

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 19:55:20 (1295)

2003-11-05 19:55:20# 130. lþ. 21.23 fundur 175. mál: #A starfsmenntun leiðsögumanna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[19:55]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Það er spurt: Hvað líður undirbúningi að starfsnámi íslenskra leiðsögumanna sem fært var undir yfirstjórn menntamálaráðuneytis árið 2000?

Starfsnám leiðsögumanna fer fram í Leiðsöguskóla Íslands sem er rekinn undir stjórn Menntaskólans í Kópavogi. Skólinn hefur verið starfræktur síðan um miðjan áttunda áratuginn og frá upphafi hefur skólinn útskrifað vel á sjöunda hundrað nemenda en nemendur þar eru nú um 50.

Á 125. löggjafarþingi 1999--2000 var lögum um skipulag ferðamála breytt á þann hátt að ábyrgð á námi leiðsögumanna var færð frá samgrn. til menntmrn. Í nál. frá allshn. og menntmn. kom fram sá skilningur nefndarmanna að með þessari breytingu væri ekki verið að breyta inntaki námsins né inntökuskilyrðum, sem eru þau að nemendur séu orðnir 21 árs og hafi m.a. lokið stúdentsprófi. Var í umsögn menntmn. lögð áhersla á að inntökuskilyrðin yrðu tryggð. Í umsögninni var einnig bent á að starfræktur væri samráðshópur þriggja aðila, Menntaskólans í Kópavogi, Félags leiðsögumanna og Samtaka ferðaþjónustunnar, sem ætlað væri að bæta menntun og þekkingu leiðsögumanna.

Spurt er: Stendur til að breyta á einhvern hátt kröfum sem áður voru gerðar til þeirra sem hyggjast stunda leiðsögumannsnám?

Í nýrri námskrá um leiðsögunám, sem nú er í vinnslu í menntmrn., er leitast við að raska sem minnstu í núverandi fyrirkomulagi námsins. Leiðsöguskóli Íslands verður áfram rekinn undir stjórn Menntaskólans í Kópavogi og lýtur þar með faglegri og fjárhagslegri stjórn hans. Við ákvörðun um inntökuskilyrði er höfð hliðsjón af lokamarkmiðum námsins sem eru m.a. að nemendur hafi almenna og sérhæfða þekkingu á ferðum sem í boði eru á Íslandi hverju sinni, að þeir þekki helstu ferðamannaleiðir og staðreyndir um hvert svæði, hafi aflað sér færni til þess að veita ferðamönnum leiðsögn á Íslandi og færni í samskiptum við ferðamenn, að þeir þekki íslenskt nútímasamfélag, jarðfræði, sögu, menningu, dýralíf og atvinnuvegi landsins. Þeir þurfa að hafa góða þekkingu á einu erlendu tungumáli og vera undir það búnir að bregðast við óvæntum aðstæðum sem upp geta komið á ferðum.

Leiðsögunámið hefur nokkra sérstöðu. Það gerir meiri kröfur um undirbúning en svo að það henti ungu fólki sem er að koma upp úr grunnskóla. Staða þess er einnig fólgin í því að námið getur hentað fólki sem býr að góðri þekkingu á erlendum tungumálum án þess að hafa endilega lagt stund á tungumálanám í skóla. Það hentar einnig fólki með brennandi áhuga á landi og þjóð, sögu þess og menningu og sem hefur víðtæka reynslu af innanlandsferðum. Hér er einkum vísað til einstaklinga sem eru komnir yfir miðjan aldur og hafa hugsanlega ekki lokið stúdentsprófi. Þessi atriði hafa verið höfð í huga þegar litið er til inntökuskilyrða í leiðsögunám. Af þeim sökum hefur sú tillaga komið fram að stúdentspróf verði ekki gert að ófrávíkjanlegu inntökuskilyrði því að það gæti útilokað einstaklinga sem eiga fullt erindi í námið. Á hinn bóginn verði stúdentspróf tilgreint sem góður undirbúningur til þess að hefja námið.

Það er spurt: Á hvaða skólastigi verður námið og hverjar eru helstu breytingar sem gerðar verða á uppbyggingu þess og eðli?

Sérskólastig er ekki til á Íslandi sem sérstakt skólastig, ólíkt því sem er annars staðar á Norðurlöndunum svo dæmi sé tekið. Leiðsögunám, sem er í eðli sínu stutt starfsnám, ætti að öllu jöfnu að tilheyra slíku sérskólastigi. Af hálfu menntmrn. hefur verið gengið út frá því við undirbúning að gerð hinnar nýju námskrár að leiðsögunám tilheyri fremur framhaldsskólastigi en háskólastigi. Ákvæði framhaldsskólalaga og aðalnámskrár framhaldsskóla mundu því framvegis eiga við um leiðsögunám eftir því sem við á. Mikilvægt er að hafa hugfast að framhaldsskólastig einskorðast ekki við ákveðinn aldurshóp manna.

Sem fyrr segir verður í hinni nýju námskrá leitast við að raska í sem minnstu núverandi fyrirkomulagi námsins enda virðist ánægja ríkja með uppbyggingu þess.