Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 21:00:59 (2085)

2003-11-25 21:00:59# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[21:00]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Þótt að einhverju leyti sé ekki rétt að taka meira mark á talsmönnum stjórnarandstöðunnar í fjárln. en öðrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar þá hlusta ég á yfirlitsræðu hv. þm. Einars Más Sigurðssonar, talsmanns Samf., og Jóns Bjarnasonar hv. þm. sem var talsmaður Vinstri grænna. Þá komu fram skýringar á hluta af þeim spurningum sem komu hér fram til mín að því er varðaði háskólann og framhaldsskólana, m.a. sú skýring sem var beðið um hér, þ.e. að gera grein fyrir því hvernig hugsað væri að verja þeim fjármunum sem hefur verið veitt til framhaldsskólans til fjölgunar nemenda og til líkansins. Það var farið yfir það hér áður í þessum sal og sjálfsagt er að endurtaka eitthvað af því sem ég get gefið mér tíma til hér.

Það er að sjálfsögðu ætlun mín að verja hluta af þessu fjármagni til þess að fjármagna breytinguna sem varð á líkani framhaldsskólanna í fyrra að fullu. Ég gaf mér þá tvö ár til þess að vinna það verk. Það var áhætta sem ég tók vegna þess að breytingin á líkaninu leiddi til útgjaldaauka. Ég hyggst með þessu standa við þau orð mín að breyta þessu á tveimur árum. Þar með er ekki sagt að við séum að leysa allan vanda framhaldsskólans. Ég vil hins vegar taka það fram að þegar við lítum á greiðsluflæði frá háskólunum þá kemur t.d. í ljós þegar heildarútgjöld Háskóla Íslands eru skoðuð að hann ver nánast jafnmiklum fjármunum til kennslu og til rannsókna. Hv. þm. verður að skoða það að það eru ekki einungis bein fjárframlög í gegnum rannsóknarsamning til Háskóla Íslands sem fara í rannsóknir heldur eru rannsóknir Háskóla Íslands fjármagnaðar með opinberum fjármunum með ýmsum hætti. Það verður að líta á heildarmyndina til að menn átti sig á þessu til fulls.