Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 39. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 39  —  39. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um samgönguáætlun, nr. 71/2002.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir, Jóhann Ársælsson,


Einar Már Sigurðarson, Bryndís Hlöðversdóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Samgönguráð annast endurskoðun og gerð grunntillögu að samgönguáætlun. Í samgönguráði sitja flugmálastjóri, siglingamálastjóri og vegamálastjóri. Uppsetning og efni tillögu samgönguráðs skal vera í samræmi við ákvæði 1. og 4. mgr. 2. gr. og þau skilyrði og sjónarmið sem sett eru fram í 2. og 3. mgr. 2. gr.
     b.      Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                  Niðurstaða samgönguráðs um grunntillögu að samgönguáætlun skal gerð opinber. Ráðherra skal óska eftir umsögnum sveitarfélaga um niðurstöðu samgönguráðs áður en hann leggur tillögu sína að samgönguáætlun fram á Alþingi, sbr. 1. mgr. 2. gr.

2. gr.

    2. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
    Grunntillögur að fjögurra ára áætlun skulu unnar í stofnunum samgöngumála fyrir samgönguráð. Öllum tillögum samgönguráðs að framkvæmdum skal fylgja samræmt arðsemismat. Grunntillögur samgönguráðs að fjögurra ára áætlun skulu gerðar opinberar.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að skilið verði milli Vegagerðarinnar, Siglingastofnunar og Flugmálastjórnar annars vegar og samgönguráðherra hins vegar við gerð tillagna að samgönguáætlunum sem leggja ber fyrir Alþingi. Samkvæmt núgildandi lögum um samgönguáætlun sem sett voru á 127. þingi sem og eldri lögum kemur samgönguráðherra beint að gerð samgönguáætlana á öllum stigum máls innan stofnana samgöngumála. Þetta fyrirkomulag veldur því að erfitt eða ómögulegt er að átta sig á því af hvaða rótum einstakar tillögur eru sprottnar.
    Ljóst er að forsendur tillagna sem teknar eru á pólitískum grunni eru iðulega talsvert ólíkar forsendum tillagna sem teknar eru á faglegum forsendum eingöngu. Með þessu er ekki sagt að pólitískar ákvarðanir eigi ekki rétt á sér þegar teknar eru ákvarðanir um samgönguframkvæmdir, þvert á móti er augljóst að slíkar ákvarðanir eiga rétt á sér í lýðræðisríki. Það er hins vegar ekki stofnana ríkisins að setja fram pólitíska stefnumótun heldur ber þeim að vinna að verkefnum sínum á faglegan og hlutlausan hátt. Til að þeim sé það unnt verður að tryggja þeim tiltekið sjálfstæði. Jafnframt er mikilsvert að pólitískar áherslur samgönguráðherra á hverjum tíma komi skýrt fram og séu aðgreindar frá öðrum tillögum sem reistar eru á öðrum grunni.
    Til að ná framangreindum markmiðum er lagt til að samgönguráðherra eða fulltrúi hans eigi ekki aðild að samgönguráðinu. Jafnframt er lagt til að grunntillögur samgönguráðs verði gerðar opinberar samhliða því sem þær eru sendar ráðherra. Með þessu er tryggt að hagsmunaaðilar og allur almenningur geti fylgst með því hvaðan einstakar tillögur eru komnar og hverjar pólitískar áherslur samgönguráðherra og ríkisstjórnarinnar eru.
    Eftir að tillaga samgönguráðherra hefur verið lögð fyrir Alþingi gefst þingheimi síðan tækifæri til að leggja mat á niðurstöðu ráðherra og gera þær breytingar sem meiri hluti er fyrir.
    Gert er ráð fyrir því að grunntillögur verði unnar af stofnunum samgöngumála og samgönguráði án afskipta samgönguráðherra bæði hvað varðar tólf ára samgönguáætlun og fjögurra ára samgönguáætlun.
    Þá er í frumvarpinu lagt til að öllum tillögum samgönguráðs að framkvæmdum fylgi samræmt arðsemismat sem geri mönnum kleift að bera saman einstakar framkvæmdir með hliðsjón af arðsemi. Arðsemi framkvæmda hefur verið lítill gaumur gefinn við forgangsröðun framkvæmda hér á landi og er brýnt að úr því verði bætt. Þá er mikilvægt að horft sé til kostnaðar samfélagsins af umferðarslysum á tilteknum leiðum og stöðum og hvort líkur séu á því að framkvæmd geti dregið úr slysum. Eðlilegt er að slík skoðun sé hluti af arðsemismati hverrar framkvæmdar fyrir sig.
    Að lokum má geta þess að Norðmenn hafa nú þegar skilið á milli tillögugerðar innan stofnana samgöngumála og tillögugerðar innan ráðuneytis samgöngumála með líkum hætti og hér er gert ráð fyrir og er þar nú unnið að frumgerð áætlunar fyrir árin 2006–2015 innan norsku vegagerðarinnar án afskipta samgönguráðherra þar í landi.