Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 116. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 116  —  116. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um eflingu vestnorræns samstarfs og mótun íslenskrar nærsvæðastefnu.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera tillögur um eflingu vestnorræns samstarfs og mótun íslenskrar nærsvæðastefnu. Áætlun um aðgerðir í þessu skyni miði m.a. að eftirfarandi:
     1.      Að efla vestnorrænt og fjölþjóðlegt samstarf við norðan- og norðvestanvert Atlantshaf með frumkvæði af Íslands hálfu sem landfræðilegum, sögulegum og menningarlegum tengipunkti slíks samstarfs. Mótuð verði í þessu skyni íslensk nærsvæðastefna.
     2.      Að fylgja eftir uppbyggingu vestnorrænnar samvinnu sl. tvo áratugi með markvissum aðgerðum og auknum fjárframlögum, m.a. á sviði menningar- og menntamála, atvinnu- og byggðamála, umhverfis- og náttúruverndarmála og samgöngu- og ferðamála.
     3.      Að efla tengsl við nágrannalönd vestnorrænu landanna í austri og vestri með uppbyggingu skipulagðrar svæðissamvinnu á Norðvestur-Atlantshafssvæðinu í huga.
     4.      Að stuðla að rannsóknum á og ritun sögu Norðvestur-Atlantshafssvæðisins þar sem m.a. verði lögð áhersla á eftirfarandi:
                  a.      landnám Íslendinga á Grænlandi og sögu búsetu norrænna manna þar,
                  b.      sérstök tengsl Íslands og Færeyja, menningarlegan skyldleika, samstarf á sviði atvinnumála og samstöðu og skyldleika þjóðanna almennt,
                  c.      norræna arfleifð á skosku eyjunum og á Írlandi, Bretlandi og vesturströnd Evrópu,
                  d.      landnám norrænna manna á austurströnd Norður-Ameríku,
                  e.      söguleg tengsl Íslands og Vestur-Noregs,
                  f.      sögu siglinga, landafunda, byggðar og búsetu almennt við strendur norðan- og norðvestanverðs Atlantshafs.
     5.      Að fylgja eftir kynningu á vestnorrænni sögu og framlagi Íslands á sviði landafunda og landnáms í Vesturheimi í kjölfar 1000 ára afmælis Vínlandsfundar, siglingar Íslendings og annarra atburða í tilefni af landafundaafmælinu.
     6.      Að rækta tengsl Íslands við Íslendingabyggðir í Kanada og Bandaríkjunum.
     7.      Að efla stöðu Íslands sem tengipunkts á sviði samgöngu- og ferðamála á þessu svæði.
     8.      Að móta stefnu um fjárveitingar til framangreindra verkefna til fjögurra ára í senn sem lögð verði fyrir Alþingi og endurskoðuð með reglulegu millibili.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt þrívegis á síðasta kjörtímabili en varð í ekkert skiptið útrædd. Efni hennar er engu að síður í fullu gildi og ef eitthvað er hefur þróun mála heldur verið í þá átt að svæðisbundin samvinna í okkar heimshluta njóti aukinnar athygli. Þannig hefur starfshópur nýlega skilað norrænu samstarfsráðherrunum skýrslu um stöðu vestnorrænu landanna í norrænu samstarfi (Vest-Norden i det nordiske samarbejde). Þeirri skýrslu fylgir samantekt sem unnin var af norrænu byggðarannsóknastofnuninni, Nordregio, um vestnorrænu löndin og nágranna þeirra (West Norden And Its Neighbours). Þessi vinna, sem reyndar er sprottin upp úr tillöguflutningi í Norðurlandaráði um málefni vestnorrænu landanna, er til marks um að í norrænu samstarfi beinist athyglin nú í auknum mæli til vesturs á nýjan leik. Um leið er viðurkennt að það eru ekki aðeins hin austlægu Norðurlönd sem eiga sér nágranna heldur einnig hin vestlægu.
    Nú er nýlokið á Hjaltlandseyjum ráðstefnu eyríkja og strandsvæða við norðanvert Atlantshaf, annarri í röðinni af slíkum. Sú fyrsta var haldin í Þórshöfn í Færeyjum fyrir tveimur árum, en upphafið má rekja til fundar í Reykjavík nokkru fyrr. Þarna safnast saman sjálfstæð ríki, sjálfsstjórnarsvæði og fylki eða héröð, sem öll eiga það sameiginlegt að liggja að norðanverðu Atlantshafi og vera háð auðlindum þess um afkomu sína. Má segja að gegnum þetta ráðstefnuhald og samstarf sé að myndast vísir að svæðishugtaki eða svæðissamvinnuhugtaki, þ.e. samstarf eyríkja og strandsvæða við norðanvert Atlantshaf. Íslendingar hafa alla burði til að hafa forustu um áframhaldandi uppbyggingu slíks samstarfs og út á slíkt frumkvæði gengur tillaga þessi meðal annars.
    Norðurlandaráð er ein mikilvægasta stoð Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi og norræna samstarfið hefur reynst afar vel. Til marks um hversu sterkt þetta samstarf hefur verið má benda á að það stóð af sér blokkaskiptingu kalda stríðsins þrátt fyrir að Norðurlöndin væru ekki öll á áhrifasvæði sama risaveldisins.
    Það var ekki síst í tengslum við mikla umræðu um byggðamál og svæðisbundið samstarf á vettvangi Norðurlandaráðs í lok áttunda áratugarins og í byrjun þess níunda að stofnað var til sérstakrar samvinnu Íslands, Færeyja og Grænlands árið 1985 en það hefur kallast Vestnorræna ráðið frá 1997. Samstarf vestnorrænu þjóðanna er reist á sögulegum og menningarlegum tengslum ásamt sameiginlegum hagsmunum í efnahagsmálum og umhverfismálum. Vestnorræna ráðið hefur á liðnum árum lagt höfuðáherslu á umhverfismál, menningarmál, sjávarútvegsmál, samgöngur og viðskiptamál.
    Eftir að kalda stríðinu lauk og hinar pólitísku markalínur þess, sem áður skildu nágrannalönd að, voru úr sögunni hefur margs konar svæðisbundið samstarf aukist mjög. Sem dæmi um slíkt samstarf í okkar heimshluta má benda á Eystrasaltsráðið, Barentsráðið og Norðurskautsráðið.
    Eystrasaltsráðið var stofnað í mars 1992 með þátttöku Danmerkur, Finnlands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Rússlands, Svíþjóðar og Þýskalands, auk Noregs og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Fyrirmynd ráðsins hvað snertir skipulag og starfsemi er einkum hið hefðbundna samstarf Norðurlandanna. Eystrasaltsráðið er vettvangur margs konar samstarfs aðildarríkjanna og gegnir ekki síst því hlutverki að tengja saman grannríki sem þrátt fyrir nálægðina eru um margt ólík og misjafnlega á vegi stödd. Samstarfið er einnig að hluta til reist á sögulegum grunni enda var Eystrasaltið um aldir miðpunktur margvíslegra samskipta þessara ríkja. Það var m.a. á grundvelli sögulegra tengsla sem Ísland fékk aðild að Eystrasaltsráðinu árið 1995 en einnig vegna breyttra áherslna Norðurlanda varðandi samstarf grannsvæða.
    Í janúar 1993 var stofnað sérstakt Barentsráð með yfirlýsingu sem undirrituð var af utanríkisráðherrum sex ríkja, Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs, Rússlands og Svíþjóðar, ásamt fulltrúa framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Barentsráðið er vettvangur til að fjalla um tvíhliða og fjölþjóðlegt samstarf á sviði efnahagsmála, viðskipta, vísinda og tækni, ferðaþjónustu, umhverfismála, samgangna, mennta- og menningarmála, svo og verkefna sem varða bættar aðstæður frumbyggja á svæðinu. Ísland hefur ekki átt jafnnáið samstarf og hin Norðurlöndin við Rússland í gegnum Barentsráðið, m.a. vegna legu landsins.
    Norðurskautsráðið var stofnað í september árið 1996. Aðildarríkin eru átta talsins, Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur, Svíþjóð, Bandaríkin, Rússland og Kanada. Þar að auki eiga nokkur samfélög frumbyggja á norðurslóðum beina aðild að ráðinu. Helstu verkefni Norðurskautsráðsins beinast að því að vernda umhverfi og náttúru norðurskautsins og tryggja sjálfbæra þróun til að efla efnahagslega, félagslega og menningarlega velferð fólks á norðurslóðum. Íslendingar hafa lagt mikla áherslu á að efla samstarf ríkjanna í Norðurskautsráðinu og jafnframt verið virkir þátttakendur í því. Tvær skrifstofur á vegum ráðsins eru staðsettar hér á landi, nánar tiltekið á Akureyri, og lúta báðar að samstarfi á sviði umhverfismála. Þær eru CAFF (Conservation of Arctic Flora and Fauna), sem hefur umsjón með samvinnuverkefni um náttúruvernd á norðurslóðum, og PAME (Protection of the Arctic Marine Environment), sem annast verkefni á sviði hafverndar.
    Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Háskólinn á Akureyri hafa verið mjög virkir þátttakendur af Íslands hálfu í auknu samstarfi á norðurslóðum. Má þar nefna uppbyggingu Háskóla norðurslóða og Rannsóknarþings norðursins (Northern Research Forum) en frumkvöðull og sérstakur hvatamaður að því samstarfi er forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Hugmyndina setti hann fram í ræðu í Rovaniemi á afmælishátíð Háskólans í Lapplandi árið 1998. Háskólinn á Akureyri hefur tekið þátt í undirbúningi náms í Norður-Atlantshafsfræðum (North Atlantic Studies) í samstarfi við háskóla í Skotlandi, á Írlandi og í Norðaustur-Kanada. Einnig má nefna að við stofnun Vilhjálms Stefánssonar er íslenskt aðsetur alþjóðlegu samtakanna North Atlantic Biocultural Organisation (NABO). NABO eru þverfræðileg samtök náttúruvísindafólks og félagsvísindamanna sem stunda rannsóknir og fræðslu sem beinist að umhverfi, auðlindum, sögu og menningu fólks við norðanvert Atlantshaf. Stofnunin er einnig aðsetur Samtaka um landbúnað á norðurslóðum (Circumpolar Agricultural Association) sem hafa það að markmiði að stuðla að alþjóðasamstarfi hvað varðar atvinnu, rannsóknir og stjórnun og eflingu sjálfbærs landbúnaðar. Á Akureyri er því, eins og sjá má af framantöldu, þegar til staðar ákveðinn vísir að miðstöð samstarfs á norðurslóðum. Því er eðlilegt að horfa til Akureyrar og þeirra stofnana sem þar eru starfandi þegar að því kemur að skipuleggja þau verkefni og byggja upp það samstarf sem tillagan gerir ráð fyrir.
    Loks er rétt að nefna í þessu sambandi að vestnorræn samvinna hefur smátt og smátt sett á kortið svæðishugtakið Vestur-Norðurlönd eða útnorðrið eins og það heitir svo skemmtilega á færeysku.
    Margt bendir einnig til þess að áhugi á ýmiss konar nærsvæðasamstarfi og þörf fyrir það fari ört vaxandi á tímum hnattvæðingar þar sem svo virðist sem allur heimurinn renni í auknum mæli saman sem viðskipta- og samskiptaheild. Má þar taka sem dæmi að í tengslum við stækkun Evrópusambandsins hefur umræðan um mikilvægi svæðisbundinnar samvinnu innan stærri heilda dafnað á nýjan leik og lítill vafi er á því að hnattvæðingin eða alþjóðavæðingin í heild sinni hefur í för með sér svipaða þróun.
    Slík stefnumótun, þar sem horft er til ákveðinna svæða innan stærri heilda, er mjög víða á döfinni. Til viðbótar því sem áður er nefnt má benda á „norðurstefnu“ kanadísku alríkisstjórnarinnar en veigamikill hluti hennar er stofnun sjálfsstjórnarsvæða inúíta í Norður- Kanada, Nunavut. Bandaríkin fylgja einnig ákveðinni stefnu í þessum efnum, svokallaðri „norðursvæðastefnu“. Sama gildir um Evrópusambandið sem á sínum vettvangi er að þróa hugtakið „norræna vídd“ að frumkvæði Finnlands.     Á sama hátt og Finnar höfðu frumkvæði að því að skilgreina sérstaka, norræna vídd í Evrópusamstarfinu er hugmyndin að baki tillögunni að Íslendingar taki frumkvæði að auknu svæðasamstarfi við norðvestanvert Atlantshaf. „Íslensk nærsvæðastefna“ er eingöngu vinnuheiti á slíkri hugmynd sem er reyndar ekki ný af nálinni. Þannig hafa menn talsvert rætt um það innan vébanda vestnorrænnar samvinnu að útvíkka hana þannig að hún taki til skosku eyjanna og vesturstrandar Noregs og reyndar gerir hún það að hluta til nú þegar í Nora- nefndinni en þar eiga fylki á vesturströnd Noregs aðild.
    Staðreynd er að Ísland hefur lengi horft talsvert í vesturátt ekkert síður en austurátt varðandi samstarf vegna mikilla viðskiptahagsmuna í Norður-Ameríku, sögulegra tengsla við Kanada, sameiginlegra sjávarútvegshagsmuna og af sögulegum og samgöngupólitískum ástæðum. Í enn ríkara mæli gildir þetta um Grænland sem landfræðilega er hluti af Norður- Ameríku og Grænlendingar hafa m.a. verið að byggja upp samstarf sitt við norðursvæðin í Kanada. Færeyingar eiga sér langa hefð fyrir því að sækja á fiskimið við austurströnd Norður-Ameríku, Ísland og Grænland. Þannig má segja að Vestur-Norðurlöndin hafi í ýmsum skilningi myndað ákveðna brú milli heimsálfanna. Ef horft er til sögulegra, landfræðilegra og náttúrufræðilegra þátta er þar margvísleg rök að finna fyrir því að Íslendingar gefi meiri gaum að þessari vídd og samvinnu og samstarfi á þessum grundvelli heldur en hingað til hefur verið gert.
    Það skal undirstrikað að ætlunin er ekki að slíkt samstarf verði á nokkurn hátt á kostnað norrænnar samvinnu eða dragi úr mikilvægi þess að við ræktum góð tengsl við ríki á meginlandi Evrópu eða annars staðar. Aðstæður í alþjóðamálum kalla á að menn vinni að slíkum málum með mjög opnum huga og slíkt hentar best hagsmunum Íslands. Þá er einnig rétt að fara yfir möguleika Íslands í þessum efnum út frá þeim tækifærum sem slíkar áherslur eiga að geta skapað landinu. Í því sambandi má nefna uppbyggingu á orðspori Íslands og kynningu á landinu sem brú milli tveggja heima eða tengipunkt í norðanverðu Atlantshafinu. Stefnumótun af þessu tagi á einnig að geta fallið vel að uppbyggingu þeirrar ímyndar landsins að hér búi sjálfstæð smáþjóð sem hafi vegnað vel í kjölfar síns nýlega fengna sjálfstæðis. Þessi þáttur málsins er áhugaverður ekki síst nú þegar næstu nágrannar okkar, Færeyingar, eru á leið til sjálfstæðis og þeirrar tilhneigingar gætir víða að auka sjálfsstjórn svæða eða héraða.
    Enginn vafi er á því að í sögu og fordæmi Íslands er að sækja mikla hvatningu til annarra sem búa við sambærilegar aðstæður. Hafa ýmsir bæði fyrr og síðar staldrað við sjálfstæði Íslands þegar leitað er skýringa á því að um margt hefur Íslendingum vegnað best þeirra samfélaga við norðanvert Atlantshaf sem byggja á sambærilegum aðstæðum, fyrst og fremst þeim að vera mjög háð nýtingu sjávarauðlinda. Að sjálfsögðu eiga Íslendingar að líta á það sem skyldu sína að rækta gott samstarf til allra átta en þó ekki síst við þá sem um margt eru sambærilega settir og við í okkar heimshluta. Síðast en ekki síst eiga Íslendingar að efla með sér sjálfstraust til að taka fullgildan þátt í alþjóðlegu samstarfi og leitast við að hafa þar áhrif burtséð frá smæð þjóðarinnar.
    Gerð verður nánari grein fyrir hverjum tölulið tillögunnar fyrir sig í framsöguræðu við flutning hennar.