Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 140. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 140  —  140. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13 13. apríl 1973.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    1. málsl. e-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 23 5. maí 1986, orðast svo: Einkaleyfi til að reka happdrættið má veita til 1. janúar 2019.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Háskóli Íslands hefur haft einkarétt til rekstrar peningahappdrættis hér á landi síðan 1934, sbr. lög nr. 44 19. júní 1933. Hefur happdrættið síðan að langmestu leyti staðið undir öllum byggingarframkvæmdum og tækjakaupum Háskóla Íslands og þannig verið honum ómetanleg lyftistöng, en jafnframt hefur happdrættið að sama skapi sparað ríkissjóði útgjöld. Frumvarpið miðar að því að Happdrætti Háskóla Íslands verði gert kleift að fullnægja óskum viðskiptavina sinna og tryggja þar með að það geti enn sem fyrr verið fjárhagslegur bakhjarl Háskóla Íslands.
    Sá háttur hefur verið hafður á að lagaheimild til einkaleyfisveitingarinnar hefur verið bundin til 10 eða 15 ára í senn. Núgildandi heimild, sem endurnýjuð var til 15 ára með lögum nr. 23 5. maí 1986, rennur út 1. janúar 2004. Er því brýnt að hún verði endurnýjuð nú og lagt er til að það verði gert til 15 ára.
    Jafnframt er rétt að benda á að hugsanlega getur þurft að stytta leyfisveitinguna ef breyta þarf skipan happdrættismála hér á landi, svo sem ef alþjóðlegar reglur kalla á slíkar breytingar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13 13. apríl 1973.

    Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að einkaleyfi sem Háskóli Íslands hefur haft til reksturs peningahappdrættis hér á landi frá árinu 1934 verði endurnýjað og framlengt til 1. janúar 2019. Þar sem um er að ræða óbreytt fyrirkomulag frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum hefur lögfesting frumvarpsins ekki áhrif á fjárreiður ríkissjóðs og happdrættisins.