Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 54. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 220  —  54. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um umhverfisvöktun á framkvæmdatíma Kárahnjúkavirkjunar.

     1.      Hyggst ráðherra koma á frekari vöktun umhverfisáhrifa Kárahnjúkavirkjunar á framkvæmdatíma virkjunarinnar, m.a. með tilliti til hreindýra, fugla, gróðurs og aksturs utan vega?
    Í úrskurði umhverfisráðuneytisins um mat á umhverfisáhrifum er kveðið á um vöktun hreindýra, fugla og gróðurs og eftirlit með akstri utan vega til þess að fylgjast með áhrifum virkjunarinnar á lífríki svæðisins.
    Umhverfisstofnun hefur þegar gert samkomulag um vöktun og eftirlit með efnistöku, haugsvæðum og vegagerð eins og kveðið er á um í úrskurði ráðuneytisins. Efnisatriði úrskurðarins er lúta að vöktun verða framkvæmd eins og kveðið er á um í úrskurðinum.
    Iðnaðarráðuneytið hefur skipað starfshóp til þess að fara yfir skilyrði úrskurðarins og hvernig þeim verður best fylgt eftir. Umhverfisráðuneytið á fulltrúa í hópnum. Þessi hópur mun skoða málið og gera tillögur um frekari vöktun á framkvæmdatíma virkjunarinnar telji hann ástæðu til.

     2.      Mun ráðherra sjá til þess að Náttúrufræðistofnun og Náttúrustofa Austurlands fái fjármagn til að sinna nauðsynlegri vöktun á umhverfi meðan á gerð Kárahnjúkavirkjunar stendur?

    Það er lögbundið hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands að annast vöktun á náttúru landsins. Það er því hlutverk hennar að skipuleggja vöktun hverju sinni í samræmi við þörf og til þess eru henni ætlaðir fjármunir á fjárlögum. Náttúrustofa Austurlands hefur á undanförnum árum fengið fjárveitingar til vöktunar og rannsókna á hreindýrastofninum.

     3.      Mun ráðherra, í ljósi þess að framkvæmdir eru þegar hafnar við gerð Kárahnjúkavirkjunar án þess að sérstök áætlun um vöktun hafi verið sett í gang, beita sér fyrir að slíkri áætlun verði komið á og að viðkomandi stofnanir fái fjármagn til að sinna eftirlitshlutverki sínu?

    Ráðuneytinu hefur hvorki borist tillaga né ábending um að þörf sé á sérstakri vöktunaráætlun frá þeim stofnunum sem hlut eiga að máli, sem eru Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands.

     4.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir fjölþættari umhverfisvöktun við Lagarfljót en fram hefur komið?

    Komi fram tillögur eða ábendingar um það frá hlutaðeigandi stofnunum verður það skoðað.

     5.      Mun ráðherra beita sér fyrir aukinni löggæslu og eftirliti á svæðinu á framkvæmdatíma virkjunarinnar, m.a. til að koma í veg fyrir utanvegaakstur?

    Eftirlit með akstri utan vega er samkvæmt lögum í höndum lögreglu og það er lögreglustjóra að taka ákvörðun um eftirlit með slíkum akstri. Umhverfisstofnun ber samkvæmt lögum að hafa almennt eftirlit með framkvæmd laga um náttúruvernd og umgengni í óbyggðum og ber stofnuninni því að hafa eftirlit með utanvegaakstri og koma ábendingum til lögreglustjóra um slíkan akstur. Í fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga 2004 er gert ráð fyrir að fjölga um einn lögreglumann á Seyðisfirði og halda úti sérstakri umferðareftirlitsbifreið á meðan stórframkvæmdir standa yfir á Austurlandi. Einnig er gert ráð fyrir að fjölga um einn lögreglumann á Eskifirði í sama skyni.