Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 248. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 268  —  248. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skipulag áfengis- og vímuefnameðferðar.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðrún Ögmundsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem kanni stofnun sameiginlegrar móttöku- og greiningarstöðvar fyrir áfengis- og vímuefnameðferð. Jafnframt kanni nefndin kosti þess að færa allt starf á sviði áfengis- og vímuefnameðferðar undir eitt ráðuneyti.
    Nefndin skili niðurstöðum sínum og tillögum fyrir 1. október 2004.

Greinargerð.


    Á 127. löggjafarþingi var flutt tillaga til þingsályktunar um mótun heildarstefnu um uppbyggingu og rekstur meðferðarstofnana, jafnframt að gert yrði árangursmat á meðferðarstofnunum og meðferðarleiðum til þess að tryggja sem bestan árangur. Í ítarlegri greinargerð með tillögunni, sem flutt var af fulltrúum fimm flokka, var farið yfir þau mörgu og mismunandi meðferðarform sem boðið er upp á hér á landi, bæði af hálfu hins opinbera og hjá einkaaðilum.
    Ályktunin var samþykkt enda mikil nauðsyn á að móta heildarstefnu og meta árangur af starfsemi þessara fjölmörgu stofnana.
    Það er hins vegar mat flutningsmanna þessarar tillögu að til þess að tryggja sem besta nýtingu í meðferðarstarfi vegna ávana- og fíkniefnaneyslu verði að koma á fót sameiginlegri móttöku- og greiningarstöð fyrir þennan hóp sjúklinga. Það er ljóst að stofnanir sem sinna meðferðarstarfi eru misvel fallnar til að taka við vímuefnaneytendum hvað varðar húsakost en ekki síður hvað varðar sérhæft starfsfólk.
    Einnig er ljóst að sjúklingarnir eru í afar mismunandi ástandi, andlega og líkamlega. Ólík meðferðarúrræði verða að vera í boði og til þess að þau nýtist sem best verður fagfólk að greina stöðu hvers sjúklings áður en til meðferðar kemur svo að tryggt sé að hann hljóti bestu fáanlegu aðstoð sem völ er á og í samræmi við sjúkdómsgreiningu.
    Árið 1997 lét þáverandi heilbrigðisráðherra vinna skýrslu um áfengis- og vímuefnameðferð á Íslandi. Þetta er ein af nokkrum skýrslum sem gerðar hafa verið, unnin af bandarískum sérfræðingi, dósent við læknadeild Harvard-háskóla og forstöðumanni fíkniefnasviðs. Í skýrslunni er að finna stefnumörkun og ráðleggingar þessa sérfræðings hvernig bæta megi og auka þjónustu á sviði fíkniefnameðferðar.
    Í skýrslunni koma fram athyglisverðar upplýsingar eins og þær að þótt Íslendingar drekki ekki mest miðað við höfðatölu er tíðni áfengismeðferðar hér með því hæsta sem gerist í heiminum. Skýrsluhöfundur leggur til að allir þeir aðilar sem veita meðferðarþjónustu komi að mótun heildarstefnu í meðferðarmálum og að heilbrigðisráðuneytið verði að gegna auknu hlutverki við stjórn áfengis- og vímuefnameðferðar þar sem ríkið kostar langstærsta hluta þeirrar meðferðar sem í boði er.
    En einnig kemur fram í skýrslunni að brýnt sé að koma á fót móttöku- og greiningarstöð þar sem fyrsta skrefið yrði tekið í samfelldri umönnun sjúklings í áfengis- eða vímuefnameðferð. Samkvæmt skýrslunni ætti að starfa á slíkri móttöku- og greiningarstöð fagfólk úr hinum ýmsu stéttum heilbrigðiskerfisins. Skýrsluhöfundur telur að oft sé horft fram hjá eða vanmetið umfang geðsjúkdóma hjá þeim sem leita eftir meðferð vegna áfengis- eða eiturlyfjaneyslu.
    Hér á landi er nú þegar fjöldi plássa fyrir þá sem þurfa á meðferð að halda. Þessi hjúkrunar- eða meðferðarpláss mundu þó að mati flutningsmanna nýtast mun betur ef til væri sameiginleg móttöku- og greiningarstöð fyrir alla meðferðarstarfsemi.
    Þá leggja flutningsmenn til að kannaðir verði kostir þess að færa alla starfsemi vegna misnotkunar áfengis og annarra vímuefna undir eitt ráðuneyti.
    Núna fer meðferðarstarf fram á stofnunum sem heyra undir a.m.k. þrjú ráðuneyti, heilbrigðis-, félagsmála- og dómsmálaráðuneyti, þó oftast í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið.
    Það er löngu orðið ljóst að þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að sjúklingar fá ekki sambærilega meðferð, réttur í tryggingakerfi er mismunandi og síðast en ekki síst getur núverandi fyrirkomulag leitt til þess að sjúklingar fá alls ekki þá meðferð sem þeir þurfa.
    Oft hefur reynst erfitt að greina hvort vandamál einstaklings teljast félagsleg eða falla undir heilbrigðiskerfið. Þá lendir viðkomandi utan kerfis á svonefndu gráu svæði.
    Það er brýn nauðsyn að taka heildstætt á vandamálum þessara einstaklinga og það verður ekki gert nema allt meðferðarstarf verði samræmt og fært undir eitt ráðuneyti.