Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 171. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 278  —  171. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Guðjóns Ólafs Jónssonar um myndasafn lögreglu.

     1.      Hvaða vinnureglur gilda um myndasafn lögreglu varðandi:
                  a.      myndir af einstaklingum, þ.m.t. handteknum og/eða grunuðum mönnum,
                  b.      myndir frá opinberum fundum og öðrum samkomum?

    Um myndasafn lögreglu gilda verklagsreglur ríkislögreglustjóra frá 16. júlí 1998, Reglur um vettvangs- og tæknirannsóknir, töku og vörslu fingrafara og ljósmynda en ráðherra fól ríkislögreglustjóra að gefa út og birta lögreglustjórum reglurnar með bréfi, dags. 13. júlí 1998, að fenginni umsögn tölvunefndar og réttarfarsnefndar. Reglurnar eru birtar á innra neti lögreglunnar og eru ekki ætlaðar til birtingar fyrir almenning. Erindi sem berast með ósk um upplýsingar eru metin hverju sinni á grundvelli þeirra hagsmuna sem í húfi eru.
    Samkvæmt vinnureglum ríkislögreglustjóra má taka ljósmyndir af sökuðum manni í þágu rannsóknar enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að hann hafi framið brot sem sætir opinberri ákæru eða að ætla megi að taka ljósmyndar hafi verulega þýðingu fyrir rannsóknina.
    Enn fremur má taka ljósmynd af sökuðum manni í því skyni að nota hana til bera kennsl á hann síðar ef rökstuddur grunur er um að hann hafi framið brot sem varðað getur eins árs fangelsi.
    Þegar framangreind skilyrði eru fyrir hendi skal taka ljósmyndir af fólki sem ekki hefur verið ljósmyndað áður og af fólki sem hefur verið ljósmyndað áður ef liðið er meira en eitt ár frá síðustu myndatöku meðan viðkomandi er á aldrinum 15–25 ára, ef liðin eru meira en þrjú ár frá síðustu myndatöku og viðkomandi er eldri en 25 ára og ef fyrirliggjandi ljósmynd er ekki nógu góð.
    Engar sérstakar reglur hafa verið settar um myndir frá opinberum fundum og öðrum samkomum.

     2.      Hjá hvaða lögregluembættum eru slík myndasöfn varðveitt og í hvaða tilgangi?
    Myndirnar eru vistaðar í gagnabanka hjá tæknirannsóknarstofu sem starfrækt er við embætti ríkislögreglustjóra og hafa öll lögreglustjóraembætti landsins aðgang að honum. Tilgangur með varðveislu myndanna eru löggæsluhagsmunir, sem og hagsmunir þess einstaklings sem sem um ræðir hverju sinni.

     3.      Hvað veldur því að mynd af mönnum er varðveitt í myndasafni og af hvaða tilefni er hún fjarlægð þaðan?

    Um tilgang með varðveislu myndar vísast til svars við 2. lið. Samkvæmt reglum ríkislögreglustjóra má ekki varðveita ljósmyndir sem teknar hafa verið af manni við rannsókn máls til að nota til að bera kennsl á hann í öðru máli ef maðurinn verður ekki sakaður í máli, hann hefur verið sýknaður af ákæru eða fallið hefur verið frá ákæru á hendur honum. Tæknirannsóknarstofa ríkislögreglustjóra á að fá tilkynningar um lyktir mála gegn fólki sem hefur verið ljósmyndað, svo og um andlát allra sem ljósmynd er til af í myndasafninu. Stofan gætir þess að upplýsingarnar berist til lögregluliðs þar sem myndin var tekin. Ef maður er sýknaður af ákæru eða fallið er frá ákæru á hendur honum ber að eyða mynd í myndasafni tæknirannsóknastofunnar sem tekin var af honum við rannsókn málsins og ber viðkomandi lögregluembætti að eyða myndinni um leið og tilkynning um afgreiðsluna berst. Ljósmyndir af látnu fólki geymast í myndasafninu í allt að tvö ár frá andláti en skulu teknar út að þeim tíma liðnum og ber viðkomandi lögregluembætti að eyða mynd um leið og tilkynning berst.

     4.      Hvaðan sækir lögregla heimild til varðveislu slíkra myndasafna?

    Lagaheimild til töku fingrafara og ljósmynda af sakborningum er að finna í 1. mgr. 92. gr. i.f. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, þar sem segir að taka megi fingraför og myndir af sakborningi í þágu rannsóknar. Heimild ríkislögreglustjóra til að setja lögreglustjórum verklagsreglur er að finna í 5. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996.

     5.      Hvenær og með hvaða hætti er viðkomandi tilkynnt að mynd af honum sé varðveitt í myndasafni lögreglu eða hafi verið fjarlægð þaðan?

    Vísað er til svars við 1. lið fyrirspurnarinnar um hvenær mynd er tekin til varðveislu og til svars við þriðja lið um hvenær mynd er fjarlægð úr myndasafni. Ekki er gert ráð fyrir formlegum tilkynningum til viðkomandi um framangreint.

     6.      Telur ráðherra ástæðu til að setja sérstök ákvæði í lög eða reglugerð um þessi efni?

    Vísað er til svars við fjórða lið um lagaheimild. Ekki hefur þótt vera fyrir hendi þörf á að setja sérstök lög eða reglugerð um myndasafn tæknirannsóknarstofu ríkislögreglustjóra.