Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 181. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 280  —  181. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um veiðarfærarannsóknir.

     1.      Hafa farið fram rannsóknir á þeim skaða sem hugsanlega hlýst af notkun flotvarpna við uppsjávarveiðar innan íslenskrar landhelgi og ef svo er, hverjar eru helstu niðurstöður?
    Síðan í maí 2003 hafa eftirlitsmenn Fiskistofu mælt hlutfall meðafla við flotvörpuveiðar á kolmunna og hafa mælingarnar náð til um 10% kolmunnafarma. Hafrannsóknastofnunin hefur haft samráð við Fiskistofu um þessar mælingar.
    Alls hefur meðafli numið um 0,6% úr þessum förmum, mest ufsi (0,4%) en einnig gulllax (0,13%), þorskur (0,027%), grásleppa (0,023%) og karfi (0,018%). Mest fengust 52 tonn af ufsa (3%) í færeysku lögsögunni og 31 tonn (1,0–1,5%) af ufsa í þeirri íslensku. Aðrar mælingar hafa verið á bilinu 0–0,7%. Enginn meðafli hefur mælst í vel yfir helmingi veiðiferðanna og nokkrar slæmar mælingar hafa því mikil áhrif á heildarútkomuna.
    Ef gert er ráð fyrir því að sama hlutfall meðafla verði í öllum kolmunnaafla ársins og náist að veiða 547 þús. tonn, þ.e. aflamark ársins 2003, yrði meðafli alls 3.280 tonn, þar af rúmlega 2.200 tonn af ufsa. Þetta yrði umtalsverður ufsaafli í ljósi þess að aflamark ufsa er 50 þús. tonn. Af öðrum tegundum yrði meðafli hins vegar hlutfallslega lítill. Þess skal þó getið að kolmunnaaflinn mun að líkindum verða mun minni á árinu 2003 auk þess sem stór hluti aflans og þar með meðafli veiðist utan íslenskrar lögsögu.
    Við flotvörpuveiðar fer allur meðafli í bræðslu. Mögulegt er talið að flokka meðafla frá með því að hafa einhvers konar rist á dekki en þá þyrfti að útbúa þessi skip með lest fyrir ísaðan afla.
    Í Noregi hafa verið gerðar tilraunir með skilju í síldarvörpu með þokkalegum árangri og eru áætlanir um slíkar tilraunir hér á landi á næsta ári, bæði við síld- og kolmunnaveiðar. Hugsanlega er notkun flotvörpuskilju vænlegasta úrræðið til að draga úr meðafla við þessar veiðar. Með því móti næðist þó aðeins að skilja út fisk sem er stærri en sóknartegundin.

     2.      Hvaða rannsóknir hafa farið fram á svæðum sem lokuð hafa verið til lengri tíma fyrir togveiðum bæði með flotvörpu og botnvörpu og hverjar eru helstu líffræðilegar breytingar á þeim svæðum sem komið hafa í ljós?
    Hafrannsóknastofnunin hefur merkt þorsk á reglugerðarsvæðum sem lokuð hafa verið til lengri tíma og borið saman við merkingar á nálægum opnum svæðum. Niðurstöður leiddu í ljós að fiskur sem merktur var á lokuðum svæðum endurheimtist mun síðar og því mun stærri en sá sem merktur var á opnum svæðum. Lokun svæða getur því dregið úr veiðum á smærri fiski. Svæðislokanir til lengri tíma stuðla einnig að minna brottkasti enda hafa viðkomandi svæði verið valin sem þekkt uppeldis- eða smáfisksvæði, einkum fyrir þorsk og karfa.
    Þess má einnig geta að Hafrannsóknastofnunin fyrirhugar að hefja rannsóknir á áhrifum svæðafriðana á samfélög botnlægra fiska og botndýra á árinu 2004.

     3.      Hve miklu fé hefur Hafrannsóknastofnunin varið árlega til veiðarfærarannsókna sl. 15 ár og hve hátt hlutfall hefur þetta verið af árlegum heildarútgjöldum stofnunarinnar á sama tímabili?
    Af bókhaldslegum ástæðum liggur ekki fyrir sundurgreint nú hve miklu fé Hafrannsóknastofnunin hefur varið árlega til veiðarfærarannsókna á umræddu tímabili. Í eftirfarandi töflu sést hins vegar hver þróunin hefur verið árin 1993–2003. Sést þar að af sundurliðuðum kostnaði við rekstur stofnunarinnar er áætlað að verja um 42 millj. kr. til verkefna sem beinlínis tengjast þessu sviði, eða um 3% af sundurliðuðum rekstrarkostnaði, og hefur veruleg aukning orðið þar undanfarin ár. Ekki er hér með talinn sameiginlegur stjórnunarkostnaður eða verkefni þar sem veiðarfæraathuganir koma óbeint við sögu. Af nýlegum eða yfirstandandi verkefnum á sviði veiðarfærarannsókna eru prófanir á smáfiskaskilju vegna löggildingar mjúkskilju svokallaðrar, sviflægar fiskagildrur og krabbagildrur, veiðitilraunir á miðsjávarfiski, veiðihæfni kúffiskplógs og athuganir á meðafla í hörpudiskveiðum og flotvörpuveiðum.

Hlutfall kostnaðar við veiðarfærarannsóknir hjá Hafrannsóknastofnuninni 1993–2002 (áætlun 2003), fjárhæðir í þús. kr.
Ár Heildar-
gjöld
Ósundurliðað
á verkefni
Sundurliðað
á verkefni
Veiðarfæra-
rannsóknir
% af
sundurliðuðu
1993 723.239 189.344 533.895 9.480 1,8
1994 739.972 133.872 606.100 14.019 2,3
1995 802.471 102.639 699.832 6.219 0,9
1996 846.702 105.882 740.820 23.256 3,1
1997 915.706 114.301 801.405 28.155 3,5
1998 1.012.311 133.348 878.963 10.394 1,2
1999 1.042.813 148.529 894.284 6.048 0,7
2000 1.132.053 221.664 910.389 8.408 0,9
2001 1.351.780 190.102 1.161.678 29.385 2,5
2002 1.483.146 225.262 1.257.884 34.878 2,8
2003 1.754.400 361.750 1.392.650 42.241 3,0