Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 192. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 287  —  192. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Önnu Kristínar Gunnarsdóttur um framleiðslu sauðfjárafurða.

     1.      Hefur markmiði samnings um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars 2000, um uppkaup á 45.000 ærgildum að lágmarki, verið náð?
    Já, þessu markmiði samningsins var náð um mitt ár 2002.

     2.      Hafa uppkaupin stuðlað að því að færa framleiðslu sauðfjárafurða sem næst neyslu innan lands?

    Já, uppkaupin hafa stuðlað að því. Neysla sauðfjárafurða hefur hins vegar haldið áfram að minnka undanfarin ár og framleiðsla er umfram eftirspurn á innlendum markaði.

     3.      Hefur umfang heimaslátrunar og sala lambakjöts á svörtum markaði verið rannsakað?

    Með vísan til 5. gr. laga nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, er eigendum lögbýla heimilt að slátra búfé sínu á sjálfu býlinu til eigin neyslu. Ef heimaslátrun er hins vegar stunduð til að selja lambakjöt á svörtum markaði er það ólöglegt athæfi. Eftirlit með slíku er í höndum lögregluyfirvalda á hverju svæði fyrir sig.

     4.      Hefur farið fram könnun á umfangi framleiðslu framleiðenda án beingreiðsluréttar og áhrifum hennar á stöðu framleiðenda með beingreiðslurétt?

    Umfang framleiðslu framleiðenda á beingreiðsluréttar liggur fyrir, sjá svar við 6. tölul. fyrirspurnarinnar. Áhrif framleiðslu framleiðenda án beingreiðsluréttar geta þó vart talist mikil miðað við heildarframleiðslu sauðfjárafurða.

     5.      Hver er réttur aðila sem framselt hefur beingreiðslurétt sinn til annars lögbýlis en heldur engu síður áfram framleiðslu til markaðssetningar sauðfjárafurða innan lands?

    Aðilaskipti að greiðslumarki sauðfjár eru heimil samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Sá sem framselt hefur allt greiðslumark sauðfjár til eiganda annars lögbýlis nýtur ekki beingreiðslna úr ríkissjóði. Þær greiðast á grundvelli greiðslumarks og tiltekinnar sauðfjáreignar með ákveðnum undanþágum en réttur til beingreiðslna er ekki framleiðslutengdur. Hafi aðili selt hluta greiðslumarksins getur hann notið beingreiðslna á grundvelli þess hluta greiðslumarksins sem er enn í eigu hans, ef uppfyllt eru önnur skilyrði laganna. Í íslenskri löggjöf eru hins vegar engin ákvæði sem koma í veg fyrir að sá sem hefur selt allt greiðslumark sauðfjár, eða hluta þess, geti framleitt sauðfjárafurðir til markaðssetningar innan lands í því magni sem hann óskar. Honum er þó skylt að flytja út sama hlutfall af framleiðslunni og aðrir sauðfjárframleiðendur eða greiða útflutningsgjald með sama hætti og þeir, en uppgjör á því annast sláturleyfishafar í samræmi við ákvæði 29. gr. laga nr. 99/1993.

     6.      Hefur verið gerð könnun á magni þeirra sauðfjárafurða sem koma á innanlandsmarkað frá framleiðendum án beingreiðsluréttar?

    Oft eru margir á sama býli skráðir innleggjendur sauðfjárafurða. Innleggjendur eru því töluvert fleiri en lögbýli með greiðslumark. Lögbýli með virkt greiðslumark árið 2002 voru 1.973 en 2.059 á árinu .2001. Árið 2002 komu 95% framleiðslunnar frá þessum búum, eða 8.672 tonn. Frá 351 lögbýli án greiðslumarks komu 314 tonn og frá framleiðendum utan lögbýla komu 32 tonn.