Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 300. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 345  —  300. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á kostum þess að flytja höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja.

Flm.: Hjálmar Árnason, Drífa Hjartardóttir, Brynja Magnúsdóttir,


Jón Gunnarsson, Grétar Mar Jónsson.


    Alþingi ályktar að dómsmálaráðherra láti gera úttekt á kostum þess að flytja höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Skal þeirri úttekt lokið fyrir 15. febrúar 2004.

Greinargerð.


    Tillaga þessi felur í sér að dómsmálaráðherra láti fara fram úttekt á kostum þess að flytja höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Úttektinni skal lokið fyrir 15. febrúar 2004.
    Á 116. löggjafarþingi flutti Árni R. Árnason sambærilega þingsályktunartillögu sem varð ekki útrædd.
    Svo sem er kunna eru höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar í Reykjavík. Þar er skrifstofuhald stofnunarinnar, þar liggja skip hennar á milli verkefna og þar er flugkostur hennar einnig geymdur.
    Færa má rök að því að heppilegra væri að mörgu leyti að hafa stofnunina á Suðurnesjum. Skal í fyrsta lagi bent á þann sparnað sem hlytist af því að varðskipin þyrftu ekki að sigla inn allan Faxaflóa á milli verkefna. Þar má spara nokkuð í olíukostnaði. Þá má benda á öryggissjónarmið en varðskipin eru á Suðurnesjum óneitanlega nokkru nærri almennum miðum heldur en í Reykjavíkurhöfn. Að auki má benda á að allþröngt er orðið um í Reykjavíkurhöfn, en hafnaraðstaða aftur á móti næg á Suðurnesjum.
    Oft þarf að vera náið samstarf milli varnarliðsins og Landhelgisgæslunnar – ekki síst við skyndilegt útkall vegna björgunaraðgerða. Í slíka leiðangra eru ýmist sendar þyrlur gæslunnar eða varnarliðsins eftir aðstæðum hverju sinni. Með veru þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli má ná enn frekari samræmingu milli þessara aðila.
    Á Suðurnesjum eru starfræktar tvær öflugar viðhaldsstöðvar flugvéla – önnur í eigu Flugleiða og hin á vegum varnarliðsins. Á vegum Flugfélags Íslands eru Fokker Friendship flugvélar en flugvél gæslunnar er af sömu tegund. Ætla má að ná megi samlegðaráhrifum með auknu samstarfi um viðhald og eftirlit flugvéla.
    Hér hafa verið nefnd nokkur rök er mæla með flutningi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja – öryggisrök og rekstrarleg rök. Til viðbótar þeim má nefna byggðarök en svo sem kunnugt er hefur hallað verulega undan fæti í atvinnulífi á Suðurnesjum – nú síðast við hópuppsagnir varnarliðsins. Með flutningi gæslunnar til Suðurnesja legði ríkisvaldið sitt af mörkum til að bregðast við vandanum.
    Það er því full ástæða til að láta fara fram faglega úttekt á kostum þess að flytja Landhelgisgæsluna til Suðurnesja.