Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 302. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 347  —  302. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Sveitarstjórnum er heimilt við umfangsmiklar framkvæmdir, sem eru matsskyldar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, að skipa í samráði við framkvæmdaraðila og leyfisveitendur sérstaka eftirlitsnefnd sem hefur eftirlit með því að skilyrðum sem framkvæmdinni hafa verið sett sé framfylgt. Framkvæmdaraðili ber allan kostnað af starfi nefndarinnar.
    

2. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kveður upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Jafnframt skal úrskurðarnefndin kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum sem henni er falið að skera úr um á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum.
    Umhverfisráðherra skipar fimm menn í úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og jafnmarga til vara. Ekki skal þó skipa varamann formanns. Umhverfisráðherra skipar tvo nefndarmenn án tilnefningar og skal annar þeirra vera forstöðumaður úrskurðarnefndar og jafnframt formaður nefndarinnar. Formaður skal uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Hæstiréttur tilnefndir þrjá nefndarmenn og skal einn þeirra hafa lokið háskólaprófi í verkfræði, annar í lögfræði og þriðji á sviði náttúruvísinda. Nefndarmenn skulu skipaðir til fjögurra ára í senn nema formaður nefndarinnar sem jafnframt skal vera forstöðumaður úrskurðarnefndar og hafa starfið að aðalstarfi. Hann skal skipaður til fimm ára að undangenginni auglýsingu í samræmi við lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt og uppfylla sömu hæfisskilyrði og aðalmenn.
    Forstöðumaður úrskurðarnefndar hefur yfirstjórn hennar með höndum og ber ábyrgð á henni. Hann fer með fyrirsvar nefndarinnar út á við. Forstöðumaður ræður annað starfsfólk úrskurðarnefndar. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um störf nefndarinnar, verkefni hennar, valdsvið og starfsskilyrði.
    Nefndinni er heimilt að kveðja sér til fulltingis sérfróða aðila við úrskurð einstakra mála. Úrskurðir nefndarinnar eru fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi. Nefndin skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir að henni berst mál í hendur. Við úrlausn einstaks máls skal nefndin að jafnaði skipuð formanni ásamt tveimur aðalmönnum eftir nánari ákvörðun formanns. Sé mál viðamikið skal nefndin fjalla um það fullskipuð. Formaður ákveður í hvaða málum nefndin skuli skipuð fimm fulltrúum.
    Kæru til nefndarinnar sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga og samvinnunefndar miðhálendisins, þegar það á við, nema annað sé sérstaklega tiltekið í lögum. Ákvarðanir sem ráðherra ber að lögum þessum að staðfesta sæta ekki kæru til nefndarinnar. Þeir einir geta skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Sé um að ræða ákvarðanir vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum eiga umhverfisverndar- og hagsmunasamtök sem varnarþing eiga á Íslandi jafnframt sama rétt, enda séu félagsmenn samtakanna 50 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Frestur til að skjóta máli til nefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. Kærufrestur telst frá birtingu hennar.
    Kærandi getur krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Komi fram krafa um slíkt skal úrskurðarnefnd svo fljótt sem verða má kveða upp úrskurð um það atriði. Úrskurði um stöðvun framkvæmda ber sveitarstjórn að framfylgja þegar í stað, með aðstoð lögreglu ef með þarf.
    Um málsmeðferð fer að öðru leyti samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.
    Kostnaður vegna úrskurðarnefndar greiðist úr ríkissjóði.

3. gr.

    27. gr. laganna orðast svo:
    Afla skal framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku og aðrar framkvæmdir sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Þó þarf ekki að afla slíks leyfis vegna framkvæmda sem háðar eru byggingarleyfi skv. IV. kafla.
    Sá sem óskar framkvæmdaleyfis skal senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar skal kveða á um í reglugerð.
    Við útgáfu framkvæmdaleyfis skal sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Óheimilt er að gefa út leyfi fyrir framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og starfsemi sem henni fylgir fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld.
    Við umfjöllun um umsókn um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar skal sveitarstjórn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin sé sú sem lýst er í matsskýrslu. Þá skal sveitarstjórn taka afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Sveitarstjórn getur bundið framkvæmdaleyfi þeim skilyrðum er fram kunna að koma í áliti Skipulagsstofnunar að svo miklu leyti sem aðrir leyfisveitendur til framkvæmda samkvæmt sérlögum hafa ekki tekið afstöðu til þeirra.
    Ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda og niðurstaða álits Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum skal birt með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu og dagblaði sem gefið er út á landsvísu innan viku frá útgáfu leyfis. Í auglýsingu skal tilgreina kæruheimildir og kærufresti.
    Umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn er heimilt að skjóta máli til úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál leiki vafi á því hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi.
    Framkvæmdaleyfi fellur úr gildi hefjist framkvæmdir ekki innan tólf mánaða frá útgáfu þess.
    Ráðherra kveður nánar á um útgáfu framkvæmdaleyfa í reglugerð.
    Landgræðslu- og skógræktaráætlanir skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir.

4. gr.

    4. mgr. 39. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Við 43. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Sé um að ræða framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum er óheimilt að gefa út byggingarleyfi fyrir framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld.

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2004.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem skipuð var 24. október 2001 af umhverfisráðherra og var falið það hlutverk að endurskoða lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Í skipunarbréfi nefndarinnar segir:
    „Í ákvæði III til bráðabirgða í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er kveðið á um endurskoðun laganna en þar segir orðrétt: „Lög þessi skulu endurskoðuð fyrir 1. janúar 2003. Við endurskoðunina skal sérstaklega kanna hvort ástæða sé til að sameina og samræma mat, sbr. 11.–13. gr., við leyfisveitingar fyrir einstökum framkvæmdum, í hvaða mæli skipulagsáætlanir geti komið í stað mats á umhverfisáhrifum framkvæmdar og hvort færa beri ábyrgð á mati til framkvæmdaraðila í ríkari mæli en gert er í lögum þessum.“ Jafnframt er nefndinni falið að meta hvort taka þurfi til endurskoðunar önnur ákvæði laganna í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af framkvæmd þeirra.“
    Í nefndinni áttu sæti Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri, formaður, Sigríður Auður Arnardóttir deildarstjóri, Tómas Ingi Olrich alþingismaður, öll skipuð án tilnefningar, Elín Smáradóttir lögfræðingur, tilnefnd af Skipulagsstofnun, Ari Edwald framkvæmdastjóri, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, Hákon Stefánsson, bæjarlögmaður Akureyrar, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Hilmar Malmquist vatnalíffræðingur, tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum. Tómas Ingi Olrich óskaði eftir lausn frá störfum með bréfi 2. mars 2002 vegna skipunar hans í embætti menntamálaráðherra.
    Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, en vinna við endurskoðun þeirra laga leiddi til þess að gera þurfti breytingar á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, einkum vegna tengingar mats á umhverfisáhrifum við leyfisveitingar fyrir einstakar framkvæmdir. Var nefnd þeirri sem vísað er til hér að framan því jafnframt falið af umhverfisráðherra að semja frumvarp þetta. Eftir að nefndin lauk störfum voru gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu, m.a. varðandi útgáfu framkvæmdaleyfa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um að sveitarstjórn sé heimilt þegar um er að ræða umfangsmiklar matsskyldar framkvæmdir að skipa sérstaka eftirlitsnefnd sem hefur eftirlit með því að skilyrðum sem framkvæmdinni hafa verið sett sé framfylgt. Skal það þá gert í samráði við framkvæmdaraðila og leyfisveitendur og ber framkvæmdaraðili kostnað af starfi nefndarinnar. Ákvæðið er nýmæli en við stærri framkvæmdir er æskilegt að hafa slíka heimild, t.d. í tilvikum þar sem liggur fyrir að eftirlitið verði mjög umfangsmikið og sérhæft. Ekki er gert ráð fyrir að slíkar nefndir hafi heimild til að grípa til þvingunarúrræða eins og sveitarstjórn og byggingarnefnd hafa skv. 57. gr. laganna, heldur er slíkt vald í höndum framangreindra aðila og ekki annarra.

Um 2. gr.

    Í greininni er fjallað um skipun, starfsemi og hlutverk úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Þær breytingar sem hér eru lagðar eru tilkomnar vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til á ferli matsskyldra framkvæmda samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, sbr. frumvarp það sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu. Eins og þar kemur fram er gert ráð fyrir að matsferlið verði nátengdara en áður leyfisveitingum viðkomandi framkvæmdar og að unnt verði að skjóta ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu leyfis vegna matsskyldra framkvæmda til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Samkvæmt framangreindu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir sérstökum úrskurði Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum heldur er þess í stað lagt til að stofnunin gefi álit sitt á matsskýrslu framkvæmdaraðila. Ekki er lagt til að heimilt sé að kæra álitið til umhverfisráðherra heldur að það verði borið undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála í tengslum við kæru á ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmda- og byggingarleyfis. Vísast hér nánar til umfjöllunar um 12. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum.
    Lagt er til í 1. mgr. að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála geti auk ágreiningsmála vegna skipulags- og byggingarmála fjallað um þau ágreiningsmál sem henni er falið að úrskurða í á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum.
    Í 2. mgr. er fjallað um hvernig úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála er skipuð og um skipunartíma hennar. Gert er ráð fyrir að í nefndinni eigi sæti fimm menn í stað þriggja eins og nú er. Lögð er til sú breyting að yfir nefndina sé skipaður forstöðumaður sem jafnframt er formaður nefndarinnar og hefur starfið að aðalstarfi. Það er breyting frá því sem gilt hefur en starf formanns úrskurðarnefndar hefur verið hlutastarf. Forstöðumaður er embættismaður í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Lagt er til að Hæstiréttur tilnefni þrjá nefndarmenn af fimm í úrskurðarnefndina í stað tveggja eins og nú gildir og tilnefnir Hæstiréttur þannig meiri hluta nefndarmanna. Lögð er til sú breyting að tilgreind séu hæfisskilyrði þeirra nefndarmanna sem rétturinn tilnefnir, en þau er m.a. sett með hliðsjón af breyttu hlutverki nefndarinnar vegna laga um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 1. mgr.
    Í 3. mgr. er kveðið á um hlutverk forstöðumanns úrskurðarnefndar en lagt er til að hann ráði annað starfsfólk nefndarinnar.
    Gert er ráð fyrir í 4. mgr. að við úrlausn einstakra mála skuli nefndin að jafnaði skipuð þremur mönnum, formanni ásamt tveimur aðalmönnum eftir nánari ákvörðun formanns. Í viðamiklum málum skal nefndin vera fullskipuð. Þá er lagt til að nefndin hafi allt að þrjá mánuði frá því að henni berst mál í hendur til að kveða upp úrskurð sinn og er því um að ræða lengri frest en nú, en hann er tveir mánuðir. Í gildandi lögum er hins vegar heimild til að lengja þann frest í þrjá mánuði að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af framkvæmd ákvæðisins þykir rétt að fresturinn sé ávallt hinn sami, en þó ekki lengri en þrír mánuðir.
    Í 5. mgr. eru tilgreindar þær ákvarðanir sem sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar, en þar er einungis um að ræða stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga. Þá er lagt til að ákvarðanir sem ráðherra beri að staðfesta samkvæmt lögunum sæti ekki kæru til nefndarinnar. Slíkar ákvarðanir eru til að mynda staðfesting skipulagsáætlana, þ.e. aðal- og svæðisskipulagsáætlana. Til að taka af allan vafa þykir rétt að þetta sé áréttað í lögunum en ekki þykir rétt að úrskurðarnefndin sem er hliðsett stjórnvald við ráðherra endurskoði hans ákvarðanir. Er þetta í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis, sbr. mál nr. 2906/2000. Þær ákvarðanir sem samvinnunefnd miðhálendisins kann að taka, aðrar en þær sem varða staðfestingu svæðisskipulagsáætlana, eru hins vegar kæranlegar til úrskurðarnefndar. Þá er lagt til að tilgreint sé í lögunum hverjir eigi málskotsrétt en viðkomandi verður að eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun til að geta skotið máli til nefndarinnar. Er þetta til samræmis við þá framkvæmd sem viðgengst nú varðandi málskotsheimild til nefndarinnar. Hins vegar er málskotsrétturinn rýmri sé um að ræða ákvarðanir vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, eins og ákvarðanir um útgáfu leyfis vegna matsskyldrar framkvæmdar. Í slíkum tilvikum er rétturinn til málskots ekki einungis bundinn við þá sem hafa lögvarinna hagsmuna að gæta heldur einnig umhverfisverndar- og hagsmunasamtök sem starfandi eru á Íslandi og hafa a.m.k. 50 félagsmenn, enda samrýmist það tilgangi samtakanna eftir því sem fyrir kann að vera mælt í lögum eða samþykktum þeirra. Umhverfisverndarsamtök skulu uppfylla þau skilyrði sem fram koma í 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 3. gr. frumvarps þess sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu. Þá er lagt til að tilgreindur sé í lögunum hver sé frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar, þ.e. einn mánuður, og hvenær sá frestur byrjar að líða.
    Þá er í 6. mgr. lagt til að tekið sé fram að kærandi geti krafist stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Rétt þykir að slík heimild sé áréttuð í lögunum þar sem þau gera ráð fyrir því að slík krafa geti verið sett fram.
    Greinin þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.

Um 3. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar til samræmis við það sem mælt er fyrir um í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Samkvæmt því frumvarpi er ekki gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun úrskurði um hvort leyfa eða hafna beri framkvæmd heldur veiti álit sitt um matsskýrslu framkvæmdaraðila.
    Í 1. mgr. er kveðið á um það hvenær afla þurfi framkvæmdaleyfis sveitarstjórna, þ.e. vegna meiri háttar framkvæmda sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess og vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Þannig þarf ætíð að afla framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda og er það ekki breyting á því sem gilt hefur. Ekki er heimilt að hefja þær framkvæmdir sem tilgreindar eru í ákvæðinu fyrr en að fengnu framkvæmdaleyfi sveitarstjórna. Sé framkvæmd byggingarleyfisskyld fer um framkvæmdina skv. IV kafla laganna og þarf þá ekki að afla framkvæmdaleyfis.
    Í 2. mgr. er kveðið á um það að þeir sem óska eftir framkvæmdaleyfi beri að senda skriflega umsókn um slíkt ásamt nauðsynlegum gögnum. Er þetta í samræmi við þá framkvæmd sem viðgengist hefur við veitingu framkvæmdaleyfa.
    Í 3. mgr. er kveðið á um það að við útgáfu framkvæmdaleyfis beri sveitarstjórn að taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við þær skipulagsáætlanir sem sveitarfélagið hefur tekið ákvörðun um. Þá er áréttað að óheimilt sé að gefa út leyfi fyrir matsskyldri framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og starfsemi sem henni fylgir fyrr en álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Sambærilegt ákvæði er í 16. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Matsskyldar framkvæmdir eru þær framkvæmdir sem falla undir 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, eða þær framkvæmdir sem að mati Skipulagsstofnunar eru matsskyldar, sbr. 6. gr. sömu laga.
    Þá er lagt til í 4. mgr. að sveitarstjórn skuli kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og kanna hvort um sé að ræða sömu framkvæmd og lýst er í matsskýrslu. Sveitarstjórn ber síðan að taka afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Þar sem Skipulagsstofnun gefur álit sitt um matsskýrslu framkvæmdaraðila er skýrslan þar með grundvöllur þess álits og þykir því eðlilegt að sveitarstjórn hafi kynnt sér matsskýrsluna áður en hún tekur afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Markmið er hér er að sveitarstjórn taki upplýsta ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli allra þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um umhverfisáhrif viðkomandi framkvæmdar. Þar sem um er að ræða álit Skipulagsstofnunar sem sveitarstjórn ber að taka afstöðu til bindur það ekki hendur þess stjórnvalds sem fer með útgáfu framkvæmdaleyfis. Sveitarstjórn er hins vegar heimilt að binda framkvæmdaleyfi þeim skilyrðum sem fram kunna að koma í áliti Skipulagsstofnunar og ef hún gerir það getur hún tekið upp skilyrðin að hluta eða að öllu leyti. Í slíkum skilyrðum getur m.a. verið kveðið á um mótvægisaðgerðir og samráð við tiltekna aðila. Sveitarstjórn er hins vegar ekki skylt að taka upp slík skilyrði enda er hún ekki bundin af áliti Skipulagsstofnunar eins og áður segir. Þetta er í samræmi við við 8. gr. tilskipunar 85/337/EB eins og henni var breytt með 10. gr. tilskipunar 97/11/EB en þar er kveðið á um það að niðurstöður mats skuli teknar til athugunar við útgáfu leyfis til framkvæmda. Ákvæðið hefur verið túlkað á þann veg að stjórnvald skuli í ákvörðun um útgáfu leyfis til framkvæmda vísa til framkominna upplýsinga og athugasemda úr matsferlinu og taka afstöðu til þeirra og geta þess sérstaklega hvaða sjónarmið liggja þar að baki. Sveitarstjórn getur bundið framkvæmdaleyfi þeim skilyrðum, svo sem um mótvægisaðgerðir, sem kunna að vera sett í álit Skipulagsstofnunar að því marki að aðrir leyfisveitendur til framkvæmda samkvæmt sérlögum hafa ekki gert það. Sveitarstjórn getur því einungis bundið leyfi þeim skilyrðum sem hún er bær til. Eins og fram kemur í 3. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum telst leyfi til framkvæmda framkvæmda- og byggingarleyfi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum svo og leyfi til starfsemi sem framkvæmdum fylgir og önnur leyfi til framkvæmda samkvæmt sérlögum. Leyfi iðnaðarráðherra fyrir raforkuverum sem eru 1.000 kW eða stærri telst t.d. vera leyfi til framkvæmda samkvæmt sérlögum, sbr. 4. gr. raforkulaga. Í athugasemdum með 13. gr. fyrrgreinds frumvarps eru rakin dæmi um þau stjórnvöld sem veita leyfi til framkvæmda vegna mats á umhverfisáhrifum.
    Lagt er til í 5. mgr. að ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda og niðurstaða álits Skipulagsstofnunar verði birt með auglýsingu í Lögbirtingablaði og dagblaði sem gefið er út á landsvísu og að í auglýsingunni séu tilgreindar kæruheimildir og kærufrestir. Hér er um að ræða niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar skv. 10. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu. Í auglýsingunni skal vísað til þess hvar álitið sé aðgengilegt í heild, en samkvæmt fyrrgreindu frumvarpi skal almenningur eiga greiðan aðgang að áliti Skipulagsstofnunar. Hér er lagt til að sami háttur verði hafður á og Skipulagsstofnun hefur um kynningu á úrskurðum um mat á umhverfisáhrifum. Þar sem lagt er til í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum að Skipulagsstofnun veiti álit um matsskýrslu en beri ekki að úrskurða um mat á umhverfisáhrifum er ekki þörf á að niðurstaða stofnunarinnar sé kynnt fyrr en við útgáfu framkvæmdaleyfis enda er það ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu leyfis til framkvæmda sem er kæranleg til úrskurðarnefndar. Þannig er tryggt að þeim sem hafa málskotsrétt vegna ákvarðana sveitarstjórnar sé kynnt ákvörðun hennar og forsendur þeirrar ákvörðunar og þeim þannig gefið tækifæri til gera athugasemdir sínar við þá ákvörðun. Breytingin felst einkum í því að réttur til málskots vegna matsskyldra framkvæmda hefur færst frá úrskurði Skipulagsstofnunar til ákvörðunar sveitarstjórnar eins og áður sagði.
    Í 6. mgr. er kveðið á um það hverjum sé heimilt að skjóta máli til úrskurðarnefndar sé vafi um hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi.
    7.–9. mgr. greinarinnar eru samhljóða 3.–5. mgr. laganna, nema gert er ráð fyrir að landgræðslu- og skógræktaráætlanir séu í einungis í samræmi við skipulagsáætlanir.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að fellt verði brott ákvæði um málskotsrétt til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Ákvæðið er að finna í grein sem fjallar um störf byggingarnefnda en ekki þykir rétt að hafa málskotsheimild laganna þar, heldur er skýrara að sú heimild sé í 8. gr. laganna, sem fjallar um starfsemi, skipan og hlutverk úrskurðarnefndarinnar auk málskotsréttarins.

Um 5. gr.

    Eins og fram kom í athugasemdum við 3. gr. eru allar matsskyldar framkvæmdir innan staðarmarka sveitarfélaga annaðhvort háðar framkvæmda- eða byggingarleyfi. Þar sem 43. gr. laganna fjallar um byggingarleyfi er lagt til að þar komi fram, líkt og í 27. gr. laganna um framkvæmdaleyfi, að óheimilt sé að gefa út leyfi fyrir matsskyldum framkvæmdum sem háðar eru byggingarleyfi fyrr en álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum,
nr. 73/1997, með síðari breytingum.

    Meginefni frumvarpsins felst í breytingum á ákvæðum laganna um úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og ákvæðunum um framkvæmdaleyfi. Breytingarnar eru til samræmis við frumvarp til laga um breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi. Auk þess er lagt til að við umfangsmiklar framkvæmdir, sem matsskyldar eru samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, verði sveitarstjórnum heimilt að skipa sérstaka eftirlitsnefnd sem líti eftir því að skilyrðum sem framkvæmdinni hafa verið sett sé framfylgt. Framkvæmdaraðili skal bera kostnað af starfi nefndarinnar og ekki er lagt mat á þann kostnað hér.
    Samkvæmt frumvarpinu er úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála efld á þann veg að nefndarmenn verða fimm í stað þriggja og formaður nefndarinnar skal jafnframt vera forstöðumaður hennar og hafa það að aðalstarfi. Mælt er fyrir um að jafnframt því að úrskurða í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál skuli nefndin úrskurða í ágreiningsmálum sem henni er falið að skera úr um á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum má reikna með að kostnaður ríkissjóðs aukist um sem svarar einu stöðugildi, eða um 6 m.kr. á ári, vegna fjölgunar nefndarmanna í úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og þess að formaður nefndarinnar skuli hafa starfið að aðalstarfi.